Velferðarráð - Fundur nr. 476

Velferðarráð

Ár 2024, miðvikudagur 13. mars var haldinn 476. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:08 í Stekk, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL24010017.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga stýrihóps um endurskoðun reglna um fjárhagsaðstoð, dags. 13. mars 2024, um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að samþykktar verði breytingar á 5. gr., 6. gr., 8. gr., 11. gr., 12. gr., 13. gr., 15. gr., 19. gr., 20. gr., 21. gr., 23. gr., 24. gr., 30., 31. gr. og 34. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

  Kostnaður vegna tillögunnar rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22110033.
  Samþykkt og vísað til borgarráðs með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn atkvæði fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

  Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð er mikilvægur liður í því að skýra betur reglurnar sem og að skerpa á því að þær þjóni betur tilgangi sínum í samræmi við lög um félagsþjónustu nr. 40/1991, en markmið þeirra laga er m.a. að styrkja fólk til sjálfshjálpar. Markmið reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð er hér eftir sem áður að virða sjálfsákvörðunarrétt umsækjenda og styðja þá til sjálfshjálpar, virkrar þátttöku og valdeflingar. Reglurnar eru í samræmi við vinnu við virknistefnu Reykjavíkur sem nú er í gangi. Nýlega var upphæð fjárhagsaðstoðar hækkuð og því var ekki farið í endurskoðun á upphæð fjárhagsaðstoðar að undanskyldu því að húsbúnaðarstyrkur var hækkaður úr 100.000 kr. í 150.000 kr. Í reglunum er tryggt að hægt sé að falla frá skerðingu fjárhagsaðstoðar vegna barna. Ríkið greiðir fyrir meðlag með börnum og því er lagt til að Reykjavík hætti að borga þær greiðslur til ríkisins. Þá var orðalag og uppsetning reglna breytt og uppfært. Reglurnar fóru til umsagnar inn á samráðsvef Reykjavíkur og var tekið tillit til umsagna eftir því sem við átti.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fjárhagsaðstoð er fyrir þau sem hafa ekkert annað að leita í og eru upphæðirnar mjög lágar. Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar fyrir skatt, er 239.895 kr. Upphæðirnar eru breytilegar t.a.m. út frá húsnæðisstöðu og sambúðarformi. Erfitt er að sjá hvernig ætlast sé til þess að manneskjur komist í gegnum dagana á þessum lágu upphæðum. Í reglum kemur fram að ef umsækjandi mæti ekki í boðað viðtal hjá ráðgjafa eða á boðað námskeið, sé heimilt að skerða grunnfjárhæð til framfærslu um helming. Ef veigamiklar ástæður mæli gegn lækkun grunnfjárhæðar þá er samt sem áður lagt til að heimilt verði að lækka fjárhæð til framfærslu um 15%. Hér er óljóst hvað „veigamiklar ástæður“ þýða og hvernig slíkt verði metið. Þá er einnig áhersla á að það sé hvenær sem er hægt að gera kröfu um að umsækjandi sanni deili á sér með því að sýna skilríki. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að inntak reglnanna byggi á stuðningi og fjárhagslegu öryggi fyrir þau sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, í stað þess að byggja á tortryggni og vantrausti í garð þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillaga um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð er á ýmsa vegu til bóta. Skerpt er á reglum um hvenær eigi að veita lán fremur en styrk. Til bóta er að heimilt er að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu. Breytingar eru gerðar á viðmiðum um framvísun persónuskilríkja til að sanna á sér deili. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af málsgreininni „Sanna skal á sér deili innan tveggja virkra daga frá því að umsókn var lögð fram nema lögmæt forföll hamli því, s.s. veikindi eða fötlun.“ Hvernig á að bregðast við ef einstaklingur kemst ekki vegna fötlunar eða dvelur á sjúkrahúsi eða stofnun? Gera á þá breytingu að ef einstaklingur mætir ekki í boðað viðtal, námskeið, staðfestir ekki atvinnuleit, hafnar vinnu, verður grunnfjárhæð skert um 50% en heimilt sé að skerða eingöngu um 85% ef viðhlítandi skýringar eða veigamiklar ástæður eru fyrir hendi. Tilgangurinn er augljóslega að hvetja fólk til virkni og að sporna gegn misnotkun á öryggisneti velferðarkerfisins. Það er hins vegar óljóst hver á að meta hversu miklar skerðingarnar eigi að verða. Það er vissulega tilgreint að taka eigi tillit til fjölda barna á framfærslu sem er vel.

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á dómum og öryggisvistun. VEL24030025.

  Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 13. mars 2024, um tímabundna framlengingu þjónustusamnings við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að heimild verði veitt til að framlengja um hálft ár, eða til 30. júní nk. meðfylgjandi þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks, sem kveður á um að Reykjavíkurborg taki á móti allt að 1500 flóttamönnum á samningstímanum. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á hinum framlengda samningi aðilum til hagsbóta. Þá er jafnframt skilyrt heimild til frekari framlengingar í 6 mánuði, eða til 31. desember 2024, hluti af hinum nýja samningi. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið greiðir allan kostnað vegna samningsins í samræmi við kostnaðarlíkan sem honum fylgir.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24030026.
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
   

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands  og Flokks fólksins um aðstöðu fyrir listasmiðju fyrir jaðarsett fólk, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 13. mars 2024:

  Velferðarráð Reykjavíkur samþykkir að útvega aðstöðu fyrir jaðarsett fólk með fjölþættan vanda til þess að það geti sinnt listsköpun. Starfið verður í höndum sjálfboðaliða sem hafa óskað eftir því að fá afnot af aðstöðu á Lindargötu við Vitatorg.

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24030027.
  Samþykkt. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu tillögunnar. Með tillögunni vantar upplýsingar um útfærslur, hverjir munu standa að framkvæmd og utanumhaldi. Einnig er óljóst hvort að leyfi fáist hjá heilbrigðiseftirliti þar sem samkvæmt fasteignaskrá er húsnæðið við Vitatorg skráð sem bílskúr og ekki sjálfgefið að heimilt sé að reka þessa starfsemi. Ákjósanlegt hefði verið að praktísk atriði væru á hreinu áður en tillagan var lögð fyrir ráðið, ásamt því að upplýsingar væru til staðar um það hverjir munu koma til með að sjá um þetta verkefni og fylgja því eftir.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki að opna listasmiðju fyrir jaðarsett fólk með fjölþættan vanda. Flokkur fólksins fagnar þessu framtaki og sérstaklega ánægjulegt er að sjá að starfið verður í höndum sjálfboðaliða sem þegar hafa boðið fram þjónustu sína. Sjálfboðaliðar hafa óskað eftir að fá afnot af rými á Lindargötu við Vitatorg. Um er að ræða bílskúr sem er nú þegar í leigu hjá Reykjavíkurborg þannig að ekki er um kostnaðaraukningu að ræða. Listasmiðjan er hugsuð sem úrræði fyrir jaðarsett og einangrað fólk í búsetu eða með aðsetur í úrræðum eins og Hringbraut 121/79, Gistiskýlinu á Granda, Njálsgötu, Konukoti, Lindargötu o.s.frv. þar sem fólk getur komið saman og skapað list. Jákvætt er að sjá að sjálfboðaliðar verkefnisins eigi að sitja námskeið í sértækri skyndihjálp og skaðaminnkandi nálgun.

  Fylgigögn

 6. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um neyðarhúsnæði fyrir fólk sem misst hefur húsnæði sitt. VEL23100047.
  Frestað.

 7. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 13. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tómar íbúðir og standsetningu íbúða hjá Félagsbústöðum, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 7. febrúar 2024. VEL24020016.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 13. mars 2024, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um akstursþjónustu fatlaðs fólks, sbr.  14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. mars 2024. VEL24030009.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Eina tímabilskortið sem boðið er upp á í akstursþjónustunni er fyrir nema. Notendur Pant akstursþjónustunnar sem eru í framhaldsnámi (framhalds- eða háskóla) geta keypt ungmenna- eða nemakort sem er áskriftarkort og gildir í eitt ár frá kaupdegi. Nemakort kostar 52.000 kr.. Annars er greitt fyrir hverja ferð 315 kr. eða helmingi hærra verð 630 kr. ef pantað er samdægurs eða utan opnunartíma þjónustuvers. Þessi kostnaður er fljótur að safnast saman líkt og kemur fram hér þar sem samkvæmt upplýsingum frá Pant akstursþjónustu greiddu 497 fatlaðir einstaklingar meira en 52.000 kr. fyrir þjónustuna á árinu 2023.

  Fylgigögn

 9. Fram fer kynning á stöðu húsnæðismála. VEL24020049.

  Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, og Bjarki Hermannsson, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  -    kl. 15:57 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Velferðarráð fær kynningu á stöðu húsnæðismála. Reykjavíkurborg hefur gert samkomulag við innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að gera stórátak í húsnæðismálum í Reykjavík. Auka á sérstaklega uppbyggingu hagkvæmra íbúða og fjölga á félagslegum íbúðum. Það veitir svo sannarlega ekki af að spýta í lófana því 1019 manns bíða eftir húsnæði og eru þar um 400 börn sem bíða ef horft er til barnafjölskyldna. Það vakti athygli fulltrúa Flokks fólksins hversu fáar íbúðir Félagsbústaðir keyptu á síðasta ári. Það voru eingöngu keyptar 61 íbúð á árinu en til samanburðar voru keyptar 127 íbúðir árið 2020. Það er lengst bið eftir 1-2 herbergja íbúðum svo það er mikilvægt að fjölga slíkum íbúðum. Það vakti furðu hjá fulltrúa Flokks fólksins að einhleypir karlar væru fjölmennasti hópurinn sem er á bið eftir íbúð hjá Félagsbústöðum en nú bíða 346 einhleypir karlar eftir íbúð. Það er líka athyglisvert að sjá að flestir sem eru á biðlista eftir húsnæði er fólk sem annað hvort er öryrkjar eða óvinnufærir einstaklingar. Þetta sýnir okkur hvað staða þessa hóps er erfið og mikilvægi þess að við tökum utan um hópinn og bætum í úrræði fyrir hann.

 10. Lögð fram drög að ársuppgjöri velferðarsviðs 2023. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL24030023.

 11. Lagt fram yfirlit yfir innkaup og ferðaheimildir á velferðarsviði 2023. Trúnaður er um málið þar til ársuppgjör velferðarsviðs 2023 hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL24030024.

 12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði könnun meðal foreldra grunnskólabarna um hvort þeir viti hver skólasálfræðingur barna þeirra er og þekki hann jafnvel með nafni. 

  Greinargerð fylgir tillögunni. VEL24030035.
  Frestað.

  Fylgigögn

 13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Flokkur fólksins óskar upplýsinga um fjölda öldrunarráðgjafa á miðstöðvum borgarinnar og hvort eigi að endurvekja fíkniráðgjafateymið. Á fundi velferðarráðs 7. febrúar fengu fulltrúar ráðsins kynningu á starfsemi Norðurmiðstöðvar. Í þeirri kynningu kom fram að á þjónustusvæði Norðurmiðstöðvar er hlutfall eldri íbúa hærra en á öðrum þjónustusvæðum borgarinnar. Kom jafnframt fram að  starfandi öldrunarráðgjafar væru flestir starfandi á Norðurmiðstöð. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hversu margir öldrunarráðgjafar eru starfandi á öllum miðstöðvum borgarinnar.  Það kom einnig fram í kynningunni að einungis einn starfsmaður væri starfandi í fíkniráðgjafateyminu og það kom ekki fram hvort ráða ætti bót á því. Því spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort eigi að fá starfsfólk í teymið og endurvekja það. VEL24030036.
   

Fundi slitið kl. 16:45

Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Helga Þórðardóttir Sandra Hlíf Ocares

Þorvaldur Daníelsson Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 13. mars 2024