Velferðarráð - Fundur nr. 396

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 17. mars var haldinn 396. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:03 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Egill Þór Jónsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Fram fer kynning á drögum að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2021-2023 og fram fara umræður um aðgerðir gegn ofbeldi. VEL2021010042.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Drög að endurskoðaðri aðgerðaráætlun gegn ofbeldi eru metnaðarfull og mikilvæg því það skiptir miklu máli að öll starfsemi borgarinnar sé samhent í að vinna að forvörnum gegn ofbeldi og í viðbrögðum þegar það kemur upp.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2021-2023 er hvergi minnst á einelti. Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis. Spurt er hversu algengt ofbeldi er í rannsókn en þá er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti þannig að sú tala sem niðurstöður sýna getur varla birt þann raunveruleika sem við búum við. Huga þarf að aðgerðum gegn einelti eins og öðru ofbeldi enda er það skráð að framtíðarsýn Reykjavíkurborgar er að vinna gegn einelti, áreitni og ofbeldi á öllum sviðum og vinnustöðum borgarinnar. Þolendur og gerendur eineltis finnast í öllum hópum óháð aldri, stöðu eða stétt. Einelti eða samskiptamynstur sem getur leitt til eineltis eða útilokunar má rekja allt niður í leikskóla og fyrirfinnst einnig á hjúkrunarheimilum og dagdvöl eldri borgara. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í skóla- og frístundaráði um að kannað verði verklag og viðbrögð í skólum og frístund komi tilkynning/kvörtun um einelti og það sé kannað sérstaklega hvort viðbragðsáætlanir séu samræmdar. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis gagnvart forvörnum, viðbragðsáætlun og úrvinnslu.

    Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum og verkefnisstjóri Saman gegn ofbeldi, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri og Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  3. Fram fer kynning um neyslurými á vegum Rauða krossins og Frú Ragnheiðar. VEL2020100038.

    Marín Þórsdóttir, forstöðumaður Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, Elísabet Brynjarsdóttir, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, Vettvangs- og ráðgjafarteymi, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, dags. 17. mars 2021, um neyslurými:

    Lagt er til að velferðarsviði verði falið að stofna til viðræðna við Rauða krossinn í Reykjavík um tímabundna nýtingu á bíl Frú Ragnheiðar sem neyslurými til bráðabirgða og hefja undirbúning umsóknar til Landlæknisembættisins bæði varðandi þann rekstur og rekstur neyslurýma fyrir notendur þjónustu í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar. Áætlaður kostnaður vegna samningsins við Rauða krossinn greiðist af framlagi ríkisins til verkefnisins. Ennfremur verði greiðsluþátttaka ríkisins könnuð í tengslum við uppsetningu neyslurýma í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar. VEL2020100038.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð telur mikilvægt að leitað sé tímabundinna lausna meðan unnið er að framtíðarfyrirkomulagi neyslurýma. Um brýnt heilbrigðis- og velferðarmál er að ræða en rannsóknir sýna að örugg neyslurými draga úr dauðsföllum og alvarlegum atvikum hjá þeim einstaklingum sem nota vímuefni um æð. Örugg neyslurými samrýmast stefnu Reykjavíkurborgar um skaðaminnkandi nálgun í þjónustu fólks með fjölþættan vanda. Auk þess er mikilvægt að kanna aðkomu ríkisins að uppsetningu öruggra neyslurýma í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að farsæl lausn finnist í málinu þannig að hægt sé að tryggja mikilvæga skaðaminnkandi þjónustu, notendum og samfélaginu öllu til hagsbóta.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, og Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri, Vettvangs- og ráðgjafarteymi taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  5. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar 2021, um að kanna leiðir til að útvista til einkaaðila þjónustu velferðarsviðs. VEL2021010032.
    Frestað.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs 3. febrúar 2021, um aðgerðir til að finna öruggt húsnæði fyrir þá sem búa í ósamþykktu húsnæði. VEL2021020009.
    Samþykkt að vísa til borgarráðs. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans taka undir að það er alvarlegt mál hve margir búa í ósamþykktu og jafnvel heilsuspillandi húsnæði. Þegar hefur því verið beint til borgarstjóra að hafa forgöngu um úttekt á umfangi þess vanda í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. En við situr að öflugasta úrræði Reykjavíkurborgar til þess að sporna við þessum vanda er að fjölga íbúðum í borginni, en þegar er róið að því öllum árum og mikil uppbygging hefur verið síðustu ár og er áfram áformuð á næstu árum. Einnig stendur yfir mikil fjölgun íbúða félagsbústaða og áhersla er lögð á fjölgun íbúða á vegum óhagnaðardrifinna félaga.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar 2021, um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar. VEL2021010033.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans taka undir þessa tillögu. Það er mikilvægt að fólk sé vel upplýst um þá þjónustu og þau úrræði sem eru í boði, annars nýtast þau ekki þeim sem þeim er ætlað að hjálpa. Þessi tillaga er samþykkt og vísað til velferðarsviðs til útfærslu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Flokks fólksins um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt. Það er ánægjulegt enda dæmi um að ekki allir vita að það er hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Fram kom hjálögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að ein af ástæðum þess að ekki fleiri sæki um er að fólk vissi hugsanlega ekki af þessum möguleika.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. febrúar 2020, um árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 17. mars 2021. VEL2020020018.
    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fulltrúa Flokks fólksins fyrir góða tillögu. Ljóst er að kostnaður við tillöguna rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar 2021, en tillaga sama efnis var felld í borgarstjórn í tengslum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2021. Tillagan er því felld þar sem fjármagn rúmast ekki innan fjárhagsramma velferðarsviðs.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sú tillaga sem nú kemur til afgreiðslu er árs gömul. Lagt er til að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð. Tillagan hefur verið felld. Tímalínan í meðferð málsins hjá sviðinu er sérkennileg. Umsögn við tillöguna kemur frá Strætó 3. des. 2020, meira en hálfu ári eftir framlagningu tillögunnar. Sama tillaga er lögð fram af Sósíalistaflokki Íslands í des. 2020 og var hún felld. Nú í mars kemur loks til afgreiðslu hinnar árs gömlu tillögu Flokks fólksins. Hvað sem því líður er hér um réttlætismál að ræða. Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó og því gilda ólíkar verðskrár. Margir notendur gætu notað strætó við ákveðnar aðstæður. Sameina ætti kerfin eins og hægt er. Mismunun felst í að greiða þarf fyrir hverja ferð á meðan notendur strætó geta keypt afsláttarkort. 
        
    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista styður þessa tillögu heilshugar. Það myndi kosta Reykjavíkurborg um 35 milljónir á ári að bjóða notendum akstursþjónustu fatlaðs fólks upp á það að kaupa árskort. Fulltrúi sósíalista telur að slíkt eigi að vera í boði líkt og á við hjá Strætó bs. þar sem hægt er að kaupa afsláttarkort. Samkvæmt svarbréfi frá því í október 2020 voru um 213 einstaklingar í Reykjavík sem greiddu meira en 100.000 krónur á ári í akstursþjónustu fatlaðs fólks og því um gríðarlegan kostnað að ræða fyrir notendur.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 12. desember 2018, um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 17. mars 2021. VEL2018120006.
    Frestað.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. febrúar 2021, um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi – notkun fjarfundabúnaðar ofl. VEL2021020017.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 17. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar, um fjölda umsækjenda um sérstakan húsnæðisstuðning. VEL2021010035.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Svo virðist sem það sé eðlileg skýring á þessari fækkun um 1000 manns frá október til desember 2020 sbr. það sem fram kemur í svari og að október skeri sig úr vegna þess að þá voru greiddar út leiðréttingar. Skiljanlega getur verið erfitt að meta til fulls hversu margir af þeim sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi hafi sótt um hann þar sem félagslegar aðstæður eru einnig metnar. Áhyggjur fulltrúa Flokks fólksins eru að þeir sem eiga þennan rétt viti ekki um hann og sæki þar af leiðandi ekki um. Segir í svari að líklegt sé að flestir þeir sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður hafi leitað aðstoðar félagsþjónustu og séu á lista þeirra sem fá greiddan sérstakan húsnæðisstuðning. En það er einmitt þetta „líklega“ sem fulltrúa Flokks fólksins finnst óþægilegt. Hér er um ákveðna óvissu að ræða. Velferðarsvið þarf að vera með þetta meira á hreinu. Vont er til þessa að vita ef fólk veit ekki um réttindi sín, fólk sem er e.t.v. að berjast í bökkum.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:34

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1703.pdf