Velferðarráð - Fundur nr. 49

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2006, miðvikudaginn 10. janúar var haldinn 49. fundur s og hófst hann kl. 12.20 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Sif Sigfúsdóttir, Fanný Jónsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Margrét Sverrisdóttir.
Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ingunn Þórðardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju skýrsla um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar.
Skrifstofustjóri Velferðarsviðs kynnti skýrsluna ásamt Brynhildi Barðadóttur, verkefnisstjóra, sem mætti á fundinn.

2. Lagðir fram til kynningar bæklingar um þjónustu fyrir aldraða.

3. Lagðar fram tillögur að úthlutun styrkja árið 2007 ásamt reglum velferðarráðs um styrkjaúthlutanir og styrki til áfangaheimila. Einnig lögð fram drög að reglum um styrkjaúthlutun úr forvarnasjóði Reykjavíkurborgar.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Tillögur varðandi almennar styrkjaúthlutanir voru samþykktar með áorðnum breytingum.
Tillögur um styrki til áfangaheimila, vegna fasteignagjalda, vegna þjónustusaminga og vegna innri leigu verða teknar fyrir á næsta fundi.
Reglur um styrkjaúthlutanir úr forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar voru samþykktar samhljóða.
Formaður velferðarráðs lagði fram tillögu varðandi endurskoðun vinnureglna um úthlutun styrkja til áfangaheimila og um viðræður við ríkið varðandi starfsreglur um áfangaheimili.
Tillagan var samþykkt samhljóða með eftirfarandi breytingu sem bætist við sem 2. mgr: Þar til niðurstaða liggur fyrir í þessari vinnu munu núgildandi reglur um styrki til áfangaheimila gilda.

4. Lagður fram til kynningar samningur dags. 20. desember s.l. milli félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um stofnun heimilis fyrir heimilislausa einstaklinga.

5. Lagt fram til kynningar minnisblað um fjárhagsleg samskipti Reykjavíkurborgar og Byrgisins.

6. Lögð fram umsögn vegna stjórnskipunar velferðarmála sbr. beiðni skrifstofustjóra borgarstjóra dags. 8. desember s.l.
Málinu er frestað til næsta fundar.

7. Lögð fram tillaga sviðsstjóra Velferðarsviðs dags. 8. janúar sl. að samstarfsaðila vegna reksturs Gistiskýlisins.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Áheyrnarfulltrúi F-listans lagði fram eftirfarandi bókun:
Samhjálp hefur mjög mikla reynslu af vinnu með utangarðsfólk í Reykjavík og hafa samtökin staðið með miklum sóma að því starfi, meðal annars rekstri heimila við Miklubraut. Fulltrúi F-lista vill þó leggja ríka áherslu á að allt starf á vegum borgarinnar fyrir og með fólki sem hefur orðið undir í samfélaginu sé í samráði við og undir eftirliti fagaðila.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins þar sem þeir hefðu viljað að Velferðarsvið yrði áfram með rekstur Gistiskýlisins.
Þjónustan hefur batnað á undanförnu ári undir faglegri stjórn Velferðarsviðs og þeir sem bera ábyrgð á þjónustu við þennan hóp og hafa haft betri yfirsýn en áður. Samhjálp virðist hafa staðið sig vel í þjónustu við utangarðsfólk og því vilja fulltrúar Samfylkingarinnar taka fram að ekki er verið að lasta þau samtök á neinn hátt.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það veldur vonbrigðum að meirihluti velferðarráðs skuli hafa haldið til streitu fyrirætlunum sínum um útboð á starfssemi gistiskýlisins að Þingholtsstræti 25. Fyrir hálfu öðru ári ákvað velferðarráð að taka rekstur gistiskýlisins úr höndum einkaaðila og setja hann í hendur Velferðarsviðs sem tilraunaverkefni í 2 ár. Þetta var gert með það að markmiði að fylgjast betur með aðstæðum gestanna og tryggja þar með markvissari vinnslu málefnum hlutaðeigandi, skapa meiri nálægð og þar með þekkingu á leiðum til úrbóta. Til vinnu voru ráðnir menn sem hafa áralanga reynslu af starfi með alkahólistum og geðsjúkum. Starfsmenn skýlisins hafa mætt skjólstæðingum á þeirra eigin forsendum og með það í huga að yfirleitt er um mjög veika einstaklinga að ræða. Því verður ekki á móti mælt að rekstur Gistiskýlisins hefur verið með miklum sóma. Um það vitna starfsmenn þjónustumiðstöðva, heilbrigðisþjónustu og lögreglu. Það var því mikið áfall fyrir gesti jafnt sem starfsmenn þegar meirihluti velferðarráðs ákvað að rjúfa feril tveggja ára verkefnis og segja starfsmönnum upp frá og með 1. nóvember sl. og bjóða reksturinn út. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ótrúlegur seinagangur einkennt málið því það mátti vera öllum sem til þekkja ljóst að mikið rót yrði á rekstrinum strax og uppsagnirnar tóku gildi. Það umrót hefur leitt til þess að ekki hefur tekist að fullmanna starfssemina að undanförnu sem síðan varð til þess að loka þurfti húsinu aðfararnótt síðastliðinn sunnudags og nokkrir heimilislausir karlmenn höfðu ekki í nein hús að vernda þá nótt. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að nýr meirihluti fólks sem sumt hvað er búið að bíða í 12 ár eftir að fá að stjórna eftir eigin höfði skuli vera orðið óþreyjufullt og vilja breyta strax. En væri ekki nær að rugga bátnum annarsstaðar? Fulltrúi Vinnstri grænna í velferðarráði lýsir sig algerlega andvígan fyrirhuguðum breytingum á starfsemi Gistiskýlisins að Þingholtsstræti 25 og lýsir fullri ábyrgð á hendur meirihlutanum á þeim skaða sem þær hafa og munu valda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi
Það er rétt að fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ákváðu að auglýsa eftir samstarfsaðila um rekstur Gistiskýlisins í lok október síðastlinn. Á þeim tíma sem reksturinn var í höndum borgarinnar gekk starfið vel. Um tilraunaverkefni var að ræða en núverandi meirihluti telur ekki ástæðu til að borgin reki sjálf starfsemi sem þessa áfram.
Það er ekki rétt að ótrúlegur seinagangur hafi einkennt málið. Starfsmönnum Gistiskýlisins var sagt upp störfum þann 1. nóvember síðastliðinn með 4. mánaða uppsagnafresti. Sá frestur var hafður rúmur að höfðu samráði við forstöðumann Gistiskýlisins. Við hörmum það að ekki hafi verið hægt að hafa opið aðfaranótt síðastliðins sunnudags sökum veikinda. Nýr meirihluti vinnur að heilindum að velferðarmálum og að því að finna bestu og hagkvæmustu lausnina fyrir starfsemi Gistiskýlisins. Við erum ánægð með að fá Samhjálp til samstarf við okkur um þennan rekstur.

Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá.

8. Lögð fram tillaga að flutningi kaffistofu Samhjálpar.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað til næsta fundar.

Marsibil Sæmundardóttir vék af fundi kl. 14.50.

9. Lagður fram listi yfir umsækjendur um stöðu framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram tillögu um skipan starfshóps til að móta stefnu í málefnum varðandi málefni utangarðsfólks af báðum kynjum.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

11. Fulltrúar Samfylkingarinnar í velferðarráði lögðu fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð,

Fulltrúar Samfylkingarinnar í velferðarráði leggja til að Félagsbústaðir hf. kanni möguleika á því að kaupa íbúðir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.

Greinargerð.
Stefna Reykjavíkurborgar á undanförnum árum hefur verið að koma í veg fyrir félagsleg vandamál sem skapast við félagslega einsleitni í hverfum. Hefur í því sambandi verið unnið markvist að því að kaupa stakar íbúðir í fjölbýlishúsum um alla borg og sérstaklega þar sem fáar félagslegar íbúðir eru. Þá var á síðastliðnu ári byrjað að selja íbúðir í Efra Breiðholti í sama tilgangi.
Á allra síðustu misserum hefur verið erfitt að framfylgja þessari stefnu þar sem íbúðaeign Félagsbústaða hf. er orðin það mikil að íbúðir í þeirra eigu er í flestum stigagöngum í Reykjavík. Félagsbústaðir hf. eiga nú tæplega 2000 íbúðir.
Til að tryggja áfram félagslegan fjölbreytileika er því lagt til að Félagsbústaðir hf. kaupi nú íbúðir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og gefi þannig fólki tækifæri til að flytja milli sveitarfélaga óski það þess. Nú getur fólk sem leigir félagslegt húsnæði ekki flutt milli sveitarfélaga og er því bundið nokkurskonar sveitfesti sem tillagan kemur til móts við.
Þá er mikil hagræðing fólgin í því að fólk búi nærri sínum vinnustað og þar sem höfuðborgarsvæðið er orðið eitt atvinnu- og búsetusvæði verður búseta að vera frjáls og óháð félagslegum aðstæðum.

Afgreiðslu málsins er frestað til næsta fundar.

Fundi slitið kl. 15.05

Jórunn Frímannsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Fanný Jónsdóttir
Björk Vilhelmsdóttir Oddný Sturludóttir Þorleifur Gunnlaugsson