Velferðarráð - Fundur nr. 480

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 15. maí var haldinn 480. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Helga Þórðardóttir, Sara Björg Sigurðardóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

  2. Fram fer kynning á lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga. VEL24050014.

    Jóna Guðný Eyjólfsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu félags- og lífeyrismála í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, og Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn þakkar góða kynningu á lagafrumvarpi um breytingu á lögum um örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Telur ráðið brýnt að hugað verði að fólki með fjölþættan vanda og býr í sumum tilvikum við heimilisleysi við vinnslu frumvarpsins. Þarft er að grípa betur þann hóp og koma honum í viðeigandi úrræði. Of rík krafa hefur verið á endurhæfingu á þeim hóp sem nær oft ekki árangri og af þeim sökum eru einstaklingar lengi á framfærslu neyðaraðstoðar sveitarfélaga þrátt fyrir að eiga frekar heima á örorkulífeyri. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur áhyggjur af því að til stendur að breyta örorkukerfinu áður en hið „samþætta sérfræðimat“ sem nýtt kerfi mun byggja á hefur verið útfært. Óttast er að nýtt matskerfi kunni að leiða til þess að þúsundir fólks verði metið til lægri örorku en áður og neytt út á vinnumarkað án þess að hafa getu til. Nýtt kerfi hlutaörorku og virknistyrks felur það í sér að hafi einstaklingur á hlutaörorku ekki hlotið starf við hæfi innan tveggja ára þá geti hann orðið fastur í fátæktargildru þar sem virknistyrkurinn fellur niður og þá hefur viðkomandi aðeins hlutaörorkulífeyri sem tryggir aðeins 285.000 kr. í tekjur fyrir skatta á hverjum mánuði. Þá virðast stjórnvöld ætla að byrja á öfugum enda hvað varðar vinnumarkaðsúrræði fyrir fatlað fólk og til stendur að loka vernduðum vinnustöðum um næstu áramót. Frekar ætti öll áhersla stjórnvalda að miða að því að fjölga fjölbreyttum störfum sem henta fólki sem getur ekki unnið fullt starf. Flokkur fólksins tekur undir þær áhyggjur sem Öryrkjabandalag Íslands hefur fjallað um í umsögn sinni um frumvarpið. Það á að leyfa öryrkjum að vinna en það á ekki að neyða öryrkja til vinnu sem þeir hafa ekki heilsu til að sinna.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á tillögum stjórnar akstursþjónustunnar Pant að breytingum á reglum fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. VEL24050018.

    Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu stjórnsýslu, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    kl. 14:23 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Líf Magneudóttir tekur sæti í hennar stað með rafrænum hætti.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans vilja brýna stjórn SSH í þeim tilfellum sem jafn viðamiklar breytingar á reglum og gjaldskrám er varða hagsmuni notenda og Reykjavíkurborgar séu sendar viðeigandi ráði/nefnd til umsagnar. Hér er ósamræmi á milli tillögu á nýjum reglum og tillögu að gjaldskrá. Málið þarfnast frekari efnislegrar meðferðar velferðarráðs og er óskað eftir því að það komi aftur til ráðsins til umsagnar áður en tekin er afstaða til þess í borgarráði. Þá á eftir að taka afstöðu til þess hvort rukka eigi bæði börn fatlaðs fólks og börn með fötlun fyrir akstursþjónustu en börn á grunnskólaaldri greiða ekki fyrir akstursþjónustuna í dag. Aukinheldur er áréttað að eðlilegra sé að tillögurnar séu unnar í samvinnu við velferðarráð sveitarfélaganna sem eru aðilar að samningi við Pant í samráði við Pant í stað þess að þær komi til afgreiðslu frá Pant án samtals við velferðarráð.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður tillögur stjórnar akstursþjónustunnar Pant að breytingum á reglum og gjaldskrám fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan er viðbragð og til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri að bjóða upp á gjaldskrá sambærilega og gjaldskrá í almenningssamgöngur. Breytingin er að fargjöld fyrir akstursþjónustu, þ.e. fyrir fasta ferð, tilfallandi ferð, tímabilskort og aðra farþega, skulu vera sambærileg og fyrir almenningssamgöngur. Eldri reglur voru ekki skýrar en þar átti að taka mið af gjaldskrá almenningssamgangna sem er hægt að túlka á ýmsan máta. Í nýrri gjaldskrá er skýrt kveðið á um að stakt fargjald fyrir akstursþjónustu verði hið sama og stakt fargjald fyrir öryrkja hjá Strætó, óháð því hvort um er að ræða ferð pantaða með löngum eða skömmum fyrirvara. Í nýjum reglum á að bjóða upp á tímabilskort (árskort) og á verð fyrir það  að vera sambærilegt árskorti fyrir öryrkja hjá Strætó. Jákvæð breyting  á reglum er að akstur fatlaðra leikskólabarna verður  gjaldfrjáls. Hins vegar er slæmt að nú þurfa börn 12-16 ára að fara greiða hálft strætógjald en höfðu áður ekki greitt fyrir akstursþjónustuna.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 13. maí 2024, um samþykkt samnings um neyslurými vegna skaðaminnkandi þjónustu milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki meðfylgjandi samning milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands um neyslurými vegna skaðaminnkandi þjónustu, sem undirritaður var 8. apríl sl. Í 17. gr. samningsins er gerður fyrirvari um samþykki velferðarráðs Reykjavíkurborgar og borgarráðs, sem og staðfestingu heilbrigðisráðherra sem fyrir sitt leyti staðfesti samninginn 16. apríl sl. Reykjavíkurborg ber engan kostnað vegna samningsins en heilbrigðisráðuneytið leggur til um 55 m.kr. til reksturs neyslurýmisins.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24040021.

    -    Magnea Gná Jóhannsdóttir, og Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, víkja af fundinum á meðan meðferð og afgreiðslu málsins stendur. 

    Tillagan er samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú er þetta erfiða mál loksins komið á skrið og er það þakkarvert. Rauði Kross Íslands hefur fengið heimild eiganda lóðar við Borgartún 5 (ríkiseign) til að setja niður gáma, sem félagið telur henta starfseminni best og er miðað við að starfsemi geti hafist í byrjun júní nk. Samningurinn gildir í eitt ár frá því að móttaka notenda hefst. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt hugmyndina um neyslurými enda slíkt úrræði búið að sanna gildi sitt í öðrum löndum. Markmiðið er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og auka lífsgæði þeirra sem nota vímuefni í æð. Því miður hefur ekki tekist að halda samfellu í Reykjavík í þessu úrræði og hafa margir liðið fyrir það. Hér er um að ræða mannréttindamiðaða nálgun sem byggir á að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Um leið og dregið er úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna er ekki aðeins verið að hjálpa einstaklingunum sjálfum heldur einnig aðstandendum og nærsamfélaginu. Í þeim löndum sem neyslurými eru til hefur dauðsföllum sem rekja má til notkunar vímuefna í æð fækkað.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 13. maí 2024, um gerð þjónustusamnings við Bataskóla Íslands:

    Lagt er til að samþykkt verði að velferðarsvið geri þjónustusamning við Bataskóla Íslands til þriggja ára að upphæð allt að 12 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að gildistími samningsins verði frá október 2024 til október 2027. Fjárheimildir rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24050015. 
    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á samantekt um lengri opnunartíma á Kaffistofu Samhjálpar. VEL24050025.

    Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, Halldór Nikulás Lárusson, verkefnastjóri vegna stefnumótunar og flutnings Kaffistofu Samhjálpar, og Rósý Sigþórsdóttir, forstöðumaður Kaffistofu Samhjálpar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  7. Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar 2024-2026 um þátttöku í alþjóðlegum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum, sem vísað var til umsagnar velferðarráðs, sbr. bréf skrifstofu borgarstjórnar 6. mars 2024. MSS23050179.
    Samþykkt. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2023 samþykkti forsætisnefnd borgarinnar Siglingakort (e. roadmap) um helstu áherslur þegar kemur að þátttöku í þessum stóru fjölþjóðlegu verkefnum. Í skýrslu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um þátttöku Reykjavíkurborgar í fjölþjóðlegum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum koma fram ýmsar áhugaverðar ábendingar t.d. að fáir hafi komið að gerð umrædds siglingakorts og efni þess ekki fengið mikla umræðu áður en það var lagt fyrir fund forsætisnefndar. Skjalið mun heldur ekki hafa fengið mikla umfjöllun í kjölfar kynningar á þeim fundi. Samhliða talsverðri starfsmannaveltu í einstökum verkefnum virðist að einhverju leyti sem samskipti þeirra sem verkefnunum hafa tengst hafi verið lítil. Sú stefnumörkun sem fólgin er í fyrrnefndu siglingakorti hefði að ósekju mátt fara fram með upplýstri aðkomu fleiri aðila innan stjórnsýslu borgarinnar. Einnig virðist þurfa að skilgreina betur hvað átt er við þegar talað er um nýsköpun innan borgarinnar – hvort sú nýsköpun muni eiga sér stað alfarið inni á sviðum og skrifstofum borgarinnar eða hvort leitað verði samstarfs einkaaðila með sérþekkingu á þróun og innleiðingu þess sem leitað er að hverju sinni.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 21. mars 2021, um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum nr. 36/1994, með síðari breytingum. MSS24030063.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í velferðarráði undrast að ekki skuli hafa verið haft samráð við ráðið áður en þessi umsögn var send út frá sviðinu. Um er að ræða hápólitískt mál og mikilvægt að velferðarráð sé á bakvið þessa umsögn.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er fram umsögn velferðarsviðs um breytingu á húsaleigulögum. Meginmarkmið með þessum breytingum á húsaleigulögum virðast vera að koma einhverjum böndum yfir almenna leigumarkaðinn og setja takmarkanir varðandi hækkanir á leiguverði. Flokkur fólksins er að meginstefnu fylgjandi því að efla réttarvernd leigjenda. Flokkur fólksins hefur talað fyrir leiguþaki eða leigubremsu og hefur lagt fram frumvarp þess efnis. Umsagnaraðili hefur mestar áhyggjur af því að skorður á hækkun á húsaleigu geti haft slæm áhrif á rekstur Félagsbústaða. Samkvæmt nýlegum upplýsingum þá þarf að hækka leigu Félagsbústaða um 8,7 % ef ná á sjálfbærni í rekstri. Flokkur fólksins mun aldrei styðja það að leiga verði hækkuð svo mikið án nokkurra mótvægisaðgerða. Viðskiptamódel Félagsbústaða gengur ekki upp miðað við núverandi forsendur. Flokkur fólksins telur að leita þurfi annarra leiða en að hækka leigu á okkar verst settu borgarbúa. Það er t.d hægt að styrkja félagið með framlögum ef vilji er til þess. Fulltrúa Flokks fólksins finnst heldur mikil neikvæðni í umsögn Reykjavíkurborgar en þar hefur umsagnaraðili áhyggjur af því að mörg ákvæði séu íþyngjandi fyrir leigusala og að það muni leiða til fækkunar á almennu leiguhúsnæði. Staðreyndin er hins vegar sú að við verðum að koma böndum á stjórnlausan leigumarkað.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram fundadagatal velferðarráðs ágúst - desember 2024. VEL24040023.

    Fylgigögn

  10. Fram fer kynning á Fjölsmiðjunni. VEL24050023.

    Lagt er til að Ellen Jacqueline Calmon, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, verði áfram fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu.
    Samþykkt.

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 13. maí 2024, við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata um húsnæði fyrir starfsemi Konukots, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040037.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð leggur þunga áherslu á að húsnæðismál Konukots verði tafarlaust leyst. Á meðan beðið er eftir niðurstöðu samtals um framtíðarfyrirkomulag starfseminnar leggur velferðarráð áherslu á að konum sem  sækja þjónustu Konukots verði útvegað viðunandi bráðabirgðahúsnæði sem fyrst sem rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs. 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 13. maí 2024, við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata um úrræði fyrir heimilislausa karlmenn, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040036.

    Velferðaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar því að nú eru íbúar Skeggjagötu loks fluttir inn. Ráðið vill þó ítreka að framvegis þarf að bæta eftirlit með framkvæmdum bæði svo hægt sé að losna við aukakostnað sem hlýst af töfum en einnig svo unnt sé að veita íbúum þjónustu sem fyrst. 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 13. maí 2024, við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata, um samninga velferðarsviðs við gistiheimili og hótel vegna húsnæðislauss fólks, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040039.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram að nýju ársuppgjör velferðarsviðs 2023, sem fært var í trúnaðarbók sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs 13. mars 2024. VEL24030023.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram að nýju yfirlit yfir innkaup og ferðaheimildir á velferðarsviði 2023, sem fært var í trúnaðarbók, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 13. mars 2024. VEL24030024.

    Fylgigögn

  16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um  hvort eitthvað verklag sé til staðar hjá velferðarsviði þegar einstaklingi er afhent íbúð og einstaklingurinn á ekkert nema fötin sem hann klæðist? Einnig er spurt um aðstoð við að fá nauðsynlegan húsbúnað umfram húsbúnaðarstyrk sem einstaklingar hafa rétt á  samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar? Fulltrúi Flokks fólksins fékk spurnir af konu sem fékk íbúð hjá Reykjavíkurborg án nokkurs húsbúnaðar. Hún hafði flúið í Kvennaathvarfið eftir miklar hörmungar og hafði konan ekkert meðferðis nema fötin sem hún klæddist. Eftir dvölina í Kvennaathvarfinu fór konan í íbúðina sem var án nokkurs húsbúnaðar og þurfti konan því að sofa á beru gólfinu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort velferðarsvið hafi einhverja verkferla þegar einstaklingum í svo viðkvæmri stöðu er afhent húsnæði. VEL24050026.
     

Fundi slitið kl. 16:39

Magnea Gná Jóhannsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Líf Magneudóttir Ellen Jacqueline Calmon

Þorvaldur Daníelsson Helga Þórðardóttir

Sara Björg Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 15. maí 2024