Velferðarráð
Ár 2024, föstudagur. 6. desember var haldinn 494. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14 . Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Sandra Hlíf Ocares og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er algjörlega óásættanlegt að enn og aftur sé komið stopp í málefni Mánabergs og að finna starfseminni tímabundið húsnæði meðan beðið er eftir að byggt verði nýtt framtíðarhúsnæði fyrir starfsemina. Nú eru rúm tvö ár síðan að tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var samþykkt samhljóða um að finna tímabundið húsnæði sem fyrst. Starfsemin er löngu komin að þolmörkum og húsnæðið komið til ára sinna. Starfsemi og þjónusta Barnaverndar er ein af mikilvægustu grunnþjónustu sem að borgin veitir og því gríðarlega mikilvægt að starfsemi Mánabergs sé tryggt húsnæði svo hægt sé að veita þessa þjónustu í samræmi við lögbundnar skyldur og að áfram sé hægt að byggja upp þá faglegu þjónustu sem þar er veitt. Svör sem fást vegna þessara tafa eru óásættanleg og skýringar rýrar. Mikilvægt er að skýr svör komi á næsta fundi ráðsins og hvað það er nákvæmlega sem tefur þetta mál fram úr hófi.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. nóvember 2024, þar sem tilkynnt er að samþykkt hafi verið á fundi borgarstjórnar 19. nóvember 2024, að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Söndru Hlífar Ocares, og að Sandra Hlíf Ocares taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. MSS22060049.
Fylgigögn
-
Lagt er til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem aðalmaður áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Söndru Hlífar Ocares, og að Sandra Hlíf Ocares taki sæti sem varamaður í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. VEL22060021.
Samþykkt. -
Fram fer kynning á viðbrögðum velferðarsviðs og Barnaverndar Reykjavíkur við skýrslu umboðsmanns Alþingis vegna OPCAT-eftilits á búsetuúrræðum Klettabæjar ehf., dags. 27. júní 2024. VEL24110082.
Þyrí Halla Steingrímsdóttir, skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Margar gagnlegar ábendingar um það sem betur má fara koma fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis vegna heimsóknar í Klettabæ. Það er greinilegt að það er margt sem þarf að bæta og gera betur í starfsemi Klettabæjar og mikilvægt að fara yfir öll úrræði Barnaverndar með tilliti til þeirra. Velferðarráð tekur þessar ábendingar umboðsmanns Alþingis alvarlega. Velferðarráði líst vel á þau viðbrögð/úrbætur sem lagt er til að farið verði í og vill fá kynningar á framgangi þeirra aðgerða.
-
Fram fer kynning á starfsemi Foreldrahúss og samstarfi við Reykjavíkurborg. VEL24100088.
Berglind Gunnarsdóttir Strandberg, framkvæmdastjóri Foreldrahúss, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð hefur gert þriggja ára samning við Foreldrahús til að tryggja börnum og foreldrum þeirra aðgengi að ráðgjöf vegna vímuefnanotkunar barna og stuðning til að taka á þeim vanda sem notkunin veldur. Þökkum góða kynningu.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins þakkar góða kynningu á starfsemi Foreldrahúss. Það er augljóst að í Foreldrahúsi er unnið mikilvægt og gott starf. Í um 25 ár hafa foreldrar barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda getað sótt sér meðferð, fræðslu og þjónustu í Foreldrahúsi. Um er að ræða eina úrræðið sem foreldrum barna og ungmenna í vímuefnavanda stendur til boða. Nýjustu skýrslur Barnaverndar sýna aukningu á neyslu hjá börnum og Barnavernd sendir þessa skjólstæðinga í Foreldrahús. Foreldrahús vinnur gríðarlega mikilvægt og gott starf og Flokkur fólksins telur gríðarlega mikilvægt að styðja við fjölskyldur í þessum vanda. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar líka fyrir skjót viðbrögð velferðarráðs við tillögu Flokks fólksins um að fá kynningu á starfsemi Foreldrahúss.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, um breytingar á reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), ásamt fylgiskjali:
Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð:
• að fellt verði brott ákvæði sem vísar til innleiðingartímabils og að fjöldi samninga miði við fjármagn sem ríkissjóður hefur ráðstafað, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og í stað þess komi að árlegur fjöldi nýrra NPA samninga miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert (1. gr.)
• að fellt verði brott ákvæði sem tilgreinir að fjármagn sem sé til ráðstöfunar byggi á bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 (4. gr.)
• að gildistími reglnanna sé framlengdur til 31. desember 2025 (27. gr.)Með því að fella á brott ákvæði sem vísar til fjölda NPA samninga þá mun fjölgun samninga taka mið af fjárheimildum velferðarsviðs ár hvert.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24110063.
Samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Flokks fólksins gegn atkvæði fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Vísað til borgarráðs.Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu stjórnsýslu, og Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð samþykkir breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á grundvelli þess að innleiðingartímabilið samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í lögum nr. 38/2018 er nú lokið. Miðað er við að fjöldi nýrra samninga miði við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Velferðarráð telur mikilvægt að framlengja gildistíma reglnanna þannig að ekki verði rof í þjónustu og leggur áherslu að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar endurspegli þörfina á fjölgun NPA samninga. Hins vegar er reglugerð frá félagsmálaráðuneyti ekki komin og enn er ósamið um framtíðarfjármögnun málaflokksins. Um leið og þau mál skýrast þarf að taka upp reglur um NPA að nýju.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að framlengja gildistíma reglnanna þannig að ekki verði rof í þjónustu en getur alls ekki tekið undir að árlegur fjöldi nýrra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Fjárhagsáætlun hefur hingað til ekki gert ráð fyrir því að allir samningar verði fjármagnaðir. Hér er um að ræða þjónustu sem fólk á rétt á.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á þjónustu velferðarsviðs við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd. VEL24110057.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, og Hannes Steinar Guðmundsson, deildarstjóri stoðþjónustu og rekstrar á Vesturmiðstöð, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, um framlengingu þjónustusamnings um samræmda móttöku flóttafólks, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að samþykkt verði að framlengja þjónustusamning Reykjavíkurborgar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis um samræmda móttöku flóttafólks um eitt ár eða til 31. desember 2025. Þá er jafnframt lagt til að fjöldi flóttafólks sem Reykjavíkurborg veitir þjónustu á grundvelli samningsins verði aukinn úr 1500 í 1800.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24110058.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð samþykkir að framlengja þjónustusamning Reykjavíkurborgar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis um samræmda móttöku flóttafólks um eitt ár eða til 31. desember 2025. Hér er einnig samþykkt að stækka samninginn til að ná utan um þann hóp fólks sem er í borginni. Reykjavík mun því styðja við allt að 1800 manns sem hafa fengið alþjóðlega vernd.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, um nýjan þjónustusamning við Vinnumálastofnun vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð veiti heimild til að undirrita þjónustusamning við Vinnumálastofnun þannig að velferðarsvið þjónusti allt að 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd og útvegi húsnæði fyrir 150 af þeim umsækjendum. Samningurinn taki gildi frá og með 1. janúar 2025 og gildi til þriggja ára. Jafnframt er lagt til að heimild verði veitt til að undirrita viðauka sem framlengir fyrri samning milli sömu aðila til 31. desember 2024. Vinnumálastofnun greiðir allan kostnað vegna samningsins.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24110084.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð samþykkir þjónustusamning Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnunar til næstu þriggja ára. Í honum felst að Reykjavíkurborg mun þjónusta allt að 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd og útvegi húsnæði fyrir 150 af þeim umsækjendum. Jafnframt samþykkir velferðarráð viðauka við fyrri samning til 31. desember 2024.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á skýrslu stýrihóps um rýningu á biðlista barna og ungmenna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar, dags. 17. nóvember 2024. MSS24030028.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundaráðs.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins og varafulltrúi í velferðarráði, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð vill þakka formanni hópsins fyrir markvissa og góða vinnu. Þær tillögur sem eru lagðar fram í skýrslunni eru vel rökstuddar og skýrar. Mikilvægt er að þessar tillögur verði settar í farveg innan sviðsins, tímasettar og sett skýrt fram hver ber ábyrgð. Ráðið leggur einnig áherslu á að litið verði til þess að nýta tæknina eins og hægt er eins og t.d að vera með fræðslunámskeið rafrænt. Velferðarráð óskar einnig eftir því að upplýsingar um framgang tillagnanna verði kynntar með vorinu.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins var samþykkt og var settur á fót stýrihópur í lok júní. Helstu viðfangsefni hópsins voru að rýna hvaða breytingar þurfi að gera á fyrirkomulagi sálfræðiþjónustu miðstöðva til að gera hana skilvirkari og hvaða breytingar þurfi að gera á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar til að gera hana skilvirkari og heildstæðari. Stýrihópurinn hefur greinilega unnið hratt og vel því hópurinn fundaði tólf sinnum. Gestir fundanna voru samtals 23 aðilar víðsvegar úr kerfinu. Nú liggja fyrir tillögur stýrihópsins sem eru afar áhugaverðar. Það er m.a lagt til að afnema tvöfalt skráningarkerfi og allar upplýsingar verði í Málaskrá til að bæta yfirsýn, samræma verklag milli miðstöðva og koma á skýrum tímamörkum við vinnslu mála. Vinna mál í þverfaglegum teymum og að mál sé unnið í samfellu til að forðast áframhaldandi bið barns á biðlista. Nýta lausnateymi betur til að takast á við einfaldari mál. Lögð er áhersla á stuðning við kennara strax á fyrsta þjónustuþrepi en kennarar hafa lengi kallað eftir því. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þessar góðu tillögur komist til framkvæmda.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um mótun stefnu um að útrýma fátækt, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023. VEL23050038.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Velferðarráð óskar eftir að fá stöðumat á innleiðingu á aðgerðaáætlun gegn sárafátækt sem samþykkt var 2020 og samantekt á þeim gögnum sem til eru um fátækt í Reykjavík. Sérstaklega óskar ráðið upplýsinga hvað varðar fátækt barna sem á aldrei að líðast.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs um drög að aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2027. MSS24060082.
Samþykkt með breytingum í samræmi við umræður á fundinum.Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að aðgerðir gegn ofbeldi ávarpi líka ójöfnuð innan samfélagsins þar sem þetta tvennt er tengt.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Umsögn velferðarsviðs er mjög gagnleg og mun fulltrúi Flokks fólksins koma þeim á framfæri í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði en fulltrúinn situr í því ráði og tekur því þessar ábendingar alvarlega. Segir í umsögn “meðal hlutverka mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs er að vera vegvísir í baráttunni gegn ofbeldi, vera ráðgefandi fyrir starfsemi borgarinnar í málaflokknum og stuðla að upplýstri umræðu um ofbeldi á öllum sviðum borgarinnar. Um er að ræða mjög mikilvæg verkefni. Vert er að velta upp hvort hlutverk ráðsins mætti einnig felast í að hafa frumkvæði að því að lagt verði heildstætt mat á þær aðgerðir sem til staðar eru nú þegar, greina hvað betur má fara, hverju þarf að gera meira af og hvaða nýju aðgerðum þurfi að bæta við til að tryggja árangur.” Fulltrúi Flokks fólksins var sérlega áhugasamur um aðgerð átta í aðgerðaáætluninni en þar er lagt til að stofnaður verði tímabundinn starfshópur sem fær það hlutverk að greina stöðu barna og ungmenna í tengslum við ofbeldi og setja fram tillögur um sameiginlegt verklag. Flokkur fólksins telur að þessi aðgerð sé mjög mikilvæg og þörf. Flokkur fólksins lagði reyndar til svipaða aðgerð fyrir rúmum tveimur árum. Í umsögn velferðarsviðs er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þessarar aðgerðar.
Fylgigögn
-
Lagður fram til kynningar þjónustusamningur við Fjölsmiðjuna, dags. 2. desember 2024. MSS24070015.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, við fyrirspurn velferðarráðs um barnaverndarúrræði á vegum ríkisins og þróun vistgreiðslna hjá Reykjavíkurborg, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100017.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um þjónustukaup Barnaverndar Reykjavíkur af einkaaðilum, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100021.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, við fyrirspurn velferðarráðs um breytingar á beingreiðslusamningum í NPA samninga, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100015.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um styrki til Foreldrahúss, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs frá 30. október 2024. VEL24100090.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hygðist halda áfram að styrkja Foreldrahús. Í svari kemur fram að borgin greiði Foreldrahúsi 10.m.kr. styrk á næsta ári og gert er ráð fyrir að Foreldrahús sæki aftur um styrk á næsta ári þegar auglýst verður eftir styrkjum úr borgarsjóði. Í um 25 ár hafa foreldrar barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda getað sótt sér meðferð, fræðslu og þjónustu í Foreldrahúsi. Um er að ræða eina úrræðið sem foreldrum barna og ungmenna í vímuefnavanda stendur til boða. Nýjustu skýrslur Barnaverndar sýna aukningu á neyslu hjá börnum og Barnavernd sendir þessa skjólstæðinga í Foreldrahús. Foreldrahús vinnur gríðarlega mikilvægt og gott starf og Flokkur fólksins telur gríðarlega mikilvægt að styðja við fjölskyldur í þessum vanda.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um túlkaþjónustu og ráðningu túlka á velferðarsviði, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 20. nóvember 2024. VEL24110072.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvernig túlkaþjónusta og ráðningu túlka væri háttað á velferðarsviði. Í svari kemur fram að engir túlkar eru ráðnir til starfa á velferðarsviði en hins vegar er í gildi rammasamningur sem Reykjavíkurborg gerði árið 2022 við sex túlkafyrirtæki. Leiðbeiningar fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar byggja á stefnu um túlka- og þýðingaþjónustu frá 2017. Siðareglur túlka eru hafðar til hliðsjónar og gerð er krafa um að túlkar hafi haldgóða þekkingu á íslensku og því tungumáli sem er til túlkunar en ekki er gerð krafa um löggildingu. Flokkur fólksins hafði spurnir af því að túlkar væru ekki að valda starfi sínu. Sumir tali ekki íslensku og væru jafnvel slakir í því máli sem þeir túlka. Þessi orðrómur er staðfestur í svari en þar segir. „Upp hafa komið tilvik þar sem mat starfsfólks er að túlkar hafi því miður ekki valdið starfi sínu nægilega vel“. Í þeim tilvikum er kvörtunum komið á framfæri til túlkafyrirtækis. Unnið hefur verið að fyrstu stefnu í málefnum innflytjenda á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Þar er ánægjulegt að sjá að í umsögn Reykjavíkurborgar um stefnuna kemur fram að Reykjavíkurborg vill gera meiri kröfur til starfandi túlka- og þýðendaþjónustu um gæði og fagmennsku. Vonandi verður því framfylgt.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. desember 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við áliti umboðsmanns Alþingis um tímabilskort fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023. VEL23050042.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvernig velferðaryfirvöld hygðust bregðast við úrskurði umboðsmanns Alþingis í máli ungs manns sem hafði barist í 6 ár fyrir því réttlæti að fá að kaupa tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðra. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri að bjóða upp á gjaldskrá sambærilega og gjaldskrá í almenningssamgöngur. Fyrirspurnin var lögð fram í maí 2023 svo nokkur tími er liðinn. Það er ánægjulegt að segja frá því að 30.október síðastliðinn samþykkti velferðarráð breytingar á reglum fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Breytingin er að stakt fargjald fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks skal miðast við stakt gjald fyrir öryrkja hjá Strætó bs. Gjald vegna tímabilskorta fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks mun einnig miðast við tímabilskort fyrir öryrkja. Það er því augljóst að þessar breytingar svara fyrirspurn Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á fundi velferðarráðs þann 2. nóvember 2022 var samþykkt tillaga ráðsins þar sem velferðarráð fól velferðarsviði í samráði við Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar að finna hentugra og hagkvæmara húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs til að brúa bilið þar til framtíðarhúsnæði sem er á fjárfestingaráætlun er tilbúið. Nú tveimur árum síðar er ekki komið húsnæði og því óskar velferðarráð eftir svörum um það hver staðan á nýju Mánabergi er og hvers vegna það gekk ekki upp að tryggja það húsnæði sem var verið að horfa til. Einnig er óskað eftir aðgerðaáætlun velferðarsviðs sem útlistar áætlun sviðsins til að opna Mánaberg í nýju húsnæði í síðasta lagi fyrir lok apríl 2025. Ótækt er að draga það að opna Mánaberg lengur en tekið hefur til þessa. VEL24120023.
Fundi slitið kl. 16:38
Heiða Björg Hilmisdóttir Sandra Hlíf Ocares
Þorvaldur Daníelsson Ellen Jacqueline Calmon
Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 6. desember 2024