Velferðarráð - Fundur nr. 390

Velferðarráð

Ár 2021, miðvikudagur 20. janúar var haldinn 390. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Hofi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson og Kolbrún Baldursdóttir tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. janúar 2021, um hækkun á tekju- og eignaviðmiðum sérstaks húsnæðisstuðnings:

     

    Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar, frá 1. janúar 2021, á neðangreindum fjárhæðum sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:

     

     

    Fjöldi heimilis-manna

    Neðri tekju-mörk á ári

    Efri tekju-mörk á ári

    Neðri tekju-mörk á mánuði

    Efri tekju-mörk á mánuði

     

    1                 4.165.730                      5.207.163          347.144                    433.931

    2                 5.509.514                      6.886.893          459.126                    573.908

    3                 6.450.163                      8.062.704          537.514                    671.892

    4 eða fleiri  6.987.676                      8.734.595          582.307                    727.883

    Einnig er lögð til breyting á 3. gr. 6. lið um að samanlagðar eignir umsækjanda og annarra heimilismanna 18 ára og eldri nemi ekki hærri fjárhæð en 6.186.000 kr. í lok næstliðins árs.

     

    Hækkanir eru til samræmis tekju- og eignaviðmiðum í leiðbeiningum frá Félagsmálaráðuneyti til sveitarfélaga um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings. Samkvæmt tillögu hækka tekjumörk  um 3,6% og eignamörk um 7,23% á milli ára. VEL2021010018.

     

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Samþykkt.

     

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

     

    Velferðarráð samþykkir nú hækkun á tekju og eignaviðmiðum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til samræmis við tekju og eignaviðmið í leiðbeiningum frá félagsmálaráðuneyti til sveitarfélaga um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings. Breytingarnar gilda frá 1. janúar 2021.

     

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Hér er verið að hækka fjárhæð tekju- og eignaviðmiða vegna sérstaks húsnæðisstuðnings. Viðmiðunarmörk hækka til samræmis við hækkun á framfærsluviðmiði almannatrygginga um 3,6%. Eignamörk hækka um 7,23%. Fulltrúi Sósíalistaflokksins minnir á tillögur sósíalista um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs og breytingar á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings. Þar var lagt til að reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning yrði breytt þannig að stuðningurinn byrji ekki að skerðast nema þegar húsnæðiskostnaður er undir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Hátt leiguverð er að sliga marga hér í borginni og því er nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti borgin getur komið með frekari hætti til móts við þarfir borgarbúa sem eru margir í gríðarlega erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði.

     

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Þessi hækkun minnkar aðeins líkur á skerðingum sem er gott.  Tekjumörkin eru hækkuð um 3,6%. Fleiri aðgerða er þörf til að koma til móts við neyð fátæks fólks, ekki síst vegna COVID. Búið er að klípa af þessu fólki nóg. Eignamörkin eru hækkuð um ríflega 7%. Réttast væri að hækka tekjumörkin um sömu prósentu. Hér er aðeins verið að fylgja lágmarkinu, þ.e. tekju- og eignamörkin eru í lágmarki miðað við leiðbeiningar ráðuneytisins. Er ekki tilefni til að gera aðeins meira en lágmarksbreytingar í ljósi efnahagsástandsins? Í desember lagði Flokkur fólksins fram tillögu um bráðabirgðaákvæði í reglugerð um húsnæðisstuðning þess efnis að eingreiðslur vegna desemberuppbótar til örorku- og ellilífeyrisþega myndu ekki leiða til skerðinga. Margir fengu að upplifa afleiðingar slíkra skerðinga þegar lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2019. Þá fengu öryrkjar loksins nauðsynlega kjarabót. Sú kjarabót leiddi þá til víxlverkunar vegna reglna Reykjavíkurborgar sem leiddi til lækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi til þeirra. Það er nauðsynlegt að gera breytingar á reglugerðum borgarinnar til að tryggja að sértækar aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja leiði ekki til óvæntra skerðinga hjá fátæku fólki sem hefur ekkert fjárhagslegt svigrúm.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning um tillögu starfshóps velferðarráðs um styrkveitingar velferðarráðs úr borgarsjóði 2021 og lögð fram svohljóðandi tillaga starfshóps velferðarráðs, dags. 20. janúar 2021, um styrkveitingar velferðarráðs úr borgarsjóði fyrir árið 2021:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu starfshóps velferðarráðs um styrkveitingar velferðarsviðs úr borgarsjóði fyrir árið 2021. VEL2021010014.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Frestað.

  4. Lögð fram  að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. febrúar 2020 um endurskoðun á gjaldskrá ferðaþjónustu fatlaðra, ásamt umsögn frá Strætó, dags. 3. desember 2020.

    Frestað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þarf þá ekki að greiða fyrir hverja ferð. Árskort fyrir ferðaþjónustu fatlaðra gildi þá einnig til að ferðast með Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Tillögunni er frestað sem vísar vonandi á gott. Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó og því gilda ólíkar verðskrár. Vegna þess gildir árskort fyrir öryrkja aðeins í strætó en ekki fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sem þó er á vegum Strætó bs. Í svari kemur fram að stjórnin telji ekki tímabært að hægt sé að nota kort sem gildir sem greiðsla á milli þessara aðskildu verkefna. Akstursþjónusta fatlaðra er hugsuð sem ígildi almenningssamgangna og á að fylgja þjónustutíma og gjaldskrá Strætó. Margir notendur gætu notað strætó við ákveðnar aðstæður. Sameina ætti kerfin eins og hægt er. Mismunun felst í að greiða þarf fyrir hverja ferð á meðan notendur strætó geta keypt afsláttarkort. Ef notendur akstursþjónustunnar kjósa að taka strætó inn á milli verða þeir því í flestum tilfellum að kaupa sér staka miða á óhagstæðu verði. Því er mikilvægt að þeim bjóðist afsláttarkort sem gildi bæði fyrir aksturþjónustuna og í strætó.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 5. janúar 2021, varðandi erindi samtaka kvenna af erlendum uppruna W.O.M.E.N. vegna mismununar gagnvart konum af erlendum uppruna. VEL2021010003. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúarnir þakka fyrir bréfið og þær ábendingar sem þar er að finna. Það er skýr stefna Reykjavíkurborgar og velferðarráðs að borgin sjálf og hennar samstarfsaðilar starfi í samræmi við Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, og mismunun sem byggist á kyni, uppruna, trú, kynhneigð eða kynáttun er ekki viðsættanleg. Það er skýr afstaða fulltrúanna að samtök sem uppvís verða að mismunun af þeim toga munu ekki koma til greina við frekari styrkveitingar frá velferðarráði, a.m.k. ekki fyrr en sýnt hefur verið fram á með trúverðugum hætti að starfshættir þeirra hafi breyst til hins betra.

    -    Kolbrún Baldursdóttir víkur af fundi undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning um styttingu vinnuvikunnar og áhrif á velferðarsvið. VEL2021010020. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stytting vinnuvikunnar varð að raunveruleika í flestum kjarasamningum sem undirritaðir voru 2020 í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Meginmarkmið breytinganna er að auka sveigjanleika í starfi, bæta lífskjör og auðvelda samræmingu vinnu og einkalífs. Ljóst er að stytting vinnuvikunnar mun hafa talsverð áhrif á vaktavinnustaði þar sem þarf að ráða fleira starfsfólk og er áætlaður kostnaður velferðarsviðs vegna styttingu vinnuvikunnar rúmar 470 milljónir króna á árinu 2021.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu eins og meirihlutinn lagði hana upp. Það er ámælisvert að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem líklegt er að álag verði eitthvað meira á starfsfólk jafnvel þótt reynt verði að finna leiðir til að finna betri nýtingu á vinnutíma. Það er svolítið talað eins og nýting vinnutímans hafi ekki áður verið góð. Þó er vitað að mikið álag hefur verið á starfsfólkinu.  Þessi meirihluti hefur oft talað um að vilja ekki ofgera starfsfólki og því hefði verið eðlilegt að láta fylgja með verkefninu eitthvað fjármagn. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð. Flokkur fólksins hefur lagt til að áhrifin verði skoðuð áfram þótt tilraunaverkefnið hafi gengið vel. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en ekki var reiknað með að styttingin mætti ekki kosta neitt. Það er ekki hægt að stóla á og vonast til að foreldrar sæki börn sín fyrr enda er stytting á vinnuviku ekki alls staðar og þar sem hún er, er útfærslan ólík milli stétta og stofnana. 

    Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  7. Fram fer kynning á tilkynningarhnappi vegna barna í Reykjavík. VEL2020120093.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í kjölfar COVID-19 hefur komið í ljós að tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað og hafa aldrei verið fleiri en 2020. Um er að ræða aukningu tilkynninga þar sem börn eru beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili sínu. Af þessu hljótum við öll að hafa miklar áhyggjur. Börnin sjálf eru oft ekki að ræða um þessi erfiðu mál út á við. Barn í aðstæðum sem þessum verður að vita að það er leið út. Tilkynningarhnappur ætlaður þeim sérstaklega gæti skipt sköpum, „hnappur sem kallar á börnin“. Fulltrúa Flokks fólksins var sagt að slíkur hnappur, ætlaður börnum væri nú þegar á heimasíðu borgarinnar. Einhver áhöld eru víst um það. Alla vega er nú til fordæmi fyrir hnappi á heimasíðu annarra sveitarfélaga sem er fyrir börnin sjálf. Slíkur hnappur þarf auðvitað fyrst að vera til í Reykjavík áður en hægt er að byrja að kynna hann börnum. Í þeirri trú að slíkur hnappur væri til, hnappur sem kallar á börn sérstaklega, lagði fulltrúi Flokks fólksins það til að átak verði gert í að kynna hann börnum. Sú tillaga liggur fyrir þessum sama fundi og hefur verið vísað til Barnaverndarnefndar.

    Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. desember 2020 um átak í að kynna tilkynningarhnapp ætlaðan börnum í Reykjavík. VEL2020120093.

    Samþykkt að vísa til yfirstandandi vinnu hjá Barnavernd Reykjavíkur um endurskoðun uppsetningar tilkynningarhnappsins á heimasíðu borgarinnar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar,  Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir tillögu um að gera sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum í Reykjavík. Þar sem nú þegar er til slíkur hnappur á heimasíðu Reykjavíkurborgar er tillögunni vísað til yfirstandandi vinnu hjá Barnavernd Reykjavíkur um endurskoðun uppsetningar tilkynningarhnappsins á heimasíðu borgarinnar. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins um að átak verði gert í að auglýsa sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum ef þeim finnst eitthvað að hjá sér, heima hjá sér eða hjá vinum sínum hefur verið vísað til Barnaverndarnefndar. Tillagan var lögð fram í þeirri trú að slíkur hnappur væri nú þegar  á vef Reykjavíkurborgar en þyrfti betri og fjölbreyttari kynningu. Hvort slíkur hnappur er yfir höfuð í notkun hjá borginni leikur nú einhver vafi á samkvæmt kynningu frá Barnaverndarnefnd. Góð reynsla er af svona „barnahnappi“ á Akureyri. Tilkynningum um aukið ofbeldi gagnvart börnum hefur fjölgað með komu COVID-19. Fáein dæmi eru um að börn tilkynni sín eigin mál. Mikilvægt er að finna skýra leið  fyrir þau að tilkynna sín eigin mál. Börn verða að vita að það er leið út. Tilkynningahnappur sérhannaður fyrir börn gæti skipt þar sköpum. Sé slíkur hnappur ekki nú þegar á leið á vef borgarinnar þarf að drífa í því og í framhaldi kynna hann rækilega. Þess er vænst að þessi tillaga virki sem hvatning í því sambandi. Það er mikilvægt að hnappurinn sem ætlaður er fyrir börn til að tilkynna mál sín höfði til þeirra, viðmótið sé barnvinsamlegt, kalli á börnin ef svo má að orði komast og sé á nokkrum tungumálum.

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á nemendaverkefni um kynjaða fjárhagsáætlunargerð á velferðarsviði. VEL2021010021.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka góða yfirferð á rannsókn á stöðu aldraðra kvenna og karla í heimahjúkrun Reykjavíkurborgar og hjúkrunarheimila. Verkefnið er unnið út frá aðferðarfærði kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar, en hún er mikilvægt verkfæri í því verkefni að jafna stöðu einstaklinga af mismunandi kynjum. Gott er að sjá að Reykjavíkurborg er framarlega í þessum málaflokki á Íslandi en jafnframt ljóst að ekki er vanþörf á virku aðhaldi og stöðugu endurmati á stöðunni. Staða kynja er enn mjög ójöfn í samfélaginu og konur vinna t.a.m. ólaunaða vinnu í meiri mæli á heimili og við umönnun fjölskyldumeðlima. Einnig virðist mismunur á mati á þjónustuþörf aldraðra eftir kynjum. Mikilvægt er að halda einbeitingu við það að vinna markvisst að jafnrétti kynjanna og mun velferðarráð beita sér fyrir því áfram í ljósi þessara upplýsinga.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er vont til þess að vita að konur fái minni þjónustu en karlar eins og fram kemur í niðurstöðum greiningar nemendanna sem hér er lögð fram. Fram kemur að konur lýsi meiri þörfum en eru metnar með minni þörf en karlar. Þetta er kynslóð kvenna sem tilheyrir hópi aldraðra í dag sem upplifðu mikið vinnuálag í sínu lífi fyrir minni umbun en karlar eins og segir í skýrslunni. Í lokaorðum segir að vinnubrögð Reykjavíkurborgar og forsætisráðuneytis hvað varðar kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og segir að „óskandi sé að fleiri sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðafræði. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins staldra við og spyr hvað nákvæmlega taka á til fyrirmyndar? Hvernig eru kynjuð fjármál borgarinnar að bæta þennan mismun, í verki? Ekki bara að efnið sé til fyrirmyndar. Hér er spurt um aðgerðir en ekki orð á blaði, stefnur sem eru örugglega fínar. Er verið að bæta konum þennan mismun með fjárhagslegum hætti? Er meiri dreifing á fjármagni til kvenna en karla í þessu samhengi? Vissulega er áætlun og stefna til alls fyrst. Síðan koma framkvæmdir og aðgerðir. Fulltrúi Flokks fólksins vildi gjarnan sjá lista yfir aðgerðir,  áþreifanleg verkefni og fjárfestingar sem ætlaðar eru til að jafna rétt kynjanna.

    Jóhanna Lilja Ólafsdóttir, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    -    kl. 14:54 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundi og Berglind Eyjólfsdóttir tekur sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.

  10. Lagt fram erindi Rauða krossins vegna reksturs Vinjar. VEL2021010019. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar Reykjavíkurdeild Rauða krossins kærlega fyrir mikilvægt starf við rekstur Vinjar. Jafnframt er velferðarsviði falið að útfæra tillögur að þjónustu og stuðningi við þann hóp sem sækir Vin daglega í samráði við notendur, hagsmunaaðila og fagfólk

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð samþykkir að fela velferðarsviði að kanna hvaða möguleikar eru í boði að útvista þjónustu sviðsins til einkaaðila með það að markmiði að stytta biðlista, bæta þjónustu og auka hagkvæmni í rekstri Reykjavíkurborgar. Hugmyndin um að fé fylgi þjónustuþega gæti opnað á möguleika einkaframtaksins í þjónustu við borgarbúa með góðum árangri og bættri þjónustu. Sem dæmi væri hægt að skoða möguleika á samstarfi við einkaaðila er viðkemur líkamsrækt eldri borgara, matarþjónustu og stuðningsþjónustu við fatlað fólk svo eitthvað sé nefnt. Velferðarsvið myndi skila greinargerð um möguleika á verkefnum sem hægt væri að útvista, ekki seinna en 6 vikum eftir samþykkt tillögunnar.

    Frestað.

    -    kl. 15:39 víkur Egill Þór Jónsson af fundinum. 

  12. Lagðar fram tillögur Velferðarvaktarinnar til ríkis og sveitarfélaga í mótvægisaðgerðum vegna COVID-19. VEL2021010002 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir ábendingar Velferðarvaktarinnar í bréfi dagsettu 7. desember 2020. Mikilvægt er að vakta stöðuna vel og verja viðkvæma hópa fyrir afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins. Reykjavíkurborg hefur sett á fót sérstaka borgarvakt í kjölfar faraldursins til að vakta ýmsa þætti tengda velferð borgarbúa.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir allar tillögur Velferðarvaktarinnar.  Stóra spurningin er hvort velferðar- og skólayfirvöld ætla að taka mark á þessum tillögum en nú þegar hefur borgarstjórn hent út nokkrum þeirra með því að vísa frá eða fella. Ein af tillögum Velferðarvaktarinnar er að tryggja ókeypis skólamáltíðir. Skemmst er að minnast tillögu Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir, lögð fram í tvígang en sem var hafnað jafn oft. Eða tillaga um fjölgun sálfræðinga til að stytta biðlista skólabarna einnig lögð fram í tvígang en hafnað jafn oft. Meðal tillagna Velferðarvaktarinnar var að unnið verði að stefnumótun og aðgerðaáætlun gegn fátækt efnalítilla barnafjölskyldna, þ.e. afleiðingar faraldursins verði sem minnstar á börn og ungmenni. Staðreyndin er að fátækt fólk í borginni er stækkandi hópur. Flokkur fólksins tekur undir tillögur Velferðarvaktarinnar að bæta þurfi aðgengi fólks að upplýsingagjöf um réttindi þeirra í velferðarþjónustu en upplýsingagjöf er ábótavant eins og sjá má í nýföllnum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista eftir húsnæði og sem sagt hefur verið lengi að hann sé efstur á lista þótt ítrekað séu aðrir teknir fram fyrir hann.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram 9. stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. VEL2020080017.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lögð er fram enn ein stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. Þetta er fínasta skýrsla og ljóst er að margt gott er í gangi. Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá hvað stærsta sveitarfélagið, Reykjavík er rýrt í skýrslunni. „Reykjavík“ kemur aðeins fyrir einu sinn. Kannski væri nær að Reykjavík hefði sína eigin stöðuskýrslu um hvað hún hefur gert í uppbyggingarferli í kjölfar COVID -19 og hvað hún hefur ekki gert. Reykjavíkurborg hefur mætt veiruvandanum með margvíslegum hætti og ber því að fagna. Mótvægisaðgerðir hafa verið nokkrar og vissulega má deila um hvort sumar þeirra hefðu átt að ganga lengra. Það sem hún hefur ekki gert er að taka á biðlistavanda barna eftir þjónustu fagfólks í skólum. Sá listi bara lengist og er nú í sögulegu hámarki.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. janúar, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 25. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála. VEL2020110023. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kjarni málsins er þessi: fatlað fólk er á ábyrgð borgarinnar! Ábyrgð foreldra rennur út þegar barn verður fullorðið þ.e. 18 ára. Borgin biður foreldra ekki góðfúslega að taka að sér þjónustu við fatlaðan einstakling í sjálfboðavinnu. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að borgin lætur sem ábyrgðin sé foreldra, biðlistar séu lögmál og verið sé að gera stórkostleg góðverk þegar mál eru plástruð. Það er ekki ofsögum sagt að borgarmeirihlutinn til margra ára hefur brugðist ábyrgð sinni og skyldum gagnvart fötluðum. Umsækjendur bíða í mörg ár eftir húsnæði. Hér er um lögbundnar skyldur að ræða. Upplýsingagjöf er jafnframt ábótavant. Ef fólk er ekki sífellt að hringja og djöflast í þessu kerfi er ekkert að frétta. Umsækjendum hefur verið sagt að þeir séu efstir á lista en næsta sem fréttist er að þeir eru það ekki. Aðrir teknir fram yfir. Þessi leikur er leikinn ítrekað. Hvernig halda velferðaryfirvöld borgarinnar að svona skilaboð fari með fólk sem lifað hefur í óvissu um búsetu árum saman?

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. janúar, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 23. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um aukna næringu í máltíðum til eldri borgara. VEL2020110021.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig velferðarsvið er að bregðast við kröfu um aukna næringu til eldri borgara en margir hafa verið innilokaðir vegna COVID. Hvorki eru sendir næringardrykkir né fær fólk mikið val. Í svari kemur fram að óháður  aðili vinnur nú úr niðurstöðum á úttekt á næringarinnihaldi á heimsendum mat á velferðarsviði. Fulltrúi Flokks fólksins fékk upplýsingar hjá aðila sem býr heima að hann hafi ekki fengið neinn spurningalista þótt könnunin hafi verið í nóvember. Fá eldri borgarar í heimahúsi ekki að taka þátt? Það er nauðsynlegt að endurskoða næringargildið í mat ætluðum eldri borgurum. Mikið er um súpur, grauta og búðinga. Stundum má segja að það vanti natni við eldamennskuna eins og að krydda með lauk eða lárviðarlaufi.  Þessi kynslóð sem býr heima eða er á dvalarheimilum hefur alist upp við íslenskan heimilismat, ekki nýtísku mat, sem á rætur að rekja til vegan. Í gamla daga voru kartöflur undirstaða matar, en í dag er það óþarfi að hlaða matinn með kartöflum, eða öðrum kolvetnaríkum afurðum, allt of mikið kolvetni fyrir fólk sem hreyfir sig lítið sem ekkert, veldur uppþembu. Ítrekað er að sendur sé  næringardrykkur með matnum og að ávöxtur fylgi með.

    https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/naering/eldra-folk/

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 8. janúar 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs þann 2. desember um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum. VEL2020120007. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í svari Félagsbústaða kemur fram að öllum erindum sem berist frá leigjendum með óskum eða ábendingum um þörf á viðhaldi eru skráðar og þeim vísað beint til viðgerðarmanna eða þau rýnd áfram af viðhaldssviði. Í fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins er vísað í tvö tilvik en alls eru leigueiningar Félagsbústaða um 2.800 talsins. Ávallt er hægt að koma ábendingum einstaklinga áleiðis til Félagsbústaða. Samkvæmt ánægjukönnun meðal leigjenda Félagsbústaða frá 2019 kemur í ljós að 79% leigjenda eru ánægðir með Félagsbústaði sem leigusala.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum en nokkrir leigjendur hafi komið með ábendingar um að Félagsbústaðir hafi ekki brugðist við erindum um að loftræstitúður spúi ryki og viðhaldi á glugga sem ekki var hægt að loka vegna myglu og raka. Þá eru nefnd gjöld eins og húsgjald, þjónustugjald og greiðslugjald sem innheimt eru samhliða húsaleigu og spurt um hvaða gjöld sé um að ræða og hvort þau hækki jafnt og þétt. Í svari kemur fram að ábendingar séu rýndar áður en tekin er ákvörðun um viðhald. Heilt svið, eigna og viðhaldssvið vegur og metur  þörf á framkvæmd. Við lestur svars vaknar upp sú spurning hvort boðleiðir séu of langar og of flóknar. Ef litið er til gjalda sem innheimt eru þá kennir þar ýmissa grasa. Rukkað er fyrir allt mögulegt, ofan á leigu. Auk hússjóðsgjalda sem fela í sér þrifgjöld eru seðilgjöld. Svo eru einhver önnur gjöld  innheimt fyrir velferðarsvið, gjald fyrir svona „alls konar“ gjald sem Félagsbústaðir skila til velferðarsviðs. Dæmi um slíkt gjald fyrir t.d. hjón er 17.275 pr. mánuð. Svo er það öryggishnappur pr. mánuð 1.940, en varla þurfa allir slíkan hnapp? Þetta eru engar smá upphæðir þegar allt er tekið til.

    Fylgigögn

  17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum. Þetta er lagt til í ljósi þess að  einhverjir vita greinilega ekki að það sé hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning eða veigra sér við því af einhverjum ástæðum. Sveitarfélög bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður til þeirra sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Slíkur stuðningur er lögbundinn en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki sótt um. Fram hefur komið hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að önnur af tveimur skýringum á því af hverju fólk sem uppfyllir öll skilyrði er ekki að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning er að fólk viti ekki af þessum möguleika. Einnig hefur komið fram að fátækt fólk veigri sér við að sækja um kannski vegna skammar, að þurfa að leita eftir aðstoð hjá sveitarfélaginu. Á þessu þarf að finna lausn og er fræðsla og kynning fyrsta skrefið.

    Frestað.

  18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Í greiningu nemanda sem lögð er fram á fundi velferðarráðs kemur fram að konur lýsi meiri þörfum en eru metnar með minni þörf en karlar. Í lokaorðum segir að vinnubrögð Reykjavíkurborgar og forsætisráðuneytis hvað varðar kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og segir að „óskandi sé að fleiri sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðarfræði.  Hér vill fulltrúi Flokks fólksins staldra við og spyr hvað nákvæmlega taka á til fyrirmyndar? Hvernig eru kynjuð fjármál borgarinnar að bæta þennan mismun, í verki? Ekki bara að efnið sé til fyrirmyndar. Hér er spurt um aðgerðir en ekki orð á blaði, stefnur sem eru örugglega fínar. Er verið að bæta konum þennan mismun með fjárhagslegum hætti?  Er meiri dreifing á fjármagni til kvenna en karla í þessu samhengi? Vissulega er áætlun og stefna til alls fyrst. Síðan koma framkvæmdir og aðgerðir. Fulltrúi Flokks fólksins vildi gjarnan sjá lista yfir aðgerðir, áþreifanleg verkefni og fjárfestingar sem ætlaðar eru til að jafna rétt kynjanna.

  19. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Á vefsíðu lykiltalna velferðarsviðs má sjá að í október var fjöldi þeirra sem þáðu sérstakan húsnæðisstuðning 3.384 en í desember 2020 var hann 2.441. Hér munar um nærri 1000 manns. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um af hverju þessi gríðarlega fækkun hefur orðið á þeim sem fá sérstakan húsnæðisstuðning? Hversu margir af þeim sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi í Reykjavík hafa sótt um hann? Ef þær upplýsingar liggja ekki fyrir, er hægt að áætla hversu margir það eru sem kunna að eiga rétt á sérstökum húnsæðisstuðningi en hafa ekki sótt um?

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2001.pdf