Velferðarráð
Ár 2021, miðvikudagur 1. september var haldinn 407. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Rannveig Ernudóttir og Ellen Jacqueline Calmon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 894/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Örn Þórðarson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 1. september 2021, um þjónustusamning við styrktarfélagið Ás til ársins 2025, ásamt fylgigögnum:
Lagt er til að samþykktur verði þjónustusamningur við Ás styrktarfélag til ársins 2025. Samningurinn er þríþættur og skiptast upphæðir í þrjá flokka: 1) 747.610.000 kr. vegna búsetuþjónustu, 2) 819.550.000 kr. vegna vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu og 3) 38.250.000 kr. vegna sérhæfðrar leikskólaþjónustu. Heildarfjárhæð nýs samnings er 1.605.410.000 kr. á ársgrundvelli. Samningurinn tekur til allra þeirra krafna sem velferðarsvið gerir til þjónustunnar að undanskildum kröfum nr. 21 og 27 í kafla nr. 1.2.3 í kröfulýsingu (sjá fylgiskjal 1) sem Ás styrktarfélag hefur aðlögunartíma til ársloka 2023 til að mæta að fullu. Allar kröfur í kröfulýsingu er varða beina þjónustu við notendur taka gildi strax við undirritun aðila. Tillagan felur í sér viðbótarkostnað. Óskað hefur verið eftir hærri fjárheimild sem nemur 150,6 m.kr. í fimm ára áætlun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022 – 2026. Einnig á eftir að hækka fjárheimild vegna samningsins vegna verðbóta á árinu 2021 að fjárhæð 160 m.kr. VEL2021060018.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur samið við Ás styrktarfélag um ýmsa mikilvæga þjónustu allt frá yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Ás styrktarfélag er sjálfseignarstofnun sem sinnir margvíslegri þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík. Í dag veitir Ás styrktarfélag um 240 Reykvíkingum þjónustu í formi búsetu, sérhæfðrar þjónustu við börn og vinnu- og virknimiðaðrar stoðþjónustu. Gildandi samningur við Ás styrktarfélag rann út í árslok 2020 og því þurfti að útbúa nýjan samning. Kostnaðarauki við samninginn er rúmar 150 milljónir á ári árin 2022-2026, hækka þarf fjárheimildir um 160 milljónir á árinu 2021.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 1. september 2021, um drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, ásamt fylgigögnum. VEL2021080014.
Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir að sú stefna sem er til umfjöllunar þyrfti að fjalla meira um fjármögnun. Tryggja þarf að þeir sem ekki geta dvalið heima lengur þrátt fyrir víðtæka heimaþjónustu og heimahjúkrun fái pláss á hjúkrunarheimilum. Það er forgangsatriði. En einnig er mikilvægt að efla heimastuðning því ef þjónustuþáttum væri fjölgað og aðrir dýpkaðir myndu fleiri geta búið lengur heima. Horfa þarf til fleiri úrræða og fjölbreyttari t.d. sveigjanlegrar dagdvalar sem millilið. Það er ekki aðeins vilji flestra að vera sem lengst heima heldur er það einnig hagstæðast fyrir þjóðfélagið. Þá er það ekki skynsamlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins að stefna um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða setji markmið um að aðeins 15% 80 ára og eldri dvelji í hjúkrunarrýmum þegar raunin er sú að í dag skortir okkur hjúkrunarrými þrátt fyrir að hjúkrunarrými séu til staðar fyrir 21,4% fólks 80 ára og eldri. Hér munar of miklu á raunverulegri þörf og markmiði sem sett er. Þeir sem þurfa pláss verða að fá pláss í stað þess að þurfa að vera á Landspítala vikum eða mánuðum saman vegna þess að ekkert annað úrræði er til. Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu. Fleiri tegundir úrræða þyrftu að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri skrifstofu öldrunarmála, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsögn velferðarsviðs, dags. 1. september 2021, um drög að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030, ásamt fylgigögnum. VEL2021080017.
Samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem og í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er skýrt kveðið á um samráð við fatlað fólk. Reykjavíkurborg hefur sett á laggirnar Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík og einnig er starfandi samkvæmt lögum Öldungaráð Reykjavíkur sem fjallar um málefni eldri borgara. Þrátt fyrir belti og axlabönd í þessum efnum kvarta notendur yfir samráðsleysi og ekki síst upplýsingaskorti. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að nefndir og ráð sem standa eiga vörð um minnihlutahópa þurfi að stíga enn sterkar fram fyrir réttlæti þeim til handa. Vandaðar upplýsingar, víðtæk þátttaka notenda og tvíhliða samráð þarf að vera ekki bara viðunandi heldur fullnægjandi. Lýðræði er næsti bær við mannréttindi, en langir biðlistar eru samt í alla þjónustu hjá öllum minnihlutahópum sem getur varla samræmst lýðræðis- og mannréttindalögmálum. Margt hefur vissulega breyst til hins betra. Til að kerfi eins og borgin virki þarf að vera meiri samvinna innbyrðis. Sterkari tengingar er þörf og boðleiðir þyrftu að vera bæði skýrari og einfaldari.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar. VEL2021080026.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir kynningu á Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að halda áfram að styðja fólk út á vinnumarkaðinn með fjölbreyttum hætti og ljóst er að úrræðið er mikilvæg viðbót sem skilar árangri.
Svanhildur Jónsdóttir, stjórnandi Atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar, og Þóra Kemp, teymisstjóri Virknihúss, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á stafrænni umbreytingu velferðarsviðs. VEL2021080025.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka góða kynningu stafræns leiðtoga Velferðarsviðs á stöðunni á stafrænni umbreytingu Velferðarsviðs og forgangsröðun þeirra fjölmörgu verkefna sem eru komin af stað og eru í pípunum. Það verður mikið framfaraskref þegar "Mínar síður" og "Ráðgjafinn" verða komin í höfn á næstu mánuðum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Verkefni sem snúa að velferðarsviði eru m.a. Mínar síður. Fulltrúi Flokks fólksins sat ráðstefnuna Tengjum Ísland (island.is). Stafræna Ísland er komið langt á undan ÞON í stafrænni umbreytingu. Þjónustu- og nýsköpunarsvið getur samnýtt afurðir úr þróun island.is sem hjálpar t.d. sveitarfélögum að veita rafræna þjónustu. Þar eru búnar til stofnanasíður til að styðja við sveitarfélög. Stafræna Ísland, island.is á allt til, þar er til sniðmát fyrir allt sem þarf, allur grunnur er til staðar. Miðlæg þjónustugátt er mikilvæg og í henni á Reykjavík að vera í stað þess að eyða milljörðum í að finna upp hjólið. Ríkið tók Eistland sér til fyrirmyndar þar sem allar þessar stafrænu lausnir eru þegar komnar upp og virka. Reykjavík getur gengið til liðs við island.is og sparað milljónir ef ekki milljarða. Ein gátt þar sem allir íbúar þessa lands geta sótt sér rafræna þjónustu óháð því hvar það býr. Á island.is eru 74 Mínar síður og 240 vefir. Það er verið að hanna, búa til ímyndir og vörumerki.
Styrmir Erlingsson, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
-
Fram fer kynning á stöðu akstursþjónustu fatlaðs fólks – Pant aksturs. VEL2021060003.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem hann heyrir að fólk virðist almennt ánægt með þjónustuna núna. Búið er að hafa mikið fyrir að þrýsta á ákveðnar breytingar á reglum og þjónustu akstursþjónustunnar sem voru mikið til innleiddar og það hefur skilað sér inn í þjónustuna með jákvæðum hætti. Setja má engu að síður spurningarmerki við það að fækkað hafi verið um 2,5 stöðugildi í þjónustuveri og stytta á opnunartímann. Í stað þess að fækka ætti frekar að fjölga stöðugildum því fólk kvartaði yfir því að það væri erfitt að komast að í síma og sérstaklega á ákveðnum tímum. Margir geta einfaldlega ekki haft aðgang að réttindum og þjónustu sem veitt er rafrænt nema með stuðningi. Skerðing á þjónustu er aldrei ásættanleg.
Erlendur Pálsson, sviðsstjóri akstursþjónustu Strætó, Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
-
Lagt fram bréf formanns velferðarráðs, dags. 18 ágúst 2021, um kjör fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu. VEL2021080027.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 1. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölgun hjúkrunarheimila, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2021. VEL2021060034.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um áætlanir um byggingu nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík. Í svari kemur fram að byggja á í Grafarvogi 144 íbúðir og fyrir liggur viljayfirlýsing um 200 í viðbót á svæði við Ártúnshöfða en það er aðeins viljayfirlýsing. Nú þegar eru 250 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu svo það segir sig sjálft að þetta er ekki nóg jafnvel þótt verulega verði spýtt í lófana með að auka heimaþjónustu og sett verði á laggirnar sveigjanleg dagdvöl sem milliliður. Ef heldur sem horfir verður biðlistinn sá sami ef ekki lengri eftir örfá ár. Sú áætlun sem nú liggur fyrir til ársins 2025 er ekki í samræmi við þörfina. Ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil í þessum efnum. Lóðaúthlutun er á forræði Reykjavíkurborgar og það er ekki ólöglegt að Reykjavík geri þetta upp á sitt einsdæmi en þarf vissulega fjármagn og treystir á ríkið í þeim efnum. Lífslíkur fara stöðugt hækkandi og hefur því verið spáð sem dæmi að árið 2040 muni hlutfall fólks eldra en 67 ára hafa hækkað úr 12% í 19%.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Uppbygging hjúkrunarrýma er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg hefur marglýst vilja sínum í að taka þátt í slíkri uppbyggingu en rekstur er alltaf á kostnað og ábyrgð ríkis.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur skoðað vikumatseðil kvöldmatar eldri borgara í einni af þjónustuíbúðum aldraðra í Reykjavík. Í öll mál eru súpur og grautar. Spurt er hvort ekki mætti vera meiri fjölbreytni? Hugsa mætti sér að margt annað í kvöldmat, jafnvel léttan kvöldmat annað en súpu og grauta enda þótt fólk hafi e.t.v. borðað heitan mat í hádeginu.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á nýafstöðnu heilbrigðisþingi 2021 um framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við aldraða voru málefni aldraðra rædd í þaula. Eitt af málefnunum var heimaþjónustan og hversu mikilvægt er að auka hana og dýpka til að gefa eldra fólki tækifæri til að vera sem lengst heima. Nánast allir réttu upp hendi á þinginu að þeir vildu vera heima þegar þeir tveir valkostir voru slegnir upp, að vera heima eða fara á stofnun. Fjölga þarf þjónustuþáttum við eldri borgara í heimahúsi og bæta suma sem fyrir eru. Til að geta verið sem lengst heima þarf að veita meiri einstaklingsbundna aðstoð. Nú spyr fulltrúi Flokks fólksins hvað velferðarsvið ætlar að gera til að mæta kallinu sem heyra mátti að samhljómur var um á heilbrigðisþingi? Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 2020 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum tillögunum nema fjórum var hafnað. Rökin voru að þetta væri ekki á ábyrgð velferðarráðs. Ein af tillögunum var að aðstoð við böðun væri líka á rauðum degi. Aðstoð yrði veitt með að hengja upp þvott, flokka og fara út með sorp. Einnig að eldra fólki væri boðið upp á sálfélagslegan stuðning. Ekkert af umbótatillögum sem þessum hafa fengið hljómgrunn.
-
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til leigjendur hjá Félagsbústöðum sem eru í vanskilum fái tækifæri til þess að greiða niður leiguna án þess að skuldin verði send til innheimtufyrirtækis með tilheyrandi kostnaði. Lagt er til að Félagsbústaðir taki samtal við velferðarsvið/velferðarráð um að leigjendur fái t.d. stuðning í gegnum styrk eða lán hjá velferðarsviði.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. -
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fyrirspurn um hvort ekki eigi að láta af mismununar notenda Strætó og Akstursþjónustu? Akstursþjónustan er hugsuð sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Því ætti verðskráin og þjónustan að vera alveg sambærileg. Ferð með akstursþjónustunni ætti ekki að vera dýrari en með strætó, ferðum ætti ekki að vera skammtað og meðan ekki er hægt að taka landsbyggðarstrætó (vegna eðlis fötlunar og vegna skorts á aðgengis vagna og biðstöðva) ætti að vera hægt að fara milli sveitarfélaga með aksturs þjónustunni skv. gjaldskrá strætó. Þessu þarf að breyta enda hér um að ræða ósanngirni og mismunun.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Atvinnumiðlun er þarft framtak, um það er ekki deilt. Hér er kynnt atvinnumiðlun og Virknihús. Að hjálpa fólki að fá vinnu er virkilega nauðsynlegt nú eftir COVID en þetta nýja átak má ekki verða eitt af þessum litlu kerfum sem mun blása út og eignast sitt eigið líf jafnvel án tengingar við grunnkerfi velferðarsviðs. Nefnt er í kynningu að í B- hluta fyrirtækjum verði einhver störf í boði t.d. störf hjá Slökkviliðinu? Þetta vekur áhuga hjá fulltrúa Flokks fólksins. Hvaða störf eru þetta og hvenær liggur það fyrir? Eins er það skjalfest að mikil vöntun er eftir starfsfólki á leikskólum. Getur Atvinnu- og virknimiðlun ekki hjálpað til með þær ráðningar?
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá svör við af hverju fækkað hafi verið um 2,5 stöðugildi í þjónustuveri. Í stað þess að fækka ætti frekar að fjölga stöðugildum því fólk kvartaði yfir því að það væri erfitt að komast að í síma og sérstaklega á ákveðnum tímum. Hverjar eru ástæður fyrir því að fækkað er í þjónustuveri og hvaða áhrif hefur það á þjónustuna? Þetta er skerðing á þjónustu og einnig hefur opnunartími þjónustuvers verið styttur. Fólk þarf að geta náð sambandi og sér í lagi þeir sem eru ekki að nota tölvur og net. Enn er hópur sem notar aðeins síma og er því ekki með rafræn auðkenni. Ekki er heldur hægt að gera kröfu um að allir hafi rafræn skilríki, ef það yrði gert þá myndu alltaf einhverjir verða út undan þeir sem ekki treysta sér til að nota rafræn skilríki.
Fundi slitið klukkan 16:00
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0109.pdf