Velferðarráð
Ár 2023, miðvikudagur 7. júní, var haldinn 455. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.
-
Fram fer umræða um stöðuna í hádegisúrræðum Samhjálpar og Hjálpræðishersins. Lagður fram styrkjasamningur milli Reykjavíkurborgar og Hjálpræðishersins, um Samskonar verkefnið, dags. 13. maí 2022. Einnig lagður fram styrkjasamningur milli Reykjavíkurborgar og Samhjálpar, um þjónustu við rekstur Kaffistofu Samhjálpar, dags. 9. maí 2022. VEL23060011.
Edda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar, og Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi, Hjálpræðishernum á Íslandi, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Samhjálp og Hjálpræðisherinn starfrækja gott og mikilvægt starf fyrir jaðarsetta einstaklinga í samfélaginu þar sem meðal annars er boðið upp á heimilismat í hádegi að kostnaðarlausu. Mikil aukning hefur orðið sl. ár og eru afgreiddar mörg hundruð ókeypis máltíðir á mánuði. Eins og gefur að skilja hefur kostnaður aukist samhliða. Nú liggur fyrir að þjónustuþegar eru úr öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem styrkir þessi samtök til að geta veitt þessa þjónustu í gegnum þjónustusamning ár hvert. Velferðarráð Reykvíkurborgar skorar á hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með því að gera líkt og Reykjavíkurborg og styrkja samtökin með þjónustusamningi þannig að hægt sé að tryggja að allir sem þurfa á þessari þjónustu á höfuðborgarsvæðinu geti nýtt sér hana.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á MA rannsókn í kynjafræði við Háskóla Íslands: Reynslu kvenna af Konukoti. VEL23060007.
Kolbrún Kolbeinsdóttir, kynjafræðingur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á niðurstöðu MA rannsóknar í kynjafræði á reynslu kvenna af Konukoti. Rannsóknin sem sýnir reynslu kvenna af Konukoti er dýrmætt innlegg í stefnumótun í málaflokknum og brýnir fyrir okkur mikilvægi þess að konur geti leitað í öruggt og aðgengilegt neyðarskýli. Allar konurnar sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og sumar höfðu upplifað ofbeldi og vanrækslu sem börn. Sýnir það mikilvægi áfallamiðaðrar nálgunar í þjónustu við hópinn og mikilvægi snemmtækrar íhlutunar í lífi barna. Velferðarráð hefur óskað eftir því að leitað verði eftir öðru húsnæði fyrir starfsemi Konukots en þarfagreining fyrir starfsemina liggur nú fyrir.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er áfall að heyra kynningu þessarar rannsóknar, hversu illa búið er að konum í Konukoti og mun verr en búið er að körlum í sambærilegum aðstæðum. Þetta er til háborinnar skammar. Fulltrúi Flokks fólksins hélt reyndar að Reykjavíkurborg léti slíkt sem þetta ekki viðgangast en borgin gefur sig út fyrir að mismuna ekki kynjum. Eins kemur fram í kynningunni á MA rannsókninni að neyðarskýli þyrftu að vera opin allan sólarhringinn. Þetta er það sem Flokkur fólksins í velferðarráði hefur lengi barist fyrir. Það hefur orðið mikil fjölgun í hópi heimilislausra undanfarið ár en það sýna nýtingartölur gistiskýlanna. Það er ekki einungis kuldi og vosbúð heldur einnig ofbeldi sem konur þurfa skjól fyrir. Gistiskýlin eru einungis opin frá 17 á daginn til 10 á morgnana. Reykjavíkurborg veitir skjól hálfan sólarhringinn og því mætti spyrja þeirrar áleitnu spurningar hvort borgin sé að veita skjól fyrir ofbeldi eingöngu hálfan sólarhringinn. Sennilega væri auðveldara að koma í veg fyrir ofbeldi hjá þessum hópi ef athvarf væri opið fyrir þennan hóp allan sólarhringinn. Flokkur fólksins telur að áherslan eigi fyrst og fremst að vera á að hjálpa fólki með að fá öruggt þak yfir höfuðið sem er grundvallarmannréttindi.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um nýjar reglur um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að reglum um sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk á landi í eigu Reykjavíkurborgar með áorðnum breytingum. Ekki er gert ráð fyrir því að tillagan feli í sér viðbótarkostnað.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020070.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar miðstöðvar velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði fagna þessum tillögum að breyttum reglum enda þeim ætlað að einfalda ferlið fyrir notendur og auka gagnsæi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í umsögn aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks var tekið jákvætt í breytingarnar og þær taldar vera til góðs enda yrðu reglurnar skýrari og umsóknarferlið einfaldara. Flokkur fólksins tekur undir gagnrýni eða ábendingu sem fram kom á fundi öldungaráðs þann 12. apríl 2023 um að tvívegis þurfi að skila inn tilteknum gögnum, annars vegar þegar sótt er um P-kort hjá sýslumanni og svo aftur þegar sótt er um sérmerkt bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun. Best væri fyrir alla hagaðila að upplýsingakerfi borgarinnar og gögnin sem búið er að skila inn til sýslumanns myndu tala saman. Þetta myndi skapa umtalsverða hagræðingu fyrir alla aðila. Flokkur fólksins fagnar því að gert sé ráð fyrir samráði við aðgengisfulltrúa Reykjavíkurborgar. Það vekur von um að ráðið verði í það embætti fljótlega.
Fylgigögn
-
Lögð fram til kynningar, drög að reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. VEL23060003.
- kl. 14:30 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum og í hans stað tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.
Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar miðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Drög að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, fela í sér misskilning á skilgreiningu á þeim sem teljast fatlað fólk og þeim sem hafa örorkumat. Ekki er allt fatlað fólk með örorkumat. Með vísun í lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma þessar skilgreiningar vel fram. Því þarf að endurskoða drögin þannig að þau séu ekki í andstöðu við fyrrgreind lög. Á þetta sérstaklega við um 5. gr. reglnanna. Flokki fólksins líst illa á breytinguna þar sem gefin er út heimild til að lækka fjárhæð styrks komi til þess að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna (3. gr.). Hér er verið að opna leið til skerðinga sem nægar eru hjá þessum hópi. Flokkur fólksins telur að hér sé verið að þrengja skilyrðin.
Fylgigögn
-
Lögð fram til kynningar, drög að reglum um tímabundið húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. VEL23060006.
Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Bókun sem lýtur að áfangaheimilum og reglum um þau. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessar reglur, hvernig þær eru orðaðar nokkuð sérkennilegar og of ítarlegar þegar kemur að lýsingum á innviðum heimilisins. Umfram allt þarf að gera skýrar kröfur til stjórnenda um ábyrgð þeirra að rekstri áfangaheimila enda munu þar búa viðkvæmur hópur. Gæta þarf þess að reglur sem þessar beri ekki keim af vantrausti og hræðslu á getu stjórnenda. Þegar talað er um virka endurhæfingu er ekki ljóst hvort sú endurhæfing fer fram innanhúss í skilgreindu prógrammi eða út í bæ hjá t.d. Virk. Hvað sem því líður er stjórnendum treyst til að aðstoða heimilisfólk í átt að bata. Hvað varðar neyðarskýli vill fulltrúi Flokks fólksins enn og aftur ítreka mikilvægi þess að þau séu opin allan sólarhringinn og ef þau sem fyrir eru geti það ekki, verði opnað nýtt skjól sem opið er allan sólarhringinn. Fordæmi eru fyrir slíku athvarfi víða erlendis.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um stöðu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), ásamt bréfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dags. 31. maí 2023, um endurnýjun umsókna vegna NPA samninga á árinu 2023. VEL23050024.
Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA):
Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð: að innleiðingartímabil verði framlengt út árið 2024 (1. gr.), að gildistími reglnanna sé framlengdur til 31. desember 2024 (27. gr.). Kostnaður vegna tillögunnar rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs að því gefnu að ríkið haldi áfram greiðsluþátttöku með sama hætti og verið hefur.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23050025.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs.Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð fagnar ákvörðun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um að fjölga NPA samningum um 56 og framlengja innleiðingartímabilið út árið 2024. Ráðið harmar að enn skuli settar fjöldatakmarkanir af hálfu ríkisins á þjónustu sem skilgreind er í lögum sem réttindi, og jafnframt efast ráðið um að hægt sé að byggja upp þjónustu sem hægt sé að stóla á meðan áframhaldandi þátttaka ríkisins í kostnaði er í óvissu ár frá ári. Velferðarráð leggur ríka áherslu á að niðurstaða náist í samræðum ríkis og sveitarfélaga um fulla fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, með þeim hætti að tryggt sé að sú þjónusta sem sveitarfélögum er falið að veita í lögum sé fullfjármögnuð, enda er óheimilt að fela sveitarfélögum verkefni án þess að fjármögnun þeirra liggi fyrir. Fái þessi þjónusta sveitarfélaganna ekki fulla fjármögnun er nokkuð ljóst að erfitt reynist að byggja hana frekar upp og fjölga samningum.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11617/2022 vegna gjaldskrár fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum. VEL23060001.
Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Sturla Halldórsson, deildarstjóri Pant akstursþjónustu og Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð tekur undir með skrifstofu málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði sem telur æskilegt að gjaldskrár vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks verði endurskoðaðar. Velferðarráð felur sviðstjóra að hefja þá vinnu og leggja tillögur að þeirri vinnu lokinni fyrir ráðið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Álit umboðsmanns Alþingis lýtur að kvörtun einstaklings vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks með vísan til þess að gjaldskrá sveitarfélagsins gerði ekki ráð fyrir slíkum kortum. Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks tryggir ekki með fullnægjandi hætti að gjald fyrir þjónustuna sé sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu líkt og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga kveða á um. Álit umboðsmanns í málinu er að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í málinu hafi ekki verið í samræmi við lög og að það þurfi að taka málið upp að nýju. Flokkur fólksins fagnar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og vonar að gjaldskráin verði endurskoðuð með það í huga að fatlað fólk greiði ekki umtalsvert meira fyrir að komast leiðar sinnar heldur en notendur almenningssamgangna. Það er athyglisvert að námsmenn sem nýta akstursþjónustu fatlaðs fólks geta keypt tímabilskort en það stendur ekki öðrum notendum akstursþjónustunnar til boða. Samkvæmt minnisblaði frá velferðarsviði mun kostnaður aukast um allt að 50 m.kr. á ári ef tekin verða upp tímabilskort í akstursþjónustunni. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki há fjárhæð með tilliti til þess hversu mikilvægt réttlætismál þetta er fyrir fatlaða einstaklinga.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðum notendakönnunar í stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fatlað fólk og niðurstöðum notendakönnunar í Vinnu- og virkniþjónustu fyrir fatlað fólk. VEL23060008.
Heiðrún Una Unnsteinsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Arne Friðrik Karlsson, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á skrifstofu velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Spurt var um líðan í vinnu- og virkniþjónustunni og virðist almenn ánægja með þátttökuna í þjónustunni. Spurt var opinna spurninga t.d. Hvað ertu að gera og hvort viðkomandi vilji gera eitthvað annað en það sem býðst að gera - 11 % segja “já” og 25 % segja “stundum”. Könnunin gefur miklar upplýsingar en fulltrúi Flokks fólksins telur að aðalspurningin sé hvort nýta eigi þessar upplýsingar til að gera breytingar, t.d. víkka út þjónustuna og bjóða upp á meira val, sem og að fá tækifæri til að fara í launaða vinnu undir merkjum úrræðisins. Sama má segja um niðurstöður könnunar meðal notenda stoð- og stuðningsþjónustu. Það var góður bragur á að hægt var að svara bæði á neti og í síma. Meirihlutinn virðist sáttur við flest en þó stundum ansi tæplega. Ljóst er að gera þarf betur á sumum sviðum. Helst viljum við sjá um 90% ánægju. Innan við 50 “ telja sig fá þann stuðning sem þau þurfa frá Reykjavíkurborg og er það engan veginn nógu gott. Þessi könnun kemur mun verr út en sú fyrri.
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um stöðu fatlaðs fólks í Reykjavík sem er í þörf fyrir húsnæði og stuðning á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, ásamt fylgiskjölum. VEL23060002.
Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sviðsstjóri skrifar til velferðarráðs þar sem hann lýsir því hvernig sviðið er ekki að geta framfylgt lögum en skv. þeim ber Reykjavíkurborg að tryggja framboð af viðeigandi húsnæði og stuðningi til fatlaðs fólks. Þrátt fyrir uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk á umliðnum árum eru í júní 2023, 130 einstaklingar á bið eftir húsnæði og stuðningi við hæfi. Þá eru 26 einstaklingar að koma inn á biðlista í sumar og verða þá 156 einstaklingar á bið. Jafnframt eru 44 einstaklingar á bið eftir milliflutningi. Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka sviðsstjóra hreinskilnislegt bréf hans. Það er sannarlega ákall um að fá áætlun um hvenær boð um húsnæði fyrir fatlað fólk verður að veruleika. sbr. 8. gr. reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk nr. 370/2016. Minnst er á mál fatlaðs einstaklings sem beið árum saman eftir húsnæði. Honum var á einum tímapunkti sagt að hann væri „næstur“ sem reyndist rangt. Reykjavíkurborg var dæmd til greiðslu miskabóta, þar sem ekki hafði verið sett fram áætlun og viðkomandi upplýstur um hvenær hann mætti vænta úthlutunar húsnæðis. Þetta er bara eitt dæmi af fjölmörgum sambærilegum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á viðmiðum vegna styrkveitinga til áfangaheimila. VEL23030045.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi viðmið, hvernig þau eru orðuð, nokkuð sérkennileg og allt of ítarleg þegar kemur að lýsingum á innviðum heimilisins. Umfram allt þarf að gera skýrar kröfur til stjórnenda um ábyrgð þeirra að rekstri áfangaheimila enda munu þar búa viðkvæmur hópur. Gæta þarf þess að viðmið sem þessi beri ekki keim af vantrausti og hræðslu á getu stjórnenda. Hér er verið að fjalla um styrki til heimilisins en ekki til einstaklinga sem þar búa. Því þarf varla að gera skilgreiningu heimilisins að áhersluefni ofan í smæstu atriði. Þegar talað er um virka endurhæfingu er ekki ljóst hvort sú endurhæfing fer fram innanhúss í skilgreindu prógrammi eða úti í bæ hjá t.d. Virk. Hvað sem því líður er stjórnendum treyst til að aðstoða heimilisfólk í átt að bata.
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, um styrk til félagsins Lítillar þúfu til reksturs áfangaheimilis fyrir konur, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að veita félaginu Lítil þúfa styrk í formi innri leigu kr. 6.540.000 á ári til reksturs áfangaheimilis fyrir konur að Snekkjuvogi. Fjármagnið rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23030023.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt er til að Ellen Jacqueline Calmon, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, verði áfram fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu. VEL23060009.
Samþykkt. -
Lögð fram drög að fundaáætlun velferðarráðs fyrir tímabilið ágúst - desember 2023. VEL23060010.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um uppsagnir á akstursþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. mars 2023. VEL23030051.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurnin var lögð fram stuttu eftir að niðurstaða könnunar lá fyrir um að almenn ánægja ríkti með þjónustu Pant. Stuttu síðar kom alvarleg kvörtun. Spurt var um hvort einhverjir notendur akstursþjónustunnar hafi gefist upp á að nota hana og hvort það væri skráð af hverju fólk mögulega gefst upp á að nota þjónustuna. Fram kemur að engar skráningar eru til um þetta. Það er sérkennilegt. Það hlýtur að vera mikilvægt að vita ástæður fyrir uppsögn á þjónustunni ef vera kynni að ástæðan sé sú að viðkomandi var ekki ánægður með þjónustuna. Öðruvísi er erfitt að bæta þjónustuna ef þetta er ekki vitað. Ef ástæður eru að öllu leyti að öðrum toga s.s. vegna flutnings þá eru það einnig mikilvægar upplýsingar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um akstursþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023. VEL23050040.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvort velferðarsvið hygðist bregðast við þessari gagnrýni og hvort einhverra úrbóta sé að vænta? Leikhópurinn hefur lýst yfir miklum vandræðum og brotalömum hjá akstursþjónustu fatlaðra sem Pant sér um. Það eru mikil vonbrigði að sjá í svari að velferðarsvið hafi ekki fengið upplýsingar um hvaða notendur hafi verið um að ræða. Miðað við alvarleika fréttarinnar mætti halda að málið hafi verið sett í algeran forgang og ekki linnt látum fyrr en málið er leyst. Það er ekki gott að hafa svona mál óleyst. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að fá að vita um hvaða akstursþjónustu var að ræða í þessu tilfelli. Flokkur fólksins óttast að með útboði á þjónustu sem þessari sé ávallt hætta á að dregið verði úr þjónustu. Þetta hefur reynslan sýnt. Því þarf eftirlit að vera einstaklega gott af hálfu borgarinnar. Flokki fólksins finnst af svari að ferlið til að finna út úr svona máli sé flókið og gengur hægt að rýna þjónustuna. Verið er að gera þjónustukönnun. Þær koma oft ágætlega út og ekki er langt síðan sagt var að almenn ánægja ríkti um Pant. Þetta sýnir að ekki má taka þjónustukönnun of alvarlega enda ekki allir sem svara.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 7. júní 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við auknum vopnaburði ungmenna, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 26. apríl 2023. VEL23040018.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um hvort einhverjar hugmyndir séu um að setja saman stefnu um hvernig verjast megi auknum vopnaburði meðal unglinga og á sama tíma vinna að markvissum mótvægisaðgerðum. Í október 2022 lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í borgarstjórn um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Tillögunni var vísað í mannréttinda- og ofbeldisráð sem ekkert hefur gert með hana alla þessa mánuði. Í svari er tíundað hvað mikið sé í gangi í þessum málum, allir séu meðvitaðir og að unnið sé samkvæmt „einhverju“ verklagi. En hvaða verklagi? Flokkur fólksins hefur aldrei séð neitt sérstakt verklag í þessu sambandi og kallar eftir forvörnum en ekki aðeins viðbrögðum þegar skaðinn er skeður. Gott er þó að vita að þessi mál eru sett í einhvern forgang. Ef forvarnir væru góðar og viðvarandi og börnum sinnt á fyrri stigum sem sýna áhættueinkenni þá yrðu tilvikin e.t.v. færri. Um 2500 börn bíða aðstoðar fagfólks borgarinnar með ólík vandamál. Hvar er stefna borgarinnar í þessum málum? Hvar er stefnan í forvarnarmálum sem beinist sérstaklega að því að hjálpa börnum sem eru í áhættu með að sýna ofbeldishegðun af einhverju tagi?
Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Komið hefur ábending til fulltrúa Flokks fólksins um Félagsbústaði. Leigjandi vill að skipt sé út eldgömlum og slitnum gólfdúk. Leigjandinn óskar eftir plastparketi á stofu og eldhús. Honum er tjáð að tveir möguleikar séu í stöðunni. Ekkert er gert eða að öll íbúðin sé gerð upp. Ef öll íbúðin er gerð upp verður leigjandinn að gefa eftir íbúðina og flytja í aðra á vegum Félagsbústaða. Leigjandinn vill ekki búa í neinni annarri íbúð en þessari. Honum hefur liðið vel þar í meira en tvo áratugi. Hann hefur boðist til að standa straum af kostnaði við skipti á gólfefnum sjálfur en verið hafnað.
Spurningar: 1. Hvers vegna er ekki hægt að verða við óskum leigjandans án þess að þvinga viðkomandi í annað húsnæði gegn vilja viðkomandi? 2. Er ekki eitthvað skipulag hvenær ákveðnir hlutar íbúða Félagsbústaða eru gerðir upp eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar? Í Svíþjóð fær maður við undirritun leigusamnings áætlun um hvenær málað verður eða skipt verður á gólfefnum. Ekki er gert ráð fyrir því að flutt sé alfarið úr íbúðinni. VEL23060017.Vísað til Félagsbústaða.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir er þess hvergi getið að fólk sem falli undir lögin sé með örorkumat og þ.a.l. hafi til þess bært örorkuskírteini. Undir hugtakið örorka má fella einstaklinga á aldrinum 18-67 ára sem hafa farið í örorkumat en örorkumat er þá framkvæmt þar sem færni er metin eftir sjúkdóma, slys eða fötlun. Skilyrði er að endurhæfing sé fullreynd. Hvernig er tekið á þeirri staðreynd í drögum að reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks að fatlað fólk er ekki allt með örorkumat? Samkvæmt 25. gr. laga nr. 38/2018 er sveitarfélögum heimilt að veita styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:
1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.
Í 2. gr. leiðbeinandi reglnanna er fjallað um hverjir eiga kost á að sækja um styrkinn og að reglur sveitarfélaga verði að sækja stoð sína til laga nr. 38/2018. Lögin mæla hvorki fyrir um það hverjir eigi kost á styrkjum né tilgreina aldursmörk í því sambandi. Hvernig hyggst Reykjavíkurborg taka á þessu atriði? VEL23060018.- kl. 16:29 víkur Ellen Jacqueline Calmon af fundinum.
Fundi slitið kl. 16:31
Magnea Gná Jóhannsdóttir Alexandra Briem
Sandra Hlíf Ocares Þorvaldur Daníelsson
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 7. júní 2023