Velferðarráð - Fundur nr. 429

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 25. maí var haldinn 429. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 14:04 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Elín Oddný Sigurðardóttir, Berglind Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Rannveig Ernudóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, um samþykkt samnings við Alzheimer samtökin um framtíðarhúsnæði fyrir sértæka dagdvöl, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki að gerður verði meðfylgjandi samningur við Azheimersamtökin um framtíðarhúsnæði fyrir sértæka dagdvöl, Fríðuhús, og um yfirtöku á rekstri Foldabæjar fyrir konur með heilabilunarsjúkdóm. Samhliða verði aukinn stuðningur við fólk með Alzheimer í heimahúsum meðal annars með sérhæfðu heilabilunarteymi. Tillagan gerir ekki ráð fyrir viðbótarkostnaði. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22040105.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar ráðsins fagna framkomnum samningi við Alzheimersamtökin um framtíðarhúsnæði fyrir sértæka dagvöl, Fríðuhús. Alzheimersamtökin leituðu til Reykjavíkurborgar árið 2020 og óskuðu eftir að Reykjavíkurborg útvegaði húsnæði undir starfsemi sérhæfðrar dagdvalar. Mikilvægt er að yfirfærslan á starfseminni verði vel undirbúin í samráði við notendur þjónustunnar, starfsmenn og aðstandendur. Þá er einnig áríðandi að auka stuðning við fólk með Alzheimer í heimahúsum, meðal annars með sérhæfðu heilabilunarteymi og stuðningi við aðstandendur.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, um breytingar á Forvarnasjóði Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að Forvarnasjóður Reykjavíkurborgar verði lagður niður í núverandi mynd og stofnaður verði nýr Forvarnasjóður undir formerkjum verkefnisins Betri borg fyrir börn hjá velferðarsviði. Sjóðurinn hafi það hlutverk að styðja við verkefni sem taki til forvarna barna og bregðast við þeim aðstæðum sem upp koma í samfélaginu hverju sinni. Skipuð verði þriggja manna úthlutunarnefnd fyrir sjóðinn sem mun einnig móta reglur og samþykktir fyrir sjóðinn. Sjóðurinn hafi til umráða að minnsta kosti jafn mikið fjármagn og úthlutað hefur verið til Forvarnasjóðs Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22040063.
    Samþykkt.

    -    kl. 14:16 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjóðurinn hefur þjónað því hlutverki að styrkja forvarnarstarf fyrir börn og unglinga. Með þessari breytingu er hlutverk og tilgangur sjóðsins afmarkað betur, einnig er staðsetning hans betur skilgreind með þessari breytingu. Þar með mun skilgreining hans eiga betur við áherslur mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs, velferðarráðs og svo skóla- og frístundaráðs, hann verði áfram hýstur á forræði velferðarráðs, undir formerkjum verkefnisins Betri borg fyrir börn þar sem megináhersla verði á snemmtæka íhlutun og að vinna strax með áföll í æsku svo unnt verði að draga sem mest úr og jafnvel koma í veg fyrir aukna geðheilsubresti á fullorðinsárum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti velferðarráðs leggur til að Forvarnarsjóður Reykjavíkurborgar verði hýstur undir formerkjum verkefnisins Betri borg fyrir börn. Þetta er lagt til í ljósi þess að margar rannsóknir sína tengsl erfiðleika í æsku og geðheilsubrests. Í tillögunni eru tekin dæmi um áhrifabreytu eins og Snemmtæka íhlutun og mikilvægi þess að tryggja gott aðgengi að faglegri greiningu og ráðgjöf við börn sem glíma við erfiðleika. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að snemmtæk íhlutun (ráðgjöf, skimanir og greining sé það mat fagaðila og foreldra að sé nauðsynlegt) getur skipt sköpum í lífi barns um að valið sé fyrir það rétt úrræði og það fái aðstoð við hæfi. Og einmitt vegna þess er það með öllu óásættanlegt að biðlisti barna til fagaðila skóla er í sögulegu hámarki. Nú er tveggja ára bið í þroskamat hjá skólasálfræðingi hjá borginni sem dæmi, í það sem kallast frumgreining. Liggi ekki fyrir slík greining er oft rennt algerlega blint í sjóinn með réttu viðbrögðin og úrræðin fyrir barnið. Tugir barna sem sterkar vísbendingar eru um að glími við ADHD eru á þessum biðlista. Dæmi eru um að börn eru útskrifuð þegar röðin kemur að þeim. Ekki þarf að spyrja um afleiðingarnar.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, um viðbrögð við aukinni ásókn í neyðar,- og gistiskýli fyrir karlmenn, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að samþykkt verði heimild til að ráða í 6,4 stöðugildi til að bæta þriðja starfsmanni á vaktir í neyðarskýlum borgarinnar að Grandagarði 1a og Lindargötu 48, vegna aukinnar ásóknar í skýlin. Kostnaður vegna stöðugildanna er 46 m.kr á árinu, sem rúmast ekki innan fjárheimilda sviðsins. Enn fremur að velferðarsviði verði veitt heimild til að taka á leigu tímabundið húsnæði með auknum gistimöguleikum til að svara aukinni eftirspurn.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22050031.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Soffía Hjördís Ólafsdóttir, starfandi deildarstjóri málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir benda á að samkvæmt samþykktri stefnu borgarinnar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir 2019-2025 var sett fram það markmið að öllum sem þyrftu skyldi bjóðast að gista innanhúss. Mælikvarði á árangur markmiðsins er að engum skyldi vísað frá neyðarskýlum vegna plássleysis. Til þess að hægt sé að fylgja markmiðinu eftir er ljóst að bæta þarf við stöðugildum og mögulega leigja viðbótarhúsnæði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga er lögð fram af meirihlutanum að samþykkt verði heimild til að ráða í 6,4 stöðugildi til að bæta þriðja starfsmanni á vaktir í neyðarskýlum borgarinnar að Grandagarði 1a og Lindargötu 48, vegna aukinnar ásóknar í skýlin. Þetta er góð tillaga. Flokkur fólksins hefði einnig viljað sjá gerðar breytingar á opnunartíma þessara skýla þannig að þau yrðu opin allan sólarhringinn en skýlin loka yfir daginn. Vonandi kemur fljótlega ákvörðun um það hjá þeim meirihluta sem tekur við. Sumt fólk hefur engan annan samastað, annan en kannski götuna.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram mánaðarskýrsla mars-apríl frá Ylja neyslurými.

    Soffía Hjördís Ólafsdóttir, starfandi deildarstjóri málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. VEL22050028.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að félagslegar aðstæður verði teknar úr matsviðmiði fyrir sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. maí 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs:

    Lagt er til að skilyrði um stigagjöf fyrir félagslegar aðstæður verði teknar úr matsviðmiði fyrir sérstakan húsnæðisstuðning. Núverandi matsviðmið Reykjavíkurborgar líta til stöðu umsækjenda, húsnæðisstöðu og félagslegra aðstæðna umsækjenda. Staða umsækjanda sem sækir um sérstakan húsnæðisstuðning verður að vera metin til að lágmarki sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðsmið sem fylgir með reglum um sérstakan húsnæðisstuðning. Hér er lagt til að litið verði til stöðu þeirra sem sækir um sérstakan húsnæðisstuðning og húsnæðisstöðu. Velferðarsviði verði falið að útfæra breytingar að reglum og matsviðmiði og leggja fyrir velferðarráð til samþykktar.

    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. VEL22020014.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er skylt að framkvæma heildarmat á aðstæðum umsækjenda þegar sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning. Því er ekki hægt að fella út mat á félagslegum aðstæðum þegar aðstæður umsækjenda eru metnar með heildrænum hætti. Þó taka fulltrúarnir undir þau sjónarmið að ávallt megi skoða hvernig framkvæma skuli matið. Endurskoðun á matsviðmiðum og stigagjöf er vert að endurskoða reglulega út frá þeirri reynslu sem komin er hverju sinni, þannig að hægt sé að mæta fólki í brýnni þörf.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga var lögð fram með það að leiðarljósi að ná til þeirra sem eiga ekki rétt á neinum stuðningi en þurfa á honum að halda. Önnur sveitarfélög líta ekki til félagslegra aðstæðna. Rétt er að taka fram að önnur sveitarfélög hafa lægri stuðning en fulltrúi sósíalista leggur áherslu á að stuðningurinn fari til þeirra sem þurfa á honum að halda. Tekjuviðmið segja oft mikið um félagslegar aðstæður. Ef þú hefur lítið á milli handanna þá er félagsleg staða ekki góð. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokki fólksins finnst þessi tillaga góð og þessleg að ná til þeirra sem eiga ekki rétt á neinum stuðningi en þurfa á honum að halda. Líta má til annarra sveitarfélaga og sjá hvernig þau bera sig að í þessum efnum.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að brugðist verði við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2019, ásamt umsögn velferðarsviðs:

    Lagt er til að brugðist verði við breyttum lögum frá því í sumar um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar, með því að breyta viðmiðum til þess að húsnæðisstuðningur Félagsbústaða til örorkulífeyrisþega lækki ekki eins og nú hefur verið gert og hefur leitt til þess að leiga fjölmargra öryrkja hefur hækkað umtalsvert. 65% af tekjum örorkuþega hafa nú áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Breytingar gilda frá áramótum en voru lögfestar á miðju ári og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst síðastliðinn. Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum hafa þurrkast út í mörgum tilfellum vegna þess að Félagsbústaðir skerða húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. Við þessu hefur borgarmeirihlutinn og velferðarráð ekki brugðist. Það hefur því gerst að Félagsbústaðir hafa lækkað sérstakan húsnæðisstuðning hjá öryrkjum sem fengu þessa leiðréttingu bóta og er því fólk að borga mun hærri leigu.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja til að tillögunni verði vísað frá.

    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.  VEL22050024.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fulltrúa Flokks fólksins fyrir góða tillögu. Borgarráð hækkaði tekjumörk vegna sérstaks húsnæðisstuðnings 8% umfram tekjumörk í leiðbeiningum til sveitarfélaga til jafns við hækkun ríkisins á frítekjumarki vegna almennra húsnæðisbóta þann 1. janúar 2021. Þannig að ekki kæmi til skerðinga hjá þeim sem jafnframt áttu rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Hlutfall þeirra sem fá skertan húsnæðisstuðning hefur lækkað úr 52% í 25% vegna þessa. Tillögunni er því vísað frá þar sem þegar hefur verið tekið tillit til hækkunar bóta almannatrygginga í tekjuviðmiði sérstaks húsnæðisstuðnings.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Flokks fólksins um að brugðist verði við lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar er vísað frá. Tillagan var lögð fram árið 2019. Það er vissulega afar jákvætt að sjá að skerðingar séu á niðurleið, miðað við gögnin í umsögninni. Það er í takt við þá stefnu sem Flokkur fólksins hefur ávallt mælt fyrir, þ.e. að dregið verði úr skerðingum og komið í veg fyrir keðjuverkandi skerðingar. En í þessu máli sjáum við einnig gallana í kerfinu. Hér verður fjöldi fólks fyrir skerðingum, og þó að þær gangi til baka þegar skattframtal liggur fyrir þá lenda margir í erfiðum fjárhagslegum aðstæðum sökum þessa. Borgin verður ásamt ríkinu að finna lausn svo að tryggja megi að hægt sé að uppfæra réttindi fólks í rauntíma, í stað þess að skerða fólk, og greiða svo til baka eftir hálft ár. Þá er tillaga þessi lögð fram, til að bregðast við aðkallandi vanda margra, en tillagan er loks nú að fá umsögn, rúmum tveimur árum eftir að vandinn blasti við. Þessi tillaga var upphaflega lögð fram fyrir komu COVID-19 til landsins. Svo langur málsmeðferðartími er ekki til fyrirmyndar.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um mat á umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði eftir reglubreytingar 2019, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 19. janúar 2022. VEL22050023.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölgun þjónustuþátta í heimaþjónustu, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs frá 4. maí 2022. VEL22050010.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýjar reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu eru þess eðlis að markmið notanda sé útgangspunktur, það er notandinn sem biður um þjónustuna og ákveður hvernig þjónustu viðkomandi þarf, hvort sem um er að ræða það að fá aðstoð við að fara út með ruslið eða aðstoð við að elda mat, hita sér kaffi, þrif, almenn eða sértæk. Ekki eru fyrirfram ákveðnir þjónustuþættir skilgreindir, enda myndi slíkt ekki falla undir einstaklingsmiðaðar þjónustuþarfir notenda. Meirihluti velferðarráðs er spenntur fyrir þessum fínu nýju reglum, sem eru ný komnar til framkvæmdar. Þær lofi góðu.

    Fulltrúi Flokks flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í svari að áður en þjónustan hefst er gert mat á stuðningsþörf. Flokkur fólksins bendir á það þörf á stuðningi getur breyst hratt. Sem dæmi getur eldri einstaklingur verið metinn á einhverjum tímapunkti að hann geti farið út með rusl og hengt upp þvott. En það getur breyst í einu vettvangi. Reynslan á mati er að oft líður langt á milli matsins. Helst þyrfti að vera árlegt mat og jafnvel oftar eftir atvikum. Bæði sjón, heyrn og hreyfing breytist árlega eins og gengur. Sumu fólki sem er í þessari aðstöðu er sagt að safna ruslinu fyrir utan hús en það gengur ekki upp þar sem í það safnast mýs, kettir og fuglar sem dreifa úr sorpinu. Það þarf að taka þessi mál og fleiri sambærileg af meiri alvöru. Hér er ekki um eitthvað léttvægt að ræða. Að öðrum kosti er hætta á að þetta virki ekki.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 25. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um innleiðingu tillögu um menningarkort fyrir öryrkja, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. október 2021. VEL22050025.

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Í ljósi þess að til stendur að vísa hátt í 300 umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi, samþykkir Reykjavíkurborg að taka á móti því fólki sem dvelur hér í borginni og veita þeim viðeigandi stuðning og úrræði svo sem húsnæði, atvinnu og nám. Reykjavíkurborg, höfuðborg Íslands samþykkir því að vera leiðandi í því að bjóða þær manneskjur velkomnar sem mæta útskúfun af hendi ríkisins. Hér er um mannúðarmál að ræða þar sem mikilvægt er að líta til aðstæðna þeirra sem eiga í hlut og mæta þeim.

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 15:40

PDF útgáfa fundargerðar
429._fundargerd_velferdarrads_fra_25._mai_2022.pdf