Velferðarráð - Fundur nr. 420

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 2. febrúar var haldinn 420. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Presthúsi, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Heiða Björg Hilmisdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Rannveig Ernudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. febrúar 2022, um breytingu á fjárhæðum sérstaks húsnæðisstuðnings:

    Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar, frá 1. janúar 2022, á neðangreindum fjárhæðum sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:

    Fjöldi heimilis-manna    Neðri tekjumörk á ári    Efri tekjumörk     á ári    Neðri tekjumörk   á mánuði    Efri tekjumörk     á mánuði
    1            4.752.707         5.940.884             396.059             495.074 
    2            6.285.838         7.857.298             523.820             654.775 
    3            7.359.030         9.198.788             613.253             766.566 
    4 eða fleiri        7.972.283         9.965.354             664.357             830.446 

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22010009.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð samþykkir nú hækkun á tekju- og eignamörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til samræmis við hækkun frítekjumarka vegna húsnæðisbóta. Breytingarnar taka gildi afturvirkt frá 1. janúar 2022

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
     
    Hér er um almenna breytingu að ræða sem er uppfærð árlega í tengslum við reglugerð. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að endurskoða þetta í heild sinni þannig að enginn greiði meira en 25% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi hækkun haldi ekki við nýjustu verðbólgutölur, 5,7%. Verði þetta breytingin þá rýrnar húsnæðisstuðningur milli ára miðað við verðbólgu.

    Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri á velferðarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundaútbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10572/2020 er varðar skilyrði áfangahúsnæðis. VEL22010011.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Almennu félagslegu leiguhúsnæði er úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka eru með þeim hætti að viðkomandi þarf og gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi og er úthlutun húsnæðisins tímabundin með tilliti til þess. Fara þarf yfir samninga við leigutaka.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að sú framkvæmd sem kemur fram í umræddu áliti umboðsmanns Alþingis brjóti gegn húsaleigulögum. Þær íþyngjandi kröfur sem borgin gerir í þessu máli ganga allt of langt inn á friðhelgi einkalífs og heimilis til að ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að og án þess að fyrir hendi sé viðhlítandi lagastoð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þetta mál hljóti að hafa tekið á þeim sem það varðar. Það er umfram allt mikilvægt að stytta boðleiðir og mæta einstaklingum og fjölskyldum þar sem þau eru eins og þau eru.

  4. Lögð fram tillaga sviðsstjóra, dags. 2. febrúar 2022, um breytingu á rekstri skammtímaheimilis fyrir ungmenni á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. Trúnaðarmál. VEL2021080007.

    Frestað

    Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur og Tómas Hrafn Sveinsson, formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  5. Lagt fram minnisblað, dags. 2. febrúar 2022 um stöðumat á aðgerðaáætlun með velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum VEL22010012. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarstefna Reykjavíkur var samþykkt á síðasta ári með 5 ára aðgerðaáætlun með 58 tímasettum aðgerðum. Hér er lögð fram fyrsta stöðumat á innleiðingu stefnunnar og það er gleðilegt að sjá að allar 29 aðgerðir sem áttu að hefjast á árinu 2021 eru hafnar og sumum lokið. Markmið velferðarstefnunnar er að tryggja að Reykjavík sé fyrir okkur öll, heilsueflandi borg með þjónustu sem er aðgengileg og góð og veitt í samræmi við óskir og þarfir hvers og eins. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lýsir ánægju sinni með að rafvæðing umsókna sé loksins hafin hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar með tilkomu Rafrænnar þjónustumiðstöðvar. Rafræn umsókn um fjárhagsaðstoð var keypt dýrum dómum fyrir að verða þremur árum síðan ef fulltrúi Flokks fólksins man rétt. Sú lausn virðist þó enn vera í einhverskonar þróun. Nú er það reyndar svo að rafrænar umsóknir eru ekki aðeins bundnar við þjónustu velferðarsviðs borgarinnar heldur einnig nánast hvar sem þjónustu Reykjavíkurborgar er að finna. Ef aðeins er horft til hagræðingar fyrir þjónustuþega þá hefði verið best að hafa eina allsherjar rafræna þjónustumiðstöð sem hefði þá séð um allar rafrænar umsóknir sem til borgarinnar berast. Allt á einum stað. Í stað þess að taka á einum afmörkuðum fleti þjónustu Reykjavíkurborgar með þessum hætti, hefð eflaust verið betra að hugsa dæmið í stærra samhengi. En auðvitað hugsar hvert svið fyrst og fremst um sjálft sig og er það þess vegna yfirstjórnar og pólitíkurinnar að ákveða heildarmyndina.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Í aðgerðaráætlun með nýrri velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem eðli málsins samkvæmt snýr að velferðarsviði er kveðið á um að rafvæða skuli allar umsóknir velferðarsviðs. Verkefnið er ekki einungis hafið heldur langt á veg komið. Í dag eru 16 af 20 umsóknum rafrænar er varða grunnþjónustu sviðsins. Íbúar geta því sótt rafrænt um nánast alla þjónustu sviðsins. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram skýrsla um aukna starfsemi og þjónustu í félagsstarfi fullorðinna árið 2021 vegna COVID-19 frá Reykjavíkurborg, ásamt fylgiskjölum. VEL22010010.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    COVID-faraldurinn hefur varpað skýru ljósi á mikilvægi, tilgang og innihald félagsstarfs. Félagsstarf á að fela í sér fjölbreytta starfsemi sem stuðlar að aukinni geðheilsu, dregur úr einangrun og einmanaleika, er heilsueflandi, býður upp á ýmsa fræðslu og forvarnarstarf. Þar með næst að valdefla fólk og auka lífsgæði þeirra sem bætir gæðum við árafjöldann. Mörg af þeim verkefnum sem kynnt eru í skýrslunni sýna að starfið býr nú yfir góðri reynslu sem dýrmætt væri að nýta áfram þegar stefna og hugmyndafræði um félagsstarf er mótuð

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Margt sem þarna kemur fram er frábært að mati fulltrúa Flokks fólksins. Tvennt sem kannski kemur ekki nógu vel fram og það er hvort þessi námskeið voru valin af fólkinu sjálfu? Fram kemur að það hafi verið góð þátttaka. Fulltrúa Flokks fólksins er hugsað til þeirra sem heima sátu, þáðu ekki að koma á námskeið. Hefur verið reynt að ná til þeirra með markvissum leiðum? Sumir þurfa aðeins smá hvatningu til að drífa sig af stað. Eins hvað segja þátttakendur sjálfir, hefur verið gert árangursmat og viðhorfskönnun? Fulltrúi Flokks fólksins hvetur velferðarsvið áfram á þessari braut og leggja áherslu á nýliðun á námskeiðin, ná til þeirra sem ekki hafa komið áður, þeirra sem ekki mikið hefur sést til en vitað er til að séu einir og jafnvel einmana.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Eins og fram kemur í skýrslunni var lögð áhersla á virkt samráð við hagsmunaaðila og því var skipuð dómnefnd sem fékk það hlutverk að fara yfir innsend tilboð. Í dómnefndinni var m.a. fulltrúi notenda félagsstarfs sem og starfsfólk úr félagsstarfinu með góð tengsl við notendur. Einnig kemur fram í skýrslunni að starfsfólk félagsstarfs gat í kjölfarið í auknum mæli unnið markvisst í að virkja betur fólk til þátttöku, það fékk meiri tíma og svigrúm til að finna og hvetja fólk til þátttöku með markvissum hætti. Þá var ávallt gerð könnun meðal þátttakenda á námskeiðum í tæknilæsinu þar sem spurt var hvað þeim hafi fundist um námskeiðin.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  7. Fram fer kynning á könnun á stuðningi til stjórnenda sólarhringsstarfsstaða á tímum COVID-19. VEL22010015.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þökkuð er góð kynning á könnuninni á stuðningi til stjórnenda á sólarhringsstarfsstöðum en svarhlutfall var 86% sem telst nokkuð gott. Þar kom skýrt fram að stjórnendum fannst þeir fá nokkuð góðan stuðning frá þjónustumiðstöðvum, mannauðsþjónustu og frá teymi Almannavarna en handleiðsla gæti nýst þeim betur. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta eru áhugaverðar niðurstöður. Ef horft er til hvað það er sem er að nýtast stjórnendum er ef þeim áskotnast meiri mannafli og hafa aðgang að ráðgjöf, leiðbeiningu og samtali. Það sem mest er kallað eftir er aukin handleiðsla og úrlausn á mönnunarvanda. Finna þarf leiðir til að mæta þessum þörfum að mati fulltrúa Flokks fólksins. Allt kostar þetta peninga og þá er kannski enn og aftur komið að því að velferðarsvið vantar meira fjármagn til að auka og efla þjónustu, ná niður biðlistum og til að sinna betur starfsfólkinu sem vinnur undir miklu álagi í langan tíma. Mætti ekki skoða að draga einhvers staðar úr yfirbyggingu og sameina verkefni til að fá aukið fjármagn í þjónustuliðina sjálfa ef ekki næst að fá meira fjármagn úr borgarsjóði. Fulltrúi Flokks fólksins vill stokka upp á nýtt og setja fólkið, þar með starfsfólkið, í forgang.

    Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, verkefnastjóri gæða og rannsókna í teymi árangurs- og gæðamats á skrifstofu velferðarsviðs og Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri á velferðarsviði taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  8. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga starfshóps um styrkveitingar velferðarráðs, dags. 19. janúar, um styrkveitingar velferðarráðs úr borgarsjóði árið 2022, ásamt fylgiskjölum: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu starfshóps um styrkveitingar velferðarráðs úr borgarsjóði fyrir árið 2022.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2022010014.

    Almennir styrkir 2021:

    Allir hjóla, félagasamtök. Allir hjóla. 600.000 kr. 
    Samþykkt.
    Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn. Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. 200.000 kr.
    Samþykkt.
    Brynhildur Björnsdóttir. Venjulegar konur. 500.000 kr.
    Samþykkt.
    Einhverfusamtökin. Fræðsla um einhverfu til skóla, starfsendurhæfinga og annarra stofnana. 1.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Fjölskylduhjálp Íslands. Hringrásarbanki Fjölskylduhjálpar Íslands. 1.000.000 kr.
    Kolbrún Baldursdóttir víkur af fundi við afgreiðslu þessa liðar. 
    Samþykkt.
    ADHD samtökin. Ráðgjöf og stuðningur við fólk með ADHD. 2.000.000 kr.
    Samþykkt. 
    Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi við afgreiðslu þessa liðar.
    Samþykkt.
    Memmm Play, félagasamtök. Foreldrastundir Memmm Play. 4.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Ellen Jacqueline Calmon víkur af við afgreiðslu þessa liðar.
    Samþykkt.
    Gigtarfélag Íslands. Ráðgjöf, félagsstarf, valdefling og stuðningur við gigtarfólk og aðra með annan stoðkerfisvanda í Reykjavík. 1.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Hjálparstarf kirkjunnar. Sumarfrí innanlands. 500.000 kr.
    Samþykkt.
    Hjálparstarf kirkjunnar. Taupokar með tilgang. 600.000 kr.
    Samþykkt.
    Höndin. Stuðningur við skjólstæðinga Handarinnar. 300.000 kr.
    Samþykkt.
    Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu. Frú Ragnheiður. 500.000 kr. 
    Samþykkt.
    Samtök um kvennaathvarf. Áfangaheimili Kvennaathvarfsins - þýðingar nauðsynlegra skjala. 400.000 kr.
    Samþykkt.
    Samvera og súpa, félagasamtök. Samvera og súpa. 300.000 kr. 
    Samþykkt.
    Vinaskákfélagið. Skákiðkun. 200.000 kr. 
    Samþykkt.

    Þjónustusamningar til eins árs 2022:

    Afstaða til ábyrgðar. Þjónustusamningur við Afstöðu. 4.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Bergið Headspace – félagasamtök. Bergið Headspace. 3.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Blindrafélagið. Stuðningur til sjálfstæðis. 3.000.000 kr.
    Samþykkt.
    EAPN á Íslandi,samtök gegn fátækt. Fjölskyldu og fjölmenningarsetur. 2.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Félag heyrnarlausra. Þjónusta við heyrnarlausa íbúa Reykjavíkur. 4.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Jaðarsettir minnihlutahópar 60+. 2.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Foreldrahús ses. Fjölskylduráðgjöf foreldrahúss. 4.500.000 kr.
    Samþykkt.
    Hugarafl. Notendastýrt félagsstarf byggt á valdeflingu. 5.500.000 kr.
    Samþykkt.
    MS-félag Íslands. Ráðgjafarþjónusta. 2.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Píeta Samtökin, félagasamtök. Þjónusta við fólk í sjálfsvígshættu, aðstandendur þeirra og syrgjendur. 3.000.000 kr. 
    Samþykkt.
    Rótin - félag um velferð og lífsgæði kvenna. Fræðsla, ráðgjöf, útgáfa og þjálfun. 2.500.000 kr.
    Samþykkt.
    Vernd, fangahjálp. Endurhæfing/Betra líf. 1.500.000 kr.
    Samþykkt.
    Þjóðkirkjan – Biskupsstofa. Skjólið - opið hús fyrir konur. 2.000.000 kr.
    Samþykkt.

    Þjónustusamningar til þriggja ára:

    AE starfsendurhæfing ehf. Hlutverkasetur. 10.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Hjálparstarf kirkjunnar. Út úr vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar. Hjálp til sjálfshjálpar. 2.500.000 kr.
    Samþykkt.
    Hjálpræðisherinn á Íslandi. Samskonar. 15.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Landssamtökin Geðhjálp. Ósk um rekstrarstyrk. 2.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Samhjálp, félagasamtök. Kaffistofa Samhjálpar. 10.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Sjálfsbjörg, félag hreyfihamlaðra. Félagsstarf, ráðgjöf. 1.000.000 kr.
    Samþykkt.
    Styrktarfélag klúbbsins Geysis. Virkniverkefni fyrir einstaklinga með geðrænar áskoranir sem búa í búsetukjörnum og búsetuendurhæfingarheimilum í Reykjavík. 5.000.000 kr.
    Samþykkt.

  9. Fram fer kynning á tölfræði um fjárhagsaðstoð til framfærslu í nóvember 2021. VEL22010016. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Heildarnotendur fjárhagsaðstoðar voru 1.118 og fækkaði um 37 einstaklinga milli mánaða. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað skýri þessa fækkun. Fækkunin var einkum í hópi fólks með íslenskt ríkisfang eða 35 manns og tveir með erlent ríkisfang. Notendur með fjárhagsaðstoð til framfærslu hafa ekki verið færri síðan í janúar 2020. Atvinnulausir eru áfram stærsti hópurinn eða 48% hópsins. Fólk með erlent ríkisfang er 38% ef undan er skilinn september 2021 þá þarf að fara aftur til mars. Fara þarf aftur til 2020 til að finna færri notendur með erlent ríkisfang. 248 notendur eru flóttafólk eða 22,2% allra notenda fjárhagsaðstoðar.

    Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  10. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 2. febrúar 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda íbúða hjá Félagsbústöðum, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 3. nóvember 2021. VEL2021110032.

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram eftirfarandi tillögu:

    Lagt er til að skilyrði um stigagjöf fyrir félagslegar aðstæður verði teknar úr matsviðmiði fyrir sérstakan húsnæðisstuðning. Núverandi matsviðmið Reykjavíkurborgar líta til stöðu umsækjenda, húsnæðisstöðu og félagslegra aðstæðna umsækjenda. Staða umsækjanda sem sækir um sérstakan húsnæðisstuðning verður að vera metin til að lágmarki sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðsmið sem fylgir með reglum um sérstakan húsnæðisstuðning. Hér er lagt til að litið verði til stöðu þeirra sem sækir um sérstakan húsnæðisstuðning og húsnæðisstöðu. Velferðarsviði verði falið að útfæra breytingar að reglum og matsviðmiði og leggja fyrir velferðarráð til samþykktar.

    Frestað.

PDF útgáfa fundargerðar
420._fundargerd_velferdarrads_fra_2._februar_2022.pdf