Velferðarráð - Fundur nr. 412

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 3. nóvember var haldinn 412. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:38 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Aron Leví Beck og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á vettvangsgeðteymi Reykjavíkurborgar og ársskýrslu 2020. VEL2021100067. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir góða kynningu og vel unnin störf, ljóst er að bæði starfsfólk vettvangsteymisins sem og starfsfólk í íbúðakjörnunum vinnur mikilvægt starf og hefur brugðist vel við erfiðum og fordæmalausum tímum og hugsað út fyrir kassann og lagt sig fram við að tryggja velferð skjólstæðinga sinna. Hér er um afar mikilvægt starf að ræða.

    Þóra Björk Bjarnadóttir, teymisstjóri vettvangsgeðteymis Reykjavíkurborgar og Andri Vilbergsson, iðjuþjálfi í vettvangsgeðteymi Reykjavíkurborgar, taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  2. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

    -    kl. 14:23 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

  3. Lagt er til að Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Egils Þórs Jónssonar. Jafnframt er lagt til að Rannveig Ernudóttir taki sæti sem annar varamaður í stað Kolbrúnar Baldursdóttur. VEL2021100068.

    Samþykkt.

  4. Lögð fram drög að fundadagatali velferðarráðs 2022. VEL2021100069.

  5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um skipulag og kostnað vegna rafrænnar þjónustumiðstöðvar sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs 20. október 2021: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki nánari útfærslu á þeim skipulagsbreytingum sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs 8. júní sl. og í borgarráði 10 júní sl., eins og lýst er hér á eftir. Um er að ræða fyrsta áfanga í starfsemi rafrænnar þjónustumiðstöðvar en stefnt er að frekari flutningi verkefna frá þjónustumiðstöðvum í rafræna þjónustumiðstöð samhliða stafrænni umbreytingu og aukinni sjálfvirknivæðingu á velferðarsviði. Kostnaður er fjármagnaður með tilfærslu stöðugilda. Jafnframt er óskað eftir viðbótarfjármagni, 25 m.kr. vegna leigu á húsnæði í Borgartúni 12-14, 5. hæð miðrými norður, þar sem hluti af skrifstofu skóla- og frístundasviðs er til húsa í dag. 

    1.    Rafræn þjónustumiðstöð verði frá 1. janúar 2022 skipuð alls 16 stöðugildum en auk framkvæmdastjóra verða stöðugildi teymisstjóra, þjónustufulltrúa, ráðgjafa og verkefnastjóra. 
    2.    Fjárheimild verði flutt til rafrænnar þjónustumiðstöðvar með eftirtöldum hætti: 
    a. Alls verði 120 m.kr. færðar frá þjónustumiðstöðvum frá 1. janúar 2022. 
    b. Alls verði 56 m.kr. færðar frá rafrænu þjónustuteymi frá 1. janúar 2022. 
    3.    Ráðið hefur verið í stöðu framkvæmdastjóra rafrænnar þjónustumiðstöðvar en stöður þjónustufulltrúa og ráðgjafa verða auglýstar innan skamms. Hluti starfanna verður auglýstur innan velferðarsviðs. 
    4.    Rafræna þjónustumiðstöðin verður fyrst um sinn staðsett í Borgartúni 12-14, en áætlað er að hluti af húsnæði skóla- og frístundasviðs á 5. hæð sem losnar samfara skipulagsbreytingum geti hýst þjónustumiðstöðina. VEL2021100014.

    Greinargerð fylgdi tillögunni.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:

    Tillögurnar sem hér eru lagðar fram eru liður í stjórnkerfisbreytingum sem tengjast innleiðingu Velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn þann 15. júní sl. Á grunni ítarlegrar greiningarvinnu var mótuð ný framtíðarsýn til 10 ára auk þess sem hlutverk velferðarsviðs er skilgreint upp á nýtt. Samhliða innleiðingu stefnunnar er nauðsynlegt að ráðast í ýmsar stjórnkerfisbreytingar sem nú standa yfir. Grunnmarkmið nýrrar velferðarstefnu er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir alla borgarbúa og eru breytingarnar til þess fallnar að svo megi verða. 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er fylgjandi aukinni rafrænni þjónustu en hefur ekki verið sammála þeirri aðferðarfræði og nálgun Reykjavíkurborg undir forystu þjónustu- og nýsköpunarsviðs, að því markmiði. Í stað þess að fara vel með fjármagn og virkilega einfalda rafræna ferla, virðist alltaf vera farin þveröfug leið. Nú síðast með stofnun Rafrænnar þjónustumiðstöðvar. Fulltrúi Flokks fólksins  gagnrýnir umgjörð og uppsetningu og kostnað við verkefnið. Af hverju til dæmis að stofna sérstaka rafræna þjónustumiðstöð inn á velferðarsviði með öllum sínum kostnaði, í stað þess að það sé ein miðlæg rafræn þjónustumiðstöð sem þjónustar allar rafrænar umsóknir sem berast til Reykjavíkurborgar hvort sem um er að ræða umsóknir um leikskólapláss eða fjárhagsaðstoð svo eitthvað sé nefnt. Það virðist skorta hér ákveðna yfirsýn á „rafræna heildarmynd“ allrar þeirrar þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir borgarbúum. Með því að stofna sérstaka rafræna þjónustumiðstöð inn á velferðarsviði, er líklegt að flækjustig aukist.  Nú þarf notandinn væntanlega að sækja um mismunandi þjónustu á mismunandi stöðum í stað þess að geta sótt um alla sína þjónustu á einum stað. Það er vert að benda á það að ríkið í gegnum island.is er komið með síma app tilbúið þar sem fólk mun geta sótt sér allskyns þjónustu á einum stað.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi gagnbókun:

    Velferðarstefna Reykjavíkurborgar setur velferðarsviði það verkefni að skipuleggja þjónustu sína á notendavænan, heildstæðan og skilvirkan hátt. Forsendan fyrir því að þessi heildarsýn geti gengið eftir er einfalt og skilvirkt skipulag sem er hannað út frá þörfum notenda en skýrt ákall er um að einstaklingsmiðuð þjónusta sé  grundvallarnálgun í velferðarþjónustu. Rafrænar lausnir fyrir þá sem það kjósa er ein af mögulegum leiðum til að svara því ákalli en jafnframt eru þær ein árangursríkasta aðferðin við að tryggja að þjónustan sé nálæg og aðgengileg, þannig að íbúar geti nálgast upplýsingar og þjónustuna sjálfir hvar og hvernig sem þeim hentar.  Þess vegna samþykkti velferðarráð á fundi sínum þann 8. júní sl. að setja á stofn rafræna þjónustumiðstöð í takt við þarfir og óskir íbúa og notenda þjónustunnar.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um skipulag og starfsemi á nýrri þjónustumiðstöð í austurhluta borgarinnar, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs 20. október 2021:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki nánari útfærslu á þeim skipulagsbreytingum sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs 8. júní sl. og í borgarráði 10 júní sl., eins og hér er lýst: 
    1.    Velferðarráð samþykkir að fela velferðarsviði að leita að húsnæði fyrir nýja sameinaða þjónustumiðstöð fyrir Árbæ, Grafarvog, Grafarholt og Kjalarnes í samstarfi við fjármála- og áhættustýringasvið. Miðstöðin verði staðsett þannig að auðvelt verði fyrir íbúa að nálgast miðstöðina með tilliti til almenningssamgangna. 
    2.    Ný sameinuð þjónustumiðstöð verði staðsett í húsnæði núverandi þjónustumiðstöðva Grafarvogs og Kjalarness, að Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík og Árbæjar og Grafarholts að Hraunbæ 115, 110 Reykjavík frá 1. janúar 2022 þar til nýtt húsnæði verði tekið á leigu/keypt. Tekið verði á móti starfsmönnum sem koma frá skóla- og frístundasviði í tengslum við verkefnið Betri Borg fyrir börn um áramótin í núverandi húsnæði og þess gætt að þjónustunni verði skipt eftir málaflokkum til að ná mestri hagkvæmni bæði fyrir notendur þjónustu og starfsfólk.
    3.    Skipurit nýrrar þjónustumiðstöðvar verði sambærilegt skipuritum annarra þjónustumiðstöðva í öðrum hverfum og fjöldi stöðugilda taki mið af íbúasamsetningu og fjölda (sjá nánar tillögu nr. 6 um skipurit þjónustumiðstöðva).
    4.    Eftirtaldar starfsstöðvar munu tilheyra nýju sameinuðu þjónustumiðstöðinni frá 1. janúar 2022: 
    14 íbúðakjarnar fyrir fatlað fólk: Hraunbær 107, Elliðabraut, Kambavað, Þorláksgeisli 2-4, Þórðarsveigur 3-5, Þórðarsveigur 1, Barðastaðir 35, Móavegur, Mururimi 4, Sporhamrar 5, Starengi 6, Starengi 118, Vallengi 2 og Vættarborgir 82.
    Fimm herbergjasambýli: Hlaðbær, Mýrarás, Þorláksgeisli 70, Fannafold 178, og Viðarrimi 42.
    Tvö heimili fyrir börn: Þingvað og Móvað.
    Fimm skammtímavistanir:  Álfaland 6, Árland 9, Eikjuvogur 9, Holtavegur 27 og Hólaberg 86. 
    Ein dagþjónusta fyrir fatlað fólk: Gylfaflöt. 
    Tvær félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara: Hraunbær 105 og Borgir.
    Velferðartæknismiðjan Hraunbæ 115 og 
    Heimaþjónustan Efri byggð Hraunbæ 119.

    Ekki er um að ræða aukinn kostnað vegna breytinganna og verður það hagræði sem skapast af sameiningunni m.a. í yfirstjórn, nýtt til að fjármagna aðrar breytingar á velferðarsviði, s.s. við stofnsetningu rafrænnar þjónustumiðstöðvar. VEL2021100015.

    Greinargerð fylgdi tillögunni.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista hefur áhyggjur af því að fjarlægðir aukist að þjónustumiðstöð fyrir þau sem búa í hverfum þar sem ný sameinuð þjónustumiðstöð verður fyrir Árbæ, Grafarvog, Grafarholt og Kjalarnes og fulltrúi sósíalista tók ekki undir sameininguna þegar hún var lögð fyrir á sínum tíma. Í tillögunni er fjallað um að miðstöðin verði staðsett þannig að auðvelt verði fyrir íbúa að nálgast miðstöðina með tilliti til almenningssamgangna. Samt sem áður munu vegalengdir að öllum líkindum koma til með að verða lengri fyrir tiltekinn hóp íbúa sem vilja mæta á þjónustumiðstöð í sínu nærumhverfi. 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:

    Lagðar eru fram fjölmargar stórar skipulagstillögur, margar hverjar óljósar. Ein af tillögunum sem lögð er fram er að sameina á  þjónustumiðstöðvar og er það af hinu góða svo fremi sem það komi ekki niður á þjónustuþegum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um að sálfræðingar skólaþjónustu sem hafa aðstöðu í þjónustumiðstöðvum ættu  að hafa starfsaðstöðu að fullu út í þeim skólum sem þeir sinna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður orðað það sem svo að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki milli sálfræðinga og barnanna sem þeir eiga að veita þjónustu. Tíma tekur að fara á milli staða þjónustumiðstöðvanna og skólanna sem betur væri varið í vinnu með börnunum. Ef þessi tillaga verður til að skila hagræðingu án þess að bitna á þjónustunni þá er því fagnað. Markmiðið hlýtur þó að vera að gera þjónustuna enn betri og skilvirkari en hún er. Aðrar tillögur sem lagðar eru fram í þessum flokki um skipulagsbreytingar situr fulltrúi Flokks fólksins hjá við. Uppsetning þeirra er óljós og markmið sömuleiðis. Velferðarsviði er þó óskað alls hins besta með framgang þessara mála og vonandi verða þessar breytingar til farsældar. Breytingar eru alltaf erfiðar og koma mis vel/illa niður á starfsfólki eins og gengur.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um skipulag á skrifstofum stoðþjónustu, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs 20. október 2021: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki nánari útfærslu á þeim skipulagsbreytingum sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs 8. júní sl. og í borgarráði 10 júní sl., eins og að neðan er lýst. Kostnaði vegna breytinganna verður mætt með tilfærslu verkefna og fjárheimilda innan velferðarsviðs. Á skrifstofu velferðarsviðs verði eftirfarandi breytingar á skrifstofum er veita stoðþjónustu: 
    1.    Á Skrifstofu sviðsstjóra og lögfræðiþjónustu verða eftirfarandi breytingar: 
    a.    Skrifstofu sviðsstjóra og lögfræðiþjónustu verði sameinaðar undir heitinu skrifstofa stjórnsýslu. Jafnframt flytjast starfsmenn rafræns þjónustuteymis frá skrifstofu sviðsstjóra á rafræna þjónustumiðstöð auk þess að verkefni skjalamála og gæðastjórnunar munu tilheyra miðstöðinni. 
    2.    Á skrifstofu fjármála og reksturs verða eftirfarandi breytingar: 
    a.    Skrifstofan mun annast yfirumsjón húsnæðismála, s.s. þarfagreiningu vegna fjárfestingaáætlunar, yfirsýn yfir félagslegt leiguhúsnæði m.a. biðlistatölur, þarfagreiningar og uppbyggingaráætlanir. Yfirsýn og undirbúningur í samstarfi við hluteigandi stjórnendur og FÁST vegna kaupa/leigu á nýju húsnæði fyrir velferðarsvið og samskipti við Félagsbústaði.
    b.    Skrifstofan fær einnig aukið hlutverk gagnvart rekstri þjónustumiðstöðva og undirstofnana þeirra s.s. að auka gæðastýringu, kostnaðareftirlit og þróa nýjar leiðir til að nýta ávallt bestu aðferðir og tækni til að ná sem mestum árangri. Innra eftirlit verður eflt og vinnubrögð samræmd og stöðluð á milli þjónustumiðstöðva. Teymisvinna mannauðs- og fjármála verður aukin og má þar nefna Betri vinnutíma í vaktavinnu.
    3.    Á skrifstofu mannauðs verða eftirtaldar breytingar:
    a.    Mannauðsþjónusta verður efld úti í hverfum og munu þrír mannauðsráðgjafar flytjast á þjónustumiðstöðvar frá 1. janúar næstkomandi en nú þegar er mannauðsráðgjafi starfandi á þjónustumiðstöð Breiðholts. Stöðugildi munu tilheyra mannauðsþjónustu velferðarsviðs en verða staðsett á þjónustumiðstöðvum. Mannauðsráðgjafar verða með viðveru á öllum þjónustumiðstöðvum í hverfum til að tryggja betra aðgengi stjórnenda og starfsfólks að mannauðsráðgjafa, móttaka nýrra stjórnenda verður efld, verkferlar í mannauðsmálum verða gerðir sýnilegri og aðgengilegri stjórnendum. VEL2021100017.

    Greinargerð fylgdi tillögunni. 

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um skipulag á sérhæfðum teymum, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs 20. október 2021:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki nánari útfærslu á þeim skipulagsbreytingum sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs 8. júní sl. og í borgarráði 10 júní sl. vegna sérhæfðra teyma.

    Fimm málaflokkar verði skilgreindir sérstaklega með starfsemi og/eða teymi sem starfa þvert á þjónustumiðstöðvar og hverfi: 1) Teymi um farsæld barna. 2) Vettvangs- og ráðgjafateymi í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir (VoR-teymi). 3) Keðjan, samstarfsnet um þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. 4) Alþjóðateymi, sem vinnur með málefni fólks af erlendum uppruna og 5) Virknihús.  

    Teymin eru ýmist staðsett miðlægt á velferðarsviði (teymi um farsæld barna), eða þjónustumiðstöðvum (VoR teymi og Alþjóðateymi) og sem sjálfstæðar einingar (Virknihús og Keðjan). Stjórnunarlega heyra faglegir leiðtogar Alþjóðateymis og VoR teymis undir viðkomandi framkvæmdastjóra (Miðborg og Breiðholt) en aðrir heyra undir skrifstofustjóra ráðgjafar. Stjórnunar- og rekstrarumfang teymanna er einnig mismunandi. Endanlegu kostnaðarmati vegna húsnæðismála VoR teymis og Virknihúss er ekki lokið auk kostnaðar vegna breytinga á húsnæði í Álfabakka fyrir Alþjóðateymi. VEL2021100018.

    Greinargerð fylgdi tillögunni.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. október 2021, um skipurit þjónustumiðstöðva, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs 20. október 2021:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki meðfylgjandi skipurit þjónustumiðstöðva velferðarsviðs í hverfum. 
    Kostnaður samfara breytingum rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs. VEL2021100019.

    Greinargerð fylgdi tillögunni.

    Fylgigögn

  10. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Upplýsingar um fjölda eigna sem Félagsbústaðir hafa átt í árslok frá upphafi, til stöðunnar í dag og upplýsingar um  fermetrastærð eftir árum. Óskað er eftir því að fjöldi íbúða í lok tímabils verði sundurgreindar eftir tegund, þ.e.a.s. almennar félagslegar íbúðir, þjónustuíbúðir aldraðra, sértæk búsetuúrræði. 

  11. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvert er hlutfall sérstaks húsnæðisstuðnings í upphæð til leigjenda Félagsbústaða og til leigjenda á almennum markaði, skipt eftir árum? Er hægt að fá þessar upplýsingar allt frá því að Reykjavík byrjaði að greiða þennan stuðning, óháð því hvort hann hafi heitið öðru nafni, t.d. sérstakar húsaleigubætur?

Fundi slitið klukkan 14:43

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0311.pdf