Velferðarráð - Fundur nr. 48

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2006, miðvikudaginn 13. desember var haldinn 48. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.15 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Steinarr Björnsson, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir og Hrafnkell Tumi Kolbeinsson. Áheyrnarfulltrúi: Guðrún Ásmundsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella Víðisdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:


1. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir því að ganga þyrfti til atkvæða um lögmæti fundarins þar sem gögn voru ekki send út innan tilskilins frests.
Samþykkt samhljóða að ganga til fundar.

Hrafnkell Tumi Kolbeinsson vék af fundi kl. 12.20
Þorleifur Gunnlaugsson mætti á fundinn kl. 12. 20

2 Lagt fram minnisblað dags. 12. desember 2006 um tillögur til breytinga á reglum um ferðaþjónustu fatlaðra. Ennfremur lögð fram samantekt um ferðaþjónustu fatlaðra dags. 7. desember 2006 ásamt drögum að endurskoðuðum reglum um ferðaþjónustu fatlaðra. Ennfremur minnisblöð frá hagsmunaaðilum og Strætó bs. dags. 11. desember 2006.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs kynnti málið og skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir breytingunum.
Tillaga til breytinga að reglunum var borin upp til atkvæða.
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Skipaður verði starfshópur sem skili tillögum til Velferðarráðs um það hvernig komið verði til móts við þarfir notenda í framhaldi af heildarúttekt á nýtingu, þróun og framkvæmd á ferðaþjónustu fatlaðra. Jafnframt fari fram kostnaðargreining á þjónustunni. Hópinn skipa sviðsstjóri Velferðarsviðs, formaður velferðarráðs og fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarráði. Sviðsstjóri ber ábyrgð á vinnu hópsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í velferðarráði mótmæla því harðlega að fallið verði frá fyrri samþykkt og ákvörðun borgarráðs frá því í nóvember 2005 sem kvað á um að fatlaðir geti pantað ferðir samdægurs með ferðaþjónustu fatlaðra frá og með 1. janúar 2007. Sú ákvörðun var tekin af þáverandi velferðarráði og byggðist á samráði við hagsmunasamtök fatlaðra sem lögðu ríka áherslu á þetta atriði, sérstaklega hvað varðar ferðir sem farnar eru í einkaerindum.
Nú samþykkir meirihluti velferðarráðs að fresta þessu og ber fyrir sig lítinn undirbúning. Velferðarsvið og Strætó bs. hafa haft 13 mánuði til að undirbúa þessa breytingu og því er sá fyrirsláttur ótrúverðugur og með öllu óásættanlegt að undirbúningur hafi ekki hafist til að framfylgja samþykkt borgaryfirvalda.
Fulltúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í velferðarráði taka undir þá skoðun Sjálfsbjargar, Sjónarhóls, Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Styrktarfélags vangefinna, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands að réttur fatlaðra til að fara ferða sinna er mjög mikilvægur þó ákvörðun um það að bregða sér af bæ hafi ekki verið tekin með dags fyrirvara.
Í erindi til velferðarráðs leggja ofangreind samtök til að í stað þess að fallið verði alfarið frá akstursþjónustunni komi hún til framkvæmda í smáum skrefum. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna taka undir þau sjónarmið, þó þeir að sjálfsögðu telji að betra væri að staðið yrði við fyrri samþykktir velferðar- og borgarráðs. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna munu þó taka sæti í starfshópi sem mun koma með tillögur að breytingum sem mæti þörfum og óskum fatlaðra í Reykjavík.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Reglur um ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík voru samþykktar í borgarráði þann 24.nóvember 2005 í tíð þáverandi meirihluta.
Þegar slík ákvörðun er tekin er ekki óeðlilegt fyrir núverandi meirihluta að velta því fyrir sér hvernig vinnubrögðum var háttað við þá ákvörðun og hvað var haft til hliðsjónar í málinu á þeim tíma. Það er afar sérstakt í stjórnsýslunni að ákveðin sé breyting á reglum með svo löngum fyrirvara og algerlega án þess að fyrir liggi hvernig staðið skuli að breytingunum, hvað breytingin muni kosta og áætlanir um innleiðingu. Sérstaklega er litið til þess að ekkert hafi verið gert í málinu í stjórnartíð fyrrverandi meirihluta. Fyrrverandi meirhluti hlýtur að taka ábyrgð á því að framkvæmd fór aldrei farið af stað varðandi áætlanagerð og kostnaðargreiningu. Þannig má segja að hann hafi brugðist í eftirlitshlutverki sínu.
Núverandi meirihluti hefur fullan vilja til að leysa betur úr þessum málum en gert hefur verið en með ígrunduðum tillögum, kostnaðargreiningu og áætlanagerð svo hægt sé að standa við loforðin. Eins og staðan er nú þarf að axla ábyrgð og undirbúa breytinguna áður en hún kemur til framkvæmdar.
Heildarendurskoðun á ferðaþjónustu fatlaðra er nauðsynleg til þess að hægt sé að innleiða umrædda breytingu.

Formaður velferðarráðs lagði til að efni 2.mgr. 5.gr núvgildandi reglna yrði tekið til meðferðar þegar fyrir liggur heildarúttekt á þjónustunni auk ítarlegrar kostnaðaráætlunar, sbr. bókun velferðarráðs í málinu.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

3. Lögð fram tillaga að hækkun á viðmiðunarupphæð fjárhagsaðstoðar frá 1. janúar 2007.
Tillagan var samþykkt samhljóða

4. Lagðar fram tillögur að breytingu á gjaldskrám í heimaþjónustu og brennslugjaldi í félagsstarfi.

Tillaga varðandi það að fallið verði frá tillögu, dags. 25. október 2006 um hækkun heimaþjónustu frá 1. janúar 2007 var borin upp til atkvæða.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar því að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í velferðarráði vilji nú hætta við fyrirhugaða gjaldskrárhækkun á félagslegri heimaþjónustu. Viðsnúningur meirihlutans er árangur af andófi félagssamtaka aldraðra og andstöðu í ráðinu, ekki síst af hálfu fulltrúa Vinstri grænna sem einn greiddi atkvæði gegn umræddri hækkun. Það skal þó tekið fram að andstaða Vinstri grænna við gjaldskrárhækkun vegna félagsstarfs, þjónustugjalda í þjónustuíbúðum og hækkun á gjaldskrá matar um 8.8#PR, stendur eftir sem áður. Slíkar hækkanir eru í beinni andstöðu við kosningaloforð þeirra flokka sem eiga fulltrúa í velferðarráði um að það væri forgangsverkefni að leiðrétta og bæta kjör eldri borgara.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar í velferðarráði fagna því að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í velferðarráði dragi til baka fyrirhugaða hækkun á félagslegri heimaþjónustu. Með ákvörðun sinni hefur meirihlutinn tekið tillit til óánægju eldri borgara og mið af athugasemdum fulltrúa Samfylkingarinnar. Rétt er þó að minna á að eftir stendur hækkun vegna félagsstarfs um 8,8#PR, hækkun þjónustugjalda í þjónustuíbúðum um 8,8#PR og hækkun á gjaldskrá matar um 8,8#PR.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir tillögu um lækkun á brennslugjaldi í félagsstarfi á félags- og þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.
Tillagan var samþykkt samhljóða

Formaður Velferðarráðs lagði fram eftirfarandi tillögu utan dagskrár:

Velferðaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að útfæra tillögu að reglum um fjárhagsaðstoð til að koma til móts við þarfir aldraðra sem erfitt eiga með að greiða kostnað vegna hádegisverðar.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

5. Lögð fram skýrsla um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar í Reykjavík, nóvember 2006.
Málinu er frestað til næsta fundar.

6. Lögð fram til kynningar skýrsla, dags. 8. desember 2006, samráðshóps um framkvæmd samskipta og samstarfs milli Barnaverndar og þjónustumiðstöðva.
Lagðar fram til kynningar breyttar reglum um samráð og ábyrgðarskiptingu milli Barnaverndar Reykjavíkur og þjónustumiðstöðva frá 1. janúar 2007, sem samþykktar voru á fundi barnaverndarnefndar þann 12. desember 2006.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

7. Lagt fram yfirlit yfir rekstrar- og þjónustusamninga Velferðarsviðs.
Skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustuúrræða lagði fram nýtt yfirlit.

8. Gengið var til atkvæða um breytingar á dagskrá.
Samþykkt var samhljóða tillaga formanns velferðarráðs um að taka næst fyrir tvö mál frá síðasta fundi ráðsins sem haldinn var þann 29. nóvember sl.
Eftirfarandi bókun var lögð fram af fulltrúum Samfylkingarinnar þann 29. nóvember sl. Afgreiðslu málsins var þá frestað til næsta fundar.

Velferðarráð samþykkir að beita sér fyrir því að Velferðarsvið, í samvinnu við Heilsugæsluna í Reykjavík, geri rannsókn á heilsufari utangarðsfólks. Markmiðið er að kortleggja vanda þessara einstaklinga og bregðast við því sem upp kemur með viðeigandi hætti.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu til breytinga á bókuninni, ásamt greinargerð.

Velferðarráð samþykkir að beina því til teymis sem hefur yfirsýn yfir stöðu húsnæðislausra á höfuðborgarsvæðinu að aflað verði upplýsinga um heilsufar utangarðsfólks með það að markmiði að geta betur og markvissar þróað uppbyggingu og þjónustu í þessum málaflokki.

Samþykkt samhljóða.

Á fundinum þann 29. nóvember sl lögðu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:

Velferðarráð samþykki að beina því til Félagsbústaða að hraða því átaki sem hófst á síðasta kjörtímabili með því að Félagsbústaðir seldu hluta af íbúðum sínum í Efra-Breiðholti og keyptu í öðrum hverfum borgarinnar til að draga úr félagslegri einsleitni og stuðla að blöndun.

Tillagan var borin undir atkvæði. Vísað frá með fjórum atkvæðum gegn þremur. Lögð var fram greinargerð.

Marsibil Sæmundardóttir vék af fundi kl. 14.03.
Sif Sigfúsdóttir vék af fundi kl. 14.03

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Á síðasta kjörtímabili fjölgaði íbúðum Félagsbústaða um að meðaltali 100 á ári auk þess sem sérstakar húsaleigubætur voru innleiddar. Með tilliti til efnahagsþróunar var ákveðið að kaupa 150 íbúðir eitt árið en 50 íbúðir á síðasta ári vegna þenslu í efnahagslífinu. Tillaga okkar beindist hins vegar að mikilvægi þess að draga úr félagslegri einsleitni og ítrekum við mikilvægi þess að halda áfram þeirri þróun er byrjaði á síðasta kjörtímabili

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Tillögunni er vísað frá vegna þess að nú þegar er unnið að því að vinna gegn félagslegri einsleitni í hverfum borgarinnar. Núverandi meirihluti er mjög meðvitaður um mikilvægi þess.

9. Lögð fram til kynningar úttekt á Miklubraut 20, september 2006.
10. Lagðar fram tölulegar upplýsingar um desemberuppbót fjárhagsaðstoðar.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

11. Lagt fram yfirlit yfir umsóknir um styrki til félagsmála fyrir árið 2007.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða að vísa því til formanns velferðarráðs og sviðsstjóra Velferðarsviðs að gera tillögur að styrkjaúthlutun fyrir árið 2007.

12. Lagt fram til kynningar fréttablað búsetu – og stuðningsþjónustu fyrir geðfatlaða, Hugviljinn.

13. Lagðar fram lykiltölur janúar til október 2006.
Skrifstofustjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.



Fundi slitið kl. 14.30

Jórunn Frímannsdóttir
Steinarr Björnsson Björk Vilhelmsdóttir
Oddný Sturludóttir Þorleifur Gunnlaugsson