Velferðarráð
Ár 2021, miðvikudagur 16. júní var haldinn 405. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:01 í Hofi, Borgartúni 12-14. A fundinn mættu: Elín Oddný Sigurðardóttir, Berglind Eyjólfsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
- kl. 13:05 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. janúar 2020, um teymi sem leysir deilumál leigjenda félagsbústaða utan opnunartíma. VEL2020010024.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögu Flokks fólksins um að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva hefur verið vísað frá í velferðarráði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við all marga leigjendur þetta kjörtímabil og ber þeim saman um að bjóða þurfi upp á stuðning og ráðgjöf utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu ef upp koma erfið mál/atvik. Hér er ekki verið að vísa til barnafólks eða tilfelli um heimilisofbeldi heldur óvænt og erfið tilvik sem upp geta komið í húsnæði félagsbústaða. Tillagan hefur legið ofan í skúffu í marga mánuði hjá velferðaryfirvöldum. Vel hefði mátt skoða að setja á laggirnar úrræði sem svaraði kalli leigjenda utan opnunartíma þjónustumiðstöðva ef tilefni þykir til. Þetta mætti að minnsta kosti prófa til reynslu í ákveðinn tíma. Eins og staðan er í dag er það mögulega Vorteymið sem gæti hjálpað til? Ef um hátíðisdaga er að ræða þurfa leigjendur jafnvel að bíða dögum saman þar til skrifstofan Félagsbústaða opnar á ný. Það skiptir miklu máli að geta náð í einhvern í síma því oft nægir að veita ráðgjöf. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar og til þess verður að taka tillit. Margir treysta sér ekki til að hringja á lögreglu í svona tilfellum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Langstærsti hluti leigjenda Félagsbústaða stendur í skilum með leigugreiðslur og er ekki algengt að kvartað sé undan leigjendum miðað við þann mikla fjölda sem leigir hjá Félagsbústöðum. Sé um að ræða ítrekuð tilvik sem tilkynnt eru Félagsbústöðum eða þjónustumiðstöð vinna þessir aðilar ávallt saman að úrlausn mála. Til er verklag sem notað er ef upp koma deilumál hjá leigjendum Félagsbústaða og er ávallt hringt á lögreglu ef alvarleg tilvik koma upp. Ef börn eru á heimili þá koma þau mál til kasta bakvaktar barnaverndar. Ef um heimilisofbeldi er að ræða kemur félagsráðgjafi frá þjónustumiðstöð inn á heimilið sem hluti af bakvakt á grundvelli Saman gegn ofbeldi. Einnig hefur VoR teymið komið til sögunnar ef um er að ræða vandamál tengd neyslu. Þar sem nú þegar eru starfandi teymi innan velferðarsviðs sem bregðast við ýmiskonar atvikum utan hefðbundins opnunartíma þykir ekki ástæða til að fara í frekari aðgerðir og er tillögunni því vísað frá.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs 24. júní 2020, um að auka gegnsæi þjónustu Þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar. VEL2020070002.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands og sitja hjá.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að auka gegnsæi þjónustu þjónustumiðstöðva hefur verið vísað frá. Tillagan snýr hvað helst að upplýsingaflæði og fræðslu til foreldra. Í samtali fulltrúa Flokks fólksins við foreldra þetta kjörtímabil hefur komið í ljós að gegnsæi á þjónustu þjónustumiðstöðva er ábótavant. Sem dæmi hafa foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifað jafnvel uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Þess vegna lagði fulltrúi Flokks fólksins þessa tillögu fram. Foreldrar barna með námsörðugleika ásamt foreldrum fatlaðra barna hafa ekki allir áttað sig á hvar þeir geta fengið ráðgjöf eða yfir höfuð hvert hlutverk þjónustumiðstöðva er. Þetta er m.a. ástæða þess að árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um gerð upplýsingabæklings og í þeim bæklingi kæmi fram hvaða þjónusta er í boði hjá borginni fyrir ólíka hópa. Í drögum að velferðarstefnu er það viðurkennt að upplýsingaflæði er ábótavant. Engu að síður eru tillögur til bóta felldar með þeim rökum að verið sé að gera þetta allt og er viðkvæðið oft að „vinna sé í gangi“ o.s.frv. En hvergi er, enn, að sjá neinar afurðir. Í viðbrögðum meirihlutans má sjá mikið af mótsögnum sem skilur borgarbúa og þjónustuþega eftir í þoku og óvissu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í velferðarstefnu má finna stefnuáhersluna „þjónustulipurð og skilvirkni“ og er ein af aðgerðum til að innleiða þá stefnuáherslu að innleiða verkefnið Betri borg fyrir börn um alla Reykjavíkurborg. Markmiðið er að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og eins að þétta samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs, í þágu farsældar barna. Tillagan er einnig hluti af vinnu starfshópsins ÍSAK um samþættingu þjónustu við börn með sérstakar þjónustuþarfir sem lagðar eru fram samhliða tillögum sem snúa að aðgerðaráætlun í velferðarstefnu. Rafræn þjónusta verður aukin og verður m.a. hægt að bóka símaviðtöl hjá ráðgjöfum. Með þessum aðgerðum er vonast til að allt ferlið í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra verði skýrara og gagnsærra þó það sé ekki gert nákvæmlega á þann hátt sem fulltrúi Flokks fólksins lagði til. Tillögunni er því vísað frá.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Ýmislegt sem nefnt er hér er ávarpað í nýrri velferðarstefnu og mikilvægt að það komist til framkvæmda. Fulltrúi sósíalista sér gagnsemi þess að gerður verði upplýsingabæklingur líkt og fjallað er um í tillögunni, þar sem skýrt kemur fram hvaða þjónusta er í boði hjá borginni. Mikilvægt er að upplýsingar fari ekki fram hjá borgarbúum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um stofnun neyðarhúsnæðis, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020. VEL2020070020.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi tillaga var lögð fram til að tryggja að húsnæði væri pottþétt til staðar handa þeim sem þurfi skyndilega á húsnæði að halda. Ýmis áföll geta leitt til þess að einstaklingur eða fjölskylda á ekki í nein hús að venda og þá er mikilvægt að nægilegt húsnæði standi til boða. Sé litið til húsnæðisstefnu borgarinnar, þá er borgin augljóslega ekki að ná að uppfylla markmið sín um að allir borgarbúar hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði og má t.a.m. sjá slíkt á biðlistum eftir húsnæði á vegum borgarinnar. Fólk býr oft inni á öðrum, í ósamþykktu húsnæði eða þarf jafnvel skyndilega að yfirgefa húsnæði vegna ofbeldis á heimili. Þá er mikilvægt að neyðarhúsnæði sé til staðar. Tillagan fól einnig í sér að velferðarsviði yrði falið að tryggja að þau sem eru nú í ótryggu húsnæði í Reykjavíkurborg geti komist í tryggt húsnæði undir þessu úrræði þangað til að langtímalausn er fyrir hendi. Velferðarsviði yrði falið að leiða viðræður við eigendur húsnæðis sem gætu hentað.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfulla stefnu í málefnum heimilislausra ásamt uppbyggingaráætlun í húsnæðismálum. Ávallt er brugðist við neyðartilvikum með sértækum tímabundnum lausnum, meðan varanleg húsnæðisúrræði eru fundin. Sú stefna, sem og uppbyggingaráætlun, hefur verið samþykkt í þeim tilgangi að fjölga búsetuúrræðum og félagslegum leiguíbúðum, auk þess sem styrkir eru veittir til áfangaheimila og fleiri tímabundinna úrræða. Ljóst er að uppbyggingaráætlunin skilar tilætluðum árangri enda hafa biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði styst um helming á þessu kjörtímabili. Um sjötíu manns var úthlutað sértæku búsetuúrræði árið 2020 auk þess sem þrjátíu heimilislausir einstaklingar með flóknar þjónustuþarfir fengu varanlegt heimili með stuðningi sama ár. Húsnæði er ein af grunnþörfum hvers einstaklings og mikilvægt að Reykjavíkurborg haldi áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið á sviði húsnæðismála þannig að allir fái húsnæði og stuðning við hæfi. Ekki er talið að neyðarhúsnæði sem rekið er án endurgjalds leysi vanda þessa hóps en ávallt þarf að vinna með einstaklingsbundnar tímabundnar lausnir meðan unnið er að því að finna varanlegt húsnæði. Tillögunni er því vísað frá.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 27. maí, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 16. júní 2021, um drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030, sem vísað var til umsagnar velferðarráðs á fundi borgarráðs þann 20. maí 2021. VEL2021050026.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir taka undir umsögn velferðarsviðs um lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar. Drögin eru metnaðarfull, leggja áherslu á gagnadrifna ákvörðunartöku og stöðugt endurmat á árangri. Þannig stuðlum við að heilsu og vellíðan allra borgarbúa. Einnig taka fulltrúarnir undir þá ábendingu velferðarsviðs að stýrihópur Heilsuborgarsamtaka geti bæði stutt við innleiðingu lýðheilsustefnu en auk þess verið ráðgefandi fyrir öll svið borgarinnar um mótun stefnu og aðgerða á sviði lýðheilsumála.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Drög að lýðheilsustefnu liggja fyrir og umsögn um hana. Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Ekki er þó minnst á biðlista sem er án efa einn stærsti lýðheilsuvandi í borginni. Nú bíða 1577 börn eftir þjónustu sálfræðinga og fleiri fagaðila. Í stefnunni er talað um „þátttöku allra“ og að ná eigi til viðkvæmra hópa. Eldri borgarar fá samt ekki vægi í stefnunni. Málefni þeirra eru ekki í nægum forgangi. Málefni sem tengjast þessum aldurshópi hafa sem dæmi sjaldan ratað inn á borð í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Úr því þarf að bæta hið snarasta. Það getur varla fallið undir „þátttöku allra“ að vilja ekki skoða tillögu um sveigjanleg starfslok eða Vinnumiðlun eftirlaunafólks. Tillaga Flokks fólksins þess efnis var felld í borgarstjórn 15. júní. Útrýming á fátækt og að auka jöfnuð meðal barna í Reykjavík auk þess að eyða biðlistum hlýtur að vera meginmarkmið stefnu af þessu tagi. Í drögum að lýðheilsustefnu segir að reyna eigi að manna stöður leikskóla sem þessum meirihluta hefur ekki lánast að gera á þeim þremur árum sem liðin eru. Vonandi á „stefnan“ eftir að dýpka eftir að hafa verið í samráðsgáttinni og tengjast þeim raunveruleika sem við búum við en ekki vera aðeins yfirborðskennt plagg.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á niðurstöðum viðhorfskönnunar starfsmanna Reykjavíkurborgar. VEL2021060021.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir kynningu á viðhorfskönnun starfsmanna velferðarsviðs. Mikilvægt er að stjórnendur vinni ávallt með niðurstöður á sínum starfsstað og geri nauðsynlegar úrbætur. Auk þess verður aðgerðaráætlun gerð samhliða gildandi mannauðsstefnu. Ljóst er að mannauðsmál er lifandi málaflokkur sem ávallt þarf að sinna en ánægðir starfsmenn eru forsenda öflugrar velferðarþjónustu.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2021 er kynnt fyrir velferðarráði. Nokkur atriði vekja sérstaka athygli í þessari könnun á niðurstöðum viðhorfskönnunar starfsmanna Reykjavíkurborgar. Fyrst er að nefna niðurstöður sviðanna um einelti, áreitni og fordóma en þar er þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) með lang hæsta gildið, eða 8.0% þegar kemur að einelti frá samstarfsfólki. Önnur svið eru helmingi lægri og alveg niður í 0,0%. Segir þetta að á þessu sviði eru starfsmenn hvað mest að upplifa/verða fyrir einelti frá samstarfsaðilum sínum. Þetta er alvarlegt og vísbending um að mikil vanlíðan kraumar á sviðinu innan starfsmannahópsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um þegar svona niðurstöður birtast að þá er lykilatriði að skoða stjórnunarþáttinn. Staðreyndin er sú að stjórnandi/yfirmaður hefur það hvað mest í hendi sér hvort einelti fær þrifist á vinnustað. Þetta hafa rannsóknir marg sýnt. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þetta verði skoðað með gaumgæfilegum hætti.
- kl. 14:00 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum í stað Berglindar Eyjólfsdóttur.
Anna Guðmundsdóttir mannauðsstjóri velferðarsviðs tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
-
Fram fer kynning um stöðumat á innleiðingu SELMA. VEL2021060005.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á árangri af fyrstu sex mánuðum af þjónustu SELMU, sérhæfðu öldrunarteymi Reykjavíkurborgar. Þjónustan miðar að því að styrkja innviði heimahjúkrunar og auka gæði þjónustunnar. Starfsemin er tvíþætt og felst í vitjunum í heimahús auk sérstakrar símaþjónustu og ráðgjafar. Alls hafa 92 skjólstæðingar fengið aðstoð SELMU á fyrstu sex mánuðunum. Auk vitjana og símaráðgjafar hefur SELMA leitt að borðinu meðferðaraðila úr öllu heilbrigðiskerfinu til að flókin mál fái farsæla lausn. Vöntun hefur verið á slíkri samhæfingu milli kerfa, og ljóst að SELMA gegnir þar mikilvægu hlutverki. Niðurstöður könnunar meðal hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun sýna fram á mikla gagnsemi SELMU en tæp 90% hjúkrunarfræðinga töldu aðgengið að þjónustunni gott og rúm 80% töldu þjónustuna nýtast í að leysa þung og flókin mál innan heimahjúkrunar. Starfsemi sérhæfðs öldrunartreymis miðar að því að auka lífsgæði fólks sem fær þjónustu heim, styrkja innviði heimahjúkrunar og auka samstarf aðila innan heilbrigðis- og félagsþjónustu. Ljóst er að um mikilvægt samstarfsverkefni ríkis og borgar er að ræða sem mikilvægt er að efla enn frekar til framtíðar.
Margrét Guðnadóttir, verkefnastjóri SELMA og Berglind Víðisdóttir, fagstjóri heimahjúkrunar taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á skýrslu stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu um stöðu barna með fjölþættan vanda. VEL2021060020.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Sveitarfélögin hafa allt frá árinu 2012 óskað eftir faglegri og fjárhagslegri aðstoð frá ríkinu vegna málefna barna með fjölþættan vanda. Fjölmargar nefndir hafa starfað og fjallað um málefnið og ljóst er að til þess að lausn komist á málið þarf ríkið að koma til móts við sveitarfélögin. Nú árið 2021 liggur ennþá ekki ljóst fyrir hvar kostnaður vegna þjónustu við börn með fjölþættan vanda skuli liggja og ekki eru heldur fyrir hendi þau fjölbreyttu úrræði sem ljóst er að full þörf er á. Kostnaður sem áður lá hjá ríkinu hefur nú færst alfarið yfir á sveitarfélögin án þess að því hafi fylgt nokkuð fjármagn. Ríkið getur ekki skorast undan ábyrgð á þjónustu við börn með fjölþættan vanda og ljóst er að hluti þjónustunnar er á ábyrgð ríkisins s.s geðheilbrigðisþjónusta. Velferðarráð skorar á félags- og barnamálaráðherra og félagsmálaráðuneytið að hlusta á ákall sveitarfélag-anna og vinna að farsælli lausn málsins sem fyrst börnum til heilla.
Katrín Helga Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram 16. stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. VEL2021060019.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga valnefndar, dags. 16. júní 2021, um tilnefningar til hvatningarverðlauna velferðarráðs 2020:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að veita eftirtöldum hvatningarverðlaun velferðarráðs fyrir árið 2020:
• Styrmir Erlingsson, stafrænn leiðtogi velferðarsviðs, í flokknum einstaklingar.
• Íbúðakjarninn Byggðarendi í flokknum hópar/starfsstaðir.
• SELMA í flokknum verkefni.
• Einnig er lagt til að Þorgeir Magnússon deildarstjóri og Margrét Lísa Steingrímsdóttir forstöðumaður fái viðurkenningu fyrir farsælt starf á sviði velferðarmála. VEL2021060001.Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.- Rannveig Ernudóttir víkur af fundinum undir þessum lið.
Anna Guðmundsdóttir mannauðsstjóri velferðarsviðs tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Liggur fyrir hversu mörg hjúkrunarrými verða byggð á þeim svæðum sem eru í uppbyggingu eða fara brátt í uppbyggingu, t.d. í Vogunum, á Ártúnshöfða, við Gufunes, í Keldnalandi o.s.frv.? Nú má gera ráð fyrir því að þörf verði á umtalsvert fleiri hjúkrunarrýmum eftir fáein ár þegar sögulega stórir árgangar nálgast áttræðisaldur. Hvað er áætlað að byggð verði mörg ný hjúkrunarrými í Reykjavík á næstu árum? Hve langt fram í tímann ná gildandi áætlanir?
- Rannveig Ernudóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fundi slitið klukkan 15:20
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1606.pdf