Velferðarráð - Fundur nr. 454

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 24. maí var haldinn 454. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:11 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Rannveig Einarsdóttir, Randver Kári Randversson og Dís Sigurgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

    -    kl. 13:17 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.

  2. Fram fer kynning á fimm ára fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2024-2028. Trúnaðarmál. VEL23050020.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  3. Lagt fram þriggja mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir janúar - mars 2023. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fyrir borgarráð. VEL23050021.

    Kristín Pétursdóttir, fjármálasérfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  4. Lagt fram yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 1 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2023. VEL23050022.

    Kristín Pétursdóttir, fjármálasérfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 1 milljón á undanförnum 12 mánuðum. Alla jafna er þarna um eðlileg innkaup að ræða en Flokkur fólksins setur spurningarmerki við tvær háar fjárhæðir sem velferðarsvið greiðir til Ríkisútvarpsins og Landsbankans. Velferðarsvið greiðir Ríkisútvarpinu 42,8 milljónir í þjónustukaup. Þetta er rekstrarsamningur húsnæðis og rekstur mötuneytis en velferðarsvið samnýtir mötuneytið á staðnum þar sem þjónustumiðstöðin er til húsa. Velferðarsvið greiðir Landsbankanum 5,3 milljónir vegna uppgjörs á rafmagni, hita, snjómokstri og lyftukostnaði vegna þess að Suðurmiðstöð samnýtir húsnæði með Landsbankanum. Til samanburðar fær sálfræðiþjónusta barna eingöngu 8.030 milljónir vegna fækkunar á biðlista barna. Flokkur fólksins telur að þarna þurfi að gera betur til að fækka enn frekar á biðlista barna. Á biðlista barna eru nú 2498 börn.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 24. maí 2023, um stöðu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). VEL23050024.

    Frestað.

     

  6. Lögð fram tillaga sviðsstjóra, dags. 24. maí 2023, um breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð. VEL23050025.

    Frestað.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Málinu er frestað vegna þess að það vantar lögfræðilega greiningu á tillögu sviðsstjóra um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um NPA. Um er að ræða tillögu sem kann að hafa áhrif á réttindi fatlaðs fólks og því er óskað eftir því að tillagan verði lagalega rýnd áður en hún kemur aftur fyrir ráðið.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram skýrsla starfshóps um starfsemi Vinjar, ásamt fylgiskjölum. VEL23010013.

    Andri Vilbergsson, verkefnastjóri í vettvangsgeðteymi velferðarsviðs og Landspítala tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, starfsmaður starfshópsins, Halldóra Pálsdóttir, forstöðumaður Vinjar, Hörður Jónasson, fulltrúi notenda, Garðar Sölvi Helgason, fulltrúi notenda, Kristín Bjarnadóttir, fulltrúi notenda og Hjálmar Hrafn Sigurvaldason, fulltrúi notenda, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir telja að kjarnastarfsemi Vinjar, sem fólgin er í stuðningi við einstaklinga með alvarlega geðrofssjúkdóma, sé nauðsynleg og að tryggja skuli áframhaldandi þjónustu við þann hóp sem um ræðir. Mikilvægt er þó að skilgreining á starfsemi Vinjar verði víkkuð út og nái til fleiri hópa, ekki síst þeirra sem eru félagslega einangraðir. Þá taka fulltrúarnir undir með starfshópi um starfsemi Vinjar að núverandi húsnæði sé ekki aðgengilegt og uppfylli ekki kröfur um aðgengi út frá algildri hönnun og því sé mikilvægt að þjónusta hópinn í öðru húsnæði. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins fela velferðarsviði að tryggja áframhaldandi þjónustu við þá aðila sem nýtt hafa sér þjónustu Vinjar, að þjónustan verði víkkuð út og að leitað verði að heppilegu húsnæði sem eftir atvikum gæti verið í einu af samfélagshúsum borgarinnar. Skal velferðarsvið hafa til hliðsjónar fjárhagslegt aðhald við leit að öðru húsnæði þannig að fjármunir sparist við að losa núverandi húsnæði Vinjar þegar á heildina er litið. Enn fremur skal við útvíkkun á þjónustunni leitast við að spara fjármuni þegar starfsemin nær til fleiri aðila sem þáðu áður þjónustu á öðrum stöðum innan borgarkerfisins.  Skal velferðarsvið viðhafa samráð við Stýrihóp um mótun virknistefnu.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þakkað er fyrir niðurstöðu starfshópsins, þar sem m.a. fulltrúar notenda, þ.e.a.s. gestir Vinjar áttu sæti. Í niðurstöðum er tekið fram að starfsemi Vinjar er mikilvæg og hefur nýst gestum sem sækja staðinn vel. Helstu niðurstöður snúa einnig að því að brýnt er að skilgreining á starfseminni verði víkkuð og nái til þeirra sem eru félagslega einangraðir. Kjarnastarfsemi Vinjar sem er fólgin í stuðningi við einstaklinga með alvarlega geðrofssjúkdóma þarf að halda sér. Einnig er mikilvægt að aðgengið sé gott. Fulltrúar hópsins töldu að ef starfsemi Vinjar yrði samþætt annarri starfsemi þá væri afar mikilvægt að það væri í hlutlausu húsnæði, þ.e. að starfsemi Vinjar yrði ekki flutt inn í hefðbundna félagsmiðstöð í rekstri velferðarsviðs heldur myndi flytja ásamt annarri starfsemi í „nýtt“ húsnæði þar sem allir hefðu jafna stöðu frá upphafi. Fram kemur í niðurstöðu starfshópsins að ef af uppbyggingu samfélagshúsa í borgarhlutum yrði þá gæti starfsemi Vinjar fundið sér stað í slíku fyrirkomulagi. Fulltrúi sósíalista leggur áherslu á mikilvægi þess að unnið sé vel út frá öllum áherslupunktum sem hafa komið fram og tryggt að mögulegar breytingar verði í góðu samræmi við það sem notendur, þ.e.a.s. gestir Vinjar hafa bent á.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins styður sameiginlega niðurstöðu starfshóps um starfsemi Vinjar en þar segir m.a.: “Kjarnastarfsemi Vinjar sem er fólgin í stuðningi við einstaklinga með alvarlega geðrofssjúkdóma þarf að halda sér. Fulltrúar hópsins töldu að ef starfsemi Vinjar yrði samþætt annarri starfsemi þá væri afar mikilvægt að það væri í hlutlausu húsnæði, þ.e. að starfsemi Vinjar yrði ekki flutt inn í hefðbundna félagsmiðstöð í rekstri velferðarsviðs heldur myndi flytja ásamt annarri starfsemi í „nýtt“ húsnæði þar sem allir hefðu jafna stöðu frá upphafi“. Það kemur fram í fundargerðum starfshópsins að notendur og starfsfólk er alfarið á móti því að starfsemi Vinjar verði dreifð á margar miðstöðvar. Sá hópur fatlaðra sem mest er jaðarsettur eru geðfatlaðir með geðrofssjúkdóma, geðklofa og geðhvörf. Það eru einmitt þau sem eru með þessi veikindi sem sækja Vin. Flokkur fólksins minnir á að málefni fatlaðra er lögbundið hlutverk sveitarfélaga. Flokkur fólksins telur afar brýnt að hlustað verði á sjónarmið notenda þjónustu Vinjar. Þeirra krafa er að kjarnastarfsemi Vinjar haldist óbreytt þar sem heimilisbrag og kærleik verði viðhaldið hvort sem starfsemin flytji í nýtt eða gamalt húsnæði sem hentar betur og uppfyllir kröfur um aðgengi.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á rafrænni miðstöð velferðarsviðs. VEL23050026.

    Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar miðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður allt sem einfaldar þjónustuferli og léttir borgarbúum og starfsfólki umsóknar- og upplýsingaferli borgarinnar. Rafræn þjónustumiðstöð hefur verið að mjatla allt of lengi og allt of hægt. Aðdragandi að rafrænni miðstöð hefur verið allt of langur og margir orðnir langeygir eftir afurðum og lausnum. Gott er að sjá hvað velferðartæknin gengur vel hjá velferðartæknismiðjunni. Það er líka jákvætt að verið sé að vinna markvisst að framförum og umbótum hjá rafrænni miðstöð velferðarsviðs.

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 24. maí 2023, um stöðugildi í Barnavernd Reykjavíkur:

    Lagt er til að auka fjárhagsramma Barnaverndar Reykjavíkurborgar um 45 m.kr. á árinu 2023 til að halda núverandi mönnun. Eitt og hálft stöðugildi yrði fjármagnað í gegnum samninginn um samræmda móttöku flóttafólks, alls 19 m.kr. og tvö stöðugildi úr borgarsjóði, alls 26 m.kr.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23050014.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins skilur vel að fjölga þurfi stöðugildum hjá Barnavernd Reykjavíkur. Flokkur fólksins hefur ávallt stutt allar tillögur um kerfisbreytingar og fjölgun stöðugilda til að bæta skilvirkni og fagmennsku hjá Barnavernd. Tilkynningum hefur fjölgað til Barnaverndar vegna þess að skólar og foreldrar eru í æ fleiri tilfellum  ráðalaus og fá ekki nauðsynlega aðstoð innan skólakerfisins. Um er að ræða mál sem mörg hver voru áður unnin á vettvangi skólanna t.d. hjá skólasálfræðingi. Taka má dæmi um skólaforðunarvandamál en árið 2019 voru tilkynningar um skólaforðun til Barnaverndar  67,  árið 2021 voru þau 46 en árið 2022 eru málin um 70. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests og athuga hvort ástæða sé til þess að það fari í svokallaða könnun. Þetta er vissulega fýsilegri kostur en að bíða endalaust eftir að barnið komist til fagfólks skólaþjónustu en biðlisti eftir t.d. sálfræðingi og fleira fagfólki er nú 2498 börn en á listanum voru 400 börn árið 2018.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks um breytingar á fyrirkomulagi ferðaþjónustu fatlaðra, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. bréf mannréttinda og lýðræðisskrifstofu, dags. 3.mars 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs dags. 24. maí 2023. MSS22120083.

    Frestað.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram tillaga fulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal foreldra barna sem boðið er HAM námskeið, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. febrúar 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 24. maí 2023. VEL23020051.

    Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Flokks fólksins, Sósíalistaflokks Íslands og  Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að skoðuð verði afstaða foreldra sem sótt hafa HAM námskeið (hugræn atferlismeðferð). Foreldrarnir verði spurðir hvort þeir telji námskeiðið hafa gagnast sér til að hjálpa börnum sínum með tilfinninga- og kvíðavandamál sín. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að verið sé að vinna að þessu. Flokkur fólksins styður vissulega foreldramiðuð HAM námskeið en telur jafnframt mikilvægt að þau séu árangursmæld eins og hér er lagt til.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju tillaga sviðsstjóra um nýtt stjórnskipulag Alþjóðateymis velferðarsviðs, ásamt fylgiskjölum, sem var samþykkt og færð í trúnaðarbók, sbr. 7. lið fundargerðar velferðarráðs 26. apríl 2023. VEL23040015.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram að nýju uppgjör velferðarsviðs 2022, sem fært var í trúnaðarbók, sbr. 2. lið fundargerðar velferðarráðs 15. mars 2023. VEL23030032.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 24. maí 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um leiguverð smáhúsa borgarinnar, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs 15. febrúar 2023. VEL23020052.

    Fylgigögn

  15. Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Velferðarráð felur velferðarsviði Reykjavíkurborgar að undirbúa opnun á skaðaminnkandi heilbrigðisúrræði í formi neyslurýmis þar sem boðið er upp á skaðaminnkandi úrræði og heilbrigðisþjónustu  á grundvelli reglugerðar nr. 170/2021 um neyslurými, í Vesturgötu 7 (horn að Vesturgötu/Grófinni - eignarnúmer 07003) og opna það eins fljótt og auðið er. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23050036.

    Samþykkt.

     

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga um opnun á skaðaminnkandi heilbrigðisúrræði á Vesturgötu 7 á grundvelli reglugerðar númer 170/2021 um neyslurými markar fyrsta áfanga Reykjavíkurborgar í framfylgd aðgerðaáætlunar málaflokksins. Það hefur verið sameiginlegt markmið velferðarráðs að styðja við aðgerðir sem gera heilbrigðisþjónustu aðgengilegri fyrir jaðarsetta hópa ásamt því að útvíkka þjónustuframboð Reykjavíkurborgar til þeirra eftir því sem við á. Opnun rýmisins er fyrsta skref þessarar vegferðar en eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að starfsemin fari af stað án frekari tafa, þó með það fyrir augum að starfsemin sé auðmótanleg að þörfum skjólstæðinga.

    Fylgigögn

  16. Fram fer kynning á endurskoðuðu leiguverðslíkani Félagsbústaða. Trúnaður er um málið þar til það hefur verið afgreitt í borgarráði. VEL23050027.

    Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Andrés Ívarsson, umsjónarmaður fasteignakaupa, og Kristinn Karel Jóhannsson fjármálastjóri Félagsbústaða, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 15:58 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundi.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  17. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

    Lagt er til að velferðarsvið kanni sérstaklega tildrög og ástæður aukningar á langtímaveikindum meðal starfsfólks velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23050037.

    Frestað.

    Fylgigögn

  18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að borgin móti stefnu með aðgerðaráætlun um hvernig hægt sé að útrýma fátækt. Engin slík stefna er til í Reykjavíkurborg. Í nýlegri könnun Gallup kom fram að það er erfiðara nú en áður að ná endum saman í Reykjavík. Hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hefur ekki verið jafn hátt hérlendis síðan fyrir sjö árum og hlutfall þeirra sem ná að safna sparifé hefur ekki verið lægra um sex ára skeið. Um þriðjungur þekkir fátækt af eigin raun eða í sínu nærumhverfi. Leigjendur eiga sérlega erfitt með að ná endum saman ef samanborið við húsnæðiseigendur eða þau sem búa í foreldrahúsum. Í ljósi þessara og fleiri sambærilegra niðurstaðna spyr fulltrúi Flokks fólksins: Hyggst borgarmeirihlutinn grípa til einhverra sértækra aðgerða til að mæta vaxandi fjölda barna sem búa við fátækt í Reykjavík. Er hafin vinna við að móta stefnu eða áætlun til að uppræta fátækt í Reykjavík? VEL23050038.

    Frestað.

  19. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga um að öryrkjum sé heimilt að kaupa afsláttarkort á  fleiri farmiðasölustöðum í borginni en ekki eingöngu  á Hesthálsi. Í þessari tillögu er lagt er til „að öryrkjar fái að kaupa afsláttarkort á fleiri farmiðasölustöðum eins og aðrir farþegar geta og mega kaupa á.“ Undrun sætir að þetta sé ekki nú þegar hægt og það fyrir löngu því þetta er gróf mismunun. Eins og staðan er núna mega öryrkjar einungis kaupa afsláttarkort sín í gegnum Klapp „appið“ eða með því að fara í móttöku Strætó á Hesthálsi 14. VEL23050039.

    Frestað.

     

  20. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Mikil gagnrýni hefur komið fram á akstursþjónustu fatlaðra í fjölmiðlum undanfarið. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort velferðarsvið hyggist bregðast við þessari gagnrýni með einhverjum hætti og hvort einhverra úrbóta sé að vænta? Leikhópurinn Perlan fagnaði nýlega fjörutíu ára starfsafmæli með tveimur sýningum í Borgarleikhúsinu. Leikhópurinn lýsti yfir miklum vandræðum og brotalömum hjá akstursþjónustu fatlaðra sem Pant sér um. Fólk lenti m.a. í  því að vera skilið eftir í hjólastól fyrir utan staðinn án þess að nokkur væri látinn vita og geta enga björg sér veitt. Lýst var hræðilegri reynslu fólks s.s. að fólk hafi verið sótt tveimur tímum of seint og  jafnframt tveimur tímum of snemma. Þetta veldur miklum kvíða og stressi hjá þessum viðkvæma hópi en þetta er eini ferðamátinn sem þessir einstaklingar geta nýtt. Hvað ætlar borgin að gera með þær ábendingar sem komið hafa fram um að Pant sé að ofrukka notendur þjónustunnar? Dæmi eru um að stundum komi tveir bílar að sækja sömu manneskju. Hjón hafi verið sótt sitt í hvoru lagi. Mýmörg dæmi eru um slæma upplifun fólks af akstursþjónustu fatlaðs fólks. Flokkur fólksins telur mikilvægt að þessar ábendingar verði teknar alvarlega og skoðaðar vel og vandlega. VEL23050040. 

     

  21. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins var loksins að fá svar frá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn/ósk eftir upplýsingum um hvort rætt hafi verið við þau börn og foreldra þeirra sem bíða eftir fagþjónustu. Fram kemur að samtal eigi sér stað við foreldra í gegnum tilvísanaferlið og að til standi að gera könnun fyrir lok þessa skólaárs til foreldra sem fengið hafa ráðgjöf frá miðstöð. Flokkur fólksins vill því spyrja hvort farið sé af stað með þessa könnun? Stendur til að gera könnun á stöðu barna sem eru á biðlistanum? Það er verið að leika sér að eldi með því að veita ekki börnum þjónustu við vanda sínum eins fljótt og nokkur kostur er. Börn eiga ekki og mega ekki bíða endalaust eftir nauðsynlegri þjónustu. Vandinn er líklegur til að vaxa á meðan beðið er og þegar upp er staðið verður kostnaðurinn meiri fyrir samfélagið. VEL23050041.

  22. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fyrirspurn Flokks fólksins um hvernig velferðaryfirvöld hyggjast bregðast við nýlegum úrskurði umboðsmanns Alþingis í máli ungs manns sem hefur barðist í 6 ár fyrir því réttlæti að fá að kaupa tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðra? Hér hefur verið brotið á fötluðu fólki og því mismunað. Blessunarlega er til umboðsmaður sem fylgir lögum. Niðurstaðan er afgerandi þar sem staðfest var að ákvörðun borgarinnar um að synja umsókn aðila um tímabilskort vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks hafi ekki verið í samræmi við lög. Málið fer næst til velferðarráðs og -sviðs. Hvernig ætlar borgarmeirihlutinn að bregðast við úrskurðinum? Ætla velferðaryfirvöld að fylgja orðum umboðsmanns Alþingis að taka málið upp að nýju? Niðurstaðan byggist á því að gjaldskráin hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við lokamálslið 3. mgr. 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Umboðsmaður leggur til að málið verði tekið upp að nýju. Beiðni hefur komið frá aðila um að það verði gert. Hvernig á að bæta aðila tjónið og öllum þeim sem brotið hefur verið á með sama hætti? Endurgreiða á öllum þeim sem ofgreitt hafa enda um að ræða lögbrot samkvæmt umboðsmanni Alþingis. VEL23050042.

  23. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er upplýsinga um fjölgun þeirra mála sem eru tilkynnt til Barnaverndar af foreldrum sjálfum þar sem þeir tilkynna sig og barn sitt. Óskað er eftir upplýsingum um fjölda þessara mála sl. 6 ár. Einnig er óskað upplýsinga hvað mörg þessara mála voru metin að þyrfti að fara í könnun og hvað mörg af þeim urðu barnaverndarmál í kjölfarið. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hversu mikil fjölgun hefur verið á tilkynningum frá skólum/foreldrum um einelti barns til Barnaverndar. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum síðastliðin 6 ár. VEL23050043.

Fundi slitið kl. 16:40

Magnea Gná Jóhannsdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Sanna Magdalena Mörtudottir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Þorvaldur Daníelsson Helga Þórðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 24. maí 2023