Velferðarráð - Fundur nr. 403

Velferðarráð

Ár 2021, þriðjudagur 8. júní var haldinn 403. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:38 í Vindheimum, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir fulltrúar í velferðarráði mættu á fundinn: Heiða Björg Hilmisdóttir, Rannveig Ernudóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar velferðarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga stýrihóps um mótun velferðarstefnu, dags. 8. júní 2021, um drög að velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki meðfylgjandi drög að velferðarstefnu Reykjavíkurborgar og aðgerðaáætlun sem lögð er fram samhliða. Stefnan er vegvísir fyrir borgarbúa jafnt sem starfsfólk sem veitir þjónustuna. Grunnmarkmið stefnunnar er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir alla borgarbúa. Meginþættir stefnunnar byggjast á sjö stefnumarkandi áherslum sem eru raktar í meðfylgjandi stefnuskjali. Í aðgerðaáætlun eru settar fram þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að markmið stefnunnar nái fram að ganga í starfsemi velferðarsviðs. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er metinn á um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat verður lagt fyrir velferðarráð eigi síðar en 1. október nk. Aðgerðaáætlunin verði endurskoðuð árlega með tilliti til kostnaðar í takt við þróun fjárhagsramma sviðsins og verðlagsbreytinga. VEL2019110005.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarstefnan er afrakstur víðtæks samráðs stýrihóps, starfsfólks, notenda og þeirra fjölmörgu aðila sem hafa látið velferðarþjónustu borgarinnar sig varða. Á grunni ítarlegrar greiningarvinnu var mótuð ný framtíðarsýn til 10 ára auk þess sem hlutverk velferðarsviðs er skilgreint upp á nýtt. Grunnmarkmið stefnunnar er að auka lífsgæði fólks og tryggja að Reykjavík sé fyrir alla borgarbúa. Meginþættir stefnunnar byggja á sjö stefnumarkandi áherslum en þær eru; engin tvö eru eins, nálægð og aðgengileiki, þjónustulipurð og skilvirkni, virðing og umhyggja, forvarnir og frumkvæði, samtal og samráð og fagmennska og framsýni. Í aðgerðaáætlun eru settar fram þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í til að markmið stefnunnar nái fram að ganga. Þar er m.a. lögð áhersla á notendasamráð, samráð við hagsmunaaðila og reglulegar mælingar á ánægju með þjónustu sviðsins. Aðgerðaáætlunin mun síðan verða endurskoðuð árlega m.t.t. kostnaðar og stöðu verkefna hverju sinni. Reykjavík hefur ekki áður sett sér heildstæða velferðarstefnu sem tekur utan um allar þær fjölmörgu stefnur sem við höfum markað og munum marka í framtíðinni. Velferðarþjónusta er gríðarlega mikilvæg mannréttindaþjónusta sem þarf að vera í stöðugri þróun.  Fulltrúarnir þakka þeim þúsundum Reykvíkinga sem tóku þátt í mótun þessara stefnu. Saman getum við tryggt að Reykjavík verði sannarlega fyrir okkur öll.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista styður efni velferðarstefnunnar sem hefur það að markmiði að efla þjónustu við borgarbúa með ýmsum markmiðum en á erfitt með að taka undir þann lið sem birtist í aðgerðaráætlun um að sameina tvær þjónustumiðstöðvar frá og með 1. janúar 2022. Ekki er séð að það ýti undir það markmið að stuðla að nálægð og aðgengileika við borgarbúa. Íbúar eru að kalla eftir rafrænum lausnum og það er gott að sjá að verið sé að efla stafrænar lausnir en á sama tíma telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að tryggja þjónustumiðstöð í hverfum borgarbúa, þar sem stutt er að sækja þjónustu og upplýsingar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð eru fram drög að tillögum stýrihóps um mótun velferðarstefnu. Hefðu þessi mál verið í forgangi hjá þessum og síðasta meirihluta væri stefna að þessu tagi komin í innleiðingu. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat er ekki tilbúið fyrr en í október.  Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“.  Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Ósennilegt er hvort eitthvað af þessum annars mörgu ágætu tillögum verða komnar í virkni fyrr en á næsta kjörtímabili. Innleiðingar hafa ekki verið útfærðar. Meðal markmiða eru sjálfsagðir hlutir eins og að allir lifi með reisn. Stór hópur fólks er í aðstæðum þar sem erfitt er að lifa með nokkurri reisn. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Eftir stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra bíða 342 og 804 eftir húsnæði. Fólki og ekki síst börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi það býr. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Of mikil áhersla er á frumvarp, „Farsældarfrumvarp“ sem ekki er orðið að veruleika.

    -    Kl. 13:02 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.

    Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri árangurs- og gæðamats á skrifstofu sviðsstjóra tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Ásta Þórdís Skjalddal, fulltrúi samtakanna Pepp Ísland, Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands,  og Ingibjörg H. Sverrisdóttir formaður Félags eldri borgara, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, um stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar á velferðarsviði, ásamt fylgigögnum. VEL2021060010. Trúnaðarmál.   

    Samþykkt og vísað til borgarráðs með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    -    Kl. 13:59 víkur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir af fundinum. 

    -    Kl. 14:00 er hlé gert á fundi til kl. 16:00.

  3. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að teymi sem leysir deilumál leigjenda Félagsbústaða utan opnunartíma. VEL2020010024.

  4. Tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs 24. júní 2020, um að auka gegnsæi þjónustu Þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar. VEL2020070002. 

    Frestað.

  5. Tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs um stofnun neyðarhúsnæðis. VEL2020070020. 

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 16:14

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0806.pdf