Velferðarráð - Fundur nr. 423

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 2. mars var haldinn 423. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:01 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Rannveig Ernudóttir og Örn Þórðarson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Fram fer kynning á stöðu Pant akstursþjónustu síðustu 6 mánuði. VEL22020042.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar kynningu á akstursþjónustu Pant fyrir fatlaða og aldraða í Reykjavík. Ánægjulegt er að sjá að kostnaður á ferð minnkar á sama tíma og ánægja notenda eykst. Sömuleiðis er áhugavert að sjá hugmyndir um útvíkkun þjónustunnar. Þar eru margir möguleikar kynntir sem ástæða er til að skoða betur með hliðsjón af bættum almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu í heild. Greinilegt er að Pant akstursþjónusta getur boðið upp á mörg tækifæri til að gera betur í þeim efnum, með skjótvirkum og hlutfallslega ódýrum hætti.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að auka þjónustu Pant akstursþjónustunnar í úthverfum. Það er svo oft sem úthverfin verða út undan í alls konar tilliti. Sem betur fer hefur Pant akstursþjónustan gengið vel, ekki hvað síst rekstrarlega séð og er það mjög ánægjulegt. Helsti vandinn tengist Hreyfli og auðvitað erfiðri tíð að undanförnu. Erfiðlega hefur gengið að fá bíla Hreyfils til að byrja fyrr til að koma þjónustuþegum á áfangastað á réttum tíma á morgnana. Hópur 10-15 manns er að koma seint til sinna starfa/náms á morgnana vegna þessa. Fulltrúi Flokks fólksins treystir því að gengið verði í að leysa þetta mál hið fyrsta.

    Erlendur Pálsson, sviðsstjóri Pant akstursþjónustu og Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar meðal langtíma notenda fjárhagsaðstoðar hjá velferðarsviði. VEL22020041.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að spyrja út í þætti er varða upphæðina sjálfa, líkt og hvernig gangi að komast í gegnum dagana á upphæð fjárhagsaðstoðar sem er mjög lág og hvað einstaklingar geri ef að tekjurnar duga ekki fyrir helstu nauðsynjum. Í Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka - Hvaða hópar leita aðstoðar? kom fram að til hjálparsamtakanna leitar breiður hópur fátæks fólks á Íslandi. Stærsti hópurinn er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysisbótum eða örorkubótum. Skýrslan var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Það er nauðsynlegt að bregðast við þessari stöðu þar sem fólk á ekki að þurfa að treysta á hjálparsamtök til að fá mat.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Könnunin sem hér er kynnt var send í netpósti. Aðeins þeir sem eru með netpóst svöruðu henni. Svarhlutfall er 20%, flestir á aldrinum 30 til 49 ára og 1 % er yfir 67 ára. Það sem þessi könnun sýnir er að hlutir eru vonandi á réttri leið fyrir þá sem skilja og tala íslensku og nota netpóst. Þeir sem hvorki skilja né tala íslensku eða skilja en tala ekki íslensku koma verr út. Ekkert er vitað um þá sem ekki nota tölvu eða rafræn samskipti yfir höfuð. Það vekur athygli að  niðurstöður um hvaða samskiptaform við ráðgjafa hentar viðkomandi best. Kemur “viðtal á þjónustumiðstöð” best út  hjá öllum, líka þeim sem skilja og tala íslensku? Fulltrúi Flokks fólksins vill ítreka að það eru ekki allir í aðstöðu til að nota rafræna ferla. T.d. eru ekki allir með tölvu eða hafa aðgang að tölvu eða treysta sér til að nota tölvu ef því er að skipta. Fyrir marga er best að fá að mæta á staðinn og ræða við starfsmann í eigin persónu. Mest um vert hefði þó átt að spyrja um hvort fólk á fjárhagsaðstoð nái endum saman á þeirri upphæð sem því er ætlað að lifa á?

    Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri í teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 2. mars 2022, um verkefni velferðarsviðs í tengslum við aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022-2024, ásamt fylgigögnum. VEL22020038.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tvö af þessum nýju verkefnum snúa að eldra fólki, annars vegar að greina hvernig má mæta brotaþola í tengslum við húsnæðismál og hins vegar að sinna málum sem tengjast þjónustu við aldraða m.a. málum sem tengjast heimilisofbeldi. Það eru ekki allir þolendur tilbúnir að fara í Kvennaathvarf og því er sjálfsagt að hafa sérstaka íbúð fyrir brotaþola heimilisofbeldis til að dvelja í til styttri tíma eða setja brotaþola í forgang á biðlista eftir húsnæði á vegum borgarinnar. Það er þó engan veginn réttlætanlegt að brotaþoli eigi að þurfa að yfirgefa heimilið heldur á að róa öllum árum að því að gerandi fari af heimilinu. Ofbeldi gegn öldruðum getur verið andlegt og líkamlegt og stundum er það í formi vanrækslu. Erfitt er að átta sig á tíðni tilfella um heimilisofbeldi hjá þessum aldurshópi. Ef horft er til rannsókna má sjá að 2-10% aldraðra eru þolendur ofbeldis. Eldri borgarar sem beittir eru ofbeldi kunna að upplifa skömm og vanmátt og kjósa því að leyna því ofbeldi sem þeir verða fyrir. Á þeirra uppvaxtarárum var ofbeldi almennt ekki mikið rætt og fræðsla afar takmörkuð. Sumir eldri borgarar gera sér jafnvel ekki grein fyrir að verið er að beita þá ofbeldi t.d. í formi vanrækslu.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 16. febrúar 2022, um undirbúning að stofnun nýs vistheimilis fyrir ungmenni á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og breytingu á núverandi rekstri, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs þann 16. febrúar 2022:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki að hefja undirbúning að stofnun nýs sérhæfðs vistheimilis fyrir allt að átta ungmenni, sem mæti fjölþættum vanda þeirra ungmenna sem þurfa að dvelja í úrræðum á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Til að tryggja sem best velferð þeirra sem þurfa á slíkri vistun að halda er lagt til að velferðarráð samþykki tillögu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að ganga til tímabundins samnings við Klettabæ ehf. um vistun allt að fimm ungmenna þar til hið nýja úrræði verði sett á laggirnar. Tillögu um nýtt vistheimili verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2023.

    Greinargerð fylgdi tillögunni. VEL2021080007.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Samþykkt er að fela velferðarsviði að hefja undirbúning að nýju vistheimili fyrir ungmenni á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Nýtt úrræði verði skipulagt í samræmi við faglegt mat Barnaverndarnefndar. Samið verður við Klettabæ um þjónustu við allt að fimm ungmenni þar til nýja úrræði opnar þar sem mikilvægt er að tryggja órofna þjónustu til þeirra sem það þurfa. Velferðarráð ítrekar mikilvægi þess að framtíðarúrræði sé til staðar á vegum velferðarsviðs og því áríðandi að það verði að veruleika eins skjótt og unnt er eigi síðar en á árinu 2023. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Mikilvægt er að borgin og Barnavernd byggi upp það úrræði sem hér er þörf á og að samningurinn við Klettabæ sé einungis bráðabirgðalausn svo að börn og ungmenni upplifi ekki rof í stuðningsúrræðum á meðan að unnið er að uppbyggingu úrræðis á vegum borgarinnar. Borgin á að veita þessa þjónustu og nauðsynlegt að allt sé gert til að tryggja að svo verði sem allra fyrst. Mikilvægt er að þörfum og öllum réttindum starfsfólks verði mætt í ferlinu. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 2. mars 2022, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um viðveru sálfræðinga í skólum borgarinnar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. september 2021. VEL2021060036.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að tryggja að auðvelt sé fyrir börn og ungmenni að leita til sálfræðings. Ef einn sálfræðingur væri í hverjum grunnskóla alla daga vikunnar þá vantar 409 m.kr. uppá fjárheimildir. Einnig þyrfti að skoða aðstöðuna í skólum til að tryggja að sálfræðingar hafi góða og fasta aðstöðu þar sem næði er gott fyrir börnin og ungmennin en eins og staðan er nú á það ekki við í öllum skólum. Líkt og kemur fram í svari við fyrirspurninni virðist almennt vera vilji hjá skólastjórnendum til að skapa rými fyrir starfsfólk skólaþjónustunnar en algengt er að plássleysi innan skólanna hafi áhrif á hvaða aðstöðu hægt er að bjóða hverju sinni. Næstu skref eru að gera nákvæma greiningu á aðstöðu hvers skóla fyrir sig og að tryggja viðeigandi aðstöðu. Fulltrúi sósíalista leggur áherslu á að sálfræðingar verði í öllum skólum svo að aðgengi barna og ungmenna að sálfræðingum sé gott. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að enda þótt stöðugildi sálfræðinga séu 25,8 sem þjónusta 80 leikskóla og 44 grunnskóla í borginni gætu og ættu skólasálfræðingar að hafa starfsstöðvar sínar í skólunum. Flestir skóla hafa rými.  Einn sálfræðingur er e.t.v. að sinna 2 skólum, einstaka kannski 3 skólum. Þegar skólasálfræðingur fer til vinnu ætti hann að mæta í þann skóla sem hann þjónar þann daginn  en ekki á þjónustumiðstöð. Hver ferð út í skóla tekur tíma og kostar fé en það versta er að börnin í skólanum sem viðkomandi starfar við hafa mörg hver kannski ekki hugmynd um hvernig sálfræðingur skólans lítur út. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað rætt mikilvægi þess að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum. Engu að síður þráast skóla- og velferðaryfirvöld borgarinnar við og leggja á borð alls konar afsakanir og úrtölur. Auðvitað ætti að vera sálfræðingur í fullu starfi í hverjum skóla. Það myndi kosta 409 m.kr. sem meira en sjálfsagt er að fá úr borgarsjóði væri yfir höfuð áhugi á að setja börn og þjónustu við þau í forgang. 

    Fylgigögn

  7. Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Vitað er að faraldurinn hefur haft áhrif á alla aldurshópa en vísbendingar eru um að hann hafi lagst þungt á eldra fólk sem hefur upp til hópa verið einangrað í tvö ár. Lagt er til að ráðist verði í markvissa könnun á líðan fólks í Reykjavík sem komið er yfir sjötugt og kannað hver áhrif  heimsfaraldurinn hefur haft á það. Í framhaldinu yrði ráðist í að veita þeim sem það þurfa viðeigandi sálfélagslegan stuðning til að hjálpa fólki að komast aftur út í lífið eftir þessa einangrun. Minnt er á að ekki allir eiga ættingja sem hafa getað veitt félagsskap eða hlaupið undir bagga á meðan faraldurinn geisaði sem mest. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og notar því ekki rafrænar lausnir til að vera í sambandi við umheiminn.

    Frestað.

  8. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Í Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka - Hvaða hópar leita aðstoðar? kom fram að til hjálparsamtakanna leitar breiður hópur fátæks fólks á Íslandi. Stærsti hópurinn er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysisbótum eða örorkubótum. Skýrslan var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina og kom út 4. janúar 2021. Í ljósi þeirrar niðurstöðu samþykkir velferðarráð að kanna afstöðu fólks til upphæðar fjárhagsaðstoðar. Könnunin verði send með tölvupósti á notendur sem hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu að minnsta kosti sex mánuði. Einnig verði hringt í þá einstaklinga sem ekki svari tölvupóstum. Markmið með könnuninni er að skoða hvort að upphæðin dugi til framfærslu og ef ekki hvernig fólk framfleyti sér og greiði fyrir helstu nauðsynjar og hvert það leyti til að sjá sér fyrir helstu nauðsynjum. Velferðarráð samþykkir að fela velferðarsviði að framkvæma könnunina. Einnig verði boðið upp á opin svarmöguleika þar sem fólk sem er með tekjur fjárhagsaðstoðar geti komið sínum skilaboðum varðandi fjárhagsaðstoðina á framfæri.

    Frestað.

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 6. lið fundargerðar borgarstjórnar 8. febrúar 2022, ásamt umsögn velferðasviðs, dags. 2. mars 2022:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela velferðarsviði að bæta aðgengi fyrir unglinga að sálfræðiþjónustu í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Miðað skal við að aðgengi hafi verið bætt eigi síðar en í janúar 2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22020120.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Velferðarráð tekur undir mikilvægi þess sem kemur fram í tillögu ungmennaráðs um að bæta þurfi aðgengi að  sálfræðiþjónustu. Velferðarsviði er falið í samráði við skóla- og frístundasvið að eiga samtal við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að tryggja greiðari aðgang grunnskólanemenda að sálfræðiþjónustu Heilsugæslunnar, sem hefur það verkefni að sinna sálfræðimeðferð barna til lengri tíma. Meðal annars þarf að skoða hvort og hvernig sálfræðingar Heilsugæslunnar fái afnot af skólahúsnæði til að geta veitt nemendum meðferð líkt og skólahjúkrunarfræðingar hafa haft um langa hríð. Einnig er mikilvægt að efla samstarf skólaþjónustu og Heilsugæslunnar samhliða innleiðingu á verkefninu Betri borg fyrir börn og lögum um farsæld barna sem leggja á auknar skyldur um samstarf allra aðila sem vinna að velferð barna.

    Breytingartillagan er samþykkt. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá.
    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista styður heilshugar þessa tillögu ungmennaráðs. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að andleg líðan unglinga fari versnandi á milli ára og að aðgengi að sálfræðiþjónustu sé ekki nægilega gott. Fyrir hönd unglinga í Reykjavík sé óskað eftir því að sálfræðingar verði starfandi í öllum grunnskólum borgarinnar. Samkvæmt kostnaðarmati vantar 409 m.kr. uppá fjárheimildir til að tryggja að einn sálfræðingur sé í hverjum grunnskóla alla daga vikunnar. Einnig myndi þurfa að skoða aðstöðuna í einhverjum skólum til þess að skapa gott rými fyrir sálfræðingana og börnin og ungmennin. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sú breytingartillaga sem hér er lögð fram af meirihlutanum getur ekki gengið upp. Velferðarráð getur ekki stýrt starfi heilsugæslusálfræðinga sem ekki er gert að fara út í skólana og eru auk þess að sinna börnum til 18 ára. Á heilsugæslum borgarinnar er langur biðlisti. Heilsugæslusálfræðingar hafa það ekki á sinni dagskrá að gera greiningar, heldur sinna aðeins viðtölum með aðsetur á heilsugæslustöðvum. Þetta er billeg leið meirihlutans í velferðarráði til að sópa tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta undir teppi. Hér er verið að leika ljótan leik til að sneiða hjá að taka ábyrgð. Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir því allt kjörtímabilið að biðlistum barna til sálfræðinga skóla og annarra fagaðila skóla verði eytt. Árum saman hefur sálfræðingum ekki fjölgað í skólum en börnunum hefur fjölgað. Umsóknum um þjónustu í skólum hefur fjölgað gríðarlega frá 2020. Nú bíða um 1804 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bæst hafa við tugir barna á örstuttum tíma og bíða yfir 1000 börn eftir þjónustu sálfræðings. Það viðbótarfjármagn sem veitt hefur verið í málaflokkinn á árinu er dropi í hafið og sér varla högg á vatni í stóra samhenginu. Velferðarráð verður að axla ábyrgð hér en ekki reyna að koma sér undan ábyrgð.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Hér er um praktíska útfærslu að ræða á góðri tillögu  frá Ungmennaráði. Gífuryrðum er vísað til föðurhúsanna. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Velferðarráð getur ekki ráðskast með heilsugæslusálfræðinga og ætlað þeim að vinna vinnu sem borgin á að annast. Að ætla að senda þá út í skólana af því að velferðarráð vill ekki fjármagna sálfræðinga í skólum er sorgleg niðurstaða þessa máls.

    Fjóla Ösp Baldursdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta, og Hulda Valdís Valdimarsdóttir, verkefnastjóri hjá skóla- og frístundasviði, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  10. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna velferðarsviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2020 og 2021. Einnig er óskað upplýsinga hvað Reykjavíkurborg hefur greitt starfsmönnum á þessu sama tímabili í akstur á eigin bifreiðum. Reykjavíkurborg á 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000. Leigubílar hafa einnig verið notaðir í  miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest á velferðarsviði. Um þetta hefur áður verið spurt og voru svör þá frekar óljós. Talað var um svokallaða “Aðra notkun á leigubílum  t.d. vegna vitjana á heimili, starfsstaði eða á fundi“ án nokkurrar frekari sundurliðunar. Undir þennan lið er vissulega hægt að setja eitt og annað. Svona lagað þarf að vera upp á borði og væntir Flokkur fólksins þess að svar sem berst við fyrirspurninni sem nú er lögð fram sé gegnsætt og vísað í opin gögn.  Kostnaður borgarinnar vegna leigubíla nam 431 milljón króna á 8 ára tímabili fram til 2018. Kostnaðurinn hefur aukist á hverju einasta ári frá árinu 2011 og var 69 milljónir á árinu 2018. Þá vekur athygli að Reykjavíkurborg hefur greitt starfsmönnum tvo milljarða í akstur á eigin bifreiðum frá árinu 2011. Samtals um milljón á dag.

  11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Árið 2021 voru hækkaðar  fjárheimildir um 40 milljónir til velferðarsviðs til að fjölga sérfræðingum og vinna úr löngum biðlista. Í ár hækka fjárheimildir velferðarsviðs um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum Covid á börn og unglinga. Samkvæmt tölulegum upplýsingum um biðlista sem finna má á vef borgarinnar bíða nú 1804 börn eftir fagaðstoð og rúmlega 1000 börn eftir sálfræðingi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsing um hvað mörgum börnum hefur verið hægt að sinna fyrir 40 milljóna króna hækkun fjárheimilda árið 2021 og það sem af er ári 2022? Biðlistatölur hafa farið jafnt og þétt hækkandi allt kjörtímabilið. Aðeins um 3 vikur eru síðan 1680 börn biðu aðstoðar fagfólks skóla. Biðlistatölur hafa aldrei lækkað, aðeins hækkað þrátt fyrir 140 milljóna innspýtingu til sviðsins til að grynnka biðlistana.

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Það er ekki langt síðan að mikil umræða skapaðist þegar matur einstaklings var hengdur á snerilinn og dyrabjöllunni hringt. Yfir þessu var kvartað. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig þessum málum er háttað nú og hvort afhendingarfyrirkomulagið hafi breyst hjá öllum eða aðeins þeim sem kvörtuðu? Spurt er einnig um fjölda kvartana vegna fyrirkomulags á afhendingu matar árið 2021 og það sem af er 2022. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi leggja áherslu á mikilvægi þess að maturinn sé afhentur viðkomandi persónulega því aldrað fólk er margt farið að heyra illa og heyrir ekki í bjöllunni, getur verið sofandi, man ekki að gá að matnum o.s.frv. Fyrir suma eru þessi samskipti, að opna og taka við matnum sínum einu mannlegu samskipti sem fólk hefur við umheiminn. Athuga skal að ekki eiga allir fjölskyldu sem líta til þeirra eldri eða hlaupa undir bagga. Eins ljúft og það er að geta búið heima hjá sér sem lengst þá býður það einnig upp á hættuna á einangrun og einmanaleika eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bent á í málum sínum á kjörtímabilinu.

  13. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Nýlega var fulltrúum velferðarráðs kynnt þjónustukönnun í þjónustuíbúðum, dagdvöl og heimaþjónustu. Svarendur voru 274, konur í meirihluta, ekkjur í dagdvöl. Niðurstöður sem snúa að heimaþjónustu eru sláandi. Aðeins 27% segja að þjónustan veiti stuðning til félagslegrar þátttöku. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig bregðast eigi við þessum niðurstöðum? Sterkar vísbendingar eru um að þeir sem búa einir séu að upplifa einmanaleika og einangrun og má leggja út af þessum niðurstöðum að þeir sem sinna þjónustunni hafi ekki mínútu aflögu til að ræða aðeins við þjónustuþega og er það miður.

  14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá lista yfir mál Flokks fólksins sem lögð hafa verið fram í velferðarráði á kjörtímabilinu. Um er að ræða lista yfir fyrirspurnir og tillögur og að fram komi dagsetningar á afgreiðslu málanna og hvaða mál, fyrirspurnir og tillögur, eru enn óafgreidd.

  15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Sálfræðingar hafa aðsetur á þjónustumiðstöðvum og ferðast þaðan út í þá skóla sem þeim ber að sinna til að þjónusta börn. Á biðlista eftir sálfræðingum eru rúmlega 1000 börn. Alls bíða 1804 börn eftir fagþjónustu. Stöðugildi sálfræðinga eru 25,8 sem þjónusta 80 leikskóla og 44 grunnskóla. Áætlað er að u.þ.b. 10 stöðugildi sinni leikskólum og 15,8 sinni grunnskólum borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað við ferðir sálfræðinga út í skólana, sundurliðun eftir hverfum og eftir ferðamáta.

  16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hve mörg tilfelli hafa verið tilkynnt til Barnaverndar sem tengjast skólasókn nemenda (skólaforðunarmál), þ.m.t. leyfin. 

  17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Verðbólga hefur rokið upp og má kenna m.a. skorti á íbúðarhúsnæði um. Verðbólga mælist nú 6,2 prósent og hefur ekki verið meiri í áratug sem rekja má að mestu til skorts og vöntunar á húsnæði, hagkvæmu húsnæði í Reykjavík. Þetta hefur leitt til þess að nýlega hækkuðu stýrivextir  úr 2 í 2,75%. Þetta þýðir að róður ákveðinna hópa mun þyngjast verulega. Mánaðarlegar afborganir munu hækka um tugi þúsunda hjá þeim sem nýlega eru komnir á fasteignamarkaðinn. Námsmenn og láglaunafólk mun lenda í vanda sérstaklega þeir sem tekið hafa  óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort og hvernig þá velferðarsvið ætlar að bregðast við þessu? Ætlar velferðarsvið að grípa til sértækra aðgerða til að hjálpa þeim sem berjast í bökkum að halda húsnæði sínu til að þrauka þangað til að aðstæður skána? Ætlar velferðarsvið að auka stuðning við þá sem eru á leigumarkaði en þar er fólk að greiða allt að fjórðung tekna sinna í leigu. Mun velferðarsvið ætla að skoða að hlaupa undir bagga með barnafjölskyldum sem eru með tekjur undir 442.324 kr. á mánuði (þ.e. 5.307.888 kr. á ári) t.d. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og gjaldfrjálsu frístundaheimili?

  18. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir eftirfarandi sundurliðun á nýtingu þjónustugreiðslna vegna barna, sbr. 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð: Nýtingarhlutfall barna á aldrinum 2-6 ára sem dvelja á leikskóla. Nýtingarhlutfall barna á aldrinum 6-9 ára sem dvelja á frístundaheimili. Nýtingarhlutfall barna á aldrinum 6-15 ára vegna greiðslu á skólamáltíðum.

    -    kl. 15:12 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 15:14

PDF útgáfa fundargerðar
423._fundargerd_velferdarrads_fra_2._mars_2022.pdf