No translated content text
Velferðarráð
Ár 2023, miðvikudagur 11. janúar var haldinn 443. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.
-
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna reksturs og þjónustu við langveik börn sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. VEL23010014.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Að störfum er hópur sem á að skýra hlutverk ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Undirbúningur er hafinn að viðræðum við ráðuneytið m.a. með kortlagningu þeirrar þjónustu sem verið er að veita fötluðum og langveikum börnum í RVK sem farið verður í á grundvelli þeirrar niðurstöðu. Þetta er mikilvæg þjónusta sem Reykjavíkurborg er að sinna sem er að stórum hluta heilbrigðisþjónusta sem er á ábyrgð ríkisins.
Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Undir þessum lið kemur ekki margt fram um þjónustu við langveik börn annað en að lagt er til að hafnar verði viðræður við ríkið um að taka að sér rekstur búsetuúrræða og þjónustu við fötluð og langveik börn þar sem margháttuð heilbrigðisþjónusta er veigamesti þáttur þjónustunnar. Flokkur fólksins fagnar því að undirbúningur sé hafinn að viðræðum við ráðuneytið m.a. með kortlagningu þeirrar þjónustu sem verið er að veita fötluðum og langveikum börnum. Vonandi dragast þessar viðræður ekki á langinn og vonandi fæst farsæl niðurstaða fyrir þennan viðkvæma hóp. Á meðan þarf borgin að hugsa hvernig hægt er að sinna þessum hópi barna og foreldrum þeirra sem mest og best.
-
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna rekstur Seljahlíðar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. VEL23010015.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í Seljahlíð er rekið hjúkrunarheimili með einungis 20 hjúkrunarrýmum. Reksturinn hefur árum saman verið rekinn með halla enda rekstrareiningin of smá til að daggjöld geti staðið undir rekstrinum. Í nýlegri skýrslu ríkisins um rekstur hjúkrunarheimila er viðmiðið 80 rými. Unnið verður að því með heilbrigðisyfirvöldum að finna þessum 20 hjúkrunarrýmum betri stað þannig að rekstrarleyfin flytjist til annarra.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins mótmælir að rekstur 20 hjúkrunarrýma í Seljahlíð verði lagður niður á meðan ekki liggur fyrir nánari útfærsla. Nú þegar eru alltof fá hjúkrunarheimili. Á meðan að ekki er tryggt að jafnmörg ef ekki fleiri hjúkrunarrými komi í staðinn þá finnst fulltrúa Flokks fólksins ekki hægt að styðja þessa tillögu. Helstu rökin fyrir tillögunni eru þau að Seljahlíðar hjúkrunar einingin er lítil og óhagkvæm í rekstri. Mætti ekki skoða að gera hana hagkvæmari með einhverjum breytingum? Hér er um tillögu borgarinnar að ræða og segir að hún hafi verið kynnt heilbrigðisráðuneytinu og viðræður um málið að hefjast. Þetta er allt mjög óljóst og loðið og í ljósi þess hvernig heilbrigðismálin eru í landinu er Flokkur fólksins ekki bjartsýnn á farsælan endi þessara viðræðna. Alvarlegur skortur er á hjúkrunarheimilum eins og ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum og í málflutningi heilbrigðisráðherra. -
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna leigusamnings um þjónustumiðstöð á Sléttuvegi sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. VEL23010016.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt til að meirihlutinn hefji viðræður um að segja upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27 ásamt leigusamningi um þjónustumiðstöð DAS við Sléttuveg í Reykjavík. Eins og með Seljahlíð þá er ekki hægt að styðja eitthvað sem kemur til lækkunar þjónustusamnings þar sem notendur eru hópur sem nú þegar er sveltur af margs konar þjónustu. Segir í Stöðu máls að verið sé að gera könnun á nýtingu fólks sem ekki er búsett í húsnæðinu á þjónustunni sem stendur yfir. Er hér átt við að fólk sem er ekki búsett í húsnæðinu er ekki velkomið að nýta þjónustuna sem þarna um ræðir? Ef svo er þá væru það kaldar kveðjur til þeirra sem notið hafa þess að koma á þjónustumiðstöðina en búa mögulega annars staðar.
-
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna unglingasmiðja sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. Einnig lagt fram erindisbréf starfshóps um endurskipulagningu þjónustu við markhóp unglingasmiðja, dagsett 11. janúar 2023. VEL23010012.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Eftir að Keðjan var stofnuð hefur verið farið í endurskoðun á úrræðum og þjónustu Reykjavíkurborgar við börn og ungmenni. Í slíkri endurskoðun hefur verið talið að mögulega sé betra að markhópi úrræðanna verði sinnt í samstarfi við fagfólk félagsmiðstöðva undir skóla- og frístundasviði og Keðjunnar sem hluti af Betri borg fyrir börn án þess þó að hætta að þjónusta þennan hóp. Skipaður hefur verið starfshópur til þess að endurskoða hvernig best megi þjónusta markhóp úrræðanna.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að halda unglingasmiðjunum í núverandi mynd þar sem að starfsemin hefur sannað sig og virkar vel fyrir ungmenni í viðkvæmri stöðu og er mjög mikilvæg fyrir þau. Ef eitthvað er þá er mikilvægt að stækka unglingasmiðjurnar svo að fleiri geti haft þann kost að leita þangað. Mikilvægt er að úrræðin séu aðgengileg þeim sem á þurfa að halda. Unglingasmiðjurnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fjölmörg ungmenni við styrkingu sjálfstrausts, sjálfsmyndar, trausts og fleiri þátta sem varða líf og líðan ungmenna.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar leggist af og markhópi úrræðanna verði sinnt í samstarfi fagfólks félagsmiðstöðva. Flokkur fólksins telur að með því að leggja niður þessar unglingasmiðjur sé verið að höggva gróflega í viðkvæma þjónustu. Á þessum stöðum er starfrækt mikilvæg þjónusta við okkar allra viðkvæmustu unglinga. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa tekið á móti unglingum sem hafa orðið fyrir einelti, eru óframfærnir eða óvirkir, sýna einkenni kvíða og þunglyndis, eru með lítið sjálfstraust, slaka sjálfsmynd og félagsfærni og búa við erfið uppeldisskilyrði. Starfsemi smiðjanna hefur verið ómetanleg fyrir þennan hóp unglinga. Minnt er á að leiðarljós forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar er að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi, sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd, einkennist af samkennd og býr yfir viðeigandi stuðningsúrræðum, þegar þörf krefur. Sparnaður Reykjavíkurborgar við að loka unglingasmiðjunum er um 63 m.kr. Á móti ætti síðan að koma aukinn kostnaður hjá félagsmiðstöðvunum við að þjónusta börnin. Flokkur fólksins telur að hér sé verið að taka mikla áhættu með því að eyðileggja gott starf og fórna mikilli reynslu. Til lengri tíma sparast ekkert því allir vita að starf með unglingum á jaðrinum sparar mikið fé til lengri tíma.Fylgigögn
-
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um Vin dagsetur sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dagsett 11. janúar 2023, um starfsemi Vinjar á Hverfisgötu, ásamt fylgiskjölum, og erindisbréf starfshóps um starfsemi Vinjar, dagsett 11. janúar 2023. VEL23010013.
Elín Ebba Ásmundsdóttir, varaformaður Geðhjálpar, Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata í velferðarráði telja nauðsynlegt að úrræðið Vin verði rekið í óbreyttri mynd út þetta ár og eins á meðan ekki hefur fundist ásættanleg lausn sem notendur þjónustunnar, hagsmunaaðilar og fagfólk móta í sameiningu. Umræddir fulltrúar bera fullt traust til þess starfshóps sem skipaður hefur verið til þess að yfirfara fyrirkomulag úrræðisins til framtíðar litið. Nauðsynlegt er að engar breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda, hagsmunaaðila og fagfólks.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði hafnar því að enn einu sinni verði skipaður starfshópur varðandi málefni Vinjar. Ákvörðun um breytingu á starfsemi Vinjar var tekin árið 2021 og starfshópur skipaður til að vinna að útfærslu á breyttri starfsemi. Sá starfshópur skilaði niðurstöðu í maí 2021, niðurstöður voru unnar í samráði við notendur, fagfólk, hagsmunaaðila og starfsfólk. Vegna aðstæðna í samfélaginu í gegnum Covid tafðist vinna við útfærslu á þessum niðurstöðum. Núverandi meirihluti tók ákvörðun um að setja þessa ákvörðun sem tekin var árið 2021 um breytingu á starfsemi Vinjar undir hagræðingartillögur sínar á borgarstjórnarfundi 6. des sl. sem vekur furðu og hefur í raun eingöngu valdið óþarfa fjaðrafoki um mál sem þegar var búið að taka ákvörðun um 2021 og búið að vinna í starfshóp. Í stað þess að setja af stað nýjan starfshóp ætti að vinna með þær tillögur sem nú þegar er búið að vinna af starfshópnum sem var skipaður 2021 og halda fókus með að koma þjónustu við þennan viðkvæma hóp í farveg til framtíðar í takt við þær tillögur sem að þegar er búið að vinna í stað þess að eyða meiri tíma í enn fleiri starfshópa.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í ljósi þeirra radda sem hafa komið fram hjá þeim sem sækja Vin, telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að halda starfseminni áfram óbreyttri.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn leggur til að Vin dagsetur verði lagt af en markhópi þjónustunnar mætt á félagsmiðstöðvum borgarinnar. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að Vin dagsetur verði lagt af og hvetur meirihlutann til að halda starfseminni að mestu óbreyttri. Starfsemi Vinjar hvílir á sterkum grunni og þar er ákveðinn kjarnahópur gesta sem hefur ekki getað nýtt sér önnur úrræði. Félagsmiðstöðvar borgarinnar eiga að taka við fjölda verkefna en það er ekki ýkja langt síðan kvartað var yfir miklu álagi á miðstöðvarnar og þá aðallega vegna fjölda flóttamanna. Því má spyrja hvort það sé raunhæft að miðstöðvarnar bæti enn frekar á starfsemina. Þessi ákvörðun er jafnframt í hróplegri mótsögn við það sem kemur fram í niðurstöðum starfshóps um Vin í maí 2021. Þar segir “Þjónusta Vinjar er mjög mikilvæg þeim sem hana sækja reglulega. Ef starfsemi Vinjar verður lögð niður þá yrði það afar slæmt fyrir stóran hóp gesta Vinjar sem hafa ekki fundið sig í öðrum úrræðum.” Jafnframt er tekið fram að allar ákvarðanir um Vin verði teknar í samráði við notendur og hugað að líðan þeirra og vilja. Fulltrúi Flokks fólksins efast um að slíkt samráð hafi farið fram ef horft er til fjölda mótmæla sem hafa borist borgarfulltrúum.Fylgigögn
-
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna samstarfs Virknihúss, Bataskóla o.fl. sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. VEL23010017.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í haust var settur á laggirnar stýrihópur sem vinnur að mótun fyrstu virknistefnu Reykjavíkurborgar. Hópurinn er að skoða hvar má gera betur og hvar er hægt að samnýta krafta og úrræði. Það er því eðlilegt að sá hópur skoði þessi mál og komi með tillögu/útfærslu á þessu. -
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna niðurfellingar reglna Reykjavíkurborgar um styrki til áfangaheimila frá 16. desember 2008 sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dagsett 11. janúar 2023, um styrki til áfangaheimila og bréf Spörva Líknarfélags, dagsett 28. desember 2022, til borgarstjórnar Reykjavíkur. VEL23010018.
Frestað. -
Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar vegna stefnumörkunar félagsmiðstöðva, samfélags- og menningarhúsa í borginni sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 6. desember 2022. VEL23010019.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í haust var settur á laggirnar stýrihópur sem vinnur að mótun fyrstu virknistefnu Reykjavíkurborgar. Hópurinn er að skoða hvar má gera betur og hvar er hægt að samnýta krafta og úrræði. Hópurinn er sömuleiðis að skoða það sem snýr að samfélagshúsum og fleiru. Það er því eðlilegt að sá hópur skoði þessi mál og komi með tillögu/útfærslu í þessum málum.
-
Fram fer kynning á nýju umdæmisráði Barnaverndar Reykjavíkur og öðrum breytingum því samfara. VEL23010020.
Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. desember 2022, um kosningu í umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur. MSS22110124.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 11. janúar 2023, um fyrirkomulag strætómiða fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. VEL22120104.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Eftir að nýtt greiðslukerfi strætó tók við og lausasala miða hætti skapaðist vandamál fyrir heimilislausa að koma sér á milli staða. Áður hafði starfsfólk neyðarskýla geta gefið áfram miða til heimilislausra til þess að sækja dagúrræði eins og Hjálpræðisherinn við Suðurlandsbraut sem Reykjavíkurborg styrkir til að sjá um þjónustu við hópinn. Hefur verið unnið að því að finna lausn á þessum vanda og Strætó bs sem hefur fallist á það að gefa út farmiða fyrir þá sem eru þjónustuþegar borgarinnar í málaflokki heimilislausra. Ánægjulegt er að þessir miðar séu aftur að koma í notkun enda brýnt að heimilislaust fólk geti farið úr neyðarskýlum í dagúrræði.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins telur að með tilkomu Klapps greiðslukerfis hafi strætó misst marga notendur. Það eru ekki allir með farsíma þótt flestir séu það, það eru ekki allir nettengdir og það eru ekki allir með rafrænar undirskriftir. Loksins er Strætó og velferðarsvið að átta sig á þessari stöðu og er með þessari tillögu að bregðast við með því að gefa út strætómiða til hagsbóta fyrir þá sem eru með flóknar þjónustuþarfir. Bjóða þarf fleirum að notast við strætómiða t.d. Þroskahjálp. Almennt gjald í Strætó er 550 kr. Reykjavíkurborg niðurgreiðir strætisvagnafargjöld fyrir aldraða og öryrkja um 70% eða um 385 kr. Á það má þó minnast að árskort fyrir aldraða hefur hækkað mikið síðasta misseri.
Fylgigögn
-
Lögð fram til kynningar samantekt starfshóps velferðarráðs um styrkveitingar úr borgarsjóði til velferðarmála 2023. Trúnaðarmál. VEL23010021.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um markvissa heilsueflingu fyrir eldri íbúa í Reykjavík, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs og menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 6. maí 2022, ásamt umsögn ÍTR, dags. 9. desember 2022 og umsögn velferðarsviðs, dags. 11. janúar 2023:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að Reykjavíkurborg bjóði íbúum yfir 65 ára að taka þátt í markvissri heilsueflingu. Velferðarsvið í samráði við öldungaráð Reykjavíkurborgar fái það hlutverk að kanna hvort framkvæmdin skuli vera í samstarfi við íþróttafélögin í borginni eða sjálfstætt starfandi fagaðila.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22050020.
Vísað til stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks til ársins 2026.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar þessari tillögu, að Reykjavíkurborg bjóði íbúum yfir 65 ára að taka þátt í markvissri heilsueflingu. Heilsuefling eykur lífsgæði og er fyrirbyggjandi gegn ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Jafnframt eykur heilsuefling möguleika fólks á að búa sem lengst heima hjá sér. Nú er komin út skýrsla starfshóps heilbrigðisráðuneytisins um heilsueflingu aldraðra, ásamt aðgerðaáætlun. Í nýrri lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er einnig komið inn á heilsueflingu. Í þessu sambandi má nefna að Flokkur fólksins lagði til fyrir allnokkru að stofnað yrði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Kannanir sýna mikla notkun geðlyfja hjá öldruðum á Íslandi án þess að formleg geðgreining liggi fyrir. Ekki eru heldur skýr tengsl milli geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa hjúkrunarheimila. Tillögunni var hafnað og mun flokkurinn leggja hana fram að nýju. Fulltrúi Flokks fólksins elur enn þá von í brjósti að Reykjavík eigi eftir að eignast hagsmunafulltrúa aldraðra sem gæti einmitt komið sterkt inn í heilsueflingu aldraðra. Hann getur sem dæmi hvatt til og haldið utan um aðgerðir sem eru til þess fallnar að styðja við heildstæða heilsueflingu fyrir eldri borgara.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að veita lágtekjuheimilum sértæka aðstoð vegna gjalda tengdum börnum, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs sbr. 7. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. júní 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 11. janúar 2023.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22060162.
Tillaga felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn veitti lágtekjuheimilum sértæka aðstoð vegna gjalda tengdum börnum. Það er afar mikilvægt að tryggja að öll börn sitji við sama borð og að þau hafi jöfn tækifæri án tillits til efnahags foreldra þeirra. Það er samfélagsleg skylda okkar að aðstoða foreldra sem eiga erfitt með að greiða gjöld vegna þjónustu við börn sín. Nú hafa allar gjaldskrár Reykjavíkurborgar hækkað og meira að segja hafa árskort fyrir ungmenni í strætó hækkað um 60%, úr 25 þúsund í 40 þúsund krónur. Það hlýtur öllum að vera ljóst að allar þessar hækkanir munu bitna verst á tekjulægstu fjölskyldunum. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af stöðu þessa hóps og vill að við henni verði brugðist.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun ákvörðunar um að leggja niður Vin, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. desember 2022:
Flokkur fólksins leggur til að tillaga meirihlutans um að leggja niður starfsemi Vinjar verði endurskoðuð. Það hlýtur að vera hægt að spara á öðrum sviðum en að taka frá fólki með geðraskanir vettvang þar sem þeir njóta félagsskapar. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir sem hefur verið rekið í um þrjátíu ár. Vin er stórum hópi gríðarlega mikilvægur staður enda er þar góð og mikil starfsemi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki ganga að niðurskurðarhnífurinn gangi svo nærri þjónustu sem þessari. Það er viðkvæmur hópur sem sækir Vin og margir líta á staðinn sem sitt annað heimili. MSS22120043.
Vísað til starfshóps um starfsemi Vinjar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða tillögur Flokks fólksins um að endurskoða skuli ákvörðun meirihlutans um að leggja niður Vin og einnig að endurskoða að leggja niður starfsemi unglingasmiðjanna Traðar og Stígs. Þessar ákvarðanir meirihlutans hafa valdið miklu uppnámi og sorg. Á þessum stöðum er um mikilvæga starfsemi að ræða, þjónustu við okkar allra viðkvæmustu hópa. Vel er hægt að beita niðurskurðarhnífnum annars staðar þar sem ekki er skert bein þjónusta við fólk. Á þessum stöðum er þjónusta við fólk sem treystir á hana og hefur fundist einmitt þessi þjónusta gefa lífi sínu lit. Flokkur fólksins mótmælir að höggva eigi í þjónustu við viðkvæma hópa eins og hér er gert til að spara. Þetta er gert á sama tíma og hefja á framkvæmdir við Grófarhús sem má bíða í nokkur misseri. Hér er gróft dæmi þess hvernig rangt er skipt, fjármagn alltaf til í skraut og skreytingar en reynt að klípa af annars staðar. Ef gera á breytingar á að gera þær í samráði við hagaðila og þá sem nota þjónustuna.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um nýtt skjól opið allan sólarhringinn ef ekki er hægt að hafa neyðarskýlin opin, sbr. 5. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. desember 2022. VEL22120101.
Vísað til stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Stýrihópur er að störfum sem er að setja saman aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra þessari tillögu er vísað þangað.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ísland er ríkt land en þar getur verið kalt og desembermánuður hefur verið kaldasti mánuður í heila öld. Á sama tíma og við eigum gnótt af auðæfum þá látum við okkar minnstu bræður og systur hírast úti í vetrarhörkum. Ættum við ekki að sýna manngæsku á tímum sem þessum og sameinast um að opna skjól fyrir okkar viðkvæmustu hópa yfir vetrartímann. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gætu sameinast um að reka slíkt skjól sem við í Flokki fólksins viljum opna. Gleymum ekki smáfuglunum hefur verið vinsælt slagorð undanfarna daga. Við í Flokki fólksins tökum auðvitað undir það en við viljum leggja áherslu á slagorðið: Gleymum ekki okkar minnstu bræðrum og systrum.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um lækkun kostnaðar vegna utanlandsferða embættismanna velferðarsviðs, sbr. 7. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. desember 2022.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22120103.
Tillögu vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð hefur samþykkt fjárhagsáætlun og sviðsstjóri ber ábyrgð á að fylgja henni, tillögunni er því vísað frá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Við hljótum öll að gera okkur grein fyrir að fjárhagur borgarinnar stendur á heljarþröm og horfa þarf í hverja krónu. Flokkur fólksins vill frekar skrúfa fyrir utanlandsferðir heldur en að loka neyðarskýlum yfir daginn. Þarna mætti færa til fjármagn í þágu þjónustu við fólk. Utanlandsferðir skila venjulega litlu til heildarinnar auk þess sem hægt er að notast við fjarfundi.Fylgigögn
-
Lagt fram að nýju 9 mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar til september 2022, sem lagt var fram sem trúnaðarmál, sbr. 2. lið fundargerðar velferðarráðs frá 30. nóvember 2022. VEL22110263.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft skilning á framúrkeyrslu velferðarsviðs í ýmsum liðum. Mikið hefur mætt á sviðinu og hefur það fengið ýmis óvænt verkefni í fangið t.d. í tengslum við komu flóttafólks frá Úkraínu. Það er mat Flokks fólksins að hækka þurfi fjárheimildir til sviðins, að meirihlutinn þurfi að horfast í augu við að velferðarsvið þarf aukið fjármagn í ýmsa liði ef það á að geta sinnt sínu hlutverki svo vel sé. Fjárheimildir eru ónógar vegna lögbundinna verkefna fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, félagsmiðstöð Sléttuvegi og orlofsnefnd húsmæðra svo dæmi séu tekin. Fulltrúi Flokks fólksins telur þó að hægt sé að spara víða á sviðinu þegar kemur að stjórnsýslu og nefnir hér aftur allt of háan leigubílakostnað. Nefna má einnig kostnað við flutning sálfræðinga út í skólana frá þjónustumiðstöðvunum. Sálfræðingar eiga auðvitað að hafa aðsetur í skólunum til að geta sinnt börnunum sem best. Þetta kunna að reynast smáaurar í stóra samhenginu en nú er staðan bara þannig að velta þarf við hverjum steini. Biðlistar barna eftir sálfræðiþjónustu halda áfram að lengjast. Á sama tíma berast fréttir af rannsóknaniðurstöðum um að líðan barna fari versnandi. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann í velferðarráð til að taka þessi mál alvarlega og setja fólkið í fyrsta sæti.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarráð/svið beiti sér fyrir að skipaður verði starfshópur til að gera úttekt á búsetuhögum öryrkja og búsetuúrræðum í Reykjavík. Óskað er eftir því að lögð verði áhersla á þá aðila sem eru á leigumarkaði með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ÖBÍ.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23010029.
Frestað.Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Tillaga um breytingar á þjónustuþáttum fyrir eldra fólk í eigin húsnæði. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23010030.
Frestað.Fylgigögn
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hefur verið skorið niður í heimastuðningi á árinu 2022 eða á þessu ári? Ef svo er hversu mikill er niðurskurðurinn? Einnig er spurt um áætlanir fyrir árið 2023 hvað varðar heimastuðning. Stendur til að skera niður í þeirri þjónustu og ef svo er, hversu mikið? Fulltrúa sósíalista hafa borist ábendingar þess efnis að breytingar hafi verið gerðar á heimastuðningi, þar sem dregið hefur verið úr stuðningi í formi heimilisþrifa þrátt fyrir að ekkert hafi breyst í stöðu umsækjenda. Óskað er eftir skýringum á þessu. VEL23010031.
Fundi slitið kl. 16:30
Heiða Björg Hilmisdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Magnea Gná Jóhannsdóttir Þorvaldur Daníelsson
Helga Þórðardóttir Magnús Davíð Norðdahl
Sandra Hlíf Ocares
PDF útgáfa fundargerðar
443. fundur velferðarráðs 11. janúar 2023