Velferðarráð - Fundur nr. 410

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 6. október var haldinn 410. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Rannveig Ernudóttir, Ellen Jacqueline Calmon og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, ásamt fylgigögnum: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samþykkt hefur verið að veita velferðarsviði aukna fjárheimild sem nemur alls 100 m.kr vegna nýrra reglna um stoð- og stuðningsþjónustu á árinu 2022, annars vegar 51 m.kr. vegna næturþjónustu og hins vegar 49 m.kr. til að vinna á biðlistum eftir stuðningsþjónustu. VEL2021010038.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýjar heildarreglur byggja á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 vegna stoðþjónustu og lögum um félagsþjónustu nr. 40/1991 vegna stuðningsþjónustu. Í drögunum endurspeglast sú sýn Reykjavíkurborgar að þjónustan skuli vera einstaklingsmiðuð, heildstæð og sveigjanleg. Henni er ætlað að styðja við sjálfstætt og innihaldsríkt líf fatlaðs fólks, bæði á heimili sínu og utan þess. Lögð er áhersla á virðingu fyrir ólíkum einstaklingum og þörfum, sjálfræði og valdeflingu allra til að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Umgjörð þjónustu og aðstoðar miðar að því að tryggja rétt einstaklingsins til frelsis, athafna og sjálfstæðs lífs. Nýjar reglur eru taldar geta betur mætt stuðningsþörfum umsækjenda og veita meiri sveigjanleika en nú er gert. Áhersla er lögð á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og veitingu þjónustu. Þá er einnig lögð rík áhersla á stafrænar lausnir í þjónustunni. Samhliða samþykkt á reglum þessum er lagt til að fjárheimild velferðarsviðs verði aukin um 100 milljónir á árinu 2022. Annars vegar 51 milljón vegna næturþjónustu og 49 milljónir til að vinna á biðlistum eftir stuðningsþjónustu. Ljóst er að meta þarf framtíðarfjárþörf vegna stuðningsþjónustu þegar reynsla er komin á framkvæmd reglnanna. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða það sem áður kallaðist heimaþjónusta. Fulltrúi Flokks fólksins telur að eigi að taka inn það sem ÖBÍ og Þroskahjálp leggja til, ekki síst það sem kostar borgina ekki krónu eins og tillögur um orðalagsbreytingar. Bent er á að það skorti betri tengingu við samning Sameinuðu þjóðanna en reglurnar eru byggðar á lögum sem byggja á þeim samningi. Minnt er á  5. gr. SRFF í þessu samhengi sem kveður á um bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar. Mikilvægast er þó að Reykjavík útrými biðlistum og forgangsröðun vegna forgangsbiðlista, frekar en að skrifa það inn í regluverkið. Eins og sjá má í úttekt Ríkisendurskoðunar þá eru álitaefni sem lúta að  innleiðingu og framkvæmd Reykjavíkur á þessum lögum. Til dæmis að það sé of mikið flækjustig í upplýsingagjöf. Samráði sé ábótavant. Eins á notandi að hafa um það að segja hver þjónustar hann/hana. Mikið er komið inn á tæknilegar lausnir. Það er ekki allir með tölvur eða net. Ný lög um Stafrænt pósthólf bjóða upp á þá hættu að kastað verði fyrir borð meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því það er undir hælinn lagt hvort þessi tækni henti öllum. Þeir sem geta ekki nýtt hana gætu týnst í kerfinu.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í minnisblaði sem fylgir með drögum að reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fjallað um markmið og hlutverk reglnanna. Lögð er áhersla á að vinna við matið og val á stuðningi fari fram í samvinnu við umsækjanda og taki mið af þörfum hvers og eins. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða fatlaða einstaklinga sem þurfa vegna aðstæðna sinna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs, sjálfstætt heimilishald, stuðning við foreldrahlutverk, samfélagslega þátttöku og til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun. Fulltrúi sósíalista fagnar þessu leiðarljósi og leggur áherslu á að töf verði ekki við þjónustuveitingu. 

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið. Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu. Samþykkt hefur verið að veita velferðarsviði aukna fjárheimild sem nemur alls 36 m.kr. á árinu 2022 vegna nýrra reglna um stuðningsþjónustu. Fjárveitingin verður nýtt í tilraunaverkefni um stuðning við einstaklinga með heilabilun. VEL2021010040.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í drögum að reglum þessum endurspeglast sú sýn Reykjavíkurborgar sem kemur fram í stefnu um málefni eldri borgara 2018-2022 að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og að öll aðstoð skuli taka mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og lifa því lífi sem það kýs. Mat á stuðningsþörf fer ætíð fram í samvinnu við umsækjanda. Í nýjum reglum er fjallað um mikilvægi velferðartækni og þjálfun endurhæfingarteymis í heimahúsum ásamt aðstoð viðbragðsteymis. Þjónustan á að felast í því að virkja og styrkja notendur til að vera virkir við stjórnvölinn í eigin lífi eins lengi og mögulegt er. Lögð er áhersla á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og þjónustuveitingu. Samhliða reglum um stuðningsþjónustu er lögð fram tillaga að sérstöku þróunarverkefni þar sem félagslegur stuðningur er veittur einstaklingum með heilabilun þar sem aðstæður eru með þeim hætti að viðkomandi getur búið heima og er það einnig í samræmi við gildandi stefnu um málefni eldri borgara.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þjónusta við eldra fólk er annars vegar praktísk og hins vegar sálfélagslegur stuðningur eins og fulltrúi Flokks fólksins sér að það verði að vera. Fulltrúi Flokks fólksins vill að allt sé gert til að hjálpa fólki að vera heima  eins lengi og hægt er.  Fjölga þarf þjónustuþáttum og dýpka aðra til að auka líkur á heimaveru sem lengst. Einnig að bjóða upp á sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika. Tillögu um þetta frá Flokki fólksins hefur verið hafnað. Í 3. mgr. 10 gr. segir að „almennt er stuðningur samkvæmt reglum veittur í formi stuttrar viðveru.“ Meta þarf félagsskap meira að mati Flokks fólksins. Sumt fólk upplifir sig niðurlægt að þurfa að biðja um meiri félagsskap. Minnt er á að ekki allir eiga ættingja. Eins á notandi að hafa mikið um það að segja hver þjónustar hann/hana. Komið er inn á tæknilegar lausnir. En það eru ekki allir með tölvur eða net.  Ný  lög um Stafrænt pósthólf bjóða upp á þá hættu að kastað verði fyrir borð meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því það er undir hælinn lagt hvort þessi tækni henti öllu eldra fólki. Þeir sem geta ekki nýtt hana eru að missa af, verða mögulega útundan og fá jafnvel ekki notið réttinda sinna.

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið. Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, um nýjar reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga, ásamt fylgigögnum: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Enginn kostnaðarauki fylgir tillögunni. VEL2021060008.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga voru gerðar víðtækar breytingar á hugtökum og því er nauðsynlegt að setja nýjar reglur um beingreiðslusamninga til samræmis við þær breytingar. Þá eru gerðar breytingar á mati á stuðningsþörf samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu og reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Horfið verður frá því að stuðningsþörf sé metin á grundvelli stiga sem ákvarða ákveðinn fjölda klukkustunda sem umsækjandi á rétt á að fá. Ný nálgun, sem snýst um hvað einstaklingurinn telur sig þurfa, er talin geta mætt stuðningsþörfum umsækjenda betur og veitt meiri sveigjanleika.

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið. Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögur að breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Enginn kostnaðarauki fylgir framangreindri tillögu. VEL2017040009.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýjar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu kalla á breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Þá er einnig lagt til að gerðar séu breytingar sem lúta að afnámi skilyrðis um lágmarks búsetu í Reykjavík, árlegar breytingar á tekju- og eignamörkum til samræmis við reglugerð, breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar sem nú fer fram miðlægt í borginni, afturköllun á framsali stjórnsýsluvalds til Félagsbústaða og ítarlegra ákvæði um heimildir áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar auk þess sem ítarlegar er kveðið á um varðveislu gagna, trúnað og aðgang að gögnum í samræmi við persónuverndarlög.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tekið var tillit til tillögu fulltrúa Flokks fólksins í velferðarráði í breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Breyting sem lögð var til af fulltrúa Flokks fólksins var þannig að ekki verði litið til þess hvort meira en sex mánuðir eru eftir af leigusamningi þegar metið er hvort umsækjandi skori 0 að 1 stig þegar húsnæðisþörf er metin út frá húsnæðisstöðu. Umsækjendur um félagslegt húsnæði þurfa að skora ákveðið mörg stig í matinu til þess að þeir komist inn á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Í tillögunni var það reifað að það væri skynsamlegt að líta til þess hve mikið er eftir af leigusamningi þegar kemur að úthlutun en það ætti ekki að mynda hindrun fyrir því að fólk komist inn á biðlista. Annars er til staðar óeðlilegur hvati til þess að fólk segi upp leigusamningum í von um að komast inn á biðlista eftir félagslegu húsnæði, sem e.t.v. er lengri en uppsagnarfrestur leigusamnings. Það ætti því aðeins að hafa þýðingu við mat á því hvort viðkomandi skori 0 eða 1 stig þegar húsnæðisþörf er metin hve íþyngjandi leigukostnaður er. Að því sögðu er ljóst að margar þær breytingar sem eru hér komnar inn eru af hinu góða og auka sanngirni.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gott er að sjá að horfið er frá því skilyrði að lágmarksbúsetulengd skuli hafa verið 12 mánuðir í sveitarfélaginu. Um leið og einstaklingur býr í Reykjavík, þá er hann borgarbúi og hefur skyldur sem slíkur og ætti einnig að eiga rétt. Það er þó litið til þess hvort einstaklingur hafi búið í 12 mánuði í borginni í matsviðum með reglum, þannig að það er ekki alveg verið að hverfa frá því að líta til þess hversu lengi viðkomandi hefur búið í Reykjavík. Þetta getur verið gott fyrir ákveðna hópa í þörf en ekki alla sem eru það. Ljóst er að tryggja þarf nægilegt húsnæði til að mæta fólki í þörf fyrir viðeigandi húsnæði.

    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti á fundinum undir þessum lið. Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri húsnæðis og búsetu, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  5. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2022. VEL2021090070. Trúnaðarmál.

    Samþykkt að vísa til fjárhagsáætlunargerðar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  6. Lögð fram drög að gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs 2022. VEL2021090072. Trúnaðarmál.

    a. Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði
    b. Gjaldskrá í félagsstarfi
    c. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra
    d. Gjaldskrá í heimaþjónustu
    e. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ
    f. Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum
    g. Gjaldskrá um akstursþjónustu eldri borgara
    h. Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna
    i. Gjaldskrá vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks

    Samþykkt að vísa til fjárhagsáætlunargerðar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  7. Lagt fram erindi Alzheimersamtakanna, dags. 9. ágúst 2021, um viðræður vegna Foldabæjar. VEL2021090069. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að fara í viðræður við Alzheimersamtökin um rekstur dagdvalar og samnings um rekstur Foldabæjar. Niðurstöður þeirra viðræðna verði síðan lagðar fyrir velferðarráð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, um þróunarverkefni um félagslegan stuðning fyrir einstaklinga með heilabilun, ásamt fylgigögnum:  

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að þróunarverkefni þar sem félagslegur stuðningur er veittur einstaklingum með heilabilun þar sem aðstæður eru með þeim hætti að viðkomandi getur búið heima. Um 30 einstaklingar myndu geta tekið þátt í verkefninu sem er til tveggja ára. Samþykkt hefur verið að veita velferðarsviði aukna fjárheimild sem nemur alls 36 m.kr. á árinu 2022 vegna nýrra reglna um stuðningsþjónustu. VEL2021090068. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna nýju þróunarverkefni um félagslegan stuðning við fólk með heilabilun. Tillagan er í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022. Í aðgerðaráætlun með stefnunni er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar tilraunaverkefni þar sem einstaklingar með heilabilun fá sérhæfðan félagslegan stuðning á heimili sínu. Í verkefninu er einstaklingum með heilabilun veittur félagslegur stuðningur í heimahúsi þar sem aðstæður eru þannig að viðkomandi getur búið áfram heima. Samþykkt hefur verið að veita velferðarsviði aukna fjárheimild sem nemur alls 36 milljónum króna á árinu 2022. Samhliða þessu stendur nú yfir vinna með heilbrigðisráðuneytinu um að koma á laggirnar sérstöku heilabilunarteymi á grundvelli samnings um heimahjúkrun. Mikilvægt er að fylgja stofnun þess teymis eftir þar sem slíkt teymi myndi styðja enn frekar við ofangreint þróunarverkefni. 

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram ársskýrsla heimahjúkrunar 2020. VEL2021090075.

    Fylgigögn

  10. Lagt er til að Sigrún Skaftadóttir taki sæti sem aðalmaður í áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Þóru Kemp. VEL2020090073.

    Samþykkt.

  11. Fram fer kosning í starfshóp um styrkveitingar velferðarráðs fyrir árið 2022. VEL2021090074.

    Eftirfarandi aðilar eru tilnefndir: 
    Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Samfylkingunni.
    Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sjálfstæðisflokknum.
    Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu.

    Samþykkt.

  12. Lagt fram að nýju erindi heilbrigðisráðuneytisins, dags. 1. september 2021, varðandi sveigjanlega dagþjálfun, sem samþykkt var og fært í trúnaðarbók á fundi velferðarráðs þann 15. september 2021. VEL2021090001.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

    Í drögum að stefnu um heilbrigðisþjónustu aldraðra er m.a. fjallað um ávinning af þróunarverkefni um sveiganlega dagþjálfun. Í umfjöllun um verkefnið kemur fram að það hafi haft verulega jákvæð áhrif á traust til þjónustunnar, stuðning við aðstandendur og aðra þjónustuaðila og að líkindum dregið úr þörf eftir hjúkrunarrými. Heilbrigðisráðuneytið hefur nú óskað eftir mati hjúkrunarheimilisins Seljahlíðar á möguleikum þess að koma upp sveigjanlegri dagþjálfun í Seljahlíð. Sviðsstjóra er falið að hefja viðræður við heilbrigðisráðuneytið um möguleika þess að opna sveigjanlega dagþjálfun í Seljahlíð.

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins: 

    Sterkar vísbendingar eru um að sveigjanleg dagþjálfun stytti dvalartíma einstaklinga í hjúkrunarrýmum og haldi biðlistanum eftir varanlegri vistun stöðugum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að horfa  til fleiri úrræða og fjölbreyttari t.d. sveigjanlegrar dagdvalar sem milliliðs. Það er ekki aðeins vilji flestra að vera sem lengst heima heldur er það einnig hagstæðast fyrir þjóðfélagið. Tryggja þarf samhliða að þeir sem ekki geta dvalið heima lengur þrátt fyrir víðtæka heimaþjónustu og heimahjúkrun fái pláss á hjúkrunarheimilum. Það er forgangsatriði. En  einnig  er mikilvægt að efla heimastuðning því ef þjónustuþáttum væri fjölgað og aðrir dýpkaðir myndu fleiri geta búið lengur heima.  Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu. Fleiri tegundir úrræða eins og sveigjanleg dagþjálfun þurfa því að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.

  13. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 18. nóvember 2020, um að starfsfólk sem þjónustar eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna þjónustunni, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 6. október 2021. VEL2020080023.

    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan var tekin til meðferðar í starfshópi velferðarsviðs um endurskoðun reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík. Í vinnu hópsins var tekið mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í tillögunni. Í nýjum reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu byggir stuðningurinn fyrst og fremst á þeim markmiðum sem notandi setur sér til að ráða við daglegt líf og leitast er við að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Þjónustan tekur ætíð mið af því að heilsufar notenda getur verið mismunandi og vinnulag og umfang stuðnings er í samræmi við það. Notendum er veitt aðstoð og eftirlit, leiðbeiningar, þjálfun og stuðningur í samræmi við líkamlega, andlega og félagslega líðan og/eða færni þeirra. Í ljósi þessa er tillögunni vísað frá. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að fólk sem starfar í þjónustu við eldri borgara fái aukinn sveigjanleika og svigrúm til að sinna starfi sínu með eldri borgurum til að geta átt meiri tíma með viðkomandi. Fátt segir svo sem í umsögn annað en að tekið hafi verið mið af þessu við endurskoðun reglna um  stuðningsþjónustu. Segir að þjónustan byggi á þeim markmiðum sem notandi setur sér til að ráða við daglegt líf og leitast er við að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Þjónusta sem þessi á ekki aðeins að vera “að gera og græja” heldur einnig að bjóða upp á samtal og nærveru. Fulltrúi Flokks fólksins vill að starfsmenn fái svigrúm til þess. Fulltrúi Flokks fólksins vill að nú þegar sagt er að með nýjum reglum verði veitt aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna þjónustu við eldri borgara, að það verði með einhverjum hætti mælt. Aðeins þannig er hægt að vita hvort um alvöru aukningu er að ræða og hvort það skili sér sem skildi. Þetta er ekki bara spurning um að þurrka af og skúra gólf.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um úttekt á fátækt samvinnu við mannréttinda,- nýsköpunar- og lýðræðisráð, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. september 2021:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að framkvæma úttekt á fátækt í Reykjavík í samvinnu við mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð. Vegna efnahagslegra áhrifa COVID má leiða líkur að því að fátækt hafi aukist meðal borgarbúa. Í ljósi þess þarf að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvort sú þjónusta sem borgin veitir sé að mæta þörfum þessa hóps og hvort þörf er á úrbótum. VEL2021090063.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Vegna efnahagslegra áhrifa COVID má leiða líkur að því að fátækt hafi aukist. Í ljósi þess beinir velferðarráð því til Velferðarvaktarinnar að kortleggja fjölda fólks sem lifir undir fátæktarmörkum og greina þarfir þessa hóps og hvar sé þörf á úrbótum.

    Breytingartillagan er samþykkt. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá. 
    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmargar úttektir og rannsóknir hafa verið gerðar á fátækt hér á landi á síðustu árum. Flestar niðurstöður og tillögur lúta að framfærslumálum og samverkun ólíkra kerfa. Velferðarvaktin er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og fylgir þeim eftir. Að Velferðarvaktinni standa ýmis félagasamtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin. Í ljósi þessa er lagt til að tillagan verði send til Velferðarvaktarinnar til frekari skoðunar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að  borgarráð samþykki að framkvæma úttekt á fátækt í Reykjavík. Tillögunni var vísað til velferðarráðs og er tekin fyrir á fundi 6.10.2021. Meirihlutinn tekur yfir tillöguna og breytir henni að vild þannig að hún fjallar ekki sérstaklega lengur um Reykjavík. Vísa á þeirri tillögu til velferðarvaktarinnar. Tillagan er því ekki lengur tillaga fulltrúa Flokks fólksins og varðar ekki lengur Reykjavík sérstaklega. Eftir sitja áhyggjur fulltrúa  Flokks fólksins  af stöðu fátæks fólks í Reykjavík  og þær aðstæður sem margt fátækt fólk býr við. Fólk sem berst í bökkum við að ná endum saman á erfitt með að lifa mannsæmandi lífi í Reykjavík. Rannsóknir sýna vaxandi fátækt svo ekki er um að villast að stór hópur getur ekki lifað með reisn. Horfa verður á að þessi vandi er raunverulegur og með því að  kalla eftir sérstakri úttekt sbr. það sem gert var 2008 en þá skipaði Reykjavík starfshóp um fátækt. Nú er brýnt að gerð verði ný úttekt og skýrsla um stöðu fátæktar í Reykjavíkur. Tillögunni er ætlað að skoða stöðu alvarlegra mála á viðkvæmum tímum í kjölfar COVID.  Staðan í dag er gjörbreytt eftir að COVID reið yfir og tími COVID er hvergi nærri liðinn.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista styður efni þessarar tillögu. Mikilvægt er að fá þessar upplýsingar fram.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ráðningar hjá Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021. VEL2021090007.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um atvinnumiðlun sem sannarlega er þarft framtak, um það er ekki deilt. Lagt er til af velferðaryfirvöldum að setja á laggirnar svokallað  Virknihús. Að hjálpa fólki að fá vinnu er virkilega nauðsynlegt nú eftir COVID. Það er óumdeilt. Á kjörtímabilinu hafa verið að spretta upp alls konar litlar einingar nú síðast “Jafnlaunastofa” með tilheyrandi kostnaði. Sumar af þessum nýju einingum sem eru með stóra yfirbyggingu kunna að vera nauðsynlegar en það á ekki við um allar. Sumar hafa þróast út í að eiga sitt „sjálfstæða líf“ sem ekki er séð að borgarstjóri hafi neitt með að gera eða hafi neina sérstaka yfirsýn yfir. Þess vegna vildi fulltrúi Flokks fólksins spyrja um hvernig þessari einingu „Atvinnumiðlun“ og „Virknihúsi“  er háttað. Fram kemur að þetta er tímabundið verkefni og er það gott. Eftir því sem lesa má úr í svari við fyrirspurninni virðist þetta lofa góðu. Að hjálpa fólki að fá störf við hæfi og sem vonandi fer saman við störf sem eru ómönnuð er þarft. Ennþá er  mannekla í störf á vegum borgarinnar t.d. í leikskólum og víðar.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um heimaþjónustu fyrir aldraða, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021. VEL2021090004.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um hvað velferðarsvið ætlar að gera  til að mæta kallinu sem heyra mátti að samhljómur var um á nýafstöðnu heilbrigðisþingi 2021 um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við aldraða. Segir í svari að samkvæmt stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara er stuðst við hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsi, til þess að gefa eldra fólki tækifæri til að vera sem lengst heima. En það er ekki nóg að hafa fína stefnu ef henni er ekki framfylgt. Það sem verið er að gera er gott eins langt og það nær en dugar ekki til. Sumir þurfa meiri þjónustu og einnig annars konar þjónustu sem velferðarsvið er ekki að veita.  Minnt er aftur á einar 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun nokkurra þjónustuþátta sem fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 2020. Enginn áhugi var á að skoða þær og var þeim flestum ýmist vísað frá eða felldar á sama fundi og þær voru lagðar fram.  Ein af tillögunum var að aðstoð yrði veitt með að hengja upp þvott, flokka og fara út með sorp. Einnig var lögð fram tillaga um að eldra fólki væri boðið upp á sálfélagslegan stuðning m.a. til að vinna gegn depurð.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Endurhæfing í heimahúsi er hugmyndafræði sem gengur út á að einstaklingar fái endurhæfingu sem byrjar með tíðum heimsóknum og þjálfun sem síðan er dregið úr með tímanum. Markmið þjónustunnar er að auka sjálfsbjargargetu fólks og þátttöku í samfélaginu. Þjónustan er ákveðin með einstaklingnum, tímarnir og hvaða markmið viðkomandi setur sér. Að lokinni endurhæfingunni á viðkomandi ekki lengur að þurfa á þjónustunni að halda. Skili hún ekki árangri þá er skoðað hvort endurgera þurfi áætlun um endurhæfingu eða hvort viðkomandi þurfi að fá heimaþjónustu og/eða heimahjúkrun sem velferðarsvið er sannarlega að veita. Endurhæfing í heimahúsi hefur verið innleidd að fullu og því ekki einungis um stefnu að ræða. Þjónustan hefur heldur betur skilað árangri, en fyrsta teymið byrjaði í efri byggð en hefur nú dreifst víðar og eru teymin í dag orðin þrjú. Í hverju teymi er iðjuþjálfi, hjúkrunarfræðingur, sjúkraþjálfari/íþróttafræðingur, sjúkraliðar og félagsliðar ásamt því að næringarfræðingur veitir ráðgjöf.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 6. október 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um vikumatseðil kvöldmatar í þjónustuíbúðum aldraðra, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021. VEL2021090003.

    Fylgigögn

  18. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver eru núverandi þjónustuúrræði sem eru starfrækt á vegum Reykjavíkurborgar fyrir fólk sem er heimilislaust og/eða glímir við vímuefna- eða geðrænan vanda og hvernig er þeim skipt eftir starfsemi og þjónustuþegum? Nánar tiltekið hvernig er starfsemi hvers úrræðis háttað og hverjir eru þjónustuþegar úrræðanna? Jafnframt er spurt hver rekstrarkostnaður þjónustuúrræðanna er á ársgrundvelli.

  19.     Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Breytingartillaga við tillögu Sósíalistaflokks Íslands um menningarkort til öryrkja var samþykkt á fundi velferðarráðs 05.02.2020. Í tillögunni var lagt til að öryrkjar gætu fengið menningarkort á sölustöðum þess gjaldfrjálst framvísi þeir staðfestingu á örorku, svokölluðu örorkuskírteini frá Tryggingastofnun ríkisins. Kostnaðurinn sem til fellur er einungis vegna útgáfu korta sem er samkvæmt menningar- og ferðarmálsviði 750 krónur per kort og er velferðarsviði falið að útfæra fyrirkomulag varðandi það í samvinnu við menningar- og ferðamálasvið. Er þetta fyrirkomulag byrjað? Og ef svo er, er hægt að auglýsa það betur?

  20. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Breytingartillaga við tillögu Sósíalistaflokks Íslands um sveigjanlegri félagslega heimaþjónustu var samþykkt á velferðarráðsfundi 9.10.2019. Tillagan var svohljóðandi: Lagt er til að gerð verði úttekt á þörf á sveigjanlegri þjónustu í félagslegri heimaþjónustu varðandi tíma, tímalengd og verkefni. Fyrirliggjandi er að endurskoða þarf reglur um félagslega heimaþjónustu og úttekt sem þessi gæti gefið okkur betri mynd af stöðunni og þörf á sveigjanlegri þjónustu. Að fengnum niðurstöðum væri hægt að meta kostnað við aðgerðir. Fulltrúi sósíalista spyr hvort að niðurstöður liggi fyrir og hvar megi nálgast þær? Hvernig var tekið tillit til þess sem kom fram í úttekt við endurskoðun á reglum?

  21. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað myndi það kosta fyrir Reykjavíkurborg að bjóða upp á árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólk líkt og á við um fyrir öryrkja og eldri borgara í Strætó bs. þar sem árskort kostar 25.000 kr? Fyrirkomulag varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk er þannig að greitt er fyrir hverja ferð 245 kr. og einungis notendur í framhaldsnámi (framhaldsskólum og háskólum) geta keypt ungmenna – eða nemakort Strætó sem er áskriftarkort og gildir í eitt ár. Fyrirspurnin snýr að því hvað kostar að tryggja að notendur geti keypt árskort og hvað það myndi kosta að bjóða upp á slíkt svo að árskortið gildi líka í ferðir með Strætó bs.? Hver væri kostnaðurinn ef einnig væri boðið upp á 6 mánaða kort með sömu valmöguleikum sem nefndir eru hér að ofan, svo að einstaklingar hafi val um það hvort þeir kaupi árskort eða heilsárskort?

Fundi slitið klukkan 16:32

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0610.pdf