Velferðarráð - Fundur nr. 461

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 4. október var haldinn 461. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Helga Þórðardóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir,  Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

    -    kl. 13:21 tekur Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum.

  2. Fram fer kynning á niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. VEL23090087.

    Ragný Þóra Guðjohnsen, faglegur stjórnandi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir góða kynningu á Íslensku æskulýðsrannsókninni. Rannsóknin leiðir í ljós stöðu ungs fólks og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag og er góð brýning fyrir alla stefnumótun í málaflokknum. Mælaborðið mun þá vera gagnlegt tól til að meta hvort við erum að leggja réttar áherslur í málaflokkum er varða ungt fólk og hvort samfélagið okkar er að þróast í rétta átt.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar velferðaráði fyrir að bregðast svo skjótt við tillögu Flokks fólksins um kynningu á niðurstöðum á Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar. Rannsóknin er viðamikil og hún gefur góða yfirsýn yfir hegðun, stöðu og líðan barna og ungmenna. Sérstaklega er fulltrúa Flokks fólksins brugðið við að sjá hvað líðan unglingsstúlkna er slæm. Það birtist m.a. í því að 23% stúlkna hafa skaðað sig í 10.bekk. Sorglegt er að sjá hvað kynferðislegt áreiti er mikið hjá ungmennum bæði frá fullorðnum og jafnöldrum. Það var sláandi að sjá að 58% stúlkna í 10.bekk hafa orðið fyrir stafrænni kynferðislegri áreitni og 35% drengja. Unglingsstúlkur eru meira einmana og þær telja sig eiga færri vini en drengir. Unglingsstúlkur eru mun háðari samfélagsmiðlum en drengir. Börn af erlendum uppruna lenda frekar í einelti og eiga erfiðara með að eignast vini og strákar af erlendum uppruna lenda frekar í slagsmálum. Velferðaryfirvöld verða að taka þessar niðurstöður alvarlega og hlúa sérstaklega að þessum hópum sem koma hvað verst út í þessari rannsókn. Langir biðlistar barna eftir skólaþjónustu, nú 2300 börn segja okkur hvað staðan er alvarleg og mun Flokkur fólksins ekki una sér hvíldar fyrr en tekið verði á þessum langa biðlista barna eftir aðstoð.

  3. Fram fer kynning á niðurstöðum stjórnendakönnunar um stoðþjónustu velferðarsviðs. VEL23090086.

    Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, og Guðjón Örn Helgason, mannauðsráðgjafi á skrifstofu mannauðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Margt er mjög áhugavert í þessari stjórnendakönnun. Sumar niðurstöður eru jákvæðar en aðrar miður jákvæðar. Aðeins tæplega helmingur telur sig komast yfir verkefni sín svo vel megi vera og enn færri geta sinnt umbótastarfi og þróun. Yfir 70% eru ánægðir sem stjórnendur. Skrifstofa stjórnsýslu er að koma einna verst út á flestum kvörðum og einnig fjármálaskrifstofa. Það eru ekki nýjar niðurstöður. Ef horft er á málaflokk fatlaðs fólks og spurt hversu reglulega leitar þú til fagskrifstofu/stoðþjónustu er minnst leitað til stjórnsýslu. Sama má segja um málaflokk eldra fólks sem 100% leita sjaldnar til stjórnsýslu. Þetta hlýtur að teljast alvarlegur áfellisdómur á skrifstofu stjórnsýslu? 21% telja sig aldrei fá nauðsynlegar upplýsingar til að sinna starfi sínu í málaflokki eldra fólks frá stjórnsýsluskrifstofunni. Ábendingar eru að það vanti samráð, upplýsingaflæði og betri samskipti. Erfitt er að vita hvert á að leita. Skortur er á yfirsýn og ábyrgðarsviði deilda. Ekki er tekið nógu vel á móti nýjum stjórnendum. Um 75% segja mikið álag í starfi vegna málefna íbúa og mannauðsmála. Þetta á við um fatlað fólk en þar kvarta 81% yfir miklu álagi. Sama er í málaflokki eldra fólks. Heilt yfir virðast stjórnendur í sumum málaflokkum vera að sligast. Þessar niðurstöður eru dökkar.

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 4. október 2023, um fjölgun samninga um NPA, ásamt fylgiskjali:

    Lagt er til að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) verði fjölgað um 14 frá og með 1. nóvember 2023. Kostnaður á árinu 2023 vegna fjölgunar samninga er metinn 80 m.kr. að teknu tilliti til 25% mótframlags frá ríki. Kostnaður á árinu 2024 vegna fjölgunar samninga nemur 481 m.kr. að teknu tilliti til 25% mótframlags frá ríki. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23090085.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og er markmið þjónustunnar að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi og hafi val um hvernig aðstoðinni við það er háttað. Í því ljósi telja fulltrúar meirihlutans gríðarlega mikilvægt að samþykkja aukningu á samningum um NPA til þess að veita megi fleiri þjónustu sem bíða eftir henni. Mikilvægt er að réttindi fatlaðs fólks séu virt í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að öll þau sem eiga rétt á NPA samningi fái slíkt án þess að bíða til lengdar. Samningum um NPA hefur ekki verið fjölgað í Reykjavík frá árinu 2021. Í Reykjavík eiga 44 manneskjur samþykkta umsókn um NPA og bíða eftir að þjónusta geti hafist. Það er óásættanlegt að fólk sé látið bíða til lengdar. Mikilvægt er að ríkið taki þátt í kostnaði og að öllu fólki sé tryggð sú lögbundna þjónusta sem það á rétt á.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2024. Trúnaðarmál. VEL23090056.

    Vísað til fjárhagsáætlunargerðar. 

  6. Drög að umsögn velferðarráðs um drög að tillögu mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um samráðsvettvang um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldi. MSS23060018.

    Frestað.

  7. Lögð fram til kynningar umsögn velferðarsviðs um skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. VEL23090009.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins um viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum borgarinnar, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 24. maí 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 14. september 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 15. september 2023. MSS22050218.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að tillögunni sé vísað frá. 

    Málsmeðferðartillagan er felld með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn tekur undir með sérfræðingum velferðarsviðs að þessum stöðugildum sé best fyrir komið innan vettvangs miðstöðva Reykjavíkurborgar. Á grundvelli verkefnisins Betri borg fyrir börn vinnur nú saman öflugt teymi fagaðila innan miðstöðvanna sem tryggir mikilvæga þverfaglega samvinnu í málefnum barna og stuðning við skólastarf. Vandamálið liggur ekki í fastri viðveru í hverjum skóla heldur í þeim aðstæðum að skortur er á sálfræðingum. Umrætt mannauðsmál er hið sama og heilbrigðiskerfið glímir við. Föst viðvera í skólum er ekki tæk við núverandi aðstæður. Tillagan eins og hún er úr garði gerð er ekki til þess fallin að auka aðgengi barna að sálfræðingum. Meirihluti velferðarráðs telur engu að síður mikilvægt að börn hafi aðgang að viðtalsráðgjöf sem er meðal annarra innt af hendi  af sálfræðingum.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að bæta aðgengi ungmenna að sálfræðiþjónustu. Í umsögn við tillöguna kemur fram að stöðugildum sálfræðinga hefur nær ekkert fjölgað í mörg ár, þar sem það kemur fram að stöðugildi sálfræðinga á miðstöðum hafi verið nær óbreytt frá árinu 2005 þegar þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs voru settar á stofn. Þá voru í júlí 2022 1297 mál á bið eftir þjónustu sálfræðinga. Mikilvægt er að bæta aðgengi að sálfræðingum og tryggja að slík þjónusta sé í nærumhverfi ungmenna, líkt og þau hafa verið að kalla eftir.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í umsögn við tillögu Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins um viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum borgarinnar er tekið undir að auka þurfi stöðugildi sálfræðinga. Stöðugildum hefur ekki fjölgað í áratug. Í umsögninni er lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og mikilvægi þess að veita ráðgjöf til starfsfólks og foreldra.  Hvergi er nefnt aðgengi barnanna sjálfra að sálfræðingum. Í skólasamfélaginu er hávært ákall um að fá sálfræðingana meira inn í skólana og að börnin fái beinan aðgang að þeim. Flokkur fólksins minnir á tillögur ungmennaráða Árbæjar og Holta; og  Laugardals, Háaleitis og Bústaða um aukið aðgengi að sálfræðingum skólanna.  Með Betri borg fyrir börn hefur aðstoð við starfsfólk gegnum lausnateymi komið til, sem er gott. En hvað með börnin sjálf? Eiga þau ekki að fá að tala við sálfræðing? Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá aðsetur sálfræðinga vera í skólunum. Þaðan geta þau sinnt þverfaglegu starfi allt eins vel m.a. í gegnum fjarfundi.

     

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að aðsetur sálfræðinga verði flutt í skóla borgarinnar, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 14. september 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 15. september 2023. VEL22060057.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihluta í velferðarráði taka undir með umsögnum velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs þar sem talið er nauðsynlegt sé að skapa vettvang fyrir þverfaglega samvinnu í miðstöð og þar sem skólasálfræðingar gegna mikilvægu hlutverki. Ef sálfræðingar væru alfarið úti í skólum myndu glatast tækifæri til þverfaglegrar samvinnu sem kæmi niður á heildstæðri þjónustu og ráðgjöf vegna barna. Engu að síður er mikilvægt að börn hafi aðgang að viðtalsráðgjöf sem er meðal annarra innt af hendi af sálfræðingum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagðar eru fram umsagnir skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs við tillögu Flokks fólksins um aðsetur skólasálfræðinga í skólum. Tillagan er meira en árs gömul og eru það ámælisverðir stjórnsýsluhættir. Bæði svið telja ekki ástæðu til að sálfræðingar séu með aðsetur út í skólum og séu betur komnir á miðstöðvum til að þeir geti sinnt þverfaglegu starfi. Þessari forgangsröðun hafnar fulltrúi Flokks fólksins. Börnin eiga að koma fyrst og mestu skiptir að sálfræðingar séu staddir þar sem börnin eru. Ávallt er hægt að sinna þverfaglegu starfi með heimsókn út á miðstöð eða með fjarfundabúnaði. Annað sem slær illa í þessu svari er að svo virðist sem allt kapp sé sett á að draga úr beiðnum til sálfræðinga. Beiðnir verða ekki til af neinu. Ef draga á úr beiðnum þarf að leysa undirliggjandi vanda barnanna. Að stoppa flæði erinda til sálfræðinga er ekki lausn fyrir barnið. Haldið er fram að það sé ekki pláss fyrir sálfræðinga út í skólum. Það er ekki rétt. Í mörgum skólum er pláss. Minnt er á ákall skólanna sjálfra um aukna nálægð fagfólks inni í skólum sem skýrt kom fram í skýrslu Innri endurskoðunar 2019.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um sjálfkrafa breytingar húsnæðisbóta, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023. MSS23070093.

    Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg fylgir í hvívetna leiðbeiningum fyrir sveitarfélög um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Reykjavíkurborg hefur ekki séð ástæðu til þess að bregðast öðruvísi við en með þeim hætti.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er staðreynd að húsaleiga hefur hækkað mikið eða um 45% umfram verðlag. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að það verði skoðað hvort hægt sé að framkvæma þessa tillögu. Lagt er til að borgarráð samþykki að hækka sérstakar húsnæðisbætur sjálfkrafa í hverjum mánuði, þannig að verðgildi þeirra haldist í við vísitölu húsaleigu. Byrjað verði á því að stilla bæturnar inn á raungildi sitt frá því árið 2016. Árið 2016 var hámarksfjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings 82.000 kr. og sé verðgildi þeirrar upphæðar reiknuð fram til dagsins í dag, samsvarar hún 111.000 kr. Í dag er hámarksfjárhæðin 100.000 kr. svo húsnæðisstuðningurinn hefur ekki haldist í við vísitölu húsaleigu. Þetta er sanngjörn og eðlileg tillaga að mati Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 4. október 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um breytingar á húsnæði leigjenda Félagsbústaða og bætt aðgengi þegar fötlun fólks eykst, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 30. ágúst 2023. VEL23080027.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins spurðist fyrir um hvort Félagsbústaðir brygðust við og gerðu breytingar á húsnæði leigjenda þegar fötlun þeirra eykst með það að markmið að bæta aðgengi. Í svari segir meðal annars að þegar aðstæður fatlaðs leigjanda breytast þannig að íbúðin sem viðkomandi er með í leigu hentar ekki lengur er almenna reglan sú að hvert mál fyrir sig er skoðað. Fulltrúi Flokks fólksins veit dæmi þess að í máli af þessu tagi var fötluðum leigjanda Félagsbústaða gert að flytja úr íbúðinni en þar hafði hann dottið. Honum var ekki boðið að búa annars staðar meðan á lagfæringu íbúðar stóð og koma að því loknu aftur heim til sín. Þessi afgreiðsla var ekki í samráði við leigjandann. Ef meta á hvert tilfelli fyrir sig þá hefði átt að finna aðra lausn á þessu máli. Flokkur fólksins vonar að þetta dæmi sé einsdæmi. Um er að ræða heimili fólksins, stað sem það hefur bundið tengsl við og allt á að gera til að fólk geti verið áfram á sínu heimili.

    Fylgigögn

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að ferðaþjónusta íbúa á hjúkrunarheimilum verði tekin á dagskrá velferðarráðs eins fljótt og auðið er. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ótækt að fatlaðir einstaklingar á hjúkrunarheimilum fái ekki akstursþjónustu til að viðhalda tengslum við vini og fjölskyldu. Í dag hafa íbúar hjúkrunarheimila eingöngu rétt á akstursþjónustu til að sækja læknaheimsóknir. VEL23100014.

    Frestað.

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins óskar eftir því að fá á dagskrá velferðarráðs rétt maka íbúa hjúkrunarheimila til akstursþjónustu til að heimsækja maka sinn. Margir eldri borgarar þurfa að sjá á eftir maka sínum flytja á hjúkrunarheimili. Makinn getur verið í þeim sporum að eiga ekki bíl og jafnvel búinn að missa færni til að aka bíl. Það er gríðarlega mikilvægt að ferðir þessara einstaklinga séu ekki háðar takmörkunum. VEL23100015.

    Frestað.

  14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðaryfirvöld rýmki reglur um ættingjaráðningar þegar kemur að því að ráða stuðningsfjölskyldur fyrir börn sem þess þurfa og hafa fengið samþykki fyrir. Mörg rök hníga að því að með því sé verið að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst leiðbeiningar og reglur um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu of strangar. Reglurnar segja að ættingjaráðningar séu einungis heimilar í undantekningartilfellum. Almennt skyldi halda að það séu augljósir hagsmunir barnsins að ættingjar annist umönnun þess og að það sé barninu fyrir bestu að vera sem mest hluti af sínum ættingjagarði. Ef ættingi getur tekið að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu þegar slíkar aðstæður eru mætti ætla að það væri betra en að ókunnug fjölskylda annist barnið. Það er allt of mikil harka af hálfu borgarinnar að afar og ömmur og systkini foreldra megi ekki vera stuðningsfjölskyldur nema í undantekningartilfellum. Rök velferðaryfirvalda eru að hætta sé á að ættingja ráðningar verði misnotaðar. Við í Flokki fólksins teljum  að sé  óþarfa tortryggni. Við eigum að treysta borgarbúum eins og  önnur sveitarfélög gera. Reykjavík er einsdæmi í þessu þegar kemur að sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. VEL23100016.

    Frestað.

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins spyr hvort velferðarsvið geti  hugsað sér að skoða þá leið sem farin hefur verið á BUGL en þeim hefur tekist farsællega að stytta biðlista. Lagt er til að velferðaryfirvöld leiti til starfsfólks BUGL um leiðbeiningar og ráðgjöf hvernig stytta megi biðlista svo farsællega sem þeim hefur tekist að gera það. Tekist hefur að stytta biðlista umtalsvert þar með skipuritsbreytingum sem gerðu það að verkum að starfsfólk BUGL gat farið í nauðsynlega innri endurskoðun á ferlum og þjónustu við börn. Það sem gert var á BUGL var að vinnulagi var töluvert breytt og það skilaði árangri. Meðal biðtími hjá BUGL er um fimm mánuðir en hjá borginni jafnvel mörg ár. Reykjavíkurborg hefur vissulega breytt sínu kerfi og nýtur starfsfólk einna helst góðs af því í gegnum lausnateymi og málastjóra en börnin sjálf fá ekki að hitta sálfræðing eins og áður. Biðlisti borgarinnar í dag er 2.380. Á tveimur árum hefur biðlisti eftir fagfólki skólaþjónustu lengst verulega en 2021 biðu 1448 börn eftir fagþjónustu skólaþjónustunnar. Á fjórða hundrað barna bíða eftir að komast á helstu námskeið á vegum borgarinnar s.s. PMTO foreldranámskeið, Klóka krakka og fleiri námskeið. VEL23100017.

  16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um aðgengi borgarbúa að starfsfólki miðstöðva. Hvað mörg erindi berast með síma , í tölvupósti  og í rafrænni ábendingargátt.  Hvað mörg erindi berast í afgreiðslum stöðvanna á opnunartíma? Hvernig gengur að fylgja málshraðareglu stjórnsýslulaga og hvernig er eftirfylgni háttað? VEL23100018.

Fundi slitið kl. 16:16

Magnea Gná Jóhannsdóttir Sandra Hlíf Ocares

Magnús Davíð Norðdahl Sanna Magdalena Mörtudottir

Helga Þórðardóttir Þorvaldur Daníelsson

Ellen Jacqueline Calmon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 4. október 2023