Velferðarráð
Ár 2022, miðvikudagur 14. september var haldinn 434. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Borgarráðssalnum, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11. Á fundinn mættu: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. september 2022, þar sem tilkynnt er um að samþykkt hafi verið á fundi borgarstjórnar 6. september 2002 að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í velferðarráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Söndru. MSS22060049.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 14. september 2022, um stofnun neyðarhúsnæðis fyrir heimilislausa karlmenn í miðborginni:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að verja alls 155 m.kr. til reksturs neyðarhúsnæðis í miðborginni fyrir heimilislausa karla sem dvalið hafa í langan tíma í neyðarskýlum borgarinnar. Kostnaður rúmast ekki innan fjárheimilda sviðsins.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070032.
Frestað.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að verja alls 155 m.kr. til reksturs neyðarhúsnæðis í miðborginni fyrir heimilislausa karla sem dvalið hafa í langan tíma í neyðarskýlum borgarinnar. Flokkur fólksins fagnar allri viðbót því vandinn er mikill. Sjá má á nýtingartölum að gestum í neyðarskýlum hefur fjölgað mikið og plássin eru of fá. Flokkur fólksins lagði fram á síðasti fundi tvær tillögur um þessi mál, önnur var um opnunartíma og aukna mönnun og hin um eflingu heilbrigðisþjónustu í gistiskýlum. Þessar tillögur eru báðar á dagskrá þessa fundar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 14. september 2022, um jöfnun endurgreiðslu á útlögðum kostnaði starfsfólks allra íbúðakjarna velferðarsviðs óháð fötlun íbúa:
Lagt er til að starfsfólk á sambýlum og íbúðakjörnum fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir fái greiddan útlagðan kostnað, allt að kr. 5.110.- á mánuði vegna stuðnings við þátttöku íbúa á samfélagsviðburðum, til samræmis við vinnulag í stoðþjónustu velferðarsviðs. Áætlað er að tillagan feli í sér viðbótarkostnað, allt að 15,3 m.kr. á árinu 2023, sem rúmast ekki innan fjárheimilda sviðsins.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22090024.
Vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2023.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður þetta sanngirnismál þ.e. að þeir sem búa á íbúðakjörnum á vegum Reykjavíkurborgar, sem og starfsmenn sem starfa á íbúðakjörnum, sitji við sama borð þegar kemur að greiðslu kostnaðar vegna samfélagsviðburða sem þeir sækja. Tillagan gerir ráð fyrir að sama regla gildi um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar á öllum íbúðakjörnum Reykjavíkurborgar, óháð fötlun þeirra sem þar búa. Umfram allt skiptir máli að íbúar í öllum íbúðakjörnum komist á viðburði. Fólkið má ekki einangrast og gæta þarf jafnræðis í þessu sem öðru að mati Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Lögð fram til kynningar drög að gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs 2023. VEL22090029.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Gott er að sjá að greiðslur til stuðningsfjölskyldna taka hækkunum og fulltrúi sósíalista styður slíkt en aðrar gjaldskrárhækkanir sem eru boðaðar geta verið þungur biti fyrir margt fólk. Mikilvægt er að gjaldskrárnar taki mið af stöðunni sem er í samfélaginu og nú í ljósi þungrar greiðslubyrði margra og þeirra sem hafa það verst er nauðsynlegt að gjaldskrár taki mið af því. Leggja þarf áherslu á þá tekjuöflun að ríkt fólk greiði einnig til samfélagsins í formi útsvars á fjármagnstekjur.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum hækka um 4,9% og þjónustugjöld í íbúðum fyrir aldraða hækkar um 4,9%. Flokkur fólksins er alfarið á móti því að verið sé að hækka gjaldskrá á þessa viðkvæma hópa nú þegar verðbólga er há og allt er að hækka. Flokkur fólksins mun leggja til í fyrri umræðu fjárhagsáætlunar þegar fjallað um gjaldskrárhækkanir að gjaldskrár fyrir þjónustu til viðkvæmra hópa verði frystar.
-
Lagt fram minnisblað, dags. 14. september 2022, um áhrif hækkunar örorkubóta á greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings í samræmi við nýuppfærðar leiðbeiningar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.VEL22090025.
Samþykkt að velferðarsvið haldi áfram vinnu á grundvelli minnisblaðsins.Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun reglna um sérstakan húsnæðisstuðning, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. júní 2022 ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 14. september 2022.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22060233.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að borgarráð samþykki að fela velferðarráði að endurskoða reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, í því skyni að hækka tekju- og eignamörk vegna húsnæðisstuðnings um að minnsta kosti 3% í samræmi við ný uppfærðar leiðbeiningar félags og vinnumarkaðsráðuneytisins. Segir í umsögn að miðað við greiddar umsóknir í júní 2022 leiðir 3% hækkun grunnfjárhæðar til 8 m.kr. hækkunar á greiðslum frá Reykjavíkurborg á mánuði eða áætlað um 96 m.kr. á ársgrundvelli. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi kostnaður ekki verulegur, 8 m. kr. á mánuði. Það skiptir engu hve mikið af þessari hækkun færi í staðgreiðslu. Það segir sig sjálft að það þarf að greiða einhvern skatt af hækkuninni. Ef eitthvað, þá styðja þær bollaleggingar enn frekari hækkun um 3%. Þetta sýnir jafnframt hvað þetta skatta og skerðingar kerfi er orðið flókið. Svo flókið að það þarf her sérfræðinga til að skilja kerfið. Þessi tillaga er felld. Velferðarráð ákveður að setja hluta málsins í frekara ferli og fögnum við í Flokki fólksins því og viljum gjarnan styðja það.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á drögum að aðgerðaáætlun með stefnu velferðarsviðs í velferðartækni 2022-2026. VEL22070010.
Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri rafrænnar miðstöðvar og Svanhildur Jónsdóttir, teymisstjóri velferðartæknismiðju, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokki fólksins finnst stefna velferðarsviðs um velferðartækni metnaðarfull og mun hún án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi. Glærukynningin vakti upp margar spurningar en kynningin var mjög góð og vill fulltrúi Flokks fólksins gjarnan fá fund til að prófa lausnirnar þegar þær eru tilbúnar. Fulltrúi Flokks fólksins styður allt sem er gert til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík. Flokkur fólksins vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti og að forgangsraðað sé í þjónustu sem gagnast notendum.
-
Fram fer kynning á ramma að samkomulagi um samræmda móttöku flóttafólks. VEL22090033.
Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi Alþjóðateymis, Magnea Kristín Marinósdóttir, teymisstjóri samræmdrar móttöku flóttafólks og Magdalena Kjartansdóttir, deildarstjóri þjónustuteymis við umsækjendur um alþjóðlega vernd, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um breyttan opnunartíma neyðarskýla borgarinnar, sbr. 7. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022. VEL22090005.
Vísað til vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að opnunartíma neyðarskýla verði breytt þannig að þau verði opin að degi til líka. Tillögunni er vísað til stýrihóps um aðgerðir í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins fagnar því að þetta fari í frekari skoðun þar sem nú fer vetur í hönd og hefur Flokkur fólksins áhyggjur af þeim sem þiggja þjónustu gistiskýlisins þegar veður verða válynd. Að gefa þessum einstaklingum sem hvergi eiga höfði sínu að halla ekki tækifæri til inniveru að degi til er ábyrgðarhluti. Hér er ekki um margar krónur að ræða í stóra samhenginu. Hér gæti hins vegar verið um heilsu og jafnvel líf að ræða. Dæmi eru um að þeir sem bíða eftir að komast inn klukkan 5 húki einhvers staðar úti undir vegg. Þetta er ekki boðlegt. Reykjavíkurborg getur gert betur.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er um mikilvægt mál að ræða, nauðsynlegt er að tryggja að ávallt sé opið húsnæði sem standi til boða. Hér þarf einnig að tryggja að ávallt sé starfsfólk sem geti mætt ólíkum þörfum þeirra sem dvelja í neyðarskýlunum. Sósíalistaflokkur Íslands lagði til í borgarstjórn þann 15. febrúar 2022 að neyðarskýlin væru opin allan sólarhringinn. Tillögunni var vísað til meðferðar stýrihóps um endurskoðun á aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Tillagan hefur enn ekki komið til afgreiðslu og nauðsynlegt er að tryggja sólarhringsopnun. Hér er mikilvægt að vekja athygli á nýlegu viðtali við mann sem hefur gist í gistiskýli borgarinnar og hrósar starfsfólkinu þar og leggur áherslu á að gistiskýlin verði opin allan sólarhringinn. Í viðtalinu kemur fram að þann 12. október muni manneskjurnar ekki fara út klukkan tíu, heldur vera kyrrar. Reykjavíkurborg hafi því einn mánuð til að gera ráðstafanir. Fulltrúi sósíalista ítrekar mikilvægi þess að tillagan komi til afgreiðslu sem fyrst þannig að enginn þurfi að fara út klukkan 10 um morguninn og vera úti til klukkan 17:00 á daginn. Ef það er alls ekki hægt að tryggja sólarhringsopnun nú, þarf allavega að tryggja húsnæði sem hægt er að vera í yfir daginn.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um eflingu heilbrigðisþjónustu í gistiskýlum velferðarsviðs, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022. VEL22090004.
Vísað til vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að velferðarsvið beiti sér fyrir því að bæta aðstæður, fjölga stöðugildum og bæta þjónustu með því að koma á samningi milli borgarinnar og heilsugæslunnar. Tillögunni er vísað til stýrihóps um aðgerðir í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins fagnar því og vonar að það verði tekið tillit til þessara skoðana. Gistiskýlið á Lindargötu á sér langa sögu og undanfarin ár hefur ekki verið hugað nægjanlega vel að því. Skýlið er löngu sprungið og aðstæður langt því frá að vera góðar. Hér er um að ræða okkar minnstu bræður í samfélaginu sem þarfnast aðstoðar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um flutning á aðsetri skólasálfræðinga í skóla sem hafa aðstöðu, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 14. september 2022. VEL22060057.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í umsögn gætir misskilnings. Hvergi í tillögu þessari er lagt til að sálfræðingur sé í 100% viðveru innan hvers skóla. Skólar eru misstórir og þarfir þeirra mismunandi til sálfræðiþjónustu. Algengt er að sálfræðingur sinni 1-3 skólum eftir stærð og þörfum. Flokkur fólksins hefur barist árum saman fyrir því að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum en ekki á miðstöðvum Reykjavíkurborgar. Að sálfræðingar hafi aðsetur á miðstöðvum frekar en úti í skólum er bæði óhagkvæmt og ekki í þágu barnanna né kennara. Kostnaður vegna ferða sálfræðinga er um 3 milljónir á ári. Skólasálfræðingar eiga að starfa þar sem þeir geta verið til taks og sinnt ráðgjöf samhliða viðtölum og greiningum. Nú bíða um 2011 börn eftir þjónustu en árið 2018 biðu um 400 börn. Í umsögn eru alls kyns rök reifuð fyrir því að hafa sálfræðinga á miðstöðum en ekki í skólum. Komið er inn á mikilvægi þess að fagfólk sé staðsett saman til að eiga í þverfaglegri vinnu. Þessu er fulltrúi Flokks fólksins ekki sammála. Vel er hægt að vera í þverfaglegri vinnu þótt sálfræðingar hafi aðsetur í skólum. Vegna skorts á sálfræðingum er það enn brýnna að tími þeirra verði nýttur vel og sem mest í návist nemenda.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins um fasta viðveru sálfræðinga í öllum grunnskólum borgarinnar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 24. maí 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 14. september 2022. MSS22050218.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Rétt er að það er mikill skortur á sálfræðingum og brýnt að þeim verði fjölgað þannig að þeir nái að anna aukinni eftirspurn með eðlilegum hætti í hverjum skóla fyrir sig. Sálfræðingum hefur ekki verið fjölgað í skólum borgarinnar svo árum skiptir. Markmiðið hlýtur að vera að í hverjum skóla sé sálfræðingur sem annar þeim sálfræðiverkefnum sem óskað er eftir að hann sinni. Skólar eru misstórir og þarfir þeirra mismunandi til sálfræðiþjónustu. Algengt er að sálfræðingur sinni einum til þremur skólum eftir stærð og þörfum og vill Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins leggja áherslu á að sálfræðingar hafi aðsetur í skólanum en ekki á miðstöð. Mörg dæmi eru um að bæði börn og foreldrar í einstaka skólum hafa ekki hugmynd um að við skólann starfi sálfræðingur því hann er ekki sýnilegur og fjölmargir hafa aldrei séð skólasálfræðing í skóla barna sinna. Skólasálfræðingar eiga að starfa þar í nærumhverfi barna, þar sem þeir geta verið til taks og sinnt ráðgjöf samhliða viðtölum og greiningum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að mæta þörfum þeirra sem vísað er úr landi, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 25. maí 2022. VEL22050035.
- kl. 16:11 víkur Helgi Áss Grétarsson af fundinum.
Frestað.
Fylgigögn
-
Lagt er til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti sem fyrsti varafulltrúi Sönnu Magdalenu Mörtudóttur í áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. VEL22060021.
- kl. 16:14 tekur Helgi Áss Grétarsson aftur sæti á fundinum.
Samþykkt.
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 14. september 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um fjölda á biðlista eftir NPA hjá Reykjavíkurborg, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022. VEL22090009.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 14. september 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aðstæður í íbúðakjarnanum í Rökkvatjörn, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 22. júní 2022. VEL22060059.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst mjög mikilvægt að íbúar geti haft stað í Rökkvatjörn til að hittast og blanda geði. Við skipulagning og hönnun á Rökkvatjörn hafði gleymst að gera ráð fyrir slíku rými. Það mun þurfa sérstakar aðgerðir til að vinda ofan af þessum mistökum. Það er stór þáttur í vellíðan og hamingju allra að eiga í samskiptum við annað fólk, jafningja okkar sem annarra og gildir þá einu um hvort viðkomandi sé fatlaður, eldri borgari eða tilheyrir öðrum hópi. Ekki er séð að það fari saman að hafa einhverja eina íbúð sem á bæði að rúma starfsmannaaðstöðu og einnig sameiginlega viðburði eins og segir í svarinu. Hætta er á að sú íbúð endi sem aðeins starfsmannaaðstaða. Eins má spyrja hvort það sé besta fyrirkomulagið að forstöðumaður sé sá sem „aðstoðar” íbúa við að taka ákvarðanir um nýtingu umræddrar íbúðar. Vel kann að vera að forstöðumaður hafi aðra skoðun á hvernig nýta skuli þessa íbúð. Íbúar þurfa að geta átt val um hvern þeir velja til að fá ráð hjá eða leita ráða hjá. Samráð og mikilvægi þess hefur verið margrætt í borgarstjórn undanfarin misseri. Að sjálfsögðu eiga verðandi íbúar og þeirra talsmenn að koma að ferlinu og hafa mikið að segja til um það.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að Reykjavík kaupi rafknúin farþegahjól fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Þessi hjól hafa verið keypt í Hafnarfirði og hafa veitt gleði og frelsi þar sem þau koma fólki milli staða með auðveldum hætti. Þau eru rafknúin og auðveld í notkun. Komin er ákveðin reynsla á þessi hjól og hafa þau sem nota þau fundist þetta bæta lífsgæði þeirra. Þessi hjól eru sögð hjálpa til við að efla þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. VEL22090105
Frestað.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að farið verði í kynningarátak á þeim snjallforritum sem eru notuð í bílastæðum borgarinnar og bara almennt í bílastæðum Reykjavíkur. Margir og kannski einkum eldri kynslóðin er hrædd við notkun slíkra lausna. Fjölmargir hafa ekki hugmynd um hvaða forrit eru í boði og gildir þá einu um reynslu og aldur í sjálfu sér. Upplýsingagjöf til borgarbúa er á ábyrgð borgaryfirvalda. VEL22090106
Frestað.
-
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hinn 20. september 2018 samþykkti borgarráð að kaupa smáhýsi í þágu verkefnisins „Húsnæði fyrst“, sem hefur verið rekið á vegum velferðarsviðs. Í framhaldi af útboði gekk innkauparáð hinn 27. maí 2019 að tilboði Yabimo ehf. um smíði 20 smáhýsa. Framkvæmdum við uppsetningu á fimm smáhýsum og lóðarfrágangi við Gufunesveg 4 lauk í desember 2020. Kostnaður vegna uppsetningar þessara 5 smáhýsa nam 33,4 m.kr. eða samtals 167 m.kr. 1. Hversu mikil nýting hefur verið á áðurnefndum 5 smáhýsum á tímabilinu 1. janúar 2021 til og með 31. ágúst 2022, þ.e. hversu margir hafa nýtt sér þetta úrræði og hversu margar hafa gistinæturnar verið á þessu tímabili? 2. Hver var kostnaður velferðarsviðs að reka áðurnefnd 5 smáhýsi við Gufunesveg á sama tímabili, þ.e. frá 1. janúar 2021 til og með 31. ágúst 2022? 3. Fyrir utan smáhýsin við Gufunesveg, hversu mörg af hinum 15 hafa verið tekin í notkun, hvar hafa þau verið starfrækt og hver hefur verið kostnaðurinn af því að reka þau? 4. Hversu mörg smáhýsi eru núna geymd á svæði Reykjavíkurborgar við Skeljanes í Skerjafirði og hver hefur verið kostnaðurinn af því að geyma þau þar? VEL22090107
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á haustdögum 2020 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um sundurliðun á málum (tilvísunum frá skóla/foreldra til skólaþjónustu) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Þá biðu um 1.600 börn á biðlista eftir fagfólki skólanna. Nú bíða 2012 börn á þessum sama lista. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á þessum málum (tilvísunum) með eftirfarandi hætti: 1. Þyngri mál, 2. mál sem skólinn getur greint og leyst og 3. tilvísanir þar sem óskað er eftir ráðgjöf og stuðningi. Óskað er upplýsinga um hversu lengi börnin hafa beðið og hvað biðu þau börn lengi sem nú hafa fengið einhverja þjónustu.Óskað er upplýsinga um forgangslistann, hvernig raðast 2012 börn á hann, hvað eru mörg mál í forgangi og hvernig flokkast málin á forgangslistann. VEL22090108
Fundi slitið kl. 16:20
Magnea Gná Jóhannsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Helgi Áss Grétarsson Þorvaldur Daníelsson
Helga Þórðardóttir Magnús Davíð Norðdahl
Ásta Björg Björgvinsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
434. Fundargerð velferðarráðs frá 14. september 2022_0.pdf