Velferðarráð - Fundur nr. 450

Velferðarráð

Ár 2023, miðvikudagur  15. mars var haldinn 450. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:03 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Lagt fram uppgjör velferðarsviðs 2022, dags. 15. mars 2023. Trúnaður er um málið þar til uppgjörið hefur verið lagt fram í borgarráði. VEL23030032. 

  3. Lagt fram yfirlit yfir ferðaheimildir á velferðarsviði 2022, dags. 15. mars 2023, og yfirlit yfir innkaup á velferðarsviði yfir 1 milljón á 4. ársfjórðungi 2022, dags. 15. mars 2023. VEL23030033.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    14 milljónir í ferðakostnað er kannski ekki mikið i stóra samhenginu. Hér er um að ræða kynnisferðir og aðra fundi. Flokkur fólksins vill sjá velferðarsvið horfa í hverja krónu. Sviðið er langt yfir kostnaðaráætlun sem skilja má að mörgu leyti enda svið með ein mestu krefjandi verkefnin í borginni. Sparað er við fólkið og meðal annars eru börn látin bíða eftir mikilvægri þjónustu, nú bíða 2291 börn samkvæmt tölum velstad í dag. Bruðl í ferðir eða leigubíla getur því ekki verið ásættanlegt. Flokkur fólksins minnir á fjarfundar möguleikana því flestum ráðstefnum er streymt nú til dags.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, um breytingu á fjárhagsáætlun velferðarsviðs vegna Mánabergs:

    Lagt er til að breyting verði gerð á fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2023 vegna reksturs Mánabergs, vistheimilis barna. Áætla skal tekjur vegna endurgreiðslu frá ríkinu vegna vistunarkostnaðar að fjárhæð 37,5 m.kr. og gjöld á móti.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23020032.

    Samþykkt.

    Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýting á Mánabergi hefur aukist og var 144% árið 2022. Tillagan byggir á auknum fjárheimildum sviðsins vegna endurgreiðslu mennta- og barnamálaráðuneytisins skv. 15 gr. Barnaverndarlaga nr. 80/2002 sem ætlað er að nýta í aukin stöðugildi til að mæta aukinni þjónustuþörf í Mánabergi. Gert er ráð fyrir að aukningin gæti numið um 3,5 stöðugildum.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað, dags. 15. mars 2023, um húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs. VEL22100133.

    Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð samþykkti 2. nóvember 2022 sl. að fela velferðarsviði í samráði við Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar að finna hentugra og hagkvæmara húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs til að brúa bilið þar til framtíðarhúsnæði er tilbúið. Velferðarráð leggur áherslu á að þetta gangi hratt og örugglega og að kostnaðarmat og verkáætlun verði lagt fyrir ráðið þegar tímabundið húsnæði hefur verið fundið.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, um styrk til félagsins Lítil þúfa til reksturs áfangaheimilis fyrir konur, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er að velferðarráð samþykki að veita félaginu Lítil þúfa styrk í formi innri leigu kr. 6.540.000 á ári til reksturs áfangaheimilis fyrir konur að Snekkjuvogi.

    Fjármagnið rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23030023.

    Frestað með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að afgreiða tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs um styrkveitingu í formi innri leigu til Dyngjunnar, sem rekur áfangaheimili fyrir konur og hefur verið í rekstri síðan 1988. Mikil þörf er á sérstökum áfangaheimilum fyrir konur og slæmt ef rekstur Dyngjunnar legðist af. Eina áfangaheimilið fyrir utan Dyngjuna, sem rekið er sérstaklega fyrir konur, er áfangaheimilið Njála á Njálsgötu sem rekið er af Reykjavíkurborg. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mótmælir frestun á málinu og hvetur velferðarráð til að taka ákvörðun í þessu máli sem fyrst.

    Fylgigögn

  7. Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur sviðsstjóra að skipa stýrihóp til að vinna tillögu að reglum um úthlutun styrkja til áfangaheimila, reglurnar skulu lagðar fyrir velferðarráð hið fyrsta. Í stýrhópnum sitja Magnea Gná Jóhannsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. VEL23030045.

    Samþykkt.

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, um framlengingu samnings við Hugarafl um þjónustu við einstaklinga með andleg veikindi, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að samningur við Hugarafl um þjónustu við einstaklinga með andleg veikindi verði framlengdur til loka árs 2024.

    Tillagan felur í sér  27 m.kr. kostnað á ári eða 54 m.kr. á tveimur árum sem rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23030036.

    Samþykkt.

    Þóra Kemp, deildarstjóri Virknihúss, tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti undir þessum lið.  

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja góðan stuðning við einstaklinga með andleg veikindi. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) gaf út skýrslu í október á síðasta ári vegna úttektar á starfsemi félagasamtakanna Hugarafls. Þar kom fram að niðurstöður viðtala bentu til þess að starfsemi Hugarafls hafi nýst mörgum vel við að bæta lífsgæði sín og ná bata. Í niðurstöðu GEV komu einnig fram ábendingar um að tækifæri séu til umbóta í starfsemi Hugarafls til að efla gæði þjónustunnar. Mikilvægt er að tryggja að brugðist hafi verið við þeim ábendingum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt til að samningur við Hugarafl um þjónustu við einstaklinga með andleg veikindi verði framlengdur til loka árs 2024. Flokkur fólksins fagnar þessum samningi. Samkvæmt úttekt Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á árinu 2022 á starfsemi Hugarafls er mikil ánægja með starfsemina. Niðurstöður viðtala bentu til þess að starfsemi Hugarafls hafi nýst mörgum vel við að bæta lífsgæði sín og ná bata.

    Fylgigögn

  9. Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að leita að heppilegum samstarfsaðila til þess að reka neyslurými í Reykjavíkurborg. Umrætt verkefni þolir enga bið og því nauðsynlegt að finna aðila í verkefnið án tafar. Þá skal velferðarsvið senda fulltrúum velferðarráðs upplýsingar um stöðu þessa máls daglega á meðan það er til úrlausnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23030047. 

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað, dags. 15. mars 2023, um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), ásamt bréfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dags. 23. febrúar 2023, um fjölgun NPA samninga á árinu 2023. VEL23030024.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og er markmið þjónustunnar að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi og geti haft val um hvernig aðstoðinni við það er háttað. Í því ljósi telur velferðarráð Reykjavíkurborgar gríðarlega mikilvægt að ráðherra standi við það sem hann hefur lofað án tafar til þess að veita megi þeim þjónustu sem bíða eftir þjónustunni. Mikilvægt er að réttindi fatlaðs fólks séu virt í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

    Fylgigögn

  11. Lagður fram ársreikningur orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík 2022, ásamt bæklingum með upplýsingum um ferðir á vegum orlofsnefndar húsmæðra sumarið 2023. VEL23030034.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um akstursþjónustu fatlaðs fólks, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs 9. febrúar 2023, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs með bréfi skrifstofu borgarstjórnar dags. 15. febrúar 2023. MSS23020060.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er að reyna að benda á ákveðna annmarka á þessu annars ágæta kerfi. Í svari er gert frekar lítið úr ábendingum Flokks fólksins. Þjónustan er einfaldlega ekki fullnægjandi og velferðarsvið á ekki að sætta sig við neitt minna en að þjónustan sé fullnægjandi. Kvartað var yfir stífni og ósveigjanleika í þjónustunni. Það er alvarlegt. Það að ná ekki sambandi og að erfitt sé að komast að í símaveri til að panta akstursþjónustu getur varla talist í lagi. Enn alvarlegra er sú reynsla að ef viðkomandi, fatlaður einstaklingur, er ekki mættur á sekúndunni sé bílstjórinn jafnvel bara farinn. Þegar svona alvarlegar kvartanir berast þá er ekki nóg að einhver meirihluti notenda sé ánægður. Af nýtingartölum að dæma er greinilega mikil þörf. Það þýðir ekki að hægt sé að koma fram með þessum hætti við þjónustuþegann. Hér þarf einfaldlega að vanda sig betur og það er á ábyrgð stjórnenda að sjá til þess að þjónustan sé fullnægjandi.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um stuðning og eftirlit með starfsemi áfangaheimila, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. mars 2023. VEL23030001.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram svar við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um stuðning og eftirlit með starfsemi áfangaheimila. Spurt var hvort  Reykjavíkurborg væri að styrkja Betra Líf í Vatnagörðum en þar er rekið áfangaheimili fyrir fólk sem glímir við fíkniefnavanda. Einnig var spurt hvort eftirfylgni væri með áfangaheimilum um að þau starfi samkvæmt skilgreiningu áfangaheimila og að öryggi íbúa sé tryggt í úrræðinu. Í svari kemur fram að velferðarsvið veitir einungis styrki til reksturs áfangaheimila á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um áfangaheimili en þær reglur falla niður þann 1. apríl nk. Ekki hafa verið veittir styrkir til Betra Lífs í Vatnagörðum þar sem starfsemin uppfyllti ekki skilyrði reglnanna um að einstaklingar sem dvelja á áfangaheimilum skuli vera í virkri endurhæfingu og því litið svo á að það húsnæði falli ekki að þeirri skilgreiningu sem fram kom í reglunum. Flokkur fólksins þakkar fyrir skýrt svar og ábendinguna um þingsályktunartillöguna um leyfisskyldu og eftirlit með áfangaheimilum. Þörf er á skýrari laga og reglu umgjörð fyrir áfangaheimili og Flokkur fólksins kallar eftir því að stjórnvöld, bæði Reykjavík og önnur sveitarfélög, sem og viðeigandi ráðuneyti komi fram með lagasetningu  um leyfisskyldu og eftirlit með rekstri áfangaheimila, skilgreiningu þeirra og hlutverk.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um þjónustusamninga við einkarekin vistheimili, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. febrúar 2023. VEL23020055.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð samþykkti í febrúar 2022 að hefja undirbúning að stofnun nýs vistheimilis fyrir átta börn og ungmenni þar sem börn geta dvalið til skemmri og lengri tíma. Mikilvægt er að tryggja að vistheimilið komist á laggirnar sem fyrst.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við einkarekin vistheimili fyrir börn með fjölþættan og flókinn vanda. Jafnframt var spurt um hvernig eftirliti er háttað með þessum vistheimilum og hvort öryggi skjólstæðinga og starfsfólks sé tryggt. Flokkur fólksins þakkar upplýsandi svar. Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg keypt búsetuþjónustu fyrir börn af einkaaðilum á borð við Vinakot, Klettabæ og Heilindi. Í svari kemur fram að langflestir skilmálasamningar séu milli velferðarsviðs og Klettabæjar. Eftirlit með þjónustunni byggir á kröfulýsingu, heimsóknum ráðgjafa og samtali við þau börn og ungmenni sem um ræðir. Ráðgjafar barnanna fá einnig vikulega yfirlit yfir þjónustuna og stöðu mála. Það vekur athygli fulltrúa Flokks fólksins að eingöngu er fjallað um skilmálasamninga milli velferðarsviðs og Klettabæjar en það hlýtur að þurfa að auka innra eftirlit með öðrum heimilum. Fram kemur að velferðarsvið sé að vinna að úrbótaáætlun um útfærslu og framkvæmd gæðavísa innra eftirlits vegna barna og ungmenna í búsetu utan heimilis. Flokkur fólksins fagnar því að unnið sé að þessum úrbótum á velferðarsviði því hér er um að ræða afar viðkvæman hóp barna og ungmenna. Flokkur fólksins telur að rétt væri að skoða arðgreiðslur þessara vistheimila en það er ekki gert í dag.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. mars 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda skólaforðunarmála sem vísað var til Barnaverndar árið 2022, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. febrúar 2023. VEL23020053.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði  upplýsinga um hversu mörgum skólaforðunarmálum var vísað til Barnaverndarnefndar árið 2022? Áður hafði Flokkur fólksins fengið sambærilegar upplýsingar um árin 2020 og 2021.  Í svari sviðsstjóra um árið 2022  kom fram að fjöldi tilkynninga vegna vanrækslu varðandi nám eins og það er orðað hefur aukist mikið. Árið 2019 voru þessi mál 67, árið 2021 voru þau 46 en árið 2022 eru málin um 70. Þetta er áfall. Flokkur fólksins hefur gert skólaforðunar vandamál að umræðu oftar en einu sinni og verið með bæði tillögur og fyrirspurnir í því sambandi. Óttast er að velferðarsvið og skóla- og frístundasvið hafi sofnað á verðinum. Bent hefur verið á að þau viðmið sem fara á eftir séu ekki samþykkjanleg af öllum skólum þar sem blandað er saman fjarvist vegna sálfræði- og félagslegra vandamála annars vegar  og fjarvistum vegna  óleyfilegra fjarvista hins vegar. Ekki er ósennilegt að endurskoða þurfi þetta viðmiðunarkerfi, skera af því agnúa og á þetta hefur Flokkur fólksins oft bent.

    Fylgigögn

  16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fátækt er brot á mannréttindum barna og ber okkur samfélagsleg skylda til að tryggja að ekkert barn sé utangarðs vegna fátæktar. Fulltrúi Flokks  fólksins spyr hvort Reykjavíkurborg  sé með slíka  stefnu eða áætlun til að uppræta fátækt barna í Reykjavík? Í nýrri skýrslu Barnaheilla  kemur fram að um 10 þúsund íslensk börn búa við fátækt og að fátækt hafi aukist. Eins og Barnaheill segja, þá er eitt barn sem elst upp við fátækt á Íslandi einu barni of mikið. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að árið 2021 áttu 24,1% íslenskra heimila í erfiðleikum með að standa straum af daglegum útgjöldum. Í rúmlega helmingi tilfella voru það heimili einstæðra foreldra og 16,1% voru heimili tveggja eða fleiri fullorðinna með börn. Verðbólga og hækkun vaxta hefur aukið greiðslubyrði  fjölskyldna af húsnæðislánum, leiguverð hefur hækkað og allur framfærslukostnaður. Eitt af hverjum fimm börnum sem búa í leiguhúsnæði eiga á hættu að falla í fátækt. Flokkur fólksins tekur undir með Barnaheillum að það er mjög mikilvægt að gera stefnu og áætlun til að tryggja öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til menntunar, heilsu, verndar og þátttöku. VEL23030049.

  17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins hefur fengið kvartanir frá leigjendum Félagsbústaða um að ekki sé hægt að fá aðstoð hjá Félagsbústöðum ef eitthvað fer úrskeiðis utan skrifstofutíma. Í þessum kvörtunum kemur fram að rafmagnslaust hafi verið í 12 tíma í  fjölda íbúða á Meistaravöllum. Leigjendur reyndu að hafa samband við Félagsbústaði en það var ekki hægt og urðu þeir því að hringja í 112. Flokkur Fólksins spyr hvort þetta sé rétt og hvort ekki sé hægt að hringja í eitthvað neyðarnúmer hjá Félagsbústöðum  utan hefðbundins opnunartíma ef upp kemur bilun eða erfitt tilvik hjá leigjendum Félagsbústaða? VEL23030050.

     

  18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um akstursþjónustu fatlaðs fólks kemur margt athyglisvert fram. Sérstaklega fróðlegt er að skoða niðurstöðu þjónustukönnunar sem gerð var síðastliðið ár á heimasíðu Pant. Það er ánægjulegt að sjá að meirihluti notenda er ánægður með þjónustuna. Það vakti hins vegar athygli fulltrúa Flokks fólksins að fjöldi þeirra sem eru óánægðir hefur fjölgað milli áranna 2021 og 2022. Flokkur fólksins hefur áhuga á að vita hvort einhverjir notendur akstursþjónustunnar hafi gefist upp á að nota hana. Er hægt að sjá hversu margir hafa sagt upp þjónustunni á síðasta ári og voru gefnar upp ástæður fyrir uppsögn? VEL23030051.

     

Fundi slitið kl. 16:03

Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorvaldur Daníelsson

Helga Þórðardóttir Magnús Davíð Norðdahl

Sandra Hlíf Ocares

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 15. mars 2023