Velferðarráð - Fundur nr. 493

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 20. nóvember var haldinn 493. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:34 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Helga Þórðardóttir, Líf Magneudóttir og Sandra Hlíf Ocares. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Unnur Þöll Benediktsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á skýrslu um skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir fólk frá Gaza, dags. október 2024. VEL24110056.

    Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði, og Saga Stephensen, verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er dýrmætt að sjá hve vel starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur tekið utan um fólk á flótta sem flyst til Reykjavíkur. Það skiptir sköpum hvernig staðið er að fyrstu kynnum fólks frá öðrum löndum við íslenskt samfélag upp á framtíðar líðan, menntun og velferð þess. Samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þessu verkefni hefur skilað góðum árangri og vert er að skoða í framhaldinu að formgera skýrt verklag í kringum reynsluna af verkefninu, skoða aðkomu annarra sveitarfélaga og ríkisins og kanna hvernig tryggja megi eftirfylgni og frekari aðstoð. Það er samfélaginu öllu til góðs að tekið sé með farsælum hætti á móti fólki á flótta svo það geti vaxið og dafnað á nýjum stað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Flokks fólksins í borgarstjórn eru afar ánægðir með hvernig þetta verkefni hefur gengið. Hér er um óvenjulegar aðstæður að ræða og sérlega viðkvæmar. Fyrir Reykjavíkurborg er þetta mikil reynsla og margt á eftir að þróast frekar. Verkefnið er flókið ekki síst vegna þess að væntanlega og vonandi munu einhverjar fjölskyldur geta snúið heim að stríðinu loknu og þess vegna ber að standa vörð um og hlúa að menningu þessa hóps. Samhliða þarf að kynna gildi og menningu íslensks samfélags. Það skiptir miklu máli að bæði foreldrar og börn hafa lýst yfir mikilli ánægju með utanumhald verkefnisins. Tekið er undir að úrræði eins og þetta er brýnt til þess að stuðla að farsælli byrjun í íslensku samfélagi.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 18. nóvember 2024, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk (NPA):

    Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð:

    -    að fellt verði brott ákvæði sem vísar til innleiðingartímabils og að fjöldi samninga miði við fjármagn sem ríkissjóður hefur ráðstafað, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og í stað þess komi að árlegur fjöldi nýrra NPA-samninga miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert (1. gr.)

    -    að fellt verði brott ákvæði sem tilgreinir að fjármagn sem sé til ráðstöfunar byggi á bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 (4. gr.)

    -    að gildistími reglnanna sé framlengdur til 31. desember 2025 (27. gr.).

    Með því að fella á brott ákvæði sem vísar til fjölda NPA-samninga þá mun fjölgun samninga taka mið af fjárheimildum velferðarsviðs ár hvert.
    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24110063.
    Frestað.

    Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, og Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu stjórnsýslu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að kalla eftir upplýsingum um hvernig umsýslu og fjármögnun umsókna um framlag ríkisins til sveitarfélaga vegna NPA samninga verði háttað frá og með janúar nk. í ljósi þess að bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 fellur úr gildi 31. desember nk.

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 18. nóvember 2024, um samþykkt samnings við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um upplýsingagjöf til eldra fólks, ásamt fylgiskjali:

    Lagt er til að samþykkt verði meðfylgjandi drög að samningi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um upplýsingagjöf til eldra fólks. Með samningnum tekur velferðarsvið að sér að reka símaráðgjöf og rafræna upplýsingagjöf á landsvísu fyrir eldra fólk og aðstandendur þess. Samningurinn gildir í eitt ár með heimild til framlengingar samtals til tveggja ára. Enginn kostnaður fellur á Reykjavíkurborg vegna samningsins en félags- og vinnumarkaðsráðuneytið greiðir 15 m.kr. vegna framkvæmdar þjónustunnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24110069.
    Samþykkt.

    Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gott að eldast er aðgerðaáætlun stjórnvalda sem byggir að miklu leyti á því fyrirkomulagi þjónustu við eldra fólk sem Reykjavíkurborg hefur þróað. Rafræn miðstöð hefur tekið að sér símsvörun fyrir miðstöðvar Reykjavíkur og því eðlilegt að ríkið leiti til borgarinnar með að koma inn í þessa mikilvægu þjónustu. Velferðarráð tekur jákvætt í erindið enda mikilvægt að eldra fólk um allt land hafi aðgang að áreiðanlegum upplýsingum. Mikilvægt er að fylgjast með kostnaði og umfangi þjónustunnar og meta fjármögnun eigi síðar en að 6 mánuðum liðnum.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram níu mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir janúar til september 2024. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL24110059.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 18. nóvember 2024, um félagslegt mat í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning og leiguverð Félagsbústaða. VEL24110055.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti velferðarráðs óskar eftir að fá upplýsingar um hve mörg hafa sótt um sérstakan húsnæðisstuðning og fengið höfnun á grundvelli félagslegs mats. Einnig er óskað eftir upplýsingum um félagslegt mat annarra sveitarfélaga.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst athyglisvert svar það sem velferðarráði barst um hvaða afleiðingar það hefði ef félagslegt mat væri tekið út og að sérstakur  húsnæðisstuðningur byggi eingöngu á hlutlægum tekju- og eignaviðmiðum. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þá myndi verða nokkur fjölgun í hópi þeirra sem þiggja sérstakan húsnæðisstuðning ef ekki er byggt á  félagslegu mati heldur eingöngu miðað við tekju- og eignaviðmið. Farið var í slíkar aðgerðir í Kópavogi og Skagafirði til að einfalda kerfið og þar varð nokkur fjölgun á umsóknum. Einnig bárust velferðarráði upplýsingar um samanburð á leigufjárhæð Félagsbústaða, annarra sveitarfélaga og óhagnaðardrifinna félaga. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstaklega athyglisvert að sjá að óhagnaðardrifin leigufélög í Reykjavík og Mosfellsbæ eru með lægra leiguverð en Félagsbústaðir. Það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar eða samanburð á milli Félagsbústaða og óhagnaðardrifinna leigufélaga. Hvað í rekstrinum gerir þeim kleift að hafa lægri leigu en Félagsbústaðir? Það kemur hins vegar ekki á óvart að alls staðar er gríðarlegur munur á leigu á almennum markaði borið saman við óhagnaðardrifin leigufélög.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 7. nóvember 2024, um stöðugildi í virkni og ráðgjöf á miðstöðvum og í Virknihúsi. VEL24110019.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ótækt er að starfshópur um virknistefnu Reykjavíkurborgar sem átti að skila lokaskýrslu í janúar 2023, hefur enn ekki skilað lokaskýrslu. Mikilvægt er þegar skipaðir eru stýrihópar að því sé fylgt eftir að formenn hópanna haldi vel á spöðunum og standist tímaáætlanir sem settar eru fram.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á ábatagreiningu á virkniúrræðum velferðarsviðs. VEL24110065.

    Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og reksturs, og Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir góða samantekt á árangri virkniúrræða velferðarsviðs. Það er virkilega gleðilegt að sjá hve góður árangurinn er. Það styður þá áherslu velferðarráðs að efla þau atvinnu- og virkniúrræði sem hafa sannað gildi sitt fyrir íbúa sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu.
     

  9. Stöðumat á aðgerðaáætlun velferðarstefnu. VEL22090177.
    Frestað.

  10. Lögð fram drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2027, dags. 13. nóvember 2024. MSS24060082.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð óskar eftir því að velferðarsvið geri drög að umsögn fyrir velferðarráð um drög að aðgerðaáætlun gegn ofbeldi 2025-2027.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggja ný drög að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi og eru þau lögð fram til kynningar. Það virðist ekki vera búið að kostnaðarmeta aðgerðaráætlunina. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að greint verði hvaða aðgerðir í áætluninni séu að skila góðum árangri ef forgangsraða þarf fjármunum. Einnig er  mikilvægt á þessu stigi að vita hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir eru nú í gangi gegn frekari ofbeldisþróun og hverjar af þeim er talið að hafi skilað árangri og hverjar ekki? Brýnast nú er að greiða aðgang foreldra að fagfólki borgarinnar/skólanna. Fjölga þarf fræðslunámskeiðum og sérstaklega þeim sem styðja foreldra í foreldrahlutverkinu. Fræða þarf foreldra um mikilvægi tengslamyndunar og samtala við börn sín. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú á dögum aukinnar notkunar síma og samfélagsmiðla. Í framlagðri  aðgerðaráætlun er mikil áhersla á heimilisofbeldi sem er af hinu góða. Hafa þarf þó í huga að þótt heimilisofbeldi sé vissulega áhættuþáttur í að barn þrói með sér djúpstæða vanlíðan eru engin línuleg tengsl milli þess að alast upp við ofbeldi og beita ofbeldi. Þetta eru sannarlega drög og viðbrögð frá sviðunum eiga eftir að berast og má þá vænta að aukin ofbeldismenning meðal ungmenna og vaxandi vanlíðan ungs fólks verði ávarpað.

  11. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Samhjálpar um þjónustu Samhjálpar við heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir, dags. 21. október 2024. VEL24010030.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram drög að fundaáætlun velferðarráðs janúar - júní 2025. VEL24110068.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram að nýju svar sviðsstjóra, dags. 7. nóvember 2024, við fyrirspurn velferðarráðs um árangur af úrræðum Virknihúss, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. október 2024. VEL24100020.

    Fylgigögn

  14. Lagður fram að nýju 5. liður fundargerðar velferðarráðs frá 18. september 2024, kynning á stöðu biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs. VEL24090020.
    Við afgreiðslu málsins voru eftirfarandi bókanir færðar í trúnaðarbók velferðaráðs:

    Velferðarráð lagði fram svohljóðandi bókun:

    Virkilega er miður að staðan sé sú að nú þurfi að seinka úthlutun á húsnæði fyrir fatlað fólk. Velferðarráð leggur áherslu á að áframhaldandi uppbygging á húsnæði fyrir fatlað fólk verði í forgangi. Vert er þó að árétta mikilvægi þess að önnur sveitarfélög taki líka þátt í þeirri uppbyggingu til að styðja við frjálsa búsetu fatlaðs fólks. Í dag er um 50% alls húsnæðis fyrir fatlað fólk staðsett í Reykjavík sem er í engu samræmi við íbúadreifingu landsmanna.

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:

    Fram fer kynning á stöðu biðlista eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Á biðlistanum í júlí 2024 eru 226 einstaklingar. Einnig kemur fram að nú í september 2024 verður send út persónuleg áætlun til allra sem eru á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Þar verða einstaklingar upplýstir um að sú áætlun sem þeir fengu árið 2023 muni ekki standast og eru allir að fá tilkynningu um 2 til 4 ára seinkun á því hvenær gera megi ráð fyrir að einstaklingar fái úthlutað húsnæði. Þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins slæmar fréttir. Nú hefur Flokkur fólksins verið í borgarstjórn í eitt og hálft kjörtímabil og ekki sér högg á vatni á biðlistatölum fatlaðra einstaklinga eftir húsnæði. Þessi hópur er sífellt látinn mæta afgangi. Það er ekki byggt nóg, ekki gert ráð fyrir fjölgun í þessum hópi, aðeins horft á toppinn á ísjakanum. Á meðan er fjármagni streymt í alls konar aðra hluti, milljarðar í framkvæmdir sem engin brýn nauðsyn er á.

    -    kl. 16:34 víkur Unnur Þöll Benediktsdóttir af fundinum.

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig túlkaþjónustu og ráðningum túlka er háttað á velferðarsviði? Tala allir túlkar íslensku sem velferðarsvið ræður til að túlka? Hvaða aðrar kröfur eru gerðar til menntunar, færni og þjálfunar túlka sem ráðnir eru til að túlka fyrir velferðarsvið og undirskrifstofur hennar? Eru allir túlkar með löggildingu sem túlkar? Eru einhverjir túlkar ómenntaðir?

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24110072.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:58

Heiða Björg Hilmisdóttir Sandra Hlíf Ocares

Ásta Björg Björgvinsdóttir Helga Þórðardóttir

Líf Magneudóttir Ellen Jacqueline Calmon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 20. nóvember 2024