Velferðarráð - Fundur nr. 431

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 22. júní var haldinn 431. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi. Á fundinn mættu Heiða Björg Hilmisdóttir formaður, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Auður Ósk Vilhjálmsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra um þjónustuskála Austurmiðstöðvar VEL22060037:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki að sameina þjónustuskála Austurmiðstöðvar frá 15. júlí 2022 í einn þjónustuskála að Gylfaflöt í Grafarvogi. Í dag eru staðbundnir þjónustuskálar annarsvegar í Gylfaflöt 5 og hinsvegar í Hraunbæ 115. Tillagan hefur ekki í för með kostnaðarauka fyrir velferðarsvið. 

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Samþykkt.
    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægur hluti af innleiðingu velferðarstefnu er að búa til öfluga Austurmiðstöð. Hér er ágæt lausn komin varðandi húsnæðismál en fulltrúarnir leggja til að velferðarsvið sendi umhverfis- og skipulagssviði erindi varðandi Strætó, leið 18 og hvort breyta megi þeirri leið lítillega þannig að íbúar Grafarholts og Úlfarsárdals og ytri hverfishluta Grafarvogs, yrði gert kleift að komast með almenningssamgöngum mjög nálægt miðstöðinni. Þá er sérstaklega mikilvægt að tryggja að ráðgjafar séu hreyfanlegir og taki viðtöl við notendur þar sem þeir óska, t.a.m. á heimilum þeirra eða á öðrum stöðum í nærumhverfinu til viðbótar við rafræna þjónustu, símaviðtöl og fjarviðtöl. Þannig er þjónusta tryggð við þá sem eiga erfitt með að fara á milli staða.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja að þjónustan sé í nærumhverfinu og að leiðir séu fundnar til að mæta íbúanum þar sem hann er hverju sinni. Þær leiðir þurfa að vera vel sýnilegar svo ekki sé erfitt að nálgast upplýsingar eða þjónustu.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á stefnu velferðarsviðs um velferðartækni 2022-2026. Lögð fram skýrsla stýrihóps um endurskoðun stefnu velferðarsviðs um velferðartækni. Jafnframt lögð fram tvö minnisblöð sviðsstjóra velferðarsviðs. Annars vegar minnisblað um stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar um velferðartækni fyrir árin 2020 og 2021 og hins vegar minnisblað um stöðumat velferðartæknismiðju í febrúar 2019. VEL22060046

    Kristín Sigurðardóttir verkefnastjóri í velferðartæknismiðju og Svanhildur Jónsdóttir teymisstjóri í velferðartæknismiðju, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna nýrri stefnu Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni sem mun leysa fyrri stefnu af hólmi. Ljóst er að Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi á sviði velferðartækni hér á landi, allt frá því að fyrsta stefnan var samþykkt árið 2018. Velferðartækni er ætlað að auka sjálfstæði notenda, efla þjónustuna til framtíðar og auðvelda samskipti notenda, aðstandenda og starfsfólks. Fjölmörg tækifæri liggja í eflingu velferðartæknismiðju og samþættingu hennar við rafræna þjónustumiðstöð. Einnig liggja frekari tækifæri í innleiðingu velferðartæknilausna í þjónustu við eldri borgara, fatlað fólk og borgarbúa sem glíma við veikindi.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd, t.d. hjá öðrum sveitarfélögum, ríki og erlendis og þarf því varla að eyða miklum tíma í uppgötvunarfasa og prófanir, umfram það sem þarf til aðlögunar tæknilausna og annarra nýjunga varðandi lagaumhverfi á Íslandi og annað. Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull og mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram skýrsla um sérstakan húsnæðisstuðning sem unnin var á skrifstofu fjármála- og rekstrar á velferðarsviði. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra. VEL22060047.

    Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála- og rekstrar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að sjá mikla fækkun sem er á þeim fjölda umsókna sem verða fyrir áhrifum skerðingar vegna tekna á árinu 2021. Fullt tilefni er til að skoða að þessi stuðningur fari yfir til ríksins til að auðvelda fólki aðgang að þessum stuðningi. Vegna staðsetningu bæði framhalds- og háskóla í Reykjavík er Reykjavík heimili stórs hóps námsfólks, sem gæti fallið undir sérstækan húsnæðisstuðning og eðlilegt væri að greiðsla sérstakra húsnæðisbóta til þess hóps fari frekar í gegnum ríkið enda námsfólk að koma alls staðar að.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram erindi frá Grænum skátum ásamt umsögn velferðarsviðs. Af hálfu skrifstofu málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði er mælt með að erindi Grænna skáta verði samþykkt. Mikilvægt er að auka framboð á atvinnu með stuðningi fyrir fatlað fólk, starfsemin er einnig afar umhverfisvæn og styður við æskulýðsstarf í landinu. Áætlaður kostnaður er um 10 m.kr. á ári. VEL22060040

    Arne Friðrik Karlsson, forstöðumaður á skrifstofu um málefni fatlaðs fólks, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram til kynningar erindisbréf vegna skipunar í stýrihóp um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. VEL22060048.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram til kynningar erindisbréf starfshóps um mótun forvarnaáætlunar. VEL22060039.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Forvarnaáætlun er mikilvæg og óskar velferðarráð eftir að fá að fylgjast með gerð hennar og fá til kynningar fyrir samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Velferðarráð samþykkir að Hvatningarverðlaun velferðarráðs fyrir árið 2021 verði veitt eftirtöldum: VEL22060018.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir í flokknum einstaklingar.
    Íbúðakjarninn Jöklasel 2 í flokknum hópar/starfsstaðir.
    Verkefnið Ella í flokknum verkefni.

    Fylgigögn

  9. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: VEL22060057

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að nú þegar flytjist aðsetur skólasálfræðinga út í skóla sem geta tekið við þeim og hafa rými, borð og stól til reiðu. Flestir skólar hafa kallað eftir þessu lengi. Flokkur fólksins hefur barist fyrir því allt kjörtímabilið að sálfræðingum verði fjölgað og að sálfræðingar hafi aðsetur út í skólum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Að sálfræðingar hafi aðsetur á þjónustumiðstöðvum frekar en úti í skólum er bæði óhagkvæmt og hvorki í þágu barna né kennara. Kostnaður vegna ferða sálfræðinga er um þrjár milljónir á ári. Skólasálfræðingar eiga að starfa þar sem viðfang og verkefni þeirra eru, þar sem þeir geta verið til taks og sinnt ráðgjöf samhliða viðtölum og greiningum. Því er ekkert að vanbúnaði að taka strax ákvörðun um að sálfræðingar flytji aðstöðu sína út í þá skóla sem hafa rými, borð og stól fyrir skólasálfræðinginn. Enginn kostnaður hlýst þar af og gæti flutningurinn átt sér stað nú þegar. Ef horft er á þetta raunsætt vekur það kannski ekki svo mikla furðu hvað illa gengur að vinna niður biðlista barna til sálfræðinga. Nú bíða um 2.011 börn eftir þjónustu en biðlistinn var um 400 börn árið 2018. Hér er því um brýnt forgangsmál að ræða.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

  10. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að öll óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, tillögur sem og fyrirspurnir komi til afgreiðslu hið fyrsta, nú þegar nýtt kjörtímabil er hafið. Allt of oft hafa mál verið orðin eldgömul og jafnvel margra ára gömul, þegar þau loks eru afgreidd í ráðinu. 

  11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: VEL22060059

    Nýlega flutti fatlað fólk inn í nýjan íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 en flestir íbúanna eru að fara að heiman í fyrsta sinn. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru margvísleg. Komið hefur í ljós að stór galli er á húsinu en þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geta komið saman, borðað saman og horft saman á viðburði í sjónvarpi. Foreldrar óttast að börn þeirra einangrist í íbúðum sínum, ekki síst ef þau hafa ekki færni til að kalla eftir aðstoð eða félagsskap. Mörg þeirra hafa kvartað yfir einmanaleika og öryggisleysi við að vera ein. Hvers vegna mátti ekki vera sameiginlegt rými í nýjum íbúðakjarna fyrir fatlaða? Var ekki haft samráð við foreldra við hönnun, skipulag og útfærslu íbúðakjarnans? Stendur til að finna á þessu lausn? Það hlýtur að vera hagur allra, bæði íbúa og starfsmanna að íbúarnir geti átt stundir saman í sameiginlegu rými. Ef horft er t.d. á íbúakjarna fyrir stúdenta, þá er gert ráð fyrir sameiginlegu rými og þar er um að ræða fólk sem hefur mun meiri möguleika á að vera í samskiptum við annað fólk en íbúarnir við Rökkvatjörn. 

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: VEL22060060

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr um ráðningar sálfræðinga til að vinna niður biðlista hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Skortur er á sálfræðingum í sálfræðistörf víða. Ástæða þess er án efa m.a. launamál. Því miður bar síðasta samninganefnd borgarinnar ekki gæfu til að meta störf sálfræðinga að verðleikum og lagði sig frekar fram um að klípa af þeim réttindi en að bæta laun þeirra og launaumhverfi. Árið 2021 fékk velferðarsvið 140 milljónir til að ráða skólasálfræðinga. Þessi upphæð dugar skammt ef gert er ráð fyrir að hver tími hjá sálfræðingi kosti að meðaltali 20 þúsund og hvert barn þurfi að meðaltali um fimm tíma. Það segir sig sjálft að með þetta fjármagn og 2.011 börn á biðlistanum, sem flest bíða eftir sálfræðiaðstoð, mun varla sjá högg á vatni. Hver er staða ráðningamála sálfræðinga núna hjá borginni? Hve marga sálfræðingar á að ráða á árinu 2022 til viðbótar við þá sem fyrir eru? Er verið að leita eftir að fastráða sálfræðinga? Er verið að leita eftir verktökum til að koma inn í skólana og taka ákveðinn málafjölda eða er verið að leita samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðistofur? Óskað er upplýsinga um þessi atriði, hvað hefur verið reynt, hve lengi og hvernig útlitið er framundan?

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: VEL22060061

    Óskað er upplýsinga um hvort velferðarsvið hefur sett sig í samband og haft samskipti við Sálfræðingafélag Íslands til að fá liðsinni þess og ráðgjöf, í tengslum við ráðningar á sálfræðingum hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Óskað er upplýsinga um hvort ekki hafi komið til greina að breyta grunnröðun launa sálfræðinga eða grípa til annarra úrræða til að laða sálfræðinga til að sækja um stöður skólasálfræðinga. Fordæmi um þetta má sjá hjá Reykjanesbæ. Óskað er upplýsinga um sjálfstætt starfandi sálfræðistofur sem Reykjavíkurborg hefur samið við, hvernig líta þeir samningar út og hver kostnaður er við þá?

Fundi slitið klukkan 15:52

Heiða Björg Hilmisdóttir Einar Sveinbjörn Guðmundsson

Magnea Gná Jóhannsdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þorvaldur Daníelsson

PDF útgáfa fundargerðar
431._fundargerd_velferdarrads_fra_22._juni_2022.pdf