Velferðarráð - Fundur nr. 43

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2006, miðvikudaginn 11. október var haldinn 43. fundur s og hófst hann kl. 12.15 að Tryggvagötu 17. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Sif Sigfúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.
Áheyrnarfulltrúi: Margrét Sverrisdóttir. Af hálfu starfsmanna: Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Halldóra Gunnarsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynning nýs sviðsstjóra Velferðarsviðs.
Stella Víðisdóttir mætti á fundinn.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Vegna fyrri bókana fulltrúa Samfylkingar um faglegar forsendur fyrir ráðningu sviðsstjóra Velferðarsviðs viljum við benda á að sú gagnrýni beinist ekki að Stellu Víðisdóttur persónulega.Við bjóðum nýjan sviðsstjóra velkominn til starfa og væntum góðs samstarfs við hana.

2. Lögð fram skýrsla starfshóps um stöðu og þróun í nýtingu sérstakra húsaleigubóta, dags. 6. október 2006.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Guðmundur Sigmarsson, verkefnisstjóri á Velferðarsviði mætti á fundinn.

- Steinarr Björnsson mætti á fundinn kl. 12. 30.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hver er áætlaður fjöldi félagslegra íbúða sem Reykjavíkurborg hyggst kaupa fyrir tilstilli Félagsbústaða árin 2006 og 2007?
Mun þróun sérstakra húsaleigubóta hafa áhrif á fyrirhugaða fjölgun félagslegra leiguíbúða?

3. Lögð fram tillaga að breytingu á reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

4. Lögð fram að nýju tillaga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í málefnum Barnaverndar Reykjavíkur.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Áheyrnarfulltrúi F-listans lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Frjálslynda flokksins styður að Barnavernd Reykjavíkur fái að starfa með óbreyttu sniði á þeirri forsendu að það tryggi faglega sérhæfingu þessarar viðkvæmu starfsemi.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í velferðarráði óska þess að tillaga um framtíðarfyrirkomulag barnaverndarmála fái umsögn eftirfarandi aðila áður en hún verður tekin til afgreiðslu í ráðinu. Eru meiri líkur á að umsagnir þessar leiði til frekari sátta í þessu máli.
Umsagnir óskast frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Barnavernd Reykjavíkur, Barnaverndarstofu, Þjónustu- og rekstrarsviði Reykjavíkur-borgar og þeim er starfa með Barnavernd Reykjavíkur, þ.e. skólastjórnendum í grunnskólum og leikskólum, lögreglunni og Heilsugæslunni í Reykjavík.

Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með tillögunni er fyrst og fremst verið að efla barnaverndarstarf í Reykjavík þar sem miðlæg barnavernd fær að halda styrk sínum og sérhæfingu en jafnframt viljum við efla tengingu barnaverndar við þjónustumiðstöðvar og stuðla að forvörnum og öryggi í nærsamfélagi barna.

Gengið var til atkvæða um tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í málefnum Barnaverndar Reykjavíkur.

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn tveimur. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Allt frá því á árinu 2002 hefur fyrirkomulag barnaverndarmála í Reykjavíkurborg verið í endurskoðun og breytingar verið í þá veru að auka aðkomu þjónustumiðstöðva að slíkum málum í anda valddreifingar og aukinnar grenndarþjónustu. Nú er enn einu sinni komið róti á þennan viðkvæma málaflokk með viðsnúningi sem þó er samkvæmt tillögunni til bráðabirgða. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögu meirihlutans er mikilvægt að gott samstarf sé milli Barnaverndar Reykjavíkur og þjónustumiðstöðva borgarinnar til að áhrif grenndarvinnu í hverfum borgarinnar styðji sem best við barnaverndarstarf og vinnslu barnaverndarmála.
Tillögur sem snúa við þeirri þróun sem verið hefur síðastliðinn áratug í þjónustu borgarinnar verða að vera vandlega undirbúnar og rökstuddar. Aukin áhersla borgarinnar á grenndarþjónustu býður upp á fjölmörg sóknarfæri sem þarf að skoða betur en fram kemur en í núverandi tillögu meirihluta. Hætt er við að börnum sem búa við óviðunandi aðstæður og einnig þeim sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu sé gerður ógreiði með hringlandahætti af þessu tagi. Sé það einlægur ásetningur meirihlutans að Barnavernd Reykjavíkur starfi áfram með óbreyttu sniði er mikilvægt að það starfsfólk sem vinnur að málefnum barnaverndar fái starfsfriðog umboð til að gera áætlanir til lengri tíma en tveggja ára.
Í ljósi stutts aðdraganda að framlagðri tillögu og vegna takmarkaðs undirbúnings þá munu Vinstri græn sitja hjá við afgreiðslu málsins en áskilja sér rétt til að leggja framsíðar tillögur er lúta að umbótum og fyrirkomulagi í barnavernd í Reykjavík.

Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja að ávallt sé tekið mið af þörfum barna og fjölskyldna þegar framtíð barnaverndarstarfs í Reykjavík er skipulögð. Það er okkar trú að það sé best gert í nærumhverfi barnanna og fjölskyldna þeirra. Á þjónustumiðstöðvum vinna náið saman félagsráðgjafar, skólasálfræðingar, tómstundaráðgjafar og aðrir þeir sem tengjast börnum og fjölskyldum, þar með talið í leik- og grunnskólum. Þar er höfð að leiðarljósi heildstæð nálgun og lausnarmiðuð meðferð. Með flutningi barnaverndarmála á þjónustumiðstöðvarnar, eins og unnið hefur verið að, næst samfella í stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra, eftirmeðferð og langtímastuðningur verður árangursríkari þegar hvert mál er unnið af starfsmönnum sem þaulkunnugt er um aðstæður barnsins, fjölskyldu og umhverfis þess. Reynslan hefur sýnt að langflestir einstaklingar sem Barnavernd Reykjavíkur hefur afskipti af, þurfa á margháttuðum stuðningi þjónustumiðstöðvanna að halda í einhvern tíma. Því fer vel að barnaverndarmálum sé komið fyrir sem næst fólkinu, á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.
Með því að slá verkefnaflutningum á frest um tvö ár er ekki dregið úr óöryggi starfsmanna varðandi starfsumhverfi sitt, þvert á móti.
Við teljum það afar slæm vinnubrögð hjá meirihlutanum að hafna tillögu okkar þess efnis að leita umsagnar samstarfsaðila Barnaverndar Reykjavíkur sem gæti leitt til frekari sátta í þessu viðkvæma máli.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vilja ítreka að með tillögunni er fyrst og fremst verið að hætta við það að leggja Barnavernd Reykjavíkur niður í núverandi mynd. Mikil vinna hefur farið fram hjá ýmsum starfshópum um barnaverndarmál á undanförnum árum. Sjónarmið aðila sem sjá um framkvæmd barnaverndarmála hafa komið fram þar og hafa verið höfð til hliðsjónar við gerð tillögunnar. Við ítrekum að hér er ekki um viðsnúning á starfsemi að ræða. Hér er ekki verið að breyta neinu. Við erum að hætta við fyrirhugaða breytingu, sem ekki er komin til framkvæmda og sneri að því að dreifa starfsmönnum barnaverndarinnar út á þjónustumiðstöðvarnar. Með þessu skapast meiri möguleiki á að þróa markvisst sérhæfð vinnubrögð starfsmanna sem vinna samkvæmt barnaverndarlögum og þróun í málaflokknum almennt. Barnavernd Reykjavíkur fær tækifæri til að þroskast og þróast. Lögð er áhersla á að samvinna við þjónustumiðstöðvar verði styrkt og þannig getur þessi starfsemi þróast áfam í góðri sátt hlutaðeigandi starfsmanna.

5. Lögð fram drög að skiptingu ramma Velferðarsviðs fyrir árið 2007.
Skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustuúrræða gerði grein fyrir málinu.

6. Drög að starfsáætlun Velferðarsviðs 2007 lögð fyrir.

7. Kynning á tilnefningu nýs fulltrúa í stjórn Fjölsmiðjunnar.

8. Lögð fram tillaga um skipan starfshóps til að vinna að framkvæmd forvarnarstefnu.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

9. Lagðar fram niðurstöður úttektar á mati á mögulegum leiðum til að haga stjórnskipan velferðarmála.
Jón Garðar Hreiðarsson, ráðgjafi frá Invis ehf. mætti á fundinn og gerði grein fyrir niðurstöðum úttektarinnar.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lögð er fram í velferðarráði úttekt á mögulegum leiðum til að haga stjórnskipan velferðarmála. Úttektaraðili leggur til að :
1. þjónustumiðstöðvar verði fluttar undir Velferðarsvið
2. áfram verði lögð áhersla á sjálfstæði þjónustumiðstöðva
3. hverfisráðum verði fækkað úr tíu í sex
4. nafni og starfsemi Þjónustu- og rekstrarsviðs verði breytt
Vegna þessa óskar velferðarráð umsagna frá stjórnkerfisnefnd, þjónustumiðstöðvunum sex, Þjónustu- og rekstrarsviði, Menntasviði, Leikskólasviði, ÍTR og hverfisráðum.

Umræðu og atkvæðagreiðslu um tillöguna er frestað til næsta fundar.

Fundi slitið kl. 15.17

Jórunn Frímannsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Sif Sigfúsdóttir
Steinarr Björnsson Björk Vilhelmsdóttir Oddný Sturludóttir Þorleifur Gunnlaugsson