Velferðarráð - Fundur nr. 482

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 5. júní var haldinn 482. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:10 í Borgarráðssalnum, Ráðhúsi Reykjavíkur. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl og  Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

    -    kl. 12:21 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. júní 2024, um hækkun tekjumarka í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:

    Lagt er til að samþykkt verði hækkun tekjumarka sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, afturvirkt frá 1. júní 2024, sem hér segir:
    Fjöldi heimilis- fólks    Neðri tekjumörk á ári    Efri tekjumörk  á ári    Neðri tekjumörk          á mánuði    Efri tekjumörk         á mánuði
    1    5.690.772    7.113.465    474.231    592.789
    2    7.568.727    9.460.909    630.727    788.409
    3    8.820.697    11.025.871    735.058    918.823
    4    9.560.497    11.950.621    796.709    995.885
    5    10.357.206    12.946.508    863.101    1.078.876
    6+    11.153.914    13.942.393    929.493    1.161.866

    Kostnaður vegna tillögunnar rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24050048.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. 

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs fyrir janúar - mars 2024. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL24050047.

  4. Lagt fram yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 5 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024. Trúnaður er um málið þar til yfirlitið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL24050057.

  5. Fram fer kynning á borgaraþingi 8. júní 2024 um málefni barna á aldrinum 0-6 ára. VEL24050051.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á heimaþjónustu velferðarsviðs. VEL24050050.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Heimaþjónusta Reykjavíkur veitir fjölbreytta þjónustu til íbúa enda er leitast við að hafa þjónustuna einstaklingsmiðaða, byggða á þörfum og óskum hvers og eins íbúa í takt við velferðarstefnu. Samþætting stuðningsþjónustu og heimahjúkrunar hefur gengið vel í Reykjavík en þróun heimaþjónustu er mikilvæg í takt við breyttar þarfir íbúa. Í stefnumótun sem nú fer fram í málefnum eldri borgara hefur heimaþjónustan eðlilega verið mikið til umræðu.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins þakkar greinargóða kynningu og svör. Mikilvægt er að huga að þeim atriðum sem hamla starfsfólki í störfum sínum og ríkt tilefni til að endurskoða þjónustuveitinguna með tilliti til þess að notendahópurinn er fjölbreyttari en áður. Í ljósi þess að reynslan sýnir að áherslan á heimaþrif í þjónustunni sé ekki líkleg til að stuðla að góðum félagslegum stuðningi er fullt erindi til að taka til skoðunar að útvista þrifum og mögulega breyta skipulaginu hvað það varðar til þess að gera þjónustuna skilvirkari til hagsbóta fyrir notendur og styðja enn betur við þá félagslegu þjónustu sem þessi hópur þarf á að halda.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á heilbrigðisþingi 2021 um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu aldraðra voru málefni aldraðra rædd í þaula. Nánast allir völdu þann valkost að vera heima frekar en að fara á stofnun þegar þeim tveimur valkostum var slegið upp. Til að geta verið sem lengst heima þarf að veita meiri einstaklingsbundna aðstoð, t.d. aðstoð við að fara út úr húsi, komast sem snöggvast undir bert loft og heim aftur. Flokkur fólksins hefði viljað sjá gerða úttekt á því hvar skóinn kreppir í heimaþjónustu og aðstoð við eldra fólk sem býr heima. Margt í heimaþjónustunni er sannarlega að ganga vel. Fulltrúi Flokks fólksins er í sambandi við marga sem þiggja þjónustu og veit því að margt mætti betur fara. Alltaf er hægt að gera betur. Áður hefur verið nefnt mikilvægi þess að sýna sveigjanleika því oft er dagamunur á fólki eins og gengur. Enda þótt ekki séu skilgreindir þættir eins og sorpflokkun, setja í þvottavél eða brjóta saman þvott þá er mikilvægt að þjónustuveitandi geri það eftir þörfum. Á vetrum gætu bæst við þættir sem koma til vegna slæmra færðar t.d. að aðstoða við að fara með sorp. Þetta er í raun spurning um að gera það sem gera þarf til svo að viðkomandi geti verið sem lengst heima.

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um akstursþjónustu eldra fólks, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040033.
    Samþykkt að vísa til meðferðar stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, og Flokks fólksins gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að eðlilegast hefði verið að meirihlutinn tæki afstöðu til tillögunnar um hvort ástæða þykir til að taka reglur um akstursþjónustu til endurskoðunar. Þess í stað er tillögunni vísað í stýrihóp sem er þá gert að afgreiða tillöguna, með þeim rökum að afla þurfi gagna til að stýrihópurinn, ekki velferðarráð, geti þá ákveðið hvort endurskoða eigi ætti reglurnar.  Þetta þykir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sérkennilegt framsal á afgreiðsluheimildum velferðarráðs. Eðlilegra væri að kallað væri eftir umsögn og viðkomandi upplýsingum frá velferðarsviði og tillagan síðan afgreidd í ráðinu í kjölfarið, líkt og hefð er fyrir. Velferðarráð hefur afgreiðsluheimildir af ástæðu, gott væri ef fulltrúar meirihlutans finndu hjá sér viljann til að nýta þær þegar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram tillögur. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Meirihlutinn áréttar að endanlegt ákvörðunarvald hefur velferðarráð. Velferðarráð telur eðlilegt að láta stýrihóp sem nú þegar er að störfum um málefni eldra fólks skoða þessar reglur í samhengi þeirrar vinnu sem þar er verið að vinna að og því var tillögunni vísað þangað inn.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um rétt maka íbúa hjúkrunarheimila til akstursþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. október 2023. VEL23100015.
    Vísað til meðferðar stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að tekið yrði á dagskrá velferðarráðs umræða um “rétt maka íbúa hjúkrunarheimila til akstursþjónustu til að heimsækja maka sinn”. Margir eldri borgarar þurfa að nýta sér akstursþjónustu til að heimsækja maka sína á hjúkrunarheimili. Algengt er að fólk treysti sér ekki til að nota almenningssamgöngur vegna heilsubrests og svo missa margir færni til að aka bíl þegar þeir reskjast. Það er nógu erfitt að sjá á eftir maka sínum flytja á hjúkrunarheimili þó það bætist ekki ofan á að geta ekki heimsótt makann. Það er bæði tilfinningalega og félagslega mikilvægt fyrir báða aðila að geta haldið sambandi og hist nokkuð reglulega. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt að það sé munur á milli sveitarfélaga hvað varðar þessa þjónustu og telur fulltrúinn að það sé mikilvægt að sveitarfélögin samræmi reglur sínar hvað þetta varðar. Ágætis umræða fór fram um þetta málefni í ráðinu og þakkar fulltrúi Flokks fólksins fyrir það. Frekari umræðu er vísað til stýrihóps í málefnum eldra fólks.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um ferðaþjónustu íbúa á hjúkrunarheimilum, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. október 2023. VEL23100014.
    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af öllum þeim fötluðu einstaklingum sem vistaðir eru á hjúkrunarheimilum og missa rétt sinn til ferðaþjónustu. Þess vegna var óskað eftir því að fá þetta málefni á dagskrá velferðarráðs og var tillögunni vísað áfram til stýrihóps í málefnum eldra fólks. Þegar einstaklingur flytur inn á hjúkrunarheimili þá missir hann rétt sinn til akstursþjónustu nema til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Þessi regla er sérstaklega slæm fyrir fatlað fólk sem flyst inn á hjúkrunarheimili. Fjöldi fatlaðra einstaklinga eru vistaðir á hjúkrunarheimilum vegna fötlunar en ekki vegna öldrunar. Það sem fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á er að hér getur verið um að ræða hóp fatlaðra einstaklinga sem vistaðir eru á hjúkrunarheimili langt fyrir aldur fram. Í gögnum liggur fyrir skipunarbréf starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Starfshópnum var sérstaklega falið að meta þarfir yngri einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Starfshópurinn var stofnaður fyrir ári síðan og hefur enn ekki skilað niðurstöðum en mun gera það fljótlega. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að velferðarráð fái upplýsingar um niðurstöðurnar þegar þær liggja fyrir.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um samanburð á líðan, ástundun og námsárangri barna í símalausum skólum og skólum sem leyfa símanotkun, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040035.
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að gerð verði könnun á líðan barna og námsástundun og árangri í þeim skólum sem hafa sett sér reglur um símalausan skóla annars vegar og hins vegar skólum sem leyfa notkun á símum og niðurstöður beggja hópa bornar saman. Tillögunni er vísað áfram til skóla- og frístundaráðs. Hér er um mikilvægt málefni að ræða og afar brýnt að hefja strax samanburðarrannsóknir á hvort finna mætti marktækan mun á líðan barna í þeim skólum sem sett hefur verið á símabann. Þetta skiptir máli fyrir framhald á þróun þessara mála. Ef í ljós kemur að líðan og námsárangur barna eru marktækt betri í skólum sem hafa sett símabann en barna þar sem farsímar eru að mestu leyfðir þá styður það enn frekar að viðhafa símabann í grunnskólum. Eins og staðan er í dag er misjafnt hvaða reglur gilda um farsímanotkun í grunnskólum og það eitt og sér er ekki gott. Flokki fólksins finnst að skóla- og frístundasvið og velferðarsvið hefðu átt að beita sér með meira afgerandi hætti í þessu máli og setja miðlægar reglur um að inn í skólastofuna fari ekki farsími. Það er of mikið hik á sviðinu og hræðsla við að taka af skarið.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sölu afsláttarkorta til öryrkja á sölustöðum Strætó, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023, ásamt umsögn Strætó bs., dags. 2. maí 2024. VEL23050039.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, dags. 21. maí 2024, um niðurstöður frumkvæðisathugunar á upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk. VEL24030049.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst niðurstöður sláandi. Fram kemur í gögnum að það skorti á upplýsingar á vefsíðum Reykjavíkurborgar varðandi þjónustu við fatlað fólk. Úr þessu þarf að bæta. Einnig kom fram að aðgengi að upplýsingum væri ábótavant, t.d. varðandi umsóknir og umsóknarferli vegna þjónustunnar. Í kjölfarið var framkvæmd athugun á vefsíðum nokkurra sveitarfélaga og kom í ljós að upplýsingagjöf var ábótavant á ýmsum sviðum, t.d. var ekki vísað í núgildandi löggjöf. Ákveðið var að fylgja eftir fyrri athugun og kom þá enn skýrar fram að erfitt er að nálgast upplýsingar með einföldum hætti. Flokkur fólksins hvetur velferðarsvið og ráð að gera allt sem hægt er til að gera upplýsingar aðgengilegar. Flokkur fólksins hefur áður lagt til að gerður verði upplýsingabæklingur þar sem finna má upplýsingar um réttindi og þjónustu við fatlað fólk á einum stað því ekki allir sækja sér gögn á netinu.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram til kynningar ársskýrsla Skjóls 2023. VEL24050052.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins er umhugað um hvernig heimilisfólkinu á Skjóli líður eins og á öðrum sambærilegum stofnunum. Við hraða yfirferð á ársskýrslunni má leiða að því sterkum líkum að umönnun er góð og þörfum heimilisfólksins er vel sinnt. En hvað með andlegar þarfir? Hvergi er að finna neitt um hvernig andlegri heilsu heimilisfólksins er sinnt. Til dæmis hefur það komið fram í rannsóknum að einmanaleiki er víða á hjúkrunarheimilum jafnvel þótt fólk búi innan um og umgangist annað fólk. Þessa þætti þarf að skoða á Skjóli eins og annars staðar. Er séð til þess að það sé rými fyrir stund til að spjalla við heimilisfólkið? Það er nándin, tengslin og snertingin sem skiptir máli en umfram allt er það samtalið sem er besta forvörnin gegn einmanaleika. Starfsfólk hjúkrunarheimila er oft undir álagi t.d. vegna undirmönnunar og hefur því lítinn tíma í gæðastundir með heimilisfólki. Einnig eru aðstæður nú víða þannig að meirihluti starfsfólks skilur ekki mikla íslensku og talar hana jafnvel takmarkað. Fulltrúa Flokks fólksins er ekki kunnugt um hvert hlutfall starfsfólks af erlendum uppruna á Skjóli er. Velferðartækni (skjáheimsóknir) hefur vissulega rutt sér til rúms og skilað góðum árangri en slík tækni kemur aldrei í staðinn fyrir félagsskap manneskju.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð samráðshóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um velferðarmál, dags. 22. maí 2024. VEL24050053.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. júní 2024, við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata um húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040038.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að finna lausn á þessu máli sem fyrst. Hefur þetta mál tekið gríðarlega langan tíma og langur tími er síðan að velferðarráð samþykkti að tímabundin lausn yrði fundin í húsnæðismálum fyrir starfsemi Mánabergs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja mikla áherslu á að þau svið sem koma að þessu máli setji þetta mál í forgang svo hægt sé að koma starfsemi Mánabergs sem fyrst í annað húsnæði.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. júní 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um um verkferla við afhendingu íbúða og aðstoð við húsbúnað umfram greiðslu húsbúnaðarstyrks, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. maí 2024. VEL24050026.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvort eitthvað verklag væri til staðar hjá velferðarsviði þegar einstaklingi er afhent íbúð og einstaklingurinn á ekkert nema fötin sem hann klæðist. Einnig var spurt um aðstoð við að fá nauðsynlegan húsbúnað umfram húsbúnaðarstyrk sem einstaklingar hafa rétt á samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar? Í svari kemur fram að almennt er húsnæði Félagsbústaða ekki útbúið hefðbundnum húsbúnaði við úthlutun að undanskildum smáhýsunum en þar fylgir húsbúnaður. Einnig kemur fram að ekkert formlegt verklag er til staðar hjá velferðarsviði þegar einstaklingi er afhent íbúð með tilliti til þess að kanna hvaða húsbúnað viðkomandi þarfnast. Fulltrúi Flokks fólksins vill hvetja velferðarsvið til að koma sér upp ákveðnum verkferlum þegar fólk í viðkvæmri stöðu fær afhent húsnæði. Það mætti t.d. vera regla að farið sé yfir hvort einstaklingur hafi bráðnauðsynlegan húsbúnað eins og dýnu til að sofa á og ef ekki þá verði viðkomandi bent á þær hjálparstofnanir sem gætu komið til hjálpar. Aðalatriðið er að fólk sé ekki skilið eftir án bráðnauðsynlegs búnaðar og í algjöru reiðileysi.

    Fylgigögn

  17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir greinargóðum skýringum á hvað niðurfelling á hækkun á fjárhagsaðstoð  vegna meðlagsgreiðslna  þýðir fyrir einstaklinga í þessari stöðu? Hver verður framfærsla þessara einstaklinga eftir breytinguna? Fulltrúi Flokks fólksins spyr líka hvenær þessi breyting tekur gildi og hversu löngu fyrir breytinguna einstaklingar á fjárhagsaðstoð fengu tilkynningu um breytinguna?

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni. VEL24060015.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 14:24

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Þorvaldur Daníelsson Sanna Magdalena Mörtudottir

Helga Þórðardóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 5. júní 2024