Velferðarráð - Fundur nr. 462

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 18. október var haldinn 462. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:11 í Tindstöðum, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á skýrslu nefndar um heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og tillögu borgarstjóra um eftirfylgni á skýrslunni, sem samþykkt var á fundi borgarráðs, sbr. bréf skrifstofu borgarstjórnar og borgarritara, dags. 12. október 2023. MSS23090194.

    Þorsteinn Gunnarsson, borgarritari, og Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð tekur heilshugar undir ályktun borgarstjórnar frá 17. október og biður börn sem vistuð voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og fjölskyldur þeirra afsökunar á illri meðferð og því óréttlæti sem lýst var í skýrslu vöggustofunefndar. Velferðarráð felur framkvæmdastjóra Barnaverndar að rýna hvort starfsmenn þeirra hafi nægilegt svigrúm og tíma til að vinna hvert og eitt mál í samræmi við ákvæði laga og reglna. Í því felst að viðmið séu til staðar um takmörkun málafjölda á hvern sérfræðing. Að til staðar sé sérhæfð þekking í mati, greiningu, meðferðaráætlun og eftirfylgd. Eins hvort að næg sí- og endurmenntunartækifæri séu til staðar sem og hvort framboð af stuðningsúrræðum til að styrkja börn og fjölskyldur þeirra sé nægt. Velferðarráð felur sviðsstjóra að undirbúa umsögn velferðarráðs.

    Samþykkt. 

     

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 18. október 2023, um vetraráætlun neyðarskýla velferðarsviðs. VEL23100028.

    Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að útfæra tillögu um rekstur tímabundins dagsathvarfs fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem yrði opið í desember 2023 – febrúar 2024. Reynsla af þessari opnun yrði tekin saman til að nýta í áframhaldandi þróun úrræða fyrir þennan hóp fólks.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að unnið er að nákvæmari skilgreiningu á markhópi neyðarskýlanna og áhersla er lögð á að engum heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir verði vísað frá. Það voru ömurlega fréttir þegar einstaklingi sem leitaði skjóls í neyðarskýli var vísað út á guð og gaddinn. Undir engum kringumstæðum á að vísa gestum neyðarskýla borgarinnar út. Það eiga í raun ekki að vera neinar undantekningar á því nema þá að búið sé að finna viðkomandi annað skjól eða tryggja að viðkomandi sé kominn undir þak. Einnig er tekið undir að þörf er á aukinni aðkomu fagaðila á stigi neyðarþjónustu svo notendur fái viðeigandi ráðgjöf og stuðning í nærumhverfi um leið og neyðarþjónusta hefst.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 18. október 2023, um beiðni SSH um aðkomu sveitarfélaganna að þjónustu VoR-teymis og mögulegri vetraropnun sérstaks neyðarskýlis:

    Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til samninga við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) vegna beiðni þeirra um aðkomu sveitarfélaganna að þjónustu VoR-teymis og vetraropnunar sérstaks neyðarskýlis. Áætlaður kostnaður sveitarfélaganna að þjónustu vettvangshluta VoR-teymis, miðað við tvö stöðugildi, er metinn á 22 m.kr. á ári. Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna vetraropnunar í tvo mánuði er metinn 15 m.kr. Áætlaður kostnaður SSH yrði því 6 m.kr. miðað við hlutfallslega skiptingu íbúafjölda sveitarfélaganna.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23100039.

    Frestað.

    Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar beiðni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um aðkomu að rekstri VoR-teymis enda mikilvægt að þjónusta við heimilislausa á höfuðborgarsvæðinu sé samræmd. Eðlilegt er þó að kostnaðarskiptingu við rekstur VoR-teymisins sé skipt á milli sveitarfélaga í samræmi við íbúahlutfall eins og að jafnaði er gert í samvinnuverkefnum SSH. Þá er áréttað að mikilvægt er að kostnaður endurspegli raunkostnað við þjónustu í málaflokknum.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á málefnum eldra fólks í Reykjavík. Einnig lagt fram uppfært erindisbréf stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks til ársins 2026. VEL23100032.

    Sara Björg Sigurðardóttir, formaður öldungaráðs, Ingibjörg Óskarsdóttir, fulltrúi í öldungaráði, Ingibjörg Sverrisdóttir, fulltrúi í öldungaráði og Viðar Eggertsson, fulltrúi í öldungaráði, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þökkum góða kynningu á þjónustu við eldra fólk í Reykjavík. Ljóst er að það þarf að fara í umfangsmikla stefnumótun í málaflokknum til að mæta fjölgun í hópi eldra fólks sérstaklega m.t.t. uppbyggingar á þjónustuúrræðum svo sem hjúkrunarheimilum. Í velferðarráði er nú starfandi stýrihópur sem marka á stefnu í málefnum eldra fólks í Reykjavík. Þar verður farið heildstætt yfir málaflokkinn og stefna lögð fram til samþykktar í velferðarráði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á fjármögnun unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 12. lið fundargerðar borgarstjórnar 19. september 2023. MSS23090119.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Velferðarráð leggur til að fjárframlög haldist óbreytt til Keðjunnar á næsta ári í því skyni að tryggja óbreytta starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar. Er velferðarsviði falið að hagræða innan sviðs til þess að ná því markmiði.

    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að velferðarráð hafi ákveðið að hætta við skerðingu á þjónustu unglingasmiðjanna Stígs og Traðar. Flokkur fólksins hefur ávallt mótmælt skerðingu á þessari þjónustu í sparnaðarskyni. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa tekið á móti unglingum sem hafa orðið fyrir einelti, sýna einkenni kvíða og þunglyndis og eru með slaka sjálfsmynd. Starfsemi smiðjanna hefur verið ómetanleg fyrir þennan hóp unglinga.

    Fylgigögn

  6. Drög að umsögn um tillögu mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um samráðsvettvang um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldi. MSS23060018.

    Frestað.

  7. Lagt fram svarbréf borgarstjóra, dags. 9. október 2023, við beiðni Mosfellsbæjar vegna heimahjúkrunar og heimaþjónustu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. MSS23100028.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  9. Lagt er til að Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir taki sæti sem aðalfulltrúi í áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Sönnu Magdalenu Mörtudóttur. Sanna Magdalena Mörtudóttur verði annar varamaður í stað Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur. VEL22060021.

    Samþykkt.

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 18. október 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um milligöngu velferðarsviðs vegna leigusamninga á almennum markaði, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 20. september 2023. VEL23090068.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurði um milligöngu velferðarsviðs vegna leigusamninga á almennum markaði. Jafnframt var spurt hvort velferðarsvið velji leigjendur og gangist þá í ábyrgð fyrir þá. Samkvæmt svari þá aðstoðar velferðarsvið einstaklinga sem hafa stöðu flóttafólks í Reykjavík við að leita sér að húsnæði og aðstoðar einstaklingana við að eiga í samskiptum við leigusala. Velferðarsvið upplýsir að þegar flóttafólk gerir samning um leigu húsnæðis á almennum markaði gilda um þá samninga sömu reglur og um aðra húsaleigusamninga á almennum leigumarkaði, samkvæmt húsaleigulögum. Reykjavíkurborg er ekki aðili að slíkum leigusamningum og hefur því ekki heimild til að hafa afskipti af slíkum samningum. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið en telur mikilvægt að leigusalar séu vel upplýstir um þessar reglur. Góð upplýsingagjöf til leigusala gæti minnkað líkur á atviki því sem kom fram í fyrirspurn Flokks fólksins þar sem leigusali lenti í vandræðum með að endurheimta íbúð sína.

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að foreldrar með aðþrengdan fjárhag geti sótt um sérstakan styrk til að greiða fyrir frístundardvöl barna sinna í stað þess að nota frístundastyrkinn sem er ætlaður til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Staðan í dag er þannig að í tilfellum 1020 barna er frístundakortið þeirra notað til að greiða fyrir frístundaheimili og í tilfellum 150 barna er frístundastyrkurinn þeirra notaður til að greiða fyrir íslenskukennslu. Frístundakortið var hugsað frá upphafi sem styrkur til að auka jöfnuð og gefa börnum tækifæri til tómstunda- og íþróttaiðkunar að eigin vali óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23100046.

    Frestað.

    Fylgigögn

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg komi sér upp húsnæði sem neyðarúrræði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem missa húsnæði og lenda á götunni. Það hefur færst í vöxt að Reykjavíkurborg greiði háar upphæðir til gistiheimila vegna fjölskyldna sem bornar eru út af heimili sínu. Gistiheimili getur kostað allt að 500.000 kr. á viku fyrir fjölskyldu. Starfsmenn Reykjavíkurborgar sem vinna náið með fjölskyldum telja að þessi þróun muni aukast vegna slæmrar stöðu á húsnæðismarkaði. Reykjavíkurborg gæti sparað háar fjárhæðir með því að hafa eigið neyðarhúsnæði í stað þess að greiða gistiheimilum  himinháar fjárhæðir. VEL23100047.

    Frestað.

  13. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu mörgum hefur verið vísað frá og/eða neitað um þjónustu sem leitað hafa til miðstöðva Reykjavíkurborgar síðastliðinn áratug? Og hverjar eru ástæður þess að viðkomandi er vísað frá? Hversu oft hefur verið kallað eftir aðstoð lögreglu á miðstöðvar Reykjavíkurborgar síðastliðinn áratug? Hverjar eru ástæður þess að leitað er aðstoðar lögreglu? Fer fram einhvers konar atvikaskráning í kjölfar þess að leitað er aðstoðar lögreglu? VEL23100048.

     

  14. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margar heimildir til reksturs hjúkrunarrýma hefur Reykjavík gefið frá sér síðastliðinn áratug? VEL23100049.

Fundi slitið kl. 16:45

Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þorvaldur Daníelsson Magnea Gná Jóhannsdóttir

Magnús Davíð Norðdahl Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Helga Þórðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 18. október 2023