Velferðarráð - Fundur nr. 424

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 9. mars var haldinn 424. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í fjarfundakerfinu Webex. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Rannveig Ernudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Kristjana Gunnarsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 9. mars 2022, um samþykki samnings við Rauða krossinn á höfuðborgarsvæðinu um rekstur neyslurýmis, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að meðfylgjandi samningur velferðarsviðs og Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu um rekstur neyslurýmis verði samþykktur. Gildistími samningsins er eitt ár frá og með þeim degi sem móttaka notenda hefst. Áætlaður rekstrarkostnaður á ársgrundvelli nemur um 50 m.kr. á ári. Neyslurýmið verður rekið í sérútbúnum bíl í eigu Rauða krossins. Sjúkratryggingar Íslands standa straum af rekstrarkostnaði samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi og er því ekki um að ræða kostnaðarauka fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22030017.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna að nú sé loksins gengið frá samningi við Rauða krossinn um neyslurými fyrir skaðaminnkandi þjónustu fyrir einstaklinga með vímuefnavanda. Undirbúningur hefur staðið yfir um nokkurt skeið og ákveðið var að ganga til samninga við Rauða krossinn í nóvember 2021. Markmið Reykjavíkurborgar er að ganga fram með góðu fordæmi og halda áfram innleiðingu skaðaminnkandi hugmyndafræði í alla þjónustu, sem er mannréttindamiðuð nálgun og byggist á því að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Með færanlegu neyslurými er hægt að veita einum jaðarsettasta hópi samfélagsins lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem vitað er að dregur úr dauðsföllum meðal fólks sem notar vímuefni í gegnum æð. Neyslurými draga úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan, aðstandendur og nærsamfélagið. Til hamingju Reykvíkingar, nú er fyrsta neyslurýmið á Íslandi loksins orðið að veruleika.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt hugmyndina um neyslurými enda slíkt úrræði búið að sanna gildi sitt í öðrum löndum. Nú hefur verið tekið fyrsta formlega skrefið með samþykki samnings um neyslurými og er það gleðilegt. Um er að ræða færanlegt neyslurými starfrækt í bifreið Frú Ragnheiðar. Markmiðið er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og auka lífsgæði þeirra sem nota vímuefni í æð. Stefna þarf að því svo fljótt sem unnt er að úrræði sem þetta verði staðsett á nokkrum stöðum og opið allan sólarhringinn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sú skaðaminnkandi hugmyndafræði sem neyslurými er sé mannréttindamiðuð nálgun sem byggir á að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Um leið og dregið er úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna er ekki aðeins verið að hjálpa einstaklingunum sjálfum heldur einnig aðstandendum og nærsamfélaginu. Í þeim löndum sem neyslurými eru til hefur dauðsföllum sem rekja má til notkunar vímuefna í æð fækkað.

    Marín Þórsdóttir, deildarstjóri hjá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram drög að umsögn um endurskoðaða þjónustustefnu Reykjavíkurborgar, dags. 9. mars 2022, ásamt fylgiskjölum. ÞON21070032.

    Frestað.

    -    kl. 13:32 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 13:33

PDF útgáfa fundargerðar
424._fundargerd_velferdarrads_fra_9._mars_2022.pdf