Velferðarráð - Fundur nr. 408

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 15. september var haldinn 408. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Rannveig Ernudóttir,  Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Ellen Jacqueline Calmon. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

  2. Lagt fram bréf heilbrigðisráðuneytisins, dags. 1. september 2021, varðandi  sveigjanlega dagþjálfun. VEL2021090001.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  3. Lagt fram bréf Sjúkratrygginga Íslands, dags. 2. september 2021, varðandi viðræður um eflingu á hreyfanlega öldrunarteyminu SELMA. VEL2021090012.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð tekur undir þakklætisóskir frá Sjúkratryggingum Íslands um hversu vel velferðarsviði hefur tekist í innleiðingu á hreyfanlega öldrunarteyminu SELMU hjá Reykjavíkurborg. Árangurinn er ótvíræður og árangursmælingar sýna fram á mikilvægi þjónustu SELMU sem hluta af samþættri heimaþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands óska eftir viðræðum við velferðarsvið um eflingu þess teymis enn frekar m.a. með kvöld- og helgarþjónustu, jafnvel á öllu höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi ofangreinds er sviðsstjóra falið að ganga til viðræðna við Sjúkratryggingar Íslands vegna eflingar á hreyfanlega öldrunarteyminu SELMU.

  4. Lagt fram minnisblað, dags. 15. september 2021, um stöðu íþrótta- og tómstundastyrks fyrir börn á tekjulágum heimilum, ásamt fylgigögnum. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framhald er á íþrótta- og tómstundastyrknum frá ríkinu, 25.000 kr. til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Sett var í hendur sveitarfélaga að útfæra umsókn um styrkinn á grundvelli leiðbeininga frá félagsmálaráðuneytinu en bann var sett við að styrkurinn myndi notaður til að greiða gjald frístundaheimilis eða aðrar skuldir. Enn er frístundakortinu haldið í gíslingu hjá borgarmeirihlutanum og hópur foreldra hefur ekki annan kost en að nota það til að greiða frístundaheimili barns síns og börnin því ekki að nota það í tómstundir. Það var napurlegt að  fá niðurstöður eins og þær sem birtar eru í skýrslu UNICEF sem gerði samanburð á efnislegum skorti barna í Evrópu. Staðan hér er verst hvað varðar þátttöku í tómstundum en 17% íslenskra barna mælast með skort á því sviði og Ísland er þar í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Börn hafa ekki setið í mörg ár við sama borð þegar kemur að jöfnum tækifærum til tómstunda í Reykjavík. Þetta má sjá í niðurstöðum rannsókna frá 2009, 2014 og 2018. Námskeið eru mörg kostnaðarsöm auk þess sem þau þurfa að vara í 8 vikur til að hægt sé að fá frístundastyrkinn. Því lengri sem frístundanámskeið eru því dýrari eru þau.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs 9. janúar 2019, um breytingu á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 15. september 2021. VEL2018120007.

    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Líkt og kemur fram í umsögn sviðsins mun þessi breyting geta haft mjög neikvæð áhrif á tekjuútreikninga einstaklinga sem nú þegar þiggja sérstakan húsnæðisstuðning. Til dæmis þeirra sem eru á örorkubótum. Því væri staða þessa hóps ekki bætt með því að samþykkja tillöguna. Vakin er athygli á að í upphafi samþykkti velferðarráð um hækkun tekju- og eignaviðmiða vegna sérstaks húsnæðisstuðnings í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir í leiðbeiningum félags- og barnamálaráðherra til sveitarfélaga, sbr. reglugerð 1341/2020 vegna breytinga á reglugerð nr. 1200/2016. Jafnframt var samþykkt að hækka fyrrgreind tekjumörk um 8% umfram tekjumörk í leiðbeiningum til sveitarfélaga vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til jafns við hækkun ríkisins. Tillagan er því felld. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sjálfstæðisflokkurinn fagnar tillögunni að því leyti að hún kastar ljósi á þá bágu stöðu sem margir lifa við og úrræðaleysið sem þessir einstaklingar og fjölskyldur mæta. Slíku á ekki að una og því er fullt erindi til að endurskoða núverandi fyrirkomulag á sérstökum húsnæðisstuðningi með það fyrir sjónum að hann skili betri árangri fyrir þá sem þiggja hann. Sjálfstæðisflokkurinn getur að svo stöddu ekki samþykkt tillöguna sem fyrir liggur vegna þeirra jaðaráhrifa sem hún kann að hafa til hækkunar á leiguverði á markaðnum, en það er stefna Sjálfstæðisflokksins að hafa sérstaklega varann á gagnvart aðgerðum sem kunna að leiða til verðbólgu á húsnæðismarkaði. Að því sögðu vekur Sjálfstæðisflokkurinn athygli á því að í stað þess að reikna sérstakan húsnæðisstuðning eingöngu út frá fjölda tekjuaflandi einstaklinga á heimilinu og tekjum þeirra, væri ef til vill ráðlegt að taka framfærsluþunga viðkomandi einnig inn í dæmið með það fyrir sjónum að styðja betur við þá sem bera meiri framfærsluþunga, enda gefur slíkt til kynna að viðkomandi þurfi einnig stærra húsnæði og því fylgir yfirleitt hærra leiguverð. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan var lögð fram með það að markmiði að fólk á leigumarkaði sem á rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi, greiði aldrei meira en 25% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Fulltrúi sósíalista hefur sett fram tillögur um að stækka félagslegt húsnæðiskerfi borgarinnar svo að lækka megi húsnæðiskostnað borgarbúa þannig. Fyrri tillögur hafa ekki náð fram að ganga. Hér var lagt til að skoða húsnæðiskostnaðinn og að hann yrði lækkaður svo að borgarbúar greiði aldrei meira en fjórðung af tekjum heimilisins fyrir íbúðaverð.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga er byggð á sömu sjónarmiðum og Flokkur fólksins hefur barist fyrir í borgarstjórn. Lagt er til að ekki eigi að skerða sérstakan húsnæðisstuðning ef húsnæðiskostnaður er yfir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Þetta myndi sennilega leiða til þess að flestir myndu fá stuðninginn óskertan, enda þyrfti einstaklingur með 150.000 kr. húsnæðiskostnað að hafa 600.000 kr. í ráðstöfunartekjur svo skerða mætti sérstaka húsnæðisstuðninginn. Í umsögn segir að ef þessi breyting yrði gerð myndi það kosta tæpar 70 milljónir á mánuði. Gott væri að fá kynningu á þessu flókna kerfi.

    Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, deildarstjóri fjármála og rekstrar,  tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  6. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu, dags. 15. september 2021:

    Lagt er til að velferðarsvið uppfæri fyrirliggjandi þarfagreiningu frá 2018 sem nýtt er við gerð áfangaskiptrar uppbyggingaráætlunar vegna húsnæðis fyrir fatlað fólk hjá Reykjavíkurborg.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. september 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fækkun stöðugilda í þjónustuveri Pant akstursþjónustu, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021. VEL2021090008.  

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá svör við því af hverju fækkað hafi verið um 2,5 stöðugildi í þjónustuveri. Fram kemur í svari að Strætó Bs. var gert að hagræða. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki gott. Víða er verið að skerða þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Fólk þarf að geta náð sambandi og sér í lagi þeir sem eru ekki að nota tölvur og net. Enn er til hópur sem notar aðeins síma og er ekki með rafræn auðkenni og nýtir sér þar af leiðandi ekki netspjallið. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 15. september 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um gjaldskrár Strætó og Pant akstursþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021. VEL2021090006.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði af hverju verðskráin og þjónustan sé ekki sambærileg hjá Strætó og hjá Akstursþjónustunni sem hugsuð er sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Ferð með Akstursþjónustunni er dýrari. Í svari er höfðað til þess að þjónustan sé sérhæfð. Vissulega er hún það enda akstursþjónusta fatlaðs fólks. En af hverju ætti hún að vera dýrari? Fötluðu fólki á ekki að refsa fyrir fötlun sína með því að borga meira af því þau þurfa sérhæfða þjónustu vegna fötlunar sinnar. Dýrt er að vera fatlaður í Reykjavík og á landinu öllu. Þessi hópur er auk þess sá verst setti í samfélaginu og er skemmst að vitna í nýútkomna skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem birt var í vikunni. 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. 60 prósent geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og meira en einn af hverjum tíu þiggur mataraðstoð frá hjálparsamtökum. Um hverja krónu munar hjá þessum hópi.

    Fylgigögn

  9. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði. Staðan í Reykjavík er svona: Þann 1. september s.l. var fjöldi umsækjenda sem bíða eftir fyrsta húsnæði 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Samtals sem sagt 168. Margir bíða fram á fullorðinsár eftir  búsetuúrræði.  Það er mikið lagt á fatlað fólk sem orðið er rígfullorðið og fær ekki búsetuúrræði. Margir hafa beðið árum saman. Biðlistar eru ekki eiginlegir biðlistar heldur „haugur“ af því, sem virðist, sem hirt er úr eftir hendinni eða hvað? Alla vegar hefur komið fram ítrekað að sagt sé við einstakling að hann sé næstur en síðan er hann það ekki og annar tekinn fram fyrir og sá sem átti að vera næstur bíður jafnvel í ár eða meira í viðbót. Þetta reynir á foreldrana en margir búa hjá foreldrum meðan þeir bíða og mest reynir þetta á umsækjendur sjálfa.

  10. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúa Flokks fólksins barst til eyrna að 50 fm. íbúð,  væri leigð á um 160 þúsund á mánuði hjá Félagsbústöðum. Óskað er skýringa í ljósi þess að miðað við þessi viðmið nákvæmlega var 60 fm. íbúð á 130.000 kr. árið 2017. Minnt er á að leigjendur Félagsbústaða er hópur sem býr ekki við góðan efnahag og margir berjast í bökkum. Það er áhyggjuefni að leigan hjá Félagsbústöðum skuli vera orðin svo há sem raun ber vitni. Leiguverðið er farið að nálgast leiguverð á almennum markaði. Félagsbústaðir hefur það hlutverk að tryggja þeim húsnæði sem ekki geta eignast eða leigt húsnæði á almennum markaði.

    Vísað til Félagsbústaða. 

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1509.pdf