Velferðarráð - Fundur nr. 452

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur 26. apríl var haldinn 452. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í borgarráðsherbergi Ráðhúss Reykjavíkur, Tjarnargötu 11. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Birna Hafstein, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Guðmundsdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Guðmundur Alfreðsson, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Fram fer kynning á starfsemi Keðjunnar. VEL23040012.

    Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, Inga María Vilhjálmsdóttir, teymisstjóri í Keðjunni og Hrefna Lára Sigurðardóttir, teymisstjóri í Keðjunni taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt skref var stigið þegar Keðjan var stofnuð, þar er fjölskyldan sett í fókus og þjónusta samræmd í öllum hverfum. Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf, einstaklings- og hópastarf með börnum, stuðningsfjölskyldur og námskeið og skammtímadvalir eru meðal þess sem Keðjan stendur fyrir. Starfsemi Keðjunnar styður við innleiðingu Farsældarlaganna og Velferðarstefnu Reykjavíkur. Frá stofnun hefur orðið meiri sérhæfing og lögð hefur verið áhersla á nýsköpun og þróun þjónustu í samstarfi við miðstöðvar velferðarsviðs, Barnavernd Reykjavíkur og börn og fjölskyldur. Starfsemin hefur gengið vonum framar og mikilvægt að þróa áfram og styðja enn meira við börn og fjölskyldur þeirra.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það vita fáir í Reykjavík hvað Keðjan er. Ef fólk hefur heyrt nafnið átta margir sig ekki á hvort Keðjan sé félagsþjónusta, eins konar yfirbygging eða tengiliður eins og nafnið gefur til kynna. Skilgreining á hlutverki Keðjunnar er einnig loðið. Keðjan á að tryggja jafnræði, innleiða fyrirmyndaraðferðir og skapandi og faglegt starfsfólk. Hvað merkir þetta? Markmið er einnig loðið t.d. á Keðjan að “auka mat á gæðahugsun”. Fulltrúi Flokks fólksins hefur um 5 ára skeið barist fyrir því að bæta þjónustu við börn borgarinnar og foreldra sem og auka stuðning við kennara, starfsfólk og aðra þá sem sinna börnum í námi og starfi. Vissulega hefur þróun orðið og betrumbætur. Velferðarsvið tekur til sín óhemju fjármagn og er langt yfir fjárhagsáætlun sem skýrist annað hvort af vanáætlunum eða að ekki sé farið nægjanlega vel með fjármagnið nema hvort tveggja sé. Flokkur fólksins telur að ríflegar upphæðir eigi að ganga til sviðsins til að halda úti metnaðarfullri þjónustu. Þetta markmið er fjarri því að vera í augsýn. Til dæmis bíða 2498 börn eftir fagaðstoð skólaþjónustu sem er á ábyrgð velferðarsviðs að veita. Fjöldi barna á bið eftir einstaklings stuðningi og að komast á námskeið er á sjöunda hundruð börn.

  3. Fram fer kynning á niðurstöðum starfshóps um endurskipulagningu þjónustu við markhóp unglingasmiðjanna Stígs og Traðar. VEL23010012.

    Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, Belinda Karlsdóttir, forstöðumaður unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, og Sigríður Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu frístundamála í málefnum fatlaðra barna, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    kl. 14:25 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum og í hans stað tekur Unnur Þöll Benediktsdóttir sæti á fundinum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir skýrslu og tillögur um framþróun og hagræðingu á rekstri unglingasmiðja. Velferðarráð mun taka þessar tillögur til skoðunar og koma með tillögu sem fyrst.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir góða og vandaða skýrslu sem sýnir vel fram á mikilvægi unglingasmiðjanna. Gott er að heyra raddir og upplifun þeirra sem hafa reynslu af starfinu sem og aðstandendum þeirra og sjá þær jákvæðu breytingar sem hafa átt sér stað í lífi ungmenna eftir að þau sóttu unglingasmiðjurnar. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að halda starfinu áfram í óbreyttri mynd þar sem sýnt hefur verið fram á árangur þess og mikilvægi. Einnig er tekið undir mikilvægi þess að smiðjurnar verði vel kynntar. Skýrslan var unnin í kjölfar hagræðingartillagna meirihluta borgarstjórnar með fjárhagsáætlun fyrir 2023. Skýrslan fjallar um þrjár leiðir sem hægt væri að fara í framtíðarstarfi unglingasmiðjanna. Fulltrúi sósíalista tekur undir tillögu númer eitt sem felur í sér að halda starfseminni í óbreyttu formi, en í öflugu samstarfi við skóla- og frístundasvið með því að byggja brú á milli úrræða. Þannig væri hægt að bjóða börnum þjónustu í smiðjunum fyrr, þ.e. í 7. bekk. Kostnaður við starfsemi unglingasmiðjanna er metinn á um 63 m.kr. á ári. Líkt og fjallað er um í skýrslunni þá er dýrara að færa starfið inn í önnur úrræði borgarinnar og myndi slíkt ekki ná utan um þarfir ungmennanna sem mæta til unglingasmiðjanna.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt gögnum kostar það um 63 m.kr. á ári að reka báðar unglingasmiðjur og brú fyrr, t.d. eftir eitt ár, yfir í almennt/sérhæft félagsmiðstöðvarstarf og þannig hægt að veita fleirum þjónustu. En hvað myndi það kosta ef notendur þjónustunnar yrðu fluttir í annað úrræði? Umfram allt telur fulltrúi Flokks fólksins að halda eigi starfseminni áfram enda hefur hún verið að skila árangri og mikil ánægja hefur verið með hana. Sparnaðartillögur meirihlutans sem lagðar voru fram við fjárhagsáætlun áttu aldrei að höggva í þjónustu við okkar viðkvæmustu hópa. Vissulega má gera einhverjar hagræðingar með það að markmiði að starfið verði enn skilvirkara og nýtist betur þjónustuþegum. Flokkur fólksins hefur ítrekað í gegnum árin bent á að frístundastyrkurinn er í mörgum hverfum vannýttur og er tækifæri til að nýta hann betur í þetta úrræði. Fleiri möguleikar eru reifaðir sem vel mætti skoða en leggur fulltrúi Flokks fólksins til að allar færar leiðir verði unnar með starfsfólki, grasrótinni og þjónustuþegum. Að skerða þjónustuna er eitthvað sem fulltrúi Flokks fólksins mun ekki kvitta undir.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á stöðu akstursþjónustu aldraðra og fatlaðs fólks. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 26. apríl 2023, um stöðu akstursþjónustu aldraðra og fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum. VEL23040014.

    Sturla Halldórsson, deildarstjóri Pant akstursþjónustu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti velferðarráðs þakkar fyrir kynningu á akstursþjónustu aldraðra og fatlaðs fólks. Um er að ræða gífurlega mikilvæga þjónustu sem mikilvægt er að standa vörð um og endurskoða reglulega í takt við þarfir og þróun á þjónustu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gerðar hafa verið kannanir og virðast flestir vera ánægðir með stöðuna og þjónustuna. Kvartanir hafa þó borist þótt færri séu. Dæmi eru um að fólk hafi gefist upp á að nota hana. Þessi þjónusta þarf að vera fullnægjandi, við eigum ekki að sætta okkur við neitt minna. Þjónustan þarf að vera sveigjanleg og þeir sem sinna henni þurfa að sýna þolinmæði og biðlund séu smávægilegar tafir. Það sem þurfti að laga var þjónustan í þjónustuverinu. Það þarf að vera auðvelt “að ná í gegn” á öllum tímum sem er opið. Af nýtingartölum að dæma er greinilega mikil þörf. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og því þarf að vanda sig. Það er á ábyrgð stjórnenda að sjá til þess að þjónustan sé fullnægjandi.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á niðurstöðum starfsmannakönnunar Sameykis 2022. VEL23040013.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru margar áhugaverðar upplýsingar sem koma fram í könnun Sameykis - stofnun ársins. Svarhlutfall hefði vissulega mátt vera hærra. Þau svið sem eru með flest gildi undir fjórum eru FAS, USK og ÞON. Ímynd ÞON er með gildi 3,67 af 5 sem er hæsta gildið. Ímynd Ráðhússins og umhverfis- og skipulagssviðs er á svipuðum slóðum. Lægsta svarhlutfall er á velferðarsviði hvað svo sem má lesa út úr því. Það sem vekur sérstaka athygli fulltrúa Flokks fólksins eru valmöguleikarnir sem eru gefnir þegar spurt er um einelti, hvort viðkomandi hafi orðið fyrir einelti. Svarmöguleikar eru þannig að halda mætti að verið sé að reyna að sá efasemdarfræjum í huga fólks. Valmöguleikar eins og “örugglega” og “líklega” hljóma eins og verið sé að reyna að fá fólk til að efast um reynslu sína. Hér er því um leiðandi útfærslu að ræða og með þessu er verið að sýna svarendum lítilsvirðingu. Það er voða sjaldan sem maður heyrir fólk segja “ég var örugglega eða líklega lögð í einelti”. Það slær fulltrúa Flokks fólksins að sjá hversu há prósenta gerenda kemur úr röðum stjórnenda. Bak við þessa prósentu er mögulega stór hópur stjórnenda sem beitir starfsfólk sitt ofbeldi. Einelti er ofbeldi.

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 26. apríl 2023, um undirbúning neyslurýmis í varanlegu húsnæði, ásamt fylgiskjölum. VEL23030002.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    kl. 15:56 víkur Birna Hafstein af fundinum og í hennar stað tekur Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar því að leit sé hafin að húsnæði fyrir varanlegt neyslurými, en harmar á sama tíma að það verkefni skuli hafa tafist eins og raun ber vitni. Mikilvægt er að reksturinn sé settur í gang sem allra fyrst og ótæk er sú staða að ekki sé starfrækt neyslurými nú um stundir. Mikilvægt er einnig að gengið sé til viðræðna við Rauða krossinn um rekstur færanlegs neyslurýmis í bíl á meðan varanlega neyslurýmið er fundið, undirbúið og standsett.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga sviðsstjóra, dags. 26. apríl 2023, um nýtt stjórnskipulag Alþjóðateymis velferðarsviðs, ásamt trúnaðarmerktu minnisblaði sviðsstjóra um Alþjóðateymi velferðarsviðs og fylgiskjölum. Trúnaður er um málið þar til breytingar hafa verið kynntar starfsfólki. VEL23040015.

    Samþykkt. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

     

  8. Lögð fram tillaga fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um bætt aðgengi að viðtalsmeðferð fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 14. febrúar 2023, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 26. apríl 2023. MSS23020090.

    Ástrós Eva Einarsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða, og  Gísli Ólafsson, verkefnastjóri á frístundahluta fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að velferðarsvið í samstarfi við skóla- og frístundasvið finni leiðir til að bæta aðgengi grunnskólanema að ráðgjöf innan grunnskólanna í Reykjavík og að tillaga um úrbætur liggi fyrir eigi síðar en haustið 2023.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn fagnar tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um bætt aðgengi að viðtalsmeðferð fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur. Mikilvægt er að grunnskólanemar geti leitað ráðgjafar hjá fagaðila innan síns skóla.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista styður heilshugar tillögu fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða um bætt aðgengi að viðtalsmeðferð fyrir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur. Mikilvægt er að aðgengi fyrir nemendur sé gott og í þeirra nærumhverfi.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú bíða 2450 börn eftir aðstoð fagfólks, flest bíða eftir sálfræðingi. Um helmingur þessa lista hefur aldrei fengið neina íhlutun fagfólks. Námsráðgjafar gera án efa eins og þeir geta. Í fjölda tilfella er ósk foreldra og barnanna sem bíða aðstoðar að fá tækifæri til að opna á sín mál við sálfræðing, aðila sem þau geta treyst og sem veit hvernig vinna á áfram í málinu. Sálfræðingur ræðir að sjálfsögðu ekki við neitt barn nema með vitneskju og samþykki foreldra þess. Í viðtali fær barnið tækifæri til að ræða við fagaðila eins og aldur og þroski þess leyfir. Í samtali barns og sálfræðings hlustar sálfræðingurinn ekki einvörðungu á orð barnsins heldur er með einbeitingu á fjölmörgum öðrum atriðum í fari og háttum barnsins. Fagaðili horfir á líkamsmál og hlustar eftir raddblæ og augna- og svipbrigðum til að lesa og meta líðan, kvíða og áhyggjustig barnsins. Eitthvað sem barn segir getur vakið sálfræðinginn til meðvitundar um að það þurfi að skoða málið nánar. Það getur leitt til þess að barn opni sig frekar um hluti sem ella hefðu ekki komið upp á yfirborðið. Samtal við sálfræðinginn er því lykilatriði og stundum getur fátt annað komið í staðinn.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 11. apríl 2023, um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024-2028. VEL23030065.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir margt í umræddri þingsályktunartillögu m.a. það sem rímar við stefnu borgarinnar um málefni eldra fólks og má nefna mikilvægi þess að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst heima. Í Reykjavík þarf þó ýmislegt að breytast til batnaðar til að svo megi verða, bæði fjölga þjónustuþáttum og dýpka aðra. Nefnd er góð samvinna milli borgar og ríkis. Mörgum finnst þeir ekki sjá nógu skýr merki um að samvinna sé í gangi yfir höfuð og oft bendir hvert á annað. Allir eru þó sammála um að fjölga þarf úrræðum, t.d. úrræðum sem eru á milli heimilis og hjúkrunarheimilis. Tekið er undir að verkefnið SELMA hefur verið farsælt. SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna, sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnandi heilsu. Einnig er tekið undir lokaorð umsagnarinnar sem er að gera þarf raunhæft kostnaðarmat og ráðstafa fjármagni samkvæmt skýrri forgangsröðun. Aðalatriðið er samfelld og samþætt þjónusta og tækifæri til að velja um fjölbreytt þjónustuúrræði eftir aðstæðum hvers og eins.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að útrýma heimilisleysi, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. mars 2023. Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23030137.

    Vísað til meðferðar stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Auðvitað á að útrýma heimilisleysi og fátækt. Útrýming fátæktar er kjarninn í stefnu Flokks fólksins og hefur flokkurinn barist gegn fátækt bæði í borgarstjórn og á Alþingi. Til að útrýma fátækt þarf þessi meirihluta að endurraða verkefnum í þágu fólksins í stað glæsibygginga og torga. Hér er vísað í Grófarhús og Lækjartorg sem hefja á hönnun og framkvæmdir við á þessu ári með tilheyrandi tuga milljóna kostnaði. Á meðan stækkar sá hópur sem á hvergi heima og býr við sárafátækt. Fjöldi manns bíður eftir nauðsynlegri þjónustu, lögbundinni og annarri þjónustu. Í mars 2022 spurði fulltrúi Flokks fólksins um fjölda heimilislausra í kjölfar þess að COVID-faraldurinn var þá á undanhaldi. Fyrir liggja upplýsingar um að árið 2021 voru 301 heimilislaus í Reykjavík, þar af 54% í húsnæði (getur verið sjúkrahús, fangelsi, áfangaheimili), 3% á víðavangi og 31% í reglubundinni neyðargistingu. Staðan hefur versnað ef eitthvað er. Smáhýsin eru aðeins að hluta til komin í gagnið. Heimilisleysi þeirra sem eru með flóknar þjónustuþarfir varð hvað mest áberandi þegar fólki sem leitaði skjóls í gistiskýlum borgarinnar var vísað út ákveðinn tíma dags þegar kuldinn beit hvað mest í vetur. Sem betur fer var tekin ákvörðun um sólarhringsopnun en aðeins tímabundið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 26. apríl 2023, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stöðu innleiðingar á breytingartillögu um menningarkort til öryrkja, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. febrúar 2023. VEL23020008.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 26. apríl 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aðstoð hjá Félagsbústöðum utan skrifstofutíma, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs 15. mars 2023. VEL23030050.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði inn fyrirspurn um þjónustu Félagsbústaða utan skrifstofutíma. Vísað er í fyrirspurninni í ábendingar frá leigjendum Félagsbústaða um að ekki sé hægt að fá aðstoð hjá Félagsbústöðum ef eitthvað fer úrskeiðis utan skrifstofutíma. Leigjendur eru ráðalausir ef upp koma alvarleg atvik utan skrifstofutíma. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki að tala um bruna eða innbrot í þessu tilfelli. Þá er vissulega hringt á lögreglu. Ýmis tilfelli og óvænt atvik hafa gerst þar sem leigjendur hafa staðið ráðþrota og eru þetta þá mál sem lögregla tekur ekki að sér að leysa. Teikn eru á lofti um að Félagsbústaðir hafi áttað sig á að svona gengur þetta ekki lengur því nú segir að verið sé að undirbúa að auka við þjónustuna með því að hafa sérstakt neyðarnúmer sem svarað er í utan hefðbundins opnunartíma. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu en finnst Félagsbústaðir hafa verið ansi lengi að taka við sér því Flokkur fólksins var með tillögu 2020 um að Félagsbústaðir settu á laggirnar teymi til að taka á óvæntum tilvikum sem upp koma utan opnunartíma. 

    Fylgigögn

  13. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að leitað verði til samtaka leigjenda og óskað eftir kynningu á nýútgefinni skýrslu þeirra sem ber heitið: Staðreyndir um íslenskan leigumarkað. Velferðarráð fer með verkefni húsnæðisnefndar skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998. Mikilvægt er að velferðarráð fái kynningu á stöðunni á leigumarkaði þar sem bæta þarf stöðu leigjenda. VEL23040020.

    Frestað.

    Fylgigögn

  14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort það séu einhverjar íbúðir á vegum Félagsbústaða þar sem ekki er hægt að skrá lögheimili sitt? VEL23040017.

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í ljósi hræðilegs atburðar sem átti sér stað um síðustu helgi þar sem grunur leikur á um að ungur einstaklingur hafi orðið manni að bana hlýtur velferðarráð og velferðarsvið að leita allra leiða til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Alvarleg tilvik af sambærilegum toga hafa einnig átt sér stað í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort verið sé að ræða þessi mál á velferðarsviði og hvort  einhverjar hugmyndir séu um að setja saman stefnu um hvernig verjast megi auknum vopnaburði meðal unglinga og á sama tíma vinna að markvissum mótvægisaðgerðum? Í október 2022 lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í borgarstjórn um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga. Fulltrúi Flokks fólksins óskar svars við hvernig velferðaryfirvöldum hugnast þessi hugmynd? Hópur af þessu tagi er hugsaður til að kortleggja vandann í Reykjavík og meta viðbrögð borgarinnar sem lúta að forvörnum. Hafa velferðaryfirvöld velt fyrir sér hvaða leiðir eru færar til að sporna við þessari óheillaþróun? VEL23040018.

Fundi slitið kl. 17:02

Heiða Björg Hilmisdóttir Þorvaldur Daníelsson

Unnur Þöll Benediktsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Sandra Hlíf Ocares

Sanna Magdalena Mörtudottir

PDF útgáfa fundargerðar
452. fundur velferðarráðs 26. apríl 2023