Velferðarráð - Fundur nr. 399

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 21. apríl var haldinn 399. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:03 í Hofi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Egill Þór Jónsson tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. apríl 2021, um kjör fulltrúa í velferðarráð á fundi borgarráðs þann 20. apríl 2021, þar sem samþykkt var að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti í velferðarráði í stað Rögnu Sigurðardóttur. VEL2021040014.

  3. Fram fer kynning um innra árangurs- og gæðamat á velferðarsviði. VEL2021040007.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir greinargóða kynningu á innra árangurs- og gæðamati á velferðarsviði. Mikilvægt er að þjónusta sviðsins sé tekin út reglulega auk þess sem mikilvægt er að vinna núllpunktastöðu til að byggja aðgerðir og úrbætur á. Að lokum fagna fulltrúarnir reglulegum notendakönnunum meðal notenda þjónustu sviðsins. Mikilvægt er að nýta slíkar niðurstöður til þess að bæta þjónustu og þróa hana áfram til framtíðar. 

    Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri í teymi árangurs- og gæðamats, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, vettvangs- og ráðgjafarteymi, Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, teymi árangurs- og gæðamats og Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, sérfræðingur, teymi árangurs- og gæðamats taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  4. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 17. mars 2021, varðandi svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 16. mars 2021:

    Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarsviði að hefja vinnu og undirbúning úttektar á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík í samræmi við fyrri úttektir (2009, 2012, 2017). Með úttektinni verði hægt að leggja mat á framvindu þeirrar vinnu sem nú þegar hefur verið ráðist í af hálfu borgarinnar með það að markmiði að hægt sé að mæla árangur hennar í málaflokknum. Það verði gert til að ná betur utan um heimilislausa og tryggja þeim húsaskjól. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu: 

    Velferðarráð samþykkir að beina því til félagsmálaráðuneytis að komið verði á samræmdri skilgreiningu á heimilisleysi og fjölda og þörfum fólks sem er heimilislaust með miklar og flóknar þjónustuþarfir um allt land. Mikilvægt er að velferðarsvið haldi áfram að meta fjölda heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir í Reykjavík til að meta árangur af þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í í samræmi við aðgerðaáætlun og stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. VEL2021030019.

    Breytingartillagan er samþykkt. 
    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð samþykkir að beina því til samráðshóps ríkis og sveitarfélaga að gera könnun á fjölda og högum heimilislausra á Íslandi. Velferðarsvið mun áfram meta fjölda heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir í Reykjavík til að meta árangur af þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægi að kanna þetta með því að gera úttekt á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík. Þeir sem eru heimilislausir eru líklegri til að leita í neyð sinni skjóls í húsnæði sem er ekki mannabústaðir, ekki aðeins ósamþykkt húsnæði heldur jafnvel stórhættulegir íverustaðir vegna vöntunar á lágmarks brunaöryggi. Grípa þarf strax til aðgerða sem miða að því að finna þennan hóp og í kjölfarið að finna því húsnæði sem hægt er að kalla heimili sitt. Óttast er að hópur heimilislausra hafi stækkað með vaxandi fátækt í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Fyrir liggur skilgreining hjá Reykjavíkurborg um hvað telst vera heimilislaus, svo það ætti ekki að flækjast fyrir að gera úttekt sem þessa í borginni. Að ætla að gera þetta á landsvísu í samstarfi við ríkið er stærra og flóknara mál og mun taka margfalt meiri tíma. Byrja þarf á að samræma skilgreiningar og gæti það verið býsna flókið og langsótt. Borgin er einstök vegna stærðar og erfitt að ætla að setja „heimilisleysi“ t.d. á Raufarhöfn í samhengi við „heimilisleysi“ í borginni. Auðvitað væri best að gera hvorutveggja, gera bæði úttekt í Reykjavík sérstaklega og á landsvísu.

     Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri í teymi árangurs- og gæðamats, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, vettvangs- og ráðgjafarteymi, Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, teymi árangurs- og gæðamats og Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, sérfræðingur, teymi árangurs- og gæðamats taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 21. apríl 2021, um breytingar á reglum um forvarnasjóð Reykjavíkurborgar, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki breytingar á eftirfarandi ákvæðum í reglum um forvarnasjóð Reykjavíkurborgar sem samþykktar voru á fundi borgarráðs 28. apríl 2011, með síðari breytingum: 1. - 4. gr., 7. – 8. gr. og 10. gr. 
    Enginn kostnaður er samfara tillögunni. VEL2021030024.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs og Stefanía Sörheller, verkefnastjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 21. apríl 2021, og fram fer kynning um stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum eldri borgara. VEL2020120095.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna ýmsum mikilvægum verkefnum sem komið hafa til framkvæmdar í aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum eldri borgara. Skiljanlega hefur innleiðing sumra verkefna tafist vegna COVID-19 en mikilvægt er að halda áfram innleiðingu um leið og staða faraldursins leyfir. Ráðist var í að hringja í eldra fólk í samvinnu við Félag eldri borgara til að kanna aðstæður fólks í fyrstu bylgju faraldursins. Fjölmörg verkefni hafa komið til framkvæmdar svo sem upplýsingar um frístundir eldra fólks á vefnum auk þess sem gönguhópar eru nú starfandi á öllum félagsmiðstöðvum. Notast er við næringarviðmið fyrir eldri borgara í framreiðslueldhúsum borgarinnar og næringarinnihald máltíða er nú aðgengilegt á heimasíðu borgarinnar. Í nýjum samningi Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands um heimahjúkrun er að finna bókun um að á samningstíma skuli sérstaklega samið um stofnun sérstaks teymis fyrir heilabilaða. Telja fulltrúarnir mikilvægt að fylgja þeirri bókun vel eftir þannig að hægt sé að veita sérhæfða aðstoð vegna heilabilunar svo fólk geti búið lengur heima.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af Reykvíkingum sem eru 90 ára og eldri sem eru án heimaþjónustu nú þegar kórónuveirufaraldurinn hefur geisað í meira en ár. Þessi hópur er lang líklegastur til að vera ekki nettengdur og eina leiðin til að ná til þeirra er í gegnum síma eða með heimsóknum. Til stóð að heimsækja þennan hóp, meta þarfir þeirra og átti að ráða sérstakan starfsmann í verkefnið. Ekki hefur verið fjárheimild til þess. Athuga ber að það eiga ekki allir aðstandendur. Í dvala hjá sviðinu hefur „Gróðurhúsið“ legið en það „concept“ kostar milljónir ef ekki milljarða, verkefni á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem rekin hefur verið sérstök skrifstofa í kringum í þrjú ár. Gróðurhús eða teymi þar sem starfsmenn fara í sjálfsskoðun í tengslum við starf sitt þarf ekki að kosta neitt enda segir í lýsingunni að þetta sé bara „einhver prósess, eitthvað ferli sem leiðir þig eitthvert og útkoman sjálf skiptir þannig séð ekki höfuðmáli.“ Nú væri lag að kanna hvort ekki er hægt að sækja s.s. einn milljarð til þjónustu- nýsköpunarsviðs sem fara á í Gróðurhúsið og nota hann frekar til að ráða starfsmann sem getur heimsótt og hringt í eldri borgara yfir 90 ára.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu öldrunarmála, tekur sæti undir á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar 2021, um að kanna leiðir til að útvista til einkaaðila þjónustu velferðarsviðs. VEL2021010032.
    Felld með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna Sósíalistaflokks Íslands, og Flokks fólksins gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru vonbrigði að það sé ekki pólitískur vilji til að kanna þann möguleika að útvista þjónustu með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. Það liggja tækifæri í því að auka hagkvæmni og fá atvinnulífið til að sjá um þjónustu við borgarbúa, sem dæmi væri hægt að skoða möguleika á samstarfi við einkaaðila er viðkemur líkamsrækt eldri borgara, matarþjónustu eða jafnvel starfshæfingu og vinnu fyrir fatlað fólk.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í meirihlutasáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur fram að meginreglan skuli vera sú að borgin sinni velferðarþjónustu en haldi áfram samvinnu við félög og hagsmunasamtök sem veita mikilvæga velferðarþjónustu samkvæmt samningum við borgina. Tillagan er því felld.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista leggst alfarið gegn þessari tillögu. Mikilvægt er að byggja upp og efla þjónustu velferðarsviðs en ekki að markaðsvæða hana. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins efast um að auka útvistun verkefna sé af hinu góða. Þegar hart árar er oft gripið til útvistunar, til að redda málum. Útvistun getur verið frábær hugmynd en hræðileg framkvæmd. Gallar við útvistun eru fleiri en kostir. Venjulega er þetta dýrara dæmi þegar upp er staðið og yfirsýn tapast og minni stjórn verður á verkefnum. Þörf verður fyrir stíft eftirlit. Eftir að hafa útvistað hefur borgin fátt um hlutina að segja. Stundum er þjónusta hreinlega slæm og illa komið fram við fólk en yfirvöld máttlaus því þau eru búin að afsala sér ábyrgðinni á verkefninu og uppbyggð reynsla hefur tapast með útvistuninni. Enginn tekur að sér að reka fyrirtæki nema til að hagnast á því og því maka margir krókinn í gegnum rekstur og verkefni sem borgin útvistaði. Útvistun, eins og uppsagnir, er stundum merki þess að ekki er allt með felldu. Með hverri útvistun tapast sérþekking hjá borginni. Með útvistun missir borgin bæði yfirsýn og stjórnkerfið missir mátt. 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 4. febrúar 2021, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 21. apríl 2021, varðandi svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 2. febrúar 2021: 

    Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Kannanir sýna mikla notkun geðlyfja hjá öldruðum á Íslandi án þess að formleg geðgreining liggi fyrir. Ekki eru heldur skýr tengsl milli geðsjúkdómagreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa hjúkrunarheimila. Notkun geðlyfja er oft nauðsynleg. Ef marka má gögn eru eldri borgurum þó geðlyf án þess að greining liggi fyrir. Í Reykjavík eru engin skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði til fyrir fólk á hjúkrunarheimilum. Oft er geðlyfjameðferð eina meðferðarúrræðið sem eldri borgurum býðst. VEL2021020012.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að samþykkt yrði að stofna sálfélagslegt meðferðarúrræði (samtal) fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja. Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. Á fundi velferðarráðs er tillagan felld eins og allar aðrar tillögur frá Flokki fólksins sem vísað er úr borgarstjórn í velferðarráð. Rökin fyrir að fella þessa tillögu eru að ábyrgðin fyrir að sinna andlegri líðan eldri borgara liggi ekki hjá Reykjavíkurborg heldur hjá ríkinu. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að velferðarsvið getur ekki fríað sig allri ábyrgð með þessum hætti. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og er velferð þeirra á ábyrgð borgar og ríkis. Fulltrúi Flokks fólksins er heldur hvergi að segja í tillögunni að velferðarsvið eigi að hafa upplýsingar um geðgreiningar. Fæstir í þessum hópi eru með einhverjar sérstakar geðgreiningar enda er vanlíðan oft sprottin af breytingum á högum, einmanaleika og minnkandi færni. Á sama tíma og sagt er í umsögn að verkefnið sé ekki á ábyrgð velferðarráðs er viðurkennt að í þessum hópi eru einstaklingar sem hafa þörf fyrir sálfélagslega nálgun með skipulögðum hætti og að mikilvægt væri að þjónusta þennan hóp betur en gert er í dag.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rekstur hjúkrunarheimila, geðheilbrigðisþjónustu og heilsugæslu eru á ábyrgð ríkisins. Þó sinnir Reykjavíkurborg margvíslegri þjónustu og rekur tvö hjúkrunarheimili og sinnir heimahjúkrun skv. samningi við ríkið þar um. Aukin áhersla hefur verið lögð á sérhæfingu í þjónustu við eldri borgara og birtist það m.a. í nýgerðum samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur heimahjúkrunar. Mikilvægt er að efla þá þjónustu áfram t.d. með því að bæta við fagstéttum á borð við geðhjúkrunarfræðinga og öldrunarsálfræðinga. Slíkir samningar yrðu ávallt gerðir við sjúkratryggingar þar sem verkefnið er ekki á forræði Reykjavíkurborgar. Tillagan er því felld. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram erindisbréf starfshóps velferðarsviðs um viðræður um hjúkrunar- og búsetuúrræði með samþættri þjónustu fyrir heimilislaust fólk með hjúkrunarþarfir. VEL2020030027.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir fagna stofnun starfshóps velferðarsviðs um viðræður við ríkið um sérhæft hjúkrunar- og búsetuúrræði með samþættri þjónustu fyrir heimilislaust fólk með hjúkrunarþarfir. Hér er á ferðinni brýnt verkefni sem mikilvægt er að finna lausn á sem fyrst.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 21. apríl 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um heimaþjónustu og heimahjúkrun handa öllum eldri borgurum og biðlista, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. mars 2021. VEL2021030020.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. apríl 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um starf félagsmiðstöðva sem stuðlar að tengingu milli kynslóða, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 16. desember 2020. VEL2020120090.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu margar félagsmiðstöðvar eru með starf sem stuðlar að tengingu milli kynslóða, hvernig er því starfi háttað og í hverju felst það? Einnig var spurt um hvað margar félagsmiðstöðvar hafa skipulega samveru eldri borgara og barna, eldri borgara og hunda/gæludýra? Samkvæmt svari eru allar félagsmiðstöðvar að halda uppi starfi sem stuðlar að tengingu milli kynslóða með t.d. samverustundum með börnum á víðum grunni og í samstarfi við skólana og 11 félagsmiðstöðvar af 17 hafa reglubundið starf með gæludýrum. Í óformlegri könnun sem fulltrúi Flokks fólksins hefur gert undanfarin misseri um þessi atriði, með því að spyrja eldri borgara sem stunda félagsmiðstöðvar og aðstandendur hafa svör verið með allt öðru móti en segir í svari/umsögn. Ekki er oft kannast við ofangreint samneyti og það var einmitt ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins lagði fram þessar fyrirspurnir. Hér er ekki verið að saka neinn um ósannindi en stundum næst einfaldlega ekki að fylgja eftir stefnu/reglum að fullu leyti af ýmsum ástæðum. Skrásetja þyrfti þessar heimsóknir á heimasíðu félagsmiðstöðvanna til þess að hægt sé að skoða hvernig gengur að framfylgja reglum/stefnu. Enn eru 6 félagsmiðstöðvar sem ekki hafa boðið notendum upp á samneyti við dýr og er það miður.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Því ber að halda til haga að þegar meta á stöðu á félagslegu verkefni er mikilvægt að nota réttar aðferðir, í samræmi við viðurkenna aðferðafræði félagsvísindanna en óformlegar kannanir með úrtaki sem er sjálfvalið eða valið út frá nálægð eða þægindum, eða þeirra sem velja sig sérstaklega inn í slíka könnun, veitir ekki áreiðanlega innsýn í heildarstöðuna. Þó er mikilvægt að hlusta á reynslusögur þeirra sem hafa undan einhverju að kvarta, en á sama tíma þarf að passa að hafa í huga að slíkar upplifanir eru ekki nauðsynlega lýsandi fyrir heildina. Nema að vel athuguðu máli getur slík óformleg könnun gefið beinlínis misvísandi ímynd sem leiðir til rangrar ákvarðanatöku.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 21. apríl 2021, um breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki eftirfarandi breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum, sem samþykktar voru í borgarráði 12. nóvember 2020 með síðari breytingum: Að umsóknarfrestur verði framlengdur til 31. júlí 2021, að ekkert lágmarkstímabil iðkunar verði tilgreint í reglunum þannig að leikjanámskeið, sumarnámskeið og sumarbúðir falli undir skilyrði styrksins og að keppnis- og mótsgjöld falli einnig undir styrkinn. Breytingar eru gerðar á 1. – 4. gr. og 10. gr. af þessu tilefni. Kostnaður er að fullu fjármagnaður með framlagi ríkisins. VEL2020110008.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Samþykkt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Að þurfa að leggja út fyrir kostnaði til að fá styrkinn, getur verið stór hindrun fyrir margt tekjulágt fólk. Það eru ekki allir sem geta útvegað 45.000 krónur með auðveldum hætti og nauðsynlegt er fyrir ríkisstjórnina að taka það með í reikninginn. Þessi upphæð dugar skammt og þó það sé gaman að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi í einhvern tíma, þá geta það verið mikil vonbrigði að þurfa að hætta því vegna skorts á fjármagni og væntingastjórnun er eitthvað sem fátæk börn þekkja vel og forðast því stundum þátttöku í slíku starfi og foreldrar vilja ef til vill ekki valda börnum vonbrigðum með því að skrá barn í íþróttir sem það getur síðan ekki greitt fyrir næstu mánuðina. Við þurfum að tryggja samfélag þar sem ekkert barn er í slíkri stöðu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sambærilega tillögu ætti að leggja fram í sambandi við frístundakortið. Hér er fjármagn frá ríkinu en þegar kemur að fjármagni frá borginni þá gilda stífari reglur, svo stífar að mörg börn geti ekki notið góðs af frístundastyrknum. Það heldur engum rökum að ekki sé hægt að nota frístundakortið á leikjanámskeið, sumarnámskeið og sumarbúðir sem dæmi eins og hægt er að nota þennan styrk í. Frístundakortið átti einmitt að hafa þann tilgang að auka jöfnuð og styðja sérstaklega við börn á tekjulágum heimilum til að stunda íþróttir sem liður í forvörnum. Nýting á frístundakortinu mætti vera betri og ætti að vera nærri 100% ef allt væri eðlilegt en er aðeins tæplega 80% í þeim hverfum þar sem nýting er mest. Það er nánast þakkarvert að Reykjavíkurborg fékk ekki þetta fjármagn til að ráðstafa að eigin vild því þá hefði þetta farið í sama stífa reglupakkann og frístundakrotið, að námskeið þurfi að vera ákveðnar margar vikur til að hægt sé að nýta kortið og að í stað þess að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða gjöld frístundaheimilis er þeim bent á að þeir geti notað frístundakortið til að greiða gjaldið og þar með er réttur barnsins til Kortsins til að velja sér íþrótt/tómstund farinn fyrir bí.

    Fylgigögn

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2104.pdf