Velferðarráð
Ár 2021, miðvikudagur 19. maí var haldinn 402. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Rannveig Ernudóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Egill Þór Jónsson tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. maí 2021, um kjör fulltrúa í velferðarráð á fundi borgarstjórnar þann 18. maí 2021, þar sem samþykkt var að Rannveig Ernudóttir taki sæti í velferðarráði í stað Alexöndru Briem. VEL2018060029.
Fylgigögn
-
Lögð fram til kynningar drög að nýjum reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og reglur um stuðningsþjónustu, ásamt fylgigögnum. Hagsmunaaðilar gera grein fyrir umsögnum sínum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka góðar umsagnir frá hagsmunasamtökum við drög að reglum um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og reglur um stuðningsþjónustu. Fulltrúarnir ítreka nauðsyn þess að vera áfram í góðu samráði við hagsmunasamtök við innleiðingu reglnanna. Nú verður kostnaðarmatið rýnt og regludrögin uppfærð í samræmi við umsagnir eins og kostur er, áður en þær koma til endanlegrar afgreiðslu ráðsins.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ábendingar frá ÖBÍ og Þroskahjálp voru afar gagnlegar og ætti undantekningarlaust að taka tillit til þeirra ekki síst þeirra sem kosta borgina ekki krónu eins og tillögur um orðalagsbreytingar. Í 1. gr. er bent á að það skortir tengingu við samning Sameinuðu þjóðanna. Ábendingar eru um skort á notendasamráði sbr. í 3 C og víðar þar sem orða mætti hlutina meira í þágu notandans. Stafrænar og tæknilegar lausnir þurfa að vera í samráði við viðkomandi. Tekið er undir mótmæli ÖBÍ (í 8. gr.) um forgangsröðun umsókna enda ætti skortur á fjármagni í fjárhagsáætlun aldrei að vera ástæða fyrir skorti á þjónustu. Í 8. gr. er talað um móttöku- og matsteymi og í því teymi þyrfti að vera fulltrúi notenda. Notendur og stjórnvöld horfa ekki á reglur og gagnsemi þeirra með sömu gleraugunum. Fjölga þarf þjónustuþáttum við eldri borgara í heimahúsi og bæta suma sem fyrir eru. Til að geta verið sem lengst heima þarf að veita meiri einstaklingsbundna aðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins hefði haldið að fleiri ábendingar kæmu frá Öldungaráði, FEB, Félagi eldri borgara og Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks því af nógu er að taka sem má bæta. Hækka verður viðmið til að þeir efnaminnstu borgi sem minnst, helst ekki neitt.
Berglind Eyjólfsdóttir, formaður Öldungaráðs, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, Rúnar Björn Herrera, formaður málefnahóps Öryrkjabandalags Íslands um sjálfstætt líf, Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp, Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, Katrín Harpa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks og Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og reksturs taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. maí 2021, ásamt fylgigögnum, um breytingar á starfsemi og rekstri Vinjar:
Lagt er til að þjónustumiðstöð Miðborgar, Vesturbæjar og Hlíða yfirtaki rekstur Vinjar á Hverfisgötu og vinni að því að samþætta félagsstarfið í Vin við rekstur félagsmiðstöðva annarsstaðar í borginni. Starfið í Vin verði hluti þeirrar endurskoðunar sem fram fer á félagsstarfi velferðarsviðs en í Reykjavík eru reknar 17 félagsmiðstöðvar. Ljóst er að slík útfærsla hefði minnst áhrif á fastagesti Vinjar. Samkvæmt þjónustusamningi er áætlaður kostnaður við rekstur Vinjar kr. 46 m.kr. á ári. Ef velferðarsvið tekur reksturinn yfir rúmast kostnaður innan fjárheimilda. VEL2021010019.
Greinargerð fylgir tillögunni.Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Vin við Hverfisgötu hefur verið athvarf Rauða krossins í rúman aldarfjórðung og hefur um langa hríð fengið styrk til starfseminnar frá Reykjavíkurborg. Í ársbyrjun 2021 barst erindi þar sem Rauði krossinn sagði sig frá rekstri Vinjar. Velferðarráð fól velferðarsviði að útfæra tillögur að framhaldinu í samráði við notendur, hagsmunaaðila og fagfólk. Niðurstaða þeirrar vinnu er að leggja til að fela þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar, og Hlíða rekstur Vinjar með það að markmiði að samþætta félagsstarfið í Vin við rekstur félagsmiðstöðva annarsstaðar í borginni. Slík útfærsla hefur minni áhrif á fastagesti Vinjar en sú að loka athvarfinu. Mikilvægt er að vinna náið með notendum, hagsmunaaðilum og fagfólki í þeirri samþættingu sem framundan er.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sumir þurfa og vilja vera í og heimsækja sérúrræði. Annað af tveimur sjónarmiðum sem kynnt eru af meirihlutanum og sögð vegast á er sjónarmið að „vinna þarf gegn því að ákveðnir hópar séu jaðarsettir eða aðgreindir í samfélaginu og því eigi ekki að draga fólk í dilka með því að búa því sérúrræði“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef þetta sjónarmið ætti að gilda myndi margt kollvarpast í borginni því fjöldi fólks er í ýmis konar sérrúrræði hvort heldur af þörf eða vilja nema hvort tveggja sé. Í mannréttindastefnu segir að sveitarfélag á að mæta þörfum allra, sérþörfum einnig og ávallt að hafa hagsmuni og vellíðan einstaklingsins að leiðarljósi. Gestir/notendur eru skýrir í sinni afstöðu. Þeir vilja að starfsemin haldist óbreytt. Allar ákvarðanir um Vin skal taka í samráði við notendur. Tillaga starfshópsins er að reka þetta úrræði á sama grunni og félagsstarfið en það er í endurskoðun og hefur verið lengi. Sá stýrihópur sem endurskoða á félagsstarfið og sem fulltrúi Flokks fólksins er aðili í er stopp, af óljósum ástæðum. Mikilvægt er að valta ekki yfir gesti og starfsmenn Vinjar og mun fulltrúi Flokks fólksins ekki styðja að Vin verði lagt niður í núverandi mynd og sett undir félagsstarf borgarinnar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni hefur farið fram samráð við notendur Vinjar sem vildu sem minnstar breytingar en lögðu þó til að dagskráin yrði fjölbreyttari og til dæmis mætti skoða söng, listviðburði, kennslu á rafrænar lausnir og hafa í húsinu sjálfboðaliða og nema. Fram kom líka að það væri gott ef félagsráðgjafi kæmi af og til í Vin sem og að stundum væri húsnæðið í Vin of lítið og það mætti vera meira pláss til að fást við ýmsa afþreyingu. Til að mæta þessum óskum notenda er þessi tillaga lögð fram.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. maí 2021, um bætta aðstöðu íbúa með nýjum íbúðakjarna í stað áfangastaðar á Ránargötu:
Lagt er til:
a. að Reykjavíkurborg samþykki meðfylgjandi viljayfirlýsingu vegna leiguloka í tengslum við sölu Reita á fasteigninni að Ránargötu 12, og að leggja þar með niður áfangastaðinn Ránargötu 12.
b. að þeim þremur einstaklingum sem búa í dag á Ránargötu 12 verði boðnir aðrir búsetukostir m.t.v. í lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 sem tóku gildi 1. október 2018. Í lögunum kemur fram í bráðabirgðaákvæði nr. II „Fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim í samræmi við 9. gr.“
c. að þeir einstaklingar sem eru í húsnæði með stuðningi frá áfangastaðnum Ránargötu 12 fái tengingu við íbúðakjarna hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.
d. að starfsmönnum áfangastaðarins Ránargötu 12 verði boðin sambærileg störf hjá velferðarsviði.
e. að velferðarsvið Reykjavíkurborgar óski eftir því við Félagsbústaði að fjárfest verði í sjö tveggja herbergja íbúðum sem uppfylli lög nr. 38/2018 og reglugerð nr. 370/2016. Ein af sjö íbúðunum yrði notuð sem þjónustuíbúð/starfsmannaíbúð. Um yrði að ræða kjarna með 6 dreifðum íbúðum sem koma inn í heildarmagn íbúða sem velferðarsvið hefur til ráðstöfunar í þjónustu við fatlað fólk í stað þeirra sem nú fara út. Fjárhagsáætlun ársins 2021 fyrir Ránargötu 12 gerir ráð fyrir 68 m.kr. útgjöldum og verður það fjármagn nýtt í rekstur hins nýja kjarna.
Enginn fyrirséður kostnaðarauki fylgir þessari aðgerð en ætlunin er að nýta það fjármagn sem áætlað er til þessa rekstrar til að halda uppi óskertri þjónustu. VEL2021050012.Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir samþykkja tillöguna enda í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir að bjóða fötluðu fólki varanlega búsetukosti sem uppfylla núgildandi lög og reglugerðir.
Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks, Gunnsteinn R. Ómarsson, teymisstjóri húsnæðismála og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á hugmyndafræði sem starfað er eftir á hjúkrunarheimilum Reykjavíkurborgar. VEL2021050013.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á hugmyndafræði hjúkrunarheimilisins Droplaugastaða. Droplaugarstaðir hafa lagt sig fram við að vinna að þeirri hugmyndafræði sem sett er fram í kröfulýsingu ríkisins vegna reksturs hjúkrunarheimila um að hjúkrunarheimili sé fyrst og fremst heimili íbúa en ekki stofnun. Droplaugastaðir er fyrsta og eina gæðavottaða hjúkrunarheimilið á Íslandi og lýsa fulltrúarnir yfir sérstakri ánægju með þá vinnu. Slík gæðavottun myndar góðan grundvöll til að vinna áfram að því að þróa hugmyndafræði í starfsemi hjúkrunarheimilisins. Mikilvægt er að slík hugmyndafræði styðji við stefnu heimilisins og sé þróuð og valin af starfsfólki í samráði við íbúa. Hægt er að líta til fjölmargra stefna s.s. „lev og bo“ og Eden í því samhengi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Kynning er á starfsemi Droplaugarstaða í tengslum við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræðinni en henni var vísað úr borgarstjórn í velferðarráð. Hugmyndafræðin á Droplaugarstöðum er að sjálfsögðu sú að þetta sé heimili enda er þetta heimili fólksins sem þarna er. Heimilið er ISO vottað. Þróunin hefur verið góð og því ber að fagna. Margir þættir minna vissulega á Eden hugmyndafræðina en nær því þó ekki í megin áherslum. Tengingin við lífríkið er m.a. kjarninn í Eden hugmyndafræðinni t.d. að þeir sem vilja hafi gæludýrin sín hjá sér eins og kostur er og vissulega væri hvert tilfelli metið fyrir sig. Eins er það tengingin við ræktun plantna og matjurta sem kannski er ekki alveg á sama stigi og á Eden heimilum. Gæludýr, páfagaukar eru í almenningi og er það frábært og því er fagnað að hundar eru velkomnir á Droplaugarstaði. Fram kemur að heimilisfólk hafi ekki viljað hænur í garðinn. En af hverju eru Droplaugastaðir ekki bara rekið með Eden hugmyndafræðinni að leiðarljósi? Spurning er hvort og þá hvað standi í vegi fyrir því, hvort ekki sé um það sátt? Það er vissulega mikilvægt að um hugmyndafræði hjúkrunarheimila ríki sátt heimilisfólks og starfsmanna.
Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 23. apríl 2021, varðandi svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 20. apríl 2021:
Samkvæmt kröfulýsingu fyrir hjúkrunar- og dvalarrými eiga heimilin að hafa hugmyndafræðilegar forsendur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að þau tvö hjúkrunarheimili sem borgin rekur verði rekin með Eden-hugmyndafræðina að leiðarljósi og samþykki einnig að hvetja hjúkrunarheimili í Reykjavík sem eru sjálfseignarstofnanir til að taka upp hugmyndafræðina hafi þau ekki gert það. Nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili á landinu eru rekin sem Eden-heimili, t.d. Ás í Hveragerði og dvalar- og hjúkrunarheimilið á Akureyri. Eden-hugmyndafræðin snýst um að fólk haldi sjálfræði sínu og reisn þó flutt sé á hjúkrunarheimili og að heimilisfólk taki sjálfstæðar ákvarðanir um daglegt líf sitt. Líklegt þykir að á hjúkrunarheimilum í dag sé reynt að stuðla að því að fólk haldi sjálfstæði sínu en hugmyndafræði Eden gengur lengra og þá sérstaklega í áherslu sinni á lifandi umhverfi. Sérstök áhersla er lögð á samneyti kynslóðanna. Einnig er áhersla á að hver íbúi hafi eigin húsgögn/eigur, rík samskipti við yngri kynslóðina, nálægð við líffræðilegan fjölbreytileika/ræktun plantna og grænmetis auk þess sem íbúar hafa heimild til að halda gæludýr. Samneyti dýra og manna umbreytir hjúkrunarheimili í fjölbreytilegt og líflegt heimili. Að halda gæludýr dregur úr streitu, einmanaleika og þunglyndi og eykur gleði og samskiptahæfni meðal aldraðra. VEL2021050006.
Greinargerð fylgdi tillögunni.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Velferðarráð samþykkir að hvetja hjúkrunarheimili á vegum borgarinnar til að til að skoða að starfa eftir Eden hugmyndafræði eða annarri svipaðri hugmyndafræði í samvinnu við starfsfólk og íbúa.
Breytingartillagan er samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka borgarfulltrúa Flokks fólksins fyrir góða tillögu. Eden hugmyndafræðin er áhugaverð og byggir á fjölbreytileika til að auðga daglegt líf hvers íbúa á hjúkrunarheimilum. Ákvörðun um að innleiða hugmyndafræði þarf alltaf að taka af stjórnendum í nánu samráði við starfsfólk og íbúa hjúkrunarheimila.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur samþykkt að gerð verði smávægileg breyting á tillögu Flokks fólksins um að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræði sem vísað var úr borgarstjórn í velferðarráð. Breytingatillagan hljómar þannig að velferðarráð samþykkir að hvetja hjúkrunarheimili á vegum borgarinnar til að skoða að starfa eftir Eden hugmyndafræði eða annarri svipaðri hugmyndafræði í samvinnu við starfsfólk og íbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að velferðarráð sendi út hvatningu sem þessa ef hún getur orðið til þess að fleiri hjúkrunarheimili skoði Eden sem er einstök að því leiti að hún hefur ríka tengingu við lífríkið, samskipti við börn og gæludýr. Allmörg heimili vinna eftir Eden hugmyndafræðinni og hafa sum gert lengi við mikla ánægju heimilisfólks, aðstandenda og starfsfólks.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 19. maí 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins í tengslum við niðurstöður greiningar á stöðu aldraðra kvenna og karla í heimahjúkrun Reykjavíkurborgar og hjúkrunarrýmum ríkisins, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 20. janúar 2021. VEL2021010034.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn var að það segir í þessari greiningu nemenda að „vinnubrögð“ Reykjavíkurborgar varðandi kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og að óskandi sé að önnur sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðarfræði“. Ekki er ljóst um hvaða vinnubrögð og aðferðarfræði er verið að ræða en það segir „að vegna vinnubragða/aðferðarfræði eru kynjuð fjármál að bæta konum upp mismun“. Þetta er óljóst. „Konur lýsa meiri þörfum en karlar“ en samt eru þær metnar með minni þörf en karlar sem vísar mögulega til þess að verið sé að mismuna mati á þjónustuþörf eftir kynjum “. Af hverju skyldu konur sem lýsa meiri þörf metnar með minni þörf er ekki skýrt og heldur ekki hvernig það tengist vinnubrögðum og kynjuðum fjármálum eins og segir. „að vegna vinnubragða eru kynjuð fjármál að bæta þeim þennan mismun“. Ef horft er til staðreynda þá eru konur fleiri en karlar, þær lifa lengur en karlar. Einnig er rétt að það hefur hallað á konur í samfélaginu, lægri laun, lægri greiðslur ellilífeyris o.s.frv. Hvort það sé ástæða fyrir að þær lýsi meiri þörf skal ekki segja. Svörin sem hér eru lögð fram kalla eiginlega á enn frekari spurningar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er gagnreynt tæki sem notað er til þess að stuðla að auknu jafnrétti og betri nýtingu opinberra fjármuna. Til þess að þjónusta borgarinnar henti öllum íbúum til jafns og stuðli að jöfnum tækifærum er mikilvægt að greina áhrif opinbers fjármagns og verklags á alla íbúa. Markmiðið með innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg er að samþætta mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Markmiðið er að stuðla að réttlátri dreifingu fjármuna og gæða með tilliti til mismunandi þarfa borgarbúa.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
-
Lagt er til að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti sem varamaður í áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Alexöndru Briem.
Samþykkt.
- kl. 15:51 víkja Heiða Björg Hilmisdóttir og Egill Þór Jónsson af fundinum.
- kl. 16:05 víkur Ellen Jacqueline Calmon af fundinum.
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1905.pdf