Velferðarráð - Fundur nr. 488

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 2. október var haldinn 488. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

  2. Lögð fram framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2024-2027, ásamt fylgiskjali. VEL23060034.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, og Þyrí Halla Steingrímsdóttir, skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2024-2027 er mjög falleg áætlun og þar er framtíðarsýnin mikil og sóknaráætlun er jákvæð. Flokkur fólksins er sannarlega sammála því að Barnavernd Reykjavíkur vinnur gott og farsælt starf í barnaverndarmálum. Fulltrúi Flokks fólksins saknar hins vegar að bent sé á þær áskoranir sem Barnavernd Reykjavík stendur frammi fyrir eins og hvernig mætti bæta þjónustuna og hvort að eigi að fjölga meðferðarúrræðum sem er mikil þörf fyrir. Í framkvæmdaáætluninni er ekkert er minnst á aukinn fjölda tilkynninga til Barnaverndar og að það sárvantar stuðnings- og fósturfjölskyldur. Það er gott að heyra að lausn sé í sjónmáli á nýju húsnæði fyrir Mánaberg og að um þessar áskoranir verður fjallað í ársskýrslu Barnaverndar Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á áfangaskýrslu II um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, dags. september 2024. VEL24090064.

    Svanhvít Jakobsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu fjárlaga og rekstrar í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, og Anna Klara Georgsdóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð skorar á aðila ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga að semja um það sem útaf stendur í málefnum fatlaðs fólks, sem allra fyrst.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á skýrslu starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um yngra fólk á hjúkrunarheimilum, dags. júní 2024. VEL24090065.

    Selma Margrét Reynisdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, og Anna Klara Georgsdóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur gagnrýnt aðbúnað ungs fatlaðs fólks á hjúkrunarheimilum samanber nýlega tillögu flokksins um að fatlað fólk missi ekki rétt sinn til ferðaþjónustu þegar það leggst inn á hjúkrunarheimili. Það er því ánægjulegt að sjá að í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um yngra fólk á hjúkrunarheimilum er það viðurkennt að þessi hópur hefur aðrar þarfir en eldra fólk á hjúkrunarheimilum. Óskir yngri einstaklinga samanborið við eldri íbúa eru ólíkar. Almennt óska yngri einstaklingar eftir meiri virkni t.a.m. sjúkra- og iðjuþjálfun en megináherslan er á aukið félagslíf utan veggja hjúkrunarheimilisins, m.a. með nægjanlegri stuðningsþjónustu og akstursþjónustu til að komast á milli staða. Staða ungs fatlaðs fólks sem býr á hjúkrunarheimilum á Íslandi er þróun sem fer gegn réttindabaráttu og mannréttindum fatlaðs fólks. Í skýrslunni er bent á úrbætur í búsetu fyrir ungt fatlað fólk sem er vel og þar vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að einstaklingar hafi valfrelsi um búsetuúrræði. 

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á skýrslu starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa. MSS24060032.

    Ævar Harðarson, deildarstjóri á skrifstofu skipulagsfulltrúa, umhverfis- og skipulagssviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2020 var fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði í stýrihópi um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Hópurinn lauk aldrei störfum. Meðal hugmynda hópsins var að ákveðnar félagsmiðstöðvar, t.d. félagsmiðstöð sem væri tengd við þjónustukjarna, fengi kannski sérhæfðara hlutverk. Ekki var sátt um þessa tillögu þá og komu mótmæli frá fulltrúa meirihlutans. Vissulega þýðir þetta nokkrar breytingar en stundum er nauðsynlegt að breyta til að mæta þörfum fleira fólks. Ekki er betur séð en að hér sé verið að leggja fram sömu tillögu. Það sem skiptir hvað mestu er að aðgengi sé gott að sérhæfðri miðstöð. Finna þarf fjölbreyttar leiðir í þeim efnum. Þegar talað er um sérhæfingu þá þýðir það líka að leggja skuli áherslu á sérhæfð áhugamál. Til dæmis að efla virkni líkama og sálar með göngu- og hlaupahópum, dansi, jóga og hugleiðslu, mat, næringu og heilsueflingu. Nýta má áhugamál sem forvarnir, þ.e. með sönghópum, spilahópum, leshringjum, umræðuhópum um stjórnmál, tónlist, hannyrðum, smíðum, viðgerðum og listasmiðjum, golfi, ferðalögum, leikhúsi og garðyrkju. Þekking og námskeið verði í brennidepli, þ.e. tungumálakennsla, kennsla á notkun tækni og ættfræði svo eitthvað sé nefnt.

    Fylgigögn

  6. Umsögn velferðarráðs um skýrslu og tillögur starfshóps um stefnumörkun félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa. MSS24060032.
    Frestað.

  7. Lögð fram tillaga velferðarráðs um tilnefningar til hvatningarverðlauna velferðarráðs 2023. Trúnaður er um málið þar til hvatningarverðlaun velferðarráðs 2023 hafa verið afhent. VEL24090068.
    Samþykkt. 

Fundi slitið kl. 17:07

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson

Sandra Hlíf Ocares Helga Þórðardóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 3. október 2024