Velferðarráð - Fundur nr. 468

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 6. desember var haldinn 468. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í Vesturmiðstöð, Laugavegi 77. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sandra Hlíf Ocares. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer skoðunarferð um Vesturmiðstöð.

    -    kl. 13:16 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum. 

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Fram fer kynning á starfsemi Vesturmiðstöðvar. VEL23120002.

    -    kl. 13:24 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum 

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar framgangi í opnun á staðbundnu neyslurými. Ráðið hefur kallað eftir opnun slíks rýmis síðan í febrúar á þessu ári og það er því gríðarlega jákvætt að opnun neyslurýmis sé í sjónmáli.

  4. Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs um skýrslu nefndar um heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. MSS23090194.

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar meðal NPA-notenda. VEL23110052.

    Heiðrún Una Unnsteinsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka góða kynningu og lýsa ánægju með niðurstöðurnar sem segja að notendur NPA þjónustunnar eru almennt ánægðir með þjónustuna, telja stuðninginn mæta þörfum þeirra og að þau geta sinnt áhugamálum betur nú en áður. Þá var gleðilegt að heyra að allir notendur NPA þjónustunnar sögðu starfsfólk velferðarsviðs koma fram við sig af virðingu og með vingjarnlegu viðmóti.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til kynningar er könnun sem var gerð meðal NPA notenda í Reykjavík til að heyra upplifun notenda af þjónustunni. Það er ánægjulegt að sjá að 83% notenda segja stuðninginn alltaf eða oftast mæta þörfum sínum og 95% notenda geta alltaf eða oftast sinnt áhugamálum og gert það sem þau vilja, þegar þau vilja. Þessar niðurstöður og fleiri umsagnir notenda sýna fram á að NPA hafi haft mikil og jákvæð áhrif á lífsgæði þátttakenda. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að allir þátttakendur sögðu aðstoðarfólk almennt koma fram við sig af virðingu og allir sögðust treysta aðstoðarfólki sínu. Niðurstöður þessarar könnunar sýna svo um munar hvað NPA er mikilvæg þjónusta og telur fulltrúi Flokks fólksins að Reykjavíkurborg ætti að leggja ríka áherslu á að fjölga slíkum samningum.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á upplýsingavef fyrir flóttafólk sem fengið hefur lögheimili í Reykjavík. VEL23110065.

    Herdís Lilja Jónsdóttir, verkefnastjóri umbótateymis á Rafrænni miðstöð, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu og lýsa ánægju með umræddan upplýsingavef fyrir flóttafólk í Reykjavík.

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. desember 2023, um áframhaldandi starfsemi Atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að starfsemi Atvinnu- og virknimiðlunar verði fram haldið innan Virknihúss að loknu tilraunaverkefni sem rennur út 30. apríl 2024. Áætlaður kostnaður við að halda verkefninu áfram út árið 2024 er 46,7 m.kr. (1. maí – 31. des. 2024). Áætlaður heildarkostnaður á ári eftir það er 70 m.kr. Kostnaður rúmast innan fjárheimilda bundinna liða.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23110050.

    Samþykkt.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikil ánægja hefur verið með tilraunaverkefni um Atvinnu- og virknimiðlun. Mikil þörf er á þjónustu Atvinnu- og virknimiðlunar og sömuleiðis hefur verið sýnt fram á að með starfseminni má ná fram ákveðnum sparnaði í kerfinu til lengri tíma. Einnig má reikna með að sú virknistefna sem er í smíðum hjá stýrihópi fái eftirfylgni í Atvinnu- og virknimiðlun. Það er því gleðilegt að geta haldið áfram með verkefnið næstu árin.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 6. desember 2023, um stöðu einstaklinga sem eru hvorki í námi, þjálfun né starfi. VEL23110051.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir góða yfirferð um NEET-hópinn. Ljóst er að standa verður betur að því að grípa ungt fólk til að tryggja að það endi ekki í vanvirkni. Ýmis tækifæri eru til þess að skapa aukin tækifæri til virkni í samfélaginu fyrir þennan hóp sem vert er að rýna betur í samhengi tillagna frá stýrihópi um virkni og um framtíð Hins Hússins. Þá þarf að tryggja að kerfið sé framsækið í því að þjónusta ungt fólk og nálgist það á þeim stað sem þau eru. Um er að ræða samfélagsverkefni þar sem kerfin verða að vinna saman að því að grípa ungt fólk í vanvirkni og skapa umhverfi sem ungt fólk upplifir að það geti leitað aðstoðar í.

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á níu mánaða uppgjöri velferðarsviðs í janúar - september 2023. VEL23110053.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 1 m.kr. á þriðja ársfjórðungi 2023. VEL23110054.

  11. Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs um stafræna stefnu Reykjavíkurborgar. VEL23110014.

    Samþykkt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Magnús Bergur Magnússon, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar umsögn velferðarsviðs um stafræna stefnu Reykjavíkurborgar en í henni koma fram nákvæmlega sömu ábendingar og fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á. Velferðarsvið bendir á að ef þessum atriðum verði bætt í stefnuna þá myndi það gera hana öflugri. Í fyrsta lagi er lagt til að í stefnunni sé tiltekið að við þróun, kaup og innleiðingu á hugbúnaði og kerfum sé nýtt þétt verkefna- og vörustjórnun til að gæta ýtrasta aðhalds til að tryggja að kostnaðaráætlun og tímaáætlun og séu í takti við raunveruleikann. Lagt er til að skýrt sé í stefnunni að ef þörf er á nýju kerfi sé nýting tilbúinna lausna fyrsti valkostur, nýting aðlaganlegra lausna sá næsti og sérsmíði sé síðasti valkostur. Þá er lögð áhersla á að í stefnunni sé það forgangsmál að uppbyggingu kerfa sé hagað í samvinnu við önnur íslensk sveitarfélög þar sem samrekstur kerfa er ákjósanlegasta form samvinnu og innkaup og þróun kerfa þar á eftir. Eins er bent á að við ættum að nýta reynslu og lausnir sveitarfélaga utan landsteinanna. Þessi atriði sem velferðarsvið bendir á eru einmitt ábendingar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur bent á og bókað um margsinnis. Vonandi verður hlustað á þessar ábendingar velferðarsviðs.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram til kynningar ársskýrsla velferðarsviðs 2022. VEL23100027.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ársskýrsla velferðarsviðs 2022 lögð fram til kynningar. Í skýrslunni eru margar athyglisverðar upplýsingar og þar sést hvað starfið á velferðarsviði er umfangsmikið. Upplýsingar um helstu ástæður tilvísana til skólaþjónustu vöktu athygli fulltrúa Flokks fólksins. Þar er mesta aukningin í tilfinningalegum erfiðleikum en þar hefur tilvísunum fjölgað úr 456 árið 2021 í 611 árið 2022. Þetta er þróun sem þarf að rýna og taka alvarlega. Í skýrslunni kemur glögglega í ljós hvað gestum í gistiskýlum hefur fjölgað mikið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstakt áhyggjuefni að sjá hvað biðlisti eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði lengdist milli ára en þar var um 50% aukning. Biðlistinn var 531 við árslok 2021 en var kominn í 797 í árslok 2022.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram til kynningar ársskýrsla heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar 2022. VEL23120003.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í skýrslunni eru nokkrar athyglisverðar upplýsingar. Konur eru í miklum meirihluta notenda heimahjúkrunar. Einnig má sjá talsverða fjölgun notenda frá 2016 sem segir okkur að fólk er að lifa lengur. Um er að ræða samþætta þjónustu. Niðurstaða könnunar frá 2022 um árangurs- og gæðamat er áhugaverð. 74% fannst stuðningurinn frá heimahjúkrun nægjanlegur og 67% töldu þann stuðning duga til að geta búið heima. Þetta er ekki fullnægjandi að mati Flokks fólksins og segir okkur að nokkuð stór hópur telur að eitthvað vanti til að bæta líðan sína eða að ekki sé verið að taka tillit til þarfa þeirra. Í þessu sambandi langar fulltrúa Flokks fólksins að nefna tillögur sínar um að skoða hvort ekki þurfi að dýpka suma þjónustuþætti eða fjölga þeim. Minnst hefur verið á aðstoð við verk sem kalla á ákveðna hreyfifærni eins og að beygja sig, bogra eða teygja upp hendur.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram til kynningar umsögn velferðarsviðs um Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, dags. 23. nóvember 2023. VEL23110041.

    -    kl. 15:36 víkur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti í hennar stað með rafrænum hætti.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka góða umsögn velferðarsviðs um Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá er ítrekað að það er grundvallaratriði að ríkið tryggi fjármögnun allra liða innleiðingarinnar svo hún megi raungerast. Án fjármagns verður ekki hægt að innleiða áætlunina að fullu.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um rýmkun reglna um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. október 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6. desember 2023. VEL23100016.

    Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hugmyndin með stuðningsfjölskyldum er ekki síst sú að stækka tengslanet þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda. Í því ljósi er skerpt á því í ráðningarreglum borgarinnar að leitast skuli við að finna stuðningsfjölskyldur sem ekki tengjast þjónustuþega fjölskylduböndum eða með beinum hætti. Með því er ekki verið að loka á að fjölskylda þjónustuþega geti fengið ráðningu, en aðeins skerpt á tilgangi stuðningsfjölskyldanna.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að nánir ættingjar fái að vera stuðningsfjölskylda barna ef það er það sem er barninu fyrir bestu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Flokks fólksins um rýmkun reglna um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu var lögð fram af ástæðu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það ríki of mikil tortryggni þegar kemur að því að ráða ættingja sem stuðningsfjölskyldur fyrir börn sem þess þurfa og hafa fengið samþykki fyrir slíka þjónustu. Mörg rök hníga að því að með því sé ekki verið að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst leiðbeiningar og reglur um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu of strangar og var að vonast til að fleiri væru sömu skoðunar en því miður var tillögunni hafnað. Það getur einmitt verið gríðarlegur kostur að ráða ættingja sem stuðningsforeldri eins og það að barnið þekkir viðkomandi. Það getur veitt mörgum viðkvæmum börnum öryggi. Auk þess er skortur á stuðningsforeldrum og það getur verið erfitt að finna hentuga fjölskyldu. Ef ættingi getur tekið að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu þegar slíkar aðstæður eru mætti ætla að það væri betra en að ókunnug fjölskylda annist barnið. Sú staðreynd að ættingjaráðningar eigi aðeins að vera í undantekningum segir allt sem segja þarf um viðhorf velferðaryfirvalda í þessu máli. Það er ekki velferðaryfirvalda að ákveða hvað veitist nánum ættingjum erfitt við að sinna í viðbótarstuðningi. Of mikil forræðishyggja er ekki góð.

     

    Fylgigögn

  16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að punktakerfi Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði verði endurmetið, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. nóvember 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6. desember 2023. VEL23110002.

    Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði fram tillögur um að punktakerfi Reykjavíkurborgar fyrir félagslegt húsnæði verði endurmetið með það í huga að gera það sanngjarnara fyrir einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Flokki fólksins hefur borist ábendingar um að einstaklingum í mjög viðkvæmri stöðu hafi verið hent út af biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Dæmi: Einstaklingur sem eingöngu lifir á lífeyri frá TR og er að greiða næstum helming af lífeyri sínum í leigu fær ekki að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Fram kemur í umsögn að breytingar á matsviðmiðunum hafi helst tengst breytingu á reglugerð og reglum eins og gefur að skilja. Segir að engum er hent út af biðlista um félagslegt leiguhúsnæði á velferðarsviði heldur er fólki tilkynnt um að það sé ekki lengur á biðlistanum þegar fólk uppfylli ekki skilyrði sem gerð eru til umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði. Upplifun fólks sem fær þessa tilkynningu er einmitt sú að því sé hent út og sé skilið eftir í mikilli óvissu. Fulltrúi Flokks fólksins sýnir þessari upplifun fólks skilning og finnst alvarlegt hvað margir er í miklum vanda við að komast í leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. Velferðaryfirvöld þurfa að taka meiri ábyrgð í þessum málaflokki og fjölga búsetuúrræðum fyrir bágstadda.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sérstakan styrk til foreldra til að greiða fyrir frístundardvöl barna sinna, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. október 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6. desember 2023. VEL23100046.

    Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir taka undir áhyggjur þess efnis að tilteknir efnaminni foreldrar séu í þeirri stöðu að þurfa að nýta frístundastyrk til þess að greiða fyrir dvöl á frístundaheimili á vinnutíma í stað þess að gera börnum sínum kleift að stunda aðrar tómstundir á borð við íþróttir. Þó þetta eigi ekki við um þá foreldra sem eru notendur fjárhagsaðstoðar, þar sem foreldrar í þeirri stöðu þurfa ekki að nýta frístundastyrkinn til greiðslu vegna dvalar á frístundaheimili, er ljóst að margir búa við bág kjör án þess þó að vera notendur sem uppfylla skilyrði um rétt til fjárhagsaðstoðar. Sérstakur styrkur eða breyting á gjaldskrá frístundaheimila með tilliti til notkunar á frístundastyrk gæti gagnast þeim hópi sérstaklega og gert fleiri börnum kleift að taka þátt í tómstundastarfi og íþróttum. Velferðarráð felur velferðarsviði að senda bókun þessa á Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að öll börn geti lagt stund á þær frístundir sem þau hafa áhuga á. Ljóst er að breyta þarf núverandi fyrirkomulagi í kringum frístundir, tómstundir og íþróttir þar sem ekki öll börn geta tekið þátt vegna efnahagslegrar stöðu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að foreldrar með aðþrengdan fjárhag geti sótt um sérstakan styrk til að greiða fyrir frístundardvöl barna sinna í stað þess að nota frístundastyrkinn sem ætlaður er til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Hér er ekki verið að tala um fólk á fjárhagsaðstoð sem fái slíkan styrk. Stór hópur foreldra er í miklum fjárhagsvanda þótt þeir séu ekki á fjárhagsaðstoð. Þessum foreldrum þarf að hjálpa með sama hætti og foreldrum á fjárhagsaðstoð til þess að börn þeirra geti nýtt frístundakortið í tómstundir. Staðan í dag er þannig að í tilfellum 1020 barna er frístundakortið þeirra notað til að greiða fyrir Frístundaheimili eða um 7% barna. Enda þótt einhver hluti foreldra séu að ráðstafa hluta frístundakorts upp í frístundaheimili þegar verið er að klára að nýta styrkinn fyrir árið þá er barnið ekki að nýta þann hluta í tómstundir. Frístundakortið var hugsað frá upphafi sem styrkur til að auka jöfnuð og gefa öllum börnum tækifæri til tómstunda- og íþróttaiðkunar að eigin vali óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Hér er verið að mismuna og brjóta á börnum. Því miður er ekkert sem bendir til þess að gera eigi breytingar á reglunum svo öll börn geti notið íþrótta- og tómstundaiðkunar.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. desember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um punktakerfi Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. nóvember 2023. VEL23110004.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu langt er síðan punktakerfi Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði var uppfært? Ljóst er að uppfærslur eru nokkrar og þá helst í kringum breytingar á reglum. Vandinn er að þetta kerfi hefur ekki orðið manneskjulegra í tímans rás og þar liggur hundurinn grafinn. Fram kemur að uppfærslan er iðulega unnin af lögfræðingum sem mögulega eru aðeins að hugsa um breytingarnar út frá lögfræðilegum sjónarmiðum. Getur það verið? Flokkur fólksins hefur nú komið með eina ábendingu þar sem aðili á biðlista var fjarlægður þar af þar sem hann átti ekki lengur rétt á að vera á biðlistanum. Eftir því sem fram kemur hjá viðkomandi var hann skyldur eftir út í kuldanum og fékk ekki frekari aðstoð til að finna nýtt úrræði. Það eru svona hlutir sem þarf að laga. Það þarf að vera eitthvað til að grípa fólk ef aðstæður breytast þannig að breyting verði á réttindum þeirra. Flokkur fólksins vill sjá svona regluverk manneskjulegra.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. desember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um leiðbeiningar frá BUGL um styttingu biðlista, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. október 2023. VEL23100017.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um hvort velferðarsvið geti hugsað sér að skoða þá leið sem farin hefur verið á BUGL en þeim hefur tekist farsællega að stytta biðlista t.d. með því að breyta vinnulagi og gera skipulagsbreytingar. Óþarfi er að finna hjólið upp á nýtt. Breytingar eins og Betri borg fyrir börn sem gerðar hafa verið í borginni kunna að vera ágætar en þær hafa ekki leitt til styttri biðlista nema síður sé. Eitthvað er ekki að virka. Biðlisti borgarinnar í dag er á þriðja þúsund börn en sama breyta var 400 börn árið 2018. Fram kemur í svari að velferðaryfirvöld vita lítið um hvernig BUGL náði svo góðum árangri og vill Flokkur fólksins því leggja til að velferðarsvið „taki upp tólið“, eða óski eftir fundi með starfsfólki BUGL til að fá frekari upplýsingar og læra af þeirra reynslu. Fullvíst má telja að velferðarráð setji sig ekki upp á móti því. Það er óþarfi að reyna að giska þegar hægt er án efa að fá allar upplýsingar beint frá BUGL sem væri örugglega upp með sér að fá að leggja borginni lið við t.d. endurskipulagningu til að ná meiri skilvirkni.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. desember 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hækkun leigu hjá Félagsbústöðum, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. nóvember 2023. VEL23110024.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um fyrirhugaða hækkun leigu hjá Félagsbústöðum en til stendur að hækka leigu hjá Félagsbústöðum umfram vísitölu neysluverðs og umfram verðlag árið 2024. Spurt var hvort fyrirhuguð hækkun hafi verið rædd við leigjendur og ef svo er hver voru þeirra viðbrögð? Hækkun er um nokkur þúsund. Leigjendur Félagsbústaða er efnalítið fólk og munar því um hvern þúsundkall. Fram kemur að búið sé að senda öllum leigjendum Félagsbústaða bréf um breytingarnar sem taka eiga gildi 1. janúar 2024. Ekki kemur fram hvernig viðbrögð leigjenda hafa verið við þessum tíðindum. Í tengslum við þetta mál vill Flokkur fólksins nefna að öllum skuldum leigjenda er umsvifalaust beint til Motus í innheimtu. Flokkur fólksins hefur fréttir af því að þar séu skuldir margra að vaxa og fær fólk engu við ráðið því flestir hafa einfaldlega ekki peninga til að greiða leiguna sem vex hratt í höndum innheimtulögfræðinga. Verðbólga hefur leitt til þess að fólk fær minna fyrir krónuna. Því miður er Reykjavíkurborg áhrifaaðili í að viðhalda verðbólgunni með því að hækka allar gjaldskrár. Hækkanir fara beint út í verðlagið og auka þannig verðbólgu.

    Fylgigögn

  21. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið hafi milligöngu um að fá kynningu frá BUGL fyrir velferðarráð um þær leiðir sem BUGL fór til að stytta biðlista barna eftir þjónustu. Tillagan er byggð á jákvæðu svari velferðarsviðs við fyrirspurn Flokks fólksins um aðferðafræði BUGL við styttingu biðlista. Í svarinu segir: “ Ef velferðarráð óskar eftir því að fá ítarlegri upplýsingar um þjónustu BUGL og þær leiðir sem farnar hafa verið til að stytta biðlista er velferðarsvið reiðubúið til að hafa milligöngu um að útvega slíka kynningu”. Hér með leggur  fulltrúi Flokks fólksins  þess vegna til að velferðasvið fá fund með BUGL til að kynnast aðferðum þeirra við að stytta biðlista og í kjölfarið haldi kynningu um það í ráðinu. VEL23120017.

    Frestað. 

  22. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að vangreiddar leiguskuldir einstaklinga á sambýlum eða íbúðakjörnum verði ekki sendar til Motus eða annarra kröfufyrirtækja. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fyrst hafi leigusalinn sem er í flestum tilfellum Félagsbústaðir samband við forstöðumenn úrræðanna.  Það hefur borið á því að veikir íbúar á sambýlum hafi komið sér í miklar skuldir við Motus vegna húsaleiguskulda. Þessar kröfur valda þessum einstaklingum oft miklum kvíða og gerir viðkvæma stöðu þeirra mun verri. Það þarf því að koma í veg fyrir að íbúar á sambýlum komi sér í ofurskuld hjá Motus eða öðrum kröfufyrirtækjum vegna húsaleiguskulda. Um leið og krafa er komin í Motus þá dettur skuldin út  úr heimabankanum. Forstöðumenn búsetuúrræða aðstoða oft á tíðum íbúa við að greiða skuldir sínar í heimabanka. Um leið og krafa er komin í Motus þá dettur skuldin úr heimabanka og það gerir forstöðumönnum enn erfiðara fyrir að aðstoða skjólstæðinga við að greiða skuldir sínar. VEL23120018.

    Frestað.

  23. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um leigubílakostnað velferðarsviðs árið 2022 og 2023.  Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir ástæðum leigubílanotkunar og því óskar fulltrúi Flokks fólksins á skýringa á helstu ástæðum fyrir notkun leigubíla á sviðinu. VEL23120020.

     

  24. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um kostnað velferðarsviðs við leigu á gistiheimilum á þessu ári  þ.e. 2023. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar um að það hafi færst í vöxt að velferðarsvið greiði háar fjárhæðir fyrir gistiheimili vegna fjölskyldna sem hafa ekki í nein hús að venda. Starfsmenn Reykjavíkurborgar sem vinna náið með fjölskyldum í þessari stöðu telja að þessi þróun muni aukast vegna slæmrar stöðu á húsnæðismarkaði. VEL23120021.

Fundi slitið kl. 16:23

Magnea Gná Jóhannsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þorvaldur Daníelsson Magnús Davíð Norðdahl

Sandra Hlíf Ocares Ellen Jacqueline Calmon

Helga Þórðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 6. desember 2023