Velferðarráð - Fundur nr. 393

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 17. febrúar var haldinn 393. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Hofi, Borgartúni 12-14. Berglind Eyjólfsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson og Kolbrún Baldursdóttir tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Fram fara kynningar um stöðu geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna kórónuveiru. VEL202011003.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í lýðheilsuvakt Embættis landlæknis kemur fram að hlutfall þeirra sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða lækkar úr 76% í 72% milli 2019 og 2020. Áberandi munur er á aldurshópum en aðeins helmingur 18-24 ára meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Í þeim hópi mælist einnig mestur einmanaleiki og mun færri í yngsta hópnum telja sig hamingjusama en í elsta hópnum. Þá er kynjamunur áberandi, sérstaklega í yngsta aldurshópnum og greina mun fleiri konur þar en karlar frá daglegri streitu. Þetta rímar við mælingar á líðan grunnskólanema á unglingastigi sem gefa til kynna að stúlkum líður verr og upplifa sig undir miklu álagi. Velferðarráð telur mikilvægt að koma til móts við þá hópa þar sem líðan er verst, með stuðningi m.a. í skóla- og velferðarkerfinu og með virkniúrræðum. Þá telur ráðið mikilvægt að tryggja ungu fólki atvinnu næsta sumar eins og gert var sumarið 2020. Yfir helmingur atvinnulausra í Reykjavík er ungt fólk og við því þarf að bregðast. Þá hefur velferðarsvið lagt sig fram við að hafa þjónustu við eldra fólk sem mest opna til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og það virðist hafa skilað sér - en áfram verður staðan vöktuð.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Farið er yfir rannsóknarniðurstöður. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að skoða geðheilbrigðismál vegna kórónuveirufaraldursins. Rannsóknir sýna að líðan grunnskólabarna hefur farið versnandi eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Fleiri eru einmana og áhyggjufull. Nú er mikilvægt að tryggja að þau fái tækifæri til að ræða sína vanlíðan. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sérstaklega áhyggjur af börnum sem þarfnast sértækrar þjónustu vegna fötlunar eða röskunar af einhverju tagi, einnig  börnum innflytjenda sem mörg eru einangruð og síðan þeim börnum sem voru í  vanlíðan fyrir faraldurinn en hafa ekki fengið lausn sinna mála.  Skólakerfinu hefur sem betur fer tekist að halda sjó að mestu á þessu krefjandi tímabili.  Þess vegna er mikilvægt að hlúð sé að skólum, starfsfólki og innviðum skólanna. Svarti bletturinn eru biðlistar til fagaðila skólanna. Úr þeim málum verður að fara að leysa. Reykjavík getur ekki verið þekkt fyrir að hunsa vanlíðan barna og láta þau dúsa á biðlista mánuðum saman. Annar viðkvæmur hópur eru eldri borgarar. Margt er gert fyrir þennan hóp en langt er í land með að þjónusta sé heildstæð. Umfram allt er nú að sýna hvernig gögnin eru notuð og hvaða árangur hlýst þar af.

    Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, sérfræðingur á skóla- og frístundasviði, Gerður Sveinsdóttir, sérfræðingur á íþrótta- og tómstundasviði, Auður Ásgrímsdóttir, verkefnastjóri á íþrótta- og tómstundasviði, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri Keðjunnar, Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri og Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri,  taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    -    kl. 13:34 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum. 
    -    kl. 14:45 víkur Berglind Eyjólfsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 17. febrúar 2021, um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 17. febrúar 2021, og fylgiskjölum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 17. nóvember 2010 og á fundi borgarráðs þann 25. nóvember 2010, með áorðnum breytingum. Heildarkostnaðarauki vegna breytinga á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð nemur 67.072.697 kr. á ári. Þá er einnig gert ráð fyrir að einskiptis kostnaður við hugbúnaðarbreytingar verði á bilinu 6-7,5 m.kr. VEL2020040020.
    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Þóra Kemp, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu á velferðarsviði, Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu velferðarsviðs, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, Ásta Dís Guðjónsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp á Íslandi, Vilborg Oddsdóttir, umsjónarmaður innanlandsstarfs hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og Marín Þórsdóttir, forstöðumaður Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi – notkun fjarfundabúnaðar ofl. VEL2021020017.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 17. febrúar 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um leiðir til að mæta þörfum eldri borgara fyrir hár- og hand/fótsnyrtingar. VEL2020110019. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um leiðir til að mæta þörfum eldri borgara og öryrkja fyrir hár,  hand- og fótsnyrtingu. Fram kom í svari að rekstraraðilar eiga að sjá um að þessi þjónusta standi til boða.  Þær spurningar sem er ekki svarað hins vegar er hvernig er valið á þjónustuveitendum háttað, fyrir utan að fram kemur að horft sé til reynslu. Hvernig er umsóknarferlið og hver ber ábyrgð á þjónustunni og annast eftirlit með henni? Kemur velferðarsvið eitthvað þar að og ef svo er, að hvað miklu leyti? Þetta eru veigamiklar spurningar og svörin gætu varpað ljósi á hvort misræmi sé milli þjónustunnar eftir stöðum. Nauðsynlegt er að hafa eftirlit með þjónustunni og einhver þarf að bera skýra ábyrgð á henni. Þjónustuþegar þurfa að vita hver ber ábyrgðina.  Huga þarf að fagmennsku enda hér um lýðheilsumál að ræða. Regluleg þjónusta sem þessi getur hindrað að vandamál vindi upp á sig því hand- og  fótsnyrting er ekki aðeins að klippa neglur. Hafa ber í huga að það eiga ekki allir heimangengt til að sækja sér þessa þjónustu út í bæ t.d. vegna slappleika eða fötlunar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Ekki er gerð krafa um það í lögum eða reglugerðum að hársnyrtistofur og fótaaðgerðastofur séu í boði á starfsstöðvum velferðarsviðs á borð við dagdvalir og félagsmiðstöðvar. Rík hefð hefur þó skapast fyrir því og slík þjónusta er í boði á öllum 17 félagsmiðstöðvum borgarinnar, ýmist hársnyrting, fótsnyrting eða bæði. Val á aðilum fer fram á hverjum stað fyrir sig enda ekki um eftirlitsskylda starfsemi að ræða en þó eru bæði starfsheitin lögvernduð og því fólk sem hefur til þess tilskilin leyfi sem veitir slíka þjónustu inn á starfsstöðvum velferðarsviðs.

    Fylgigögn

  6. Fulltrúi flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Huga þarf að samræmingu, gæðum og góðu samstarfi á milli þeirra sem sjá um málaflokkinn. Það þarf að vera skýrt hverjir bera ábyrgð á þessari þjónustu þannig að ef upp koma vandamál henni tengdri, hvert á þjónustuþeginn að leita. 1. Í framhaldi af svari við fyrirspurnum um hár,- hand- og fótsnyrtingu fyrir eldri borgara sem búa heima og í þjónustu- og félagslegu húsnæði Reykjavíkurborgar sem ætlað er eldri borgurum og öryrkjum óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hver innan þjónustueininganna hefur yfirumsjón með þessum þjónustuþáttum og ber aðalábyrgðina. 2. Hvert eiga þeir að leita/snúa sér sem hafa áhuga á að bjóða fram þjónustu sína og gera leigusamning við Reykjavíkurborg? 3. Ber velferðarsvið einhverja ábyrgð á þessum þjónustuþætti þ.e. hvort hún sé t.d.  byggð á faglegum grunni? 4. Ef upp koma einhverjir misbrestir með þjónustuna, hvert eiga þjónustuþegar þá að leita? 5. Einnig er spurt, stendur eitthvað húsnæði, undir slíka þjónustu sem hér um ræðir, autt? Ef svo er hvað eru þau mörg og hver er ástæða þess að þau standa auð? 

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_1702.pdf