Velferðarráð - Fundur nr. 459

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 6. september var haldinn 459. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgarúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Sandra Hlíf Ocares, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Magnús Davíð Norðdahl. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, um breytingu á leiguverðslíkani Félagsbústaða, ásamt fylgiskjali:

    Lagt er til að breyta leiguverðslíkani Félagsbústaða með þeim hætti að endurskoða núverandi líkan, fjölga leiguverðsstuðlum úr fjórum í 65 og byggja á fasteignamati 2024. Sett verður þak á fasteignamat í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23080023.
    Samþykkt.
    Fulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að breyta leiguverðslíkani Félagsbústaða því að núgildandi verðlíkan byggir á fasteignamati frá árinu 2017 og mismikil hækkun hefur verið á fasteignamati á milli borgarhluta. Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal. Það er jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Breytingin mun hafa áhrif á 2.649 leigjendur, og hækkar leiga hjá 1.538 leigjendum um fjárhæð á bilinu 0-36.000 kr. og alls lækka 1.111 leigjendur um sömu fjárhæðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5,5% leigjenda þar sem leigan mun hækka um meira en 12.000 kr. á mánuði. Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokkur fólksins hvetur Félagsbústaði til að sýna sveigjanleika þar sem leigjendur eru í miklum erfiðleikum og jafnframt tilkynna leigjendum þessa breytingu sem fyrst svo fólk geti gert ráðstafanir. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að vangreidd leiga sé send lóðbeint til lögfræðinga Motus. Leigjendur Félagsbústaða er viðkvæmur hópur og margir eru efnalitlir og fátækt fólk.

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þau sjónarmið sem liggja að baki breytingunum á leiguverðslíkani Félagsbústaða eru málefnaleg og prýðilega rökstudd að mati fulltrúa Vinstri grænna. Þó er ljóst að endurskoðunin kann að reynast einstökum leigjendum þungbær. Um er að ræða hóp sem er yfirleitt í þröngri fjárhagslegri stöðu. Afar brýnt er að við framkvæmdina verði þess gætt að grípa inn í þau mál þegar leigjendur fara illa út úr hækkunum, líkt og tillagan gerir raunar ráð fyrir.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á verkefninu ELLA. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, um starfsemi verkefnisins ELLA frá október 2020 til ágúst 2023. VEL23090003.

    Ólöf Karitas Þrastardóttir, félagsráðgjafi, Sandra Óskarsdóttir, uppeldis- og virkniráðgjafi, Margrét Magnúsdóttir, deildarstjóri virkni og ráðgjafar á Austurmiðstöð, Hulda Sólrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri barna- og fjölskyldumála á Austurmiðstöð, og Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri húsnæðis- og búsetuþjónustu á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    kl. 14:05 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Unnur Þöll Benediktsdóttir tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á niðurstöðum þjónustukannana meðal notenda verkefnisins ELLA frá janúar og ágúst 2023. VEL23090004.

    Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnisstjóri í teymi árangurs- og gæðamats, Ólöf Karitas Þrastardóttir, félagsráðgjafi, Sandra Óskarsdóttir, uppeldis- og virkniráðgjafi, Margrét Magnúsdóttir, deildarstjóri virkni og ráðgjafar á Austurmiðstöð, Hulda Sólrún Guðmundsdóttir, deildarstjóri barna- og fjölskyldumála á Austurmiðstöð og Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri, húsnæðis- og búsetuþjónustu á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Úrræðið ELLA hefur sannað gildi sitt eins og niðurstöður kannanna meðal notenda sýna. Meirihluta velferðaráðs finnst mikilvægt að ELLA starfi áfram og fái tækifæri til að vaxa og dafna.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árangursmatið á verkefninu ELLA er greinilega mjög jákvætt. Niðurstöður kannanna meðal notenda sýna að mæðurnar upplifa mikinn félagslegan og uppeldislegan stuðning í úrræðinu. Þátttaka í úrræðinu hefur haft jákvæð áhrif á andlega líðan þeirra og þær upplifa að ráðgjöfin sé að mæta þörfum þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað leigjendur hafa gott aðgengi að ráðgjöfum sem auðvelda þeim aðgengi að stuðningi og/eða þjónustu fyrir börnin þeirra og hversu mikil áhersla er lögð á stuðning við mæðurnar í foreldrahlutverkinu. Flokkur fólksins telur að það ætti að fjölga úrræðum því biðlistinn er langur en það eru jafn margir á biðlista og nýta sér úrræðið.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. VEL23090009.

    Arnar Haraldsson, ráðgjafi hjá HLH ráðgjöf, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar niðurstöðum stýrihópsins og tekur undir tillögur hans að uppbyggingu og útfærslu úrræða fyrir Barna- og fjölskyldustofu á þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Mikilvægt er að ríkið láti hendur standa fram úr ermum í þessum málum og komi vinnu við uppbyggingu á þessum úrræðum af stað sem fyrst. Mikilvægt er í þessari vinnu að skýrt sé hvernig kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga vegna þessara þjónustu sé og verði þeirri vinnu flýtt eins og kostur er.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, um breytt fyrirkomulag á starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að opnunartími unglingasmiðja velferðarsviðs, Stígs og Traðar, verði styttur um tvær klst. á viku, að frágangstími starfsfólks verði styttur um fjórar klst. á viku og að frágangstími í Unglingabrú velferðarsviðs verði styttur um hálfa klst. á viku. Jafnframt að í stað forstöðumanns í fullu starfi verði ráðnir inn tveir forstöðumenn/teymisstjórar í 50% starf í hvora smiðju sem ganga vaktir að jafnaði tvö kvöld í viku með starfsteyminu. Einnig er lagt til að auk 8.-10. bekkjar verði smiðjur opnar börnum í 7. bekk og að samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs verði eflt með reglubundnum samráðsfundum forstöðumanna/teymisstjóra og forstöðumönnum félagsmiðstöðva sem og að forstöðumenn/teymisstjórar Stígs og Traðar verði í samstarfi við forstöðumann Helgarsmiðjunnar, en þar dvelja fötluð börn daglangt um helgar. Kostnaður vegna tillögunnar er enginn en með henni er náð fram u.þ.b. 12,7 m.kr. hagræðingu í rekstri á ári.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23010012.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

    Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stytta á opnunartíma unglingasmiðjanna Stígs og Traðar og í stað tveggja forstöðumanna í fullu starfi verða forstöðumenn/teymisstjórar í 50% starfi. Með þessari breytingu næst hagræðing upp á 12,7 m.kr. á ári. Flokkur fólksins fagnar því vissulega að það hafi verið hætt við að loka þessum smiðjum en finnst að þessi sparnaðarupphæð sé ekki mikil í stóra samhenginu. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað halda áfram óbreyttri starfsemi því svona rask hlýtur að hafa slæm áhrif á þá sem hafa nýtt sér þessi úrræði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þó jákvæð breyting að nú geta börn í 7. bekk sótt um í unglingasmiðjunum en það hefur verið mikið ákall um að þessi aldurshópur fái þessa þjónustu eins og ungmennin í 8- 10 bekk. Þegar á þetta mál allt er litið hefur óheyrilegur tími og kostnaður farið í það hvernig klípa megi nokkrar krónur af þessu frábæra úrræði eins og hvergi annars staðar sé hægt að spara. Flokkur fólksins mótmælti harðlega þegar meirihlutinn samþykkti þessa þjónustuskerðingu í sparnaðarskyni.

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna varar við því að skorið verði utan af þeirri mikilvægu þjónustu sem unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð inna af hendi. Sparnaður sá sem ætlað er að ná fram með þjónustuskerðingum og auknu álagi á starfsfólk er lítill í hinu stóra samhengi.

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram til kynningar leiðbeiningar um ráðningar ættingja sem stuðningsfjölskyldu, dags. 15. ágúst 2023. VEL23090008.

    Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Fram fer kosning í styrkjahóp velferðarráðs 2024. VEL23090002.
    Samþykkt að Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs, Sandra Hlíf Ocares og Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs taki sæti í hópnum
    Samþykkt að við úthlutun styrkja velferðarráðs úr borgarsjóði fyrir árið 2024 verði lögð áhersla á forvarnir.

  9. Kynningu á forsendum fjárhagsáætlunar velferðarsviðs 2024 er frestað. VEL23090006.

  10. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um leiðréttingu á fjárhagsaðstoð, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. júlí 2023. MSS23070051.
    Vísað til meðferðar stýrihóps um endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð. 

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um sjálfkrafa breytingar húsnæðisbóta, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023. MSS23070093.
    Frestað.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. september 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölgun fagfólks í skólaþjónustu, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí 2023. MSS23070103. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn á ný lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um hvort fjölga eigi stöðugildum sálfræðinga í ljósi þess að nú bíða 2515 börn eftir fagfólki skólaþjónustu, langflest eftir sálfræðingi. Velferðaryfirvöld segja nei, það á ekki að gera, þess sé ekki þörf því nú sé breytt verklag með tilkomu Betri borgar fyrir börn verkefnisins. Búið sé að draga úr greiningum og nú fái börn snemmtækan stuðning. Þetta er sama svarið og Flokkur fólksins hefur fengið í bráðum 5 ár. Árið 2018 biðu 400 börn en sá sami listi telur nú rúmlega 2500 börn. Af hverju hefur þessi listi margfaldast þrátt fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn og „snemmtæka stuðninginn“? Vandinn blasir við. Börn fá ekki beinan aðgang að sálfræðingi og fagfólki eins og áður eins og þau hafa margsinnis óskað eftir t.d. á nýafstöðnu farsældarþingi. Með nýja verklaginu í borginni hefur starfsfólk fengið meiri stuðning sem er gott eins langt og það nær. Fjölmargar skýrslur og rannsóknir undanfarin ár hafa birt það sama og kom fram á farsældarþinginu sem er að stórum hluta barna líður ekki nógu vel. Einn af hverjum þremur nemendum í tíunda bekk hefur til að mynda glímt við sjálfsvígshugsanir einu sinni eða oftar síðastliðna tólf mánuði.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að velferðarráð fái kynningu á nýrri æskulýðsrannsókn sem kynnt var á farsældarþinginu 4. september sl. Margar sláandi niðurstöður hafa verið birtar úr rannsókninni og þar ber helst að nefna versnandi líðan ungmenna. Kvíði,depurð og ofbeldi hefur aukist. Sérstaklega hefur andleg líðan unglingsstúlkna versnað. Meirihluti stúlkna í 10 bekk glímir við kvíða og það að 23% stúlkna í 10. bekk hafi skaðað sig vekur mikinn óhug. Fulltrúa Flokks fólksins þykir mikilvægt að velferðarráð rýni þessa skýrslu og við virkilega hugsum um hvaða ráð við höfum til að bregðast við þessari stöðu. VEL23090020.

    Samþykkt.

    -    kl. 16:05 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum. 

Fundi slitið kl. 16:09

Heiða Björg Hilmisdóttir Unnur Þöll Benediktsdóttir

Stefán Pálsson Helga Þórðardóttir

Sandra Hlíf Ocares Þorvaldur Daníelsson

PDF útgáfa fundargerðar
Velferðarráð 6.9.2023 - Prentvæn útgáfa