Velferðarráð - Fundur nr. 428

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 4. maí var haldinn 428. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Hofi. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Berglind Eyjólfsdóttir og Rannveig Ernudóttir.  Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007

  2. Fram fer kynning á skuldbindingum og áhættum í 5 ára áætlun velferðarsviðs 2023-2027. VEL22040022.

    -    kl. 13:46 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum.

  3. Lögð fram til samþykktar drög að stefnu velferðarsviðs um velferðartækni 2022-2026, ásamt fylgiskjölum. VEL22040017.

    Samþykkt.

    Kristín Sigurðardóttir, verkefnastjóri Velferðartæknismiðju, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna nýrri stefnu Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni sem mun leysa fyrri stefnu af hólmi. Ljóst er að Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi á sviði velferðartækni hér á landi, allt frá því að fyrsta stefnan var samþykkt árið 2018. Velferðartækni er ætlað að auka sjálfstæði notenda og efla þjónustuna til framtíðar. Fjölmörg tækifæri liggja í eflingu Velferðartæknismiðju og samþættingu hennar við rafræna þjónustumiðstöð. Einnig liggja frekari tækifæri í innleiðingu velferðartæknilausna í þjónustu við fatlað fólk.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull. Velferðartækni á að sameinast rafrænni þjónustumiðstöð en eftir því sem heyrist þá er nú hægt að sækja um fjárhagsaðstoð þar og áfrýja málum og panta tíma hjá ráðgjafa. Velferðartækni mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum, Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar allt það sem gert er til þess að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með eins markvissum hætti og hægt er og umfram allt að farið sé vel með fjármagnið. Það væru mikil vonbrigði ef fyrirhugaðar uppfærslur á þjónustu til þessa hóps, myndu daga uppi í enn einum tilraunafasanum án þess að raunhæfar lausnir komi fram sem fyrst. Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að nú verði gengið rösklega til verka og leitað verði til fagaðila á einkamarkaði til þess að koma með tilbúnar lausnir í þau verkefni sem eftir á að koma á laggirnar í umræddri rafrænni þjónustumiðstöð.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram til kynningar minnisblað starfshóps um endurskoðun á uppbyggingaráætlun á húsnæði fyrir fatlað fólk, dags. 4. maí 2022, ásamt fylgiskjölum. VEL22050002.

    Ólafía Magnea Hinriksdóttir, leiðandi forstöðumaður á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, og Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetuþjónustu taka sæti á fundinum undir þessum lið.
    -    kl. 14:21 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum í stað Berglindar Eyjólfsdóttur.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að endurskoða uppbyggingaráætlun í málefnum fatlaðs fólks með reglubundnum hætti. Ljóst er að bæta þarf við þá áætlun sem samþykkt var árið 2017, sem mætir ekki þeirri þörf sem skapast hefur eftir sértæku húsnæði. Eftir að uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk var samþykkt hafa 170 einstaklingar fengið úthlutað húsnæði á árunum 2017 til 2021. Mesti fjöldi nýrra úthlutana á einu ári frá yfirfærslu málaflokksins árið 2011 var árið 2021 en þá var 55 einstaklingum úthlutað húsnæði fyrir fatlað fólk. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp búsetukjarna og húsnæði með stuðningi til að tryggja fötluðu fólki húsnæði við hæfi.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Uppbyggingaráætlun, endurskoðun til 2030 nær of skammt og það vita allir sem eitthvað þekkja til þessara mála. Ný tillaga gerir ráð  fyrir 78 rýmum í íbúðakjörnum, 44 félagslegum leiguíbúðum fyrir sjálfstæða búsetu með viðeigandi stuðningi og 36–60 félagslegum leiguíbúðum. Biðlistinn nú er 140 manns í alla fjóra flokka. Horfa þarf til reynslunnar og reikna með að fleiri bætist við ef horft er á tölur síðustu árin. Ég vil í þessu sambandi benda á nýlega grein foreldris fatlaðs fullorðins einstaklings sem beðið hefur árum saman á biðlista og á einhverjum tímapunkti var hann „næstur” sem reyndist svo ekki vera. Greinin bar yfirskriftina: Borgarstjóri heldur þræla. Þessi grein segir allt sem segja þarf. Það er ekki aðeins skortur á sértæku húsnæði og áratuga biðlisti heldur er einnig skortur á upplýsingum til foreldra. Foreldrar hafa hreinlega bugast og þess vegna notar þessi móðir hugtakið „þrælar“ og segir eftirfarandi: „Bara svo þið vitið það áður en þið gangið til kosninga, þá heldur borgarstjóri og hans lið, hópi fólks nauðugu í erfiðisvinnu án þóknunar né launa. Þessi vinna krefst viðveru allan sólarhringinn og gengur nærri heilsu fólks, og ef einhver vogar sér að leita réttar síns, grípur borgarstjóri hiklaust til varna.“

    Fylgigögn

  5. Lögð fram til kynningar skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Slökkviliðsins höfuðborgarsvæðisins og Alþýðusambands Íslands um búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. VEL22040111.

    Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis og búsetuþjónustu tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með vaxandi fátækt í Reykjavík hefur það færst í vöxt hér á landi að fólk búi í húsnæði sem er ekki skráð sem íbúðarhúsnæði t.d. húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi. Fólk hefur neyðst til að finna sér skjól í húsnæði sem þessu þar sem öryggi er oft ótryggt og ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort búið sé að gera ráðstafanir hvar þetta fólk eigi að búa. Spurt er hvort búið sé að finna húsnæði eða úrræði fyrir aðra sem kunna að vera bornir út af heimilum sínum vegna ófullnægjandi brunavarna. Það fólk sem hér um ræðir eru þolendur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður rætt þessi mál, einna helst í kjölfar mannskæðs bruna á Bræðraborgarstíg fyrir þremur árum. Vitað er að ákveðinn hópur býr í ótryggu húsnæði þegar kemur að brunavörnum, ósamþykktu húsnæði í sumum tilfellum. Í þeirri erfiðu tíð sem ríkir á húsnæðismarkaði eru fátækir og efnaminna fólk nauðbeygð til að leita sér skjóls í húsnæði sem jafnvel telst ekki vera mannabústaðir. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki, aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant. Þetta er mikið áhyggjuefni.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit yfir innkaup velferðarsviðs yfir 5 m.kr. á árinu 2021. VEL22040112.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir ferðaheimildir á velferðarsviði árið 2021. VEL22040113.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um að félagslegar aðstæður verði teknar út úr matsviðmiði vegna sérstaks húsnæðisstuðnings, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. febrúar 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs. VEL22020014.

    Frestað. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um fjölda Reykvíkinga yngri en 67 ára sem búa/eða dvelja á hjúkrunarheimilum, sbr. 5. lið fundargerðar velferðarráðs frá 16. febrúar 2022. VEL22020024.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistaflokkur Íslands fer fram á það við velferðarráð Reykjavíkurborgar að skorað verði á hið opinbera að beita sér fyrir því að leysa þann vanda að 61 einstaklingur undir 67 ára aldri er nú vistaður á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Brýnt er að stofnað verði úrræði fyrir þennan hóp til að styðja betur við hann og til að koma til móts við þarfir þeirra sem eru ólíkar þörfum aldraðri hópa þó að ummönnunarþörfin geti verið svipuð.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um fjölda Reykvíkinga yngri en 67 ára sem dvelja á hjúkrunarheimili. Í svari segir að  61 íbúi yngri en 67 ára sé í varanlegri dvöl á hjúkrunarheimilum sem staðsett eru í Reykjavík í lok janúar 2022. Reykjavík ber ábyrgð á fólki sem er fatlað en ríkið ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni. Þessi mál eru því án efa oft flókin. Hér er um nokkuð stóran hóp að ræða og best væri ef þessi málaflokkur væri á einni hendi. Flestir í þessum hópi eru 60 til 70 ára en dágóður hópur er þó yngri sem þarf mikla hjúkrun. Þessi hópur þyrfti að fá sérúrræði sem er sérhannað til að mæta þörfum hans enda á hann ekki heima á hefðbundnum hjúkrunarheimilum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna leigubílanotkunar starfsmanna velferðarsviðs árin 2020 og 2021, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030028.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst  varla hægt að afsaka að stjórnsýslan sé að panta leigubíla í svo miklum mæli til að koma m.a. sálfræðingum út í skólana sem gætu vel haft aðsetur þar eins og fjölmargir skólastjórar hafa óskað eftir í mörg ár. Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir þessu í bráðum fjögur ár enda eru biðlistar barna til sálfræðinga í sögulegu hámarki. Einnig eru leigubílar notaðir grimmt til að fara í vitjanir og fleira. Spurning er hvort ekki sé hægt að  skipuleggja þetta allt betur og öðruvísi? Til dæmis mætti skoða strætó sem meirihlutinn rómar iðulega svo ekki sé minnst á hjólin sem til eru í ýmsum tegundum. Aksturskostnaður á þessu sviði  er alltof hár. Yfirmaður hvers sviðs eða skrifstofu ákveður hvaða starfsmenn hafa aðgang að leigubílakortum frá Hreyfli. Yfirmaðurinn þarf því að vera vakandi yfir því hver kostur í akstri er hagkvæmastur. Og af hverju er  aðeins ein leigubílastöð í viðskiptunum. Má ekki reyna á samkeppni?

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags, 4. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fjölda barna sem hafa fengið þjónustu á grundvelli tímabundinna fjárheimilda vegna áhrifa COVID-19, sbr. 11. lið fundargerðar velferðaráðs frá 2. mars 2022. VEL22030034.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í svari er ótti Flokks fólksins staðfestur. 140 milljónir hafa verið settar í að fjölga fagfólki til að ná utan um biðlistann sem hefur fimmfaldast frá 2018. Tilvísunum hefur fjölgað og við því verður að bregðast. Fulltrúi Flokks fólksins sér  ekki að vandinn sé vegna þess að það vanti sálfræðinga, hvað með biðlista til annarra fagaðila? Ganga þarf til samninga við sálfræðinga um kaup á þjónustu í gegnum verktöku sem og að ráða þá í tímabundin störf og gera það með sóma. Sálfræðiþjónusta kostar. Heilsa og líðan barna skipta hér aðalmáli og það segir sig sjálft að 140 milljónir á tveimur árum ná skammt. Þetta er spurning um vilja fyrst og fremst og að setja börnin í fyrsta sæti. Fram kemur að ákveðið hefur verið að  bjóða 192 foreldrum og börnum upp á námskeið í hugrænni atferlismeðferð í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Keðjunnar. Að hvers frumkvæði er það að bjóða foreldrum upp á HAM námskeið? Léttir það á biðlistum barna til sálfræðinga og talmeinafræðinga? Þessi mál hafa verið látin danka allt of langi. Til að gera þetta vel hefði þurft í þetta að minnsta kosti einn milljarð til að byrja með.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað við ferðir sálfræðinga í grunnskóla borgarinnar, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030035.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Að sálfræðingar hafi aðsetur á þjónustumiðstöðvum frekar en út í skólum er bæði óhagkvæmt og hvorki í þágu barnanna né kennara. Kostnaður við ferðir sálfræðinga til og frá skóla er gríðarlegur en sálfræðingar fara ýmist með leigubílum eða eru með aksturssamninga. Ekki fékkst sundurgreining á kostnaði því margir kostnaðarliðir eru undir einum fjárhagslið. Ef horft er á þetta raunsætt vekur það kannski ekki svo mikla furðu hvað illa gengur að vinna niður biðlista barna til sálfræðinga og annarra fagaðila skóla s.s. talmeinafræðinga. Nú bíða milli 1800 og 1900 börn eftir þjónustu.  Biðlistinn  hefur fimmfaldast á kjörtímabilinu, var um 400 börn 2018. Ef svona er farið með fjármagnið er kannski heldur ekki undarlegt hve slæm fjárhagsstaða  velferðarsviðs er.  Þau svör sem fengust við fyrirspurninni eru eru: Kostnaður við ferðir sálfræðinga út í skóla 1.555.359. Kostnaður vegna aksturssamninga: 1.821.255 og Heildarkostnaður 2.852.968. Um er að ræða 31 sálfræðing og er meðalkostnaður á hvern tæp hálf milljón. Það er óskiljanlegt af hverju þessu er ekki breytt. Sálfræðingar eiga að hafa aðsetur í skólum til að geta sinnt málum barnanna í nálægð og myndi þá sparast háar upphæðir sem nú fara í leigubílakostnað svo ekki sé minnst á tímann sem tekur að fara á milli staða.

    Fylgigögn

  13.     Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um stafrænar lausnir í velferðartækni, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. apríl 2022. VEL22040021.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vel þekkt er að innleiðing og þróun á nýrri tækni og aðferðum taki tíma og er það eðlilegt. Prófanir þýða einmitt það, þær eru prófanir. Tilgangurinn með því að prófa nýjar lausnir og tækni er að finna hvað virkar vel, hvað er gagnlegt og virkar, og hvað ekki. Það er eins með nýja tækni eins og aðra nýja hluti sem er prófað, allt tekur sinn tíma og er unnið út frá langtímamarkmiðum bæði út frá velferð og sjálfstæði einstaklinga og svo út frá hagræðingu og æskilegri nýtingu á fjármunum. Lokamarkmiðið er að um gæðaþjónustu sé að ræða.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að öll sú tækni sem stuðli að betri þjónustulausnum fyrir notendur sé af hinu góða. Fulltrúinn styður þess vegna alla þá viðleitni sem að því lítur. Í svari sést enn og aftur með hversu flóknir og seinvirkir allir innleiðingaferlar eru hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði enda verið í sífellu að rannsaka og prófa lausnir. Fulltrúi Flokks fólksins spyr sig af hverju í ósköpunum er ekki hægt að fá betri upplýsingar frá framleiðendum hinna ýmsu tóla og lausna og reyna að tengja það meira við þá þarfagreiningu sem hlýtur að liggja fyrir hverju sinni? Það er best fyrir alla aðila að innleiðing þjónustu og tæknilausna gangi sem hraðast fyrir sig. Það er með öllu ólíðandi að miklum tíma sé eytt í allskyns uppgötvanir og rannsóknir þegar fyrir liggja lausnir og tækni sem eru komnar í fulla notkun annars staðar. Það getur ekki verið að sú þjónustuþörf sem Reykjavíkurborg þarf að veita sé svo frábrugðin þeirri þjónustu sem aðrir eru að veita. Allt of mörgu er ólokið eða í bið. Þessu þarf að breyta. Það sem er þó komið í virkni virkar illa eins og Hlaðan og vefur borgarinnar.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 4. maí 2022, við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna um nýtingu þjónustugreiðslna vegna barna, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 2. mars 2022. VEL22030031.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir framlagt svar. Ljóst er að nýting þjónustugreiðslna er góð meðal þeirra barna sem dvelja á leikskóla eða 83%. Hins vegar lítur dæmið ekki jafnvel út þegar nýting er skoðuð vegna skólamáltíða og frístundar, þar sem innan við helmingur barna nýtur þeirra réttinda sem þjónustugreiðslurnar tryggja þeim. Mikilvægt er að kerfi borgarinnar séu þannig úr garði gerð að auðveldlega sé hægt að halda utan um nýtingu þjónustugreiðslna. Einnig er ljóst að kanna þarf frekar hvað veldur mun verri nýtingu þjónustugreiðslna þegar börn hefja grunnskólagöngu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um nýtingu þjónustugreiðslna. Fram kemur í svari að skráningarkerfi málaskrár velferðarsviðs bjóði ekki upp á að umbeðnar upplýsingar séu dregnar fram með þeim hætti sem beðið er um. Flokkur fólksins spyr nú hvort ekki hefði verið hægt að nota eitthvað af þeim 13 milljörðum sem settir hafa verið í stafræna umbreytingu til að ekki þurfi að leita handvirkt í upplýsingakerfum að nýtingartölum þjónustugreiðslna? En þegar horft er á þær tölur sem koma fram þá vekur furðu hvað nýting er slök. Ef horft er á frístund 6-9 ára þá eru alls 118 börn en aðeins 57 sem nýta þjónustugreiðsluna og er nýting 48% og skólamatur 6-15 ára, 261 barn en aðeins 115 nýta greiðsluna sem er 44 %. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki hver er ástæðan fyrir þessari slöku nýtingu og veltir því upp hvort það hafi verið skoðað af hverju nýting er ekki meiri.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 4. maí 2022, um hækkun á fjárheimildum vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA):

    Lagt er til að fjármagn til NPA-samninga verið aukið um 135 m.kr. á árinu 2022 til að mæta hækkun vegna betri vinnutíma í vaktavinnu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22030152.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    -    kl. 15:05 víkur Ellen Jacqueline Calmon af fundinum.

    Fylgigögn

  16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingu frá eldri borgurum sem búa heima og eru einir að þeir eigi erfitt með að komast út með sorp og í sumum tilfellum hefur sorp hlaðist upp á heimili þeirra. Spurt er hvað fólk á að gera í þessum aðstæðum? Fulltrúi Flokks fólksins var með tillögu fyrir skemmstu þess efnis að fjölga þjónustuþáttum heimaþjónustu og myndi þessi þáttur koma þar inn, að aðstoða fólk við að flokka sorp og koma því út úr húsi. Sú tillaga var þá felld. Það er mikilvægt að finna á þessu lausn því þetta er raunverulegt vandamál og háir ákveðnum hópi aldraðra mjög mikið, fólki sem býr heima og hefur ekki heilsu eða þrek til að koma sorpi út af heimilinu og á ekki ættingja eða vini sem geta aðstoðað. 

Fundi slitið klukkan 15:06

PDF útgáfa fundargerðar
428._fundargerd_velferdarrads_fra_4._mai_2022.pdf