Velferðarráð - Fundur nr. 419

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 19. janúar var haldinn 419. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:03 í Presthúsi, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Heiða Björg Hilmisdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Rannveig Ernudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Fram fer kynning á stöðu mála á velferðarsviði vegna COVID-19 faraldursins. VEL2022010017.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð færir velferðarsviði og öllu starfsfólki þess, sem starfar víðsvegar um borgina, innilegar þakkir fyrir að gefa ekkert eftir í afar flóknum og erfiðum aðstæðum. Staðan í dag er orðin mjög íþyngjandi og erfið vegna mikillar útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu. Þrátt fyrir að á móti blási er einkennandi fyrir starfsmannaflóruna að á sviðinu starfar fólk af einlægri hugsjón og fagmennsku. Ráðið gerir sér grein fyrir því hversu dýrmætur auður þið öll eruð og þeim fórnum sem þið færið til að sinna velferð borgarbúa að nóttu sem degi.

    Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á velferðarsviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2022, um breytingu á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt fylgiskjölum:  

    Lagt er til að velferðarráð samþykki eftirfarandi tillögur að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg: 

    a) Að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu og aðstoð vegna barna hækki um 2,4% í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2022. 

    b) Að framlengt verði bráðabirgðaákvæði er kveður á um að þátttakendur í tilraunaverkefninu IPS (Individual Placement Support) séu undanþegnir ákvæði um frádrátt tekna, allt að 50.000 kr.-, við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar.  

    Kostnaðarauki rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2022010009.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt til að að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu og aðstoð vegna barna hækki um 2,4% í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2022. Eftir breytingu getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili, numið allt að 217.799 kr. á mánuði. Fulltrúi sósíalista ítrekar að þetta er ekki næg hækkun. Fjárhagsaðstoð þarf að hækka meira svo að upphæðirnar dugi til mannsæmandi lífs. Sósíalistar hafa áður lagt það til og munu halda því áfram.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn leggur til að velferðarráð samþykki að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu og aðstoð vegna barna hækki um 2,4% í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2022. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta afar nánasarlegar hækkanir, nokkrir þúsundkallar. Þegar verðbólga mælist í kringum 5% er þetta í raun skerðing á kaupmætti milli ára. Hægt er að gera mun betur hér.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Upphæðir fjárhagsaðstoðar eru nú hækkaðar í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2022. Nú þegar hefur börnum notenda fjárhagsaðstoðar verði tryggð dvöl á leikskóla, skólamáltíðir og dvöl á frístundaheimili. Að auki er framlengt ákvæði sem kveður á um að þátttakendur í tilraunaverkefninu IPS njóti allt að 50.000 kr. frítekjumarks á mánuði. Auk þess er til skoðunar að útvíkka frítekjumörk vegna þátttöku í öðrum virkniverkefnum velferðarsviðs og er það vel. 

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2022, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjölum: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki eftirfarandi tillögur að breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði:

    a)    Að tekju- og eignaviðmið verði hækkuð í samræmi við reglugerð nr. 1342/2020 um ráðstöfun leiguíbúða skv. 37. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998.

    b)    Að kveða skýrt á um í  a. lið 1. mgr. 4. gr. reglnanna.að lögheimili í Reykjavík sé skilyrði umsóknar. 

    c)    Að gera breytingar á matsviðmiðum reglnanna er varða skilyrði um 12 mánaða lögheimili í Reykjavík.

    Enginn kostnaðarauki fylgir framangreindri tillögu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL2021100008.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Réttur til félagslegrar þjónustu myndast um leið og íbúi er með lögheimili í sveitarfélaginu. Það er ekki krafa að hafa dvalið í a.m.k. 12 mánuði í Reykjavík til að eiga rétt á því að sækja um félagslegt húsnæði og til að komast á biðlista. Hér er samt sem áður stuðst við það í matsviðmiði. Rót vandans liggur í því að tryggja þarf nægilegt framboð af félagslegu húsnæði og það þarf að leysa.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er ekki lengur krafa að hafa dvalið í eitt ár í  Reykjavík til að eiga rétt á því að sækja um félagslegt húsnæði og til að komast á biðlista sem er mjög af hinu góða. En síðan er fólki gefið stig fyrir að hafa búið hér í Reykjavík í ár. Fólk sem hér um ræðir er oft í miklum vandræðum húsnæðislega séð og hefur orðið að flytja eða búa utan borgar kannski vegna þess að þar fékk það skjól um tíma. Þeir sem hafa verið svo heppnir að hafa búið í Reykjavík fá aukastig. Er þetta sanngjarnt? Fólk sækir ekki um nema það sé í mikilli neyð. Auka þarf sárlega framboð af félagslegu húsnæði enn meira en gert hefur verið. 

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.  

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á viðbrögðum vegna öryggisbrests hjá Strætó bs. VEL2022010011. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Öryggisbresturinn hjá Strætó bs. er mjög alvarlegur og mikilvægt að vinna vel og vandlega úr þeim skaða sem orðið hefur. Lítið hefur uppúr sér að eltast við þá sem frömdu innbrotið og væri slíkt sóun á tíma starfsfólks sem frekar þarf að vinna úr brotinu og svo fara í aðgerðavinnu til að tryggja gagnaöryggi. Varpar þessi staða ljósi á það hversu mikilvægt er að gerðar séu strangar kröfur um vandað og tryggt netöryggi, sem verið er að greiða fyrir. Hér þarf að horfa á netöryggi sömu augum og forvarnarstarf á öðrum sviðum, svo að minna sé um það að verið sé að bregðast við krankleikum þegar þeir koma upp. Frekar að enn meiri áhersla sé lögð á að fyrirbyggja þá, hvað þá umfang þeirra. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er mikið áfall fyrir Strætó. Þetta getur hent alla sannarlega. Mikilvægt er að linna ekki látum fyrr en búð er að finna þá sem eru ábyrgir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af öryggismálum almennt í borginni sérstaklega þar sem starf gæða- og öryggisstjóra hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði var lagt niður í apríl 2020 eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur frétt. Ekki er vitað til þess að sérfræðingur á sviði öryggismála á þessu sviði sé að sinna tölvuöryggismálum í Reykjavík. 

    Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., Erlendur Pálsson, sviðsstjóri akstursþjónustu Strætó bs., Erlingur Hjörleifsson, kerfisstjóri, Sturla Halldórsson, verkefnastjóri, Dagbjört Hákonardóttir, persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar og Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað, dags. 19. janúar 2022, um stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar um velferðartækni fyrir árin 2020 og 2021, ásamt fylgiskjölum. VEL2022010013.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar um velferðartækni. Ljóst er að fullur gangur er í verkefnum á sviði velferðartækni hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur Velferðartæknismiðju er að prófa og innleiða nýja velferðartækni með skilvirkum hætti. Á árunum 2020-2021 var m.a. lögð áhersla á áframhaldandi uppbyggingu Velferðartæknismiðju, prófanir og innleiðingu velferðartæknilausna í þjónustu. Starfsemi Velferðartæknismiðju er flutt í nýtt húsnæði með fullbúnu skjáveri. Unnið er áfram að innleiðingu skjáheimsókna og sjálfvirkra lyfjaskammtara, auk fleiri verkefna. Velferðarráð hefur skipað starfshóp sem hefur það verkefni að endurskoða stefnu á sviði Velferðartækni. Ný aðgerðaáætlun verður svo unnin í kjölfar þeirrar vinnu. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Farið er yfir stöðu á innleiðingu aðgerðaáætlunar um velferðartækni fyrir árin 2020 og 2021. Fulltrúa Flokks fólksins finnst heildarmyndin óskýr. Það hefði verið gott að fá samantekt á því og að árangursmælingar væru meira staðlaðar þannig að auðveldara væri að sjá hver staðan væri og á hvers ábyrgð hvert verkefni er og á hverju strandar.  Segir jafnframt í gögnum að hægt sé „að sækja rafrænt um skjáheimsóknir gegnum rafræna gátt á innri vef en nýr ytri vefur Reykjavíkurborgar er ekki kominn í notkun.“ Þjónustuþegar geta þ.a.l. ekki sótt um beint sem hlýtur að vera markmiðið að verði. Hvenær er gert ráð fyrir að nýr ytri vefur borgarinnar sé klár fyrir þetta? Fram kemur að „ekki sé talin ástæða til að taka inn ný verkefni sem eru í þróun hjá frumkvöðlum og að verkferlar tækni og kerfis séu í áframhaldandi þróun hjá upplýsingatæknideild Reykjavíkur (UTR).“ Áður hefur komið fram og kemur fram hér einnig að snjalllausnir séu enn í tilrauna- eða þróunarfasa og á því strandi. Spurning er hvort ekki sé hægt að leita að tilbúnum sambærilegum lausnum? Hvar liggur helsta hindrunin í þessum málum? Er það hjá velferðarsviði eða þjónustu- og nýsköpunarsviði? 

    Sigþrúður Guðnadóttir, verkefnastjóri Velferðartæknismiðju, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála og Berglind Víðisdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar á skrifstofu öldrunarmála, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað, dags. 19. janúar 2022, um stöðumat á aðgerðaáætlun stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra, ásamt fylgiskjölum. VEL2022010012. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðgerðaáætlun gegn sárafátækt barna var samþykkt í október 2020. Lagðar voru fram 15 aðgerðir. Ellefu aðgerðum / tillögum er lokið, átta eru í vinnslu og ein ekki hafin. Þjónustugreiðslur vegna barna, sem er ein mikilvægasta aðgerðin, voru teknar upp í apríl 2021 og tryggja þær börnum notenda fjárhagsaðstoðar leikskóladvöl, skólamat og dvöl á frístundaheimili. Hlutfall þeirra sem njóta þjónustugreiðslna hefur meira en tvöfaldast, en mikilvægt er að auka notkun þeirra enn frekar. Auk þess er mikilvægt að rýna enn frekar aðstæður þeirra barnafjölskyldna sem lengi eru á fjárhagsaðstoð og tryggja þeim markvissan stuðning til þátttöku í samfélaginu. Fjölmörg stuðningsúrræði standa notendum til boða, sérstakt Virknihús hefur tekið til starfa, verkefnið TINNA fest í sessi og unnið að því eftir margvíslegum leiðum að styðja fólk aftur út á vinnumarkaðinn á þeirra forsendum. Samtals hófu 82 störf á árinu 2021 með stuðningi IPS eða Atvinnu- og virknimiðlunar. Úrræðið ELLA var opnað, en þar fá ungir einstæðir foreldrar húsnæði og stuðning. Framþróun í stafrænum lausnum á borð við Ráðgjafann og breytingar á vef borgarinnar munu tryggja betri upplýsingagjöf til notenda um ýmis réttindi þeirra, þjónustu og stuðning. Mikilvægt er að rýna áfram þjónustu velferðarsviðs með þarfir þessa viðkvæma hóps í huga. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Farið er yfir stöðu aðgerðaáætlunar stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Í niðurstöðum segir að allar aðgerðir sem settar voru fram í aðgerðaáætluninni hafi nú þegar komist til framkvæmda fyrir utan eina. Sú aðgerð sem ekki er komin í framkvæmd felur í sér að endurskoða verklag og verkaskiptingu milli velferðarsviðs og Félagsbústaða út frá notendamiðaðri hönnun. Hér strandar á að ekki er tilbúin stafræn lausn sem þarf til að koma aðgerðinni á. Lítið fer fyrir þeim stafrænu lausnum sem búið er að róma í kynningum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Eins og segir „þá munu þær koma og þá tryggja betri upplýsingagjöf til notenda“. Það eina sem komið er í einhverja virkni er nýtt kerfi þar sem sótt er um fjárhagsaðstoð, rafræn lausn sem kostaði yfir 100 milljónir. Lítið fer fyrir öðru þrátt fyrir 10 milljarða innspýtingu til þjónustu- og nýsköpunarsviðs á þremur árum. Ein sú mikilvægasta tillaga/aðgerð sem hefur komið til framkvæmda er að nú þarf ekki að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A né þjónustugreiðslum (nú 10. gr. reglnanna). Þetta var tillaga fulltrúa Flokks fólksins svo því sé haldið til haga, tillaga sem kostaði mikið átak að koma til eyrna meirihlutans. 

    Þóra Kemp, teymisstjóri Virknihúss og Sigrún Skaftadóttir, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram tillaga starfshóps um styrkveitingar velferðarráðs fyrir árið 2022, dags. 19. janúar, ásamt fylgiskjölum. Trúnaðarmál. VEL2022010014.

    -    Kolbrún Baldursdóttir víkur af fundi á meðan fjallað er um umsókn Fjölskylduhjálpar Íslands.

    -    Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi á meðan fjallað er um umsókn ADHD samtakanna.

    -    Ellen Jacqueline Calmon víkur af fundi á meðan fjallað er um umsókn Memmm Play.

    Frestað. 

  9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar varðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegar. VEL2021120010.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði þakka tillögu fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegar og munu taka þær til greina sem frekast er unnt í starfi ráðsins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma tillagna þeirra sem ungmenni leggja fram á árlegum fundi borgarstjórnar og að upplýsingar um úrvinnsluferlið verði aðgengilegar. Tafir á afgreiðslu mála og ógegnsæi í úrvinnsluferli borgarinnar er stórt vandamál nánast hvert sem litið er innan borgarkerfisins. Þó er þetta einmitt eitt af því sem þessi meirihluti lofaði að laga svo um munaði. Þvert á móti tekur það heila eilífð fyrir svið/nefndir  Reykjavíkurborgar að afgreiða og vinna tillögur þ.m.t. tillögur minnihlutafulltrúa borgarstjórnar. Dæmi eru um að meira en eitt ár og jafnvel eitt og hálft ár hafi liðið frá því að tillaga er lögð fram og þar til hún kemur til afgreiðslu á fundi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þetta taki einhvern tíma enda mikið af málum en heilt ár og meira er of mikið. Þá hafa mál oft misst marks. Vonandi mun afgreiðslutími almennt séð styttast, hvaðan svo sem þær eru að koma, frá ungmennaráðum, borgarbúum eða kjörnum fulltrúum minnihlutans.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um matarafganga í þjónustuíbúðum fyrir aldraða, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 8. desember 2021. VEL2021120009.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og kemur fram í svari sviðsins við fyrirspurninni er það algjör undantekning að mat sé hent. Áhersla er lögð á að nýta matarafganga, séu þeir einhverjir, með matseðli kvöldmatarins, einnig ef hentar eru afgangarnir nýttir í bakstur. Áhersla er á forðast matarsóun eins og unnt er og að maturinn nýtist þeim sem eru búnir að borga fyrir hann með ábót eða að nýta í aðra matartíma í húsunum.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 19. janúar 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um bið eftir þjónustu talmeinafræðinga, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. nóvember 2021. VEL2021110067.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði vilja lýsa yfir ánægju með þann árangur sem náðst hefur í að vinna niður biðlista v. greininga sálfræðinga og talmeinafræðinga. 140 m.kr. viðbótarfjármagnið, sem velferðarráð samþykkti á síðasta ári vegna COVID-19, er aldeilis að gera sitt og það þrátt fyrir að skortur hafi verið á talmeinafræðingum vegna kergju gagnvart starfsreynsluákvæði frá Sjúkratryggingum Íslands, og fagna fulltrúarnir því að eitt fyrsta verk nýs heilbrigðisráðherra hafi verið að höggva á þann hnút, og vonandi munu SÍ og talmeinafræðingar ná að leysa sem fyrst úr þeirri deilu sem er í gangi varðandi nýjan samning. Mikið liggur á að koma börnum í þjónustu talmeinafræðinga og eru vísbendingar um að enn frekari árangur myndi þá nást í að vinna niður biðlista barna sem bíða eftir talmeinaþjónustu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hinn 1.11.2021 voru 400 börn á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggist m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga. Það er sérlega bagalegt að öll þessi börn séu að bíða eftir svo mikilvægri þjónustu. Að hjálpa þessum börnum gengur of hægt hjá borginni.  Fjármagn upp á 140. m.kr til að vinna niður biðlista vegna greininga sálfræðinga og talmeinafræðinga dugar skammt. Ef horft er til þeirra barna sem glíma við málþroskavanda þá hafa rannsóknir sýnt að börn með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á þetta reynir sérstaklega þegar komið er inn á unglingsárin ef barn hefur ekki fengið nauðsynlega aðstoð með málþroskavandann í leik- og grunnskóla. Unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna, félags- og tilfinningalega.

    Fylgigögn

  12. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Reglum um félagslegt leiguhúsnæði var breytt 2. maí 2019. Er einhver sem var á lista eftir félagslegu leiguhúsnæði en féll út af biðlistanum vegna nýrra reglna eða í kjölfar reglubreytinganna? Þ.e.a.s. hefur endurmat á umsóknum í kjölfar reglubreytinga leitt til þess að umsókn eða umsóknir hafa verið afturkallaðar af Reykjavíkurborg þó svo að ekkert hafi breyst fjárhagslega eða félagslega hjá viðkomandi? Ef svo er, hvað er um marga einstaklinga og/eða fjölskyldur að ræða? Viðkomandi þarf að fá ákveðinn fjölda stiga til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Aðstæður einstaklinga verða t.a.m. að vera metnar til 9 stiga eða meira. Dæmi eru um að einstaklingar sem hafi áður fengið 9 stig, hafi verið metnir til 8 stiga eftir reglubreytingu þó svo að aðstæður þeirra hafi ekki breyst. Með því átti viðkomandi þá ekki rétt til félagslegs leiguhúsnæðis.

    -    kl. 16:29 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.

Fundi slitið klukkan 16:34

PDF útgáfa fundargerðar
419._fundargerd_velferdarrads_fra_19._januar_2022.pdf