Velferðarráð - Fundur nr. 385

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 21. október var haldinn 385. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Prestshúsi, Borgartúni 12-14. Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson og Kolbrún Baldursdóttir tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á aðgerðaáætlun stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mörg hundruð fjölskyldur búa við fátækt og þar á meðal eru mörg hundruð börn. Skýrslan er fín en koma þarf öllum tillögum í gagnið sem fyrst. Mjög líklegt er að þessi hópur fátækra stækki enn meir vegna aukins atvinnuleysis. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar mörgu sem þarna er og þá ekki hvað síst tillögu 3 í skýrslunni sem er tillaga Flokks fólksins um að  „Reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A né þjónustugreiðslum“. Þessi tillaga var lögð fram 1. okt. 2019 og var þá reyndar felld. En nú virðist hún ætla að verða að veruleika, sbr. aðgerðaráætlun um aðgerðir gegn sárafátækt. Það er með ólíkindum að í  reglum um fjárhagsaðstoð skuli það hafa verið sett sem skilyrði að það þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildargreiðslum skv. gr. 16. A eða þjónustugreiðslum og þannig er það búið að vera í langan tíma. Enn er langt í land að frístundakortið fái sinn upprunalega tilgang þ.e. að jafna stöðu barna til íþrótta- og tómstundastarfs. Tilraunaverkefni sem er í gangi, hækkun frístundastyrks á aðeins við um eitt hverfi borgarinnar.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi sósíalista sat í stýrihópnum og kom því að vinnslu þátta sem eru nefndir í skýrslunni og þakkar hópnum fyrir vinnuna en telur þó að Reykjavíkurborg og velferðarsvið- og ráð geti gengið miklu lengra í að móta aðgerðir til að sporna við sárafátækt hjá börnum og fjölskyldum þeirra, t.d. með því að hækka upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Þegar fjallað er um fátækt þarf að hlusta á raddir þeirra með reynsluna af því hvað þarf að bæta og í skýrslunni eru nefndir mikilvægir þættir sem snúa að því. Þetta eru þættir líkt og að hafa notendur með í mótun þjónustunnar, framkvæma reglulega þjónustukönnun á meðal notenda og að á grundvelli samstarfssamnings velferðarsviðs og EAPN verði lagðar fram tillögur um með hvaða hætti hægt er að ná fram sjónarmiðum barna sem eiga foreldra sem hafa þurft á fjárhagsaðstoð til framfærslu og/eða félagslegri aðstoð að halda til langs tíma. Þá er mikilvægt að fræða um birtingarmyndir og afleiðingar sárafátæktar á líðan og heilsu barna og fjölskyldna og fjallað er um slíkt í tillögum að aðgerðaráætlun í skýrslunni. Fátækt á ekki að vera til og við getum og eigum að vinna gegn því að slíkt þrífist hér. 

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um aukna fjárheimild til fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs:

    Lagt er til að fjárheimild fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs verði hækkuð um 655,3 m.kr. á árinu 2020.
    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil vinna hefur farið fram hjá Reykjavíkurborg sem viðbrögð við því ástandi sem COVID-19 hefur skapað á vinnumarkaði. Sérstakt atvinnuátak er í gangi til að skapa störf hjá borginni auk þess sem markvisst samstarf er í gangi við vinnumálastofnun um vinnumarkaðsúrræði. Einnig stendur yfir heildarendurskoðun á virkniúrræðum velferðarsviðs með skilvirkni og einstaklingsmiðaðri þjónustu við einstaklinga að leiðarljós.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að ein af ástæðum fjölgunar fólks eftir fjárhagsaðstoð eru áhrif Covid-19. Hins vegar er gagnrýnisvert að engin markviss stefna og afar fá úrræði eru hjá Reykjavíkurborg í að koma fólki af fjárhagsaðstoð. Kostnaður við fjárhagsaðstoð hleypur á milljörðum á sama tíma og einstaklingar sem þurfa á aðstoðinni að halda verða fyrir neikvæðum áhrifum atvinnuleysis og skorts á virkni. Hægt er að spara miklar fjárhæðir og auka lífsgæði einstaklinga með því að vinna markvissa vinnu í þessum efnum.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að fjárheimildir fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs verði hækkuð um 655.3 m.kr. árinu 2020. Þetta er mjög nauðsynlegt enda mun staðan eiga eftir að versna eða þar til  bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð velferðarsviðs eru einnig of ströng. Þau þarf að endurskoða og endurmeta í ljósi nýs veruleika. Velferðarsvið/ráð verður að taka á ástandinu fulla ábyrgð. Ljóst er að stefnt er í U sviðsmynd í fjárhagsaðstoðinni, slík er fjölgun atvinnulausra.  Hópur þeirra sem þarfnast aðstoðar nú hefur breyst samhliða auknu atvinnuleysi. Samsetning hópsins er allt önnur nú. Allir geta í raun fundið sig í þessum sporum nú á þessum sérkennilegu og erfiðu tímum. Ekkert skiptir máli meira að tryggja aðstæður fólks svo það geti haldið heilsu og þreki. Í langan tíma hefur þessi málaflokkur hvergi nær fengið næga athygli meirihlutans. Reglur um fjárhagsaðstoð hafa verið hlaðnar skilyrðum og almennt séð ekki verið nógu sveigjanlegar. Ástandið var slæmt fyrir COVID.

    Fylgigögn

  4. Tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs um húsnæði með þjónustu fyrir heimilislausar konur.
    Frestað.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um að gengið verði til samninga við Alanó samtökin um rekstur 12 spora húss, ásamt fylgigögnum: 

    Lagt er til að gengið verði til samninga við Alanó- um rekstur 12 spora húss. Áætlaður kostnaður er alls 16 m.kr. eða um 5 m.kr. á ári. Lagt er til að samningurinn gildi frá 1. nóvember 2020 fram til 31. desember 2023. Óskað er eftir 1 m.kr. fjárveitingu á árinu 2020 og 5 m.kr. á ári 2021 til 2023.

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um breytingu á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að eftirfarandi breyting verði gerð á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis, sem samþykkt var í borgarráði 24. ágúst 2017: Að íbúðakjarni í þjónustuflokki II fyrir geðfatlaða einstaklinga sem á að vera í Árskógum 5-7 og kemur til framkvæmda árið 2021, verði breytt í íbúðakjarna í þjónustuflokki II fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir.  Að íbúðakjarni í þjónustuflokki III fyrir geðfatlaða einstaklinga sem á að vera í Hagaseli 23 og kemur til framkvæmda í árslok 2021, verði breytt í íbúðakjarna í þjónustuflokki II fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir.  Breytingin kostar um 41 m.kr. á ársgrundvelli sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun velferðarsviðs fyrir árið 2021. Viðbótarkostnaður ræðst af því hvenær á árinu 2021 verður unnt að taka íbúðakjarnann að Árskógum í notkun.

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrsta heildstæða uppbyggingaráætlun borgarinnar í sértækum búsetuúrræðum var samþykkt í velferðarráði þann 30. maí árið 2017 í kjölfar ítarlegrar þarfagreiningar. Nú er ljóst að staða á biðlistum er misjöfn eftir þjónustuþáttum og því er eðlilegt að breyta gildandi áætlunum til að mæta núverandi þörf. Fulltrúarnir fagna einnig áherslu á stuðning til sjálfstæðrar búsetu og færanleg búsetuteymi. Einnig fagna fulltrúarnir því að fatlað fólk og aðstandendur þeirra treysti í meiri mæli á áreiðanleika stuðningsþjónustu sem gerir fólki kleift að búa sjálfstætt í eigin íbúð með stuðningi, enda er það í samræmi við gildandi stefnumótun borgarinnar og samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það bíða 137 einstaklingar eftir sértæku húsnæði. Tillaga sviðsstjóra um breytingu á uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða er þannig að lagt er til að breyting verði gerð á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis þannig að íbúðakjarni fyrir geðfatlaða verði gerður að íbúðakjarna fyrir einstaklinga með þroskahömlun. Breytingin kostar 41 m.kr. Rökin eru að þörf eftir húsnæði er mun ríkari hjá einstaklingum með þroskahömlun en hjá geðfötluðum. Þetta eru náttúrulega ekki ný tíðindi. þ.e. að meiri hreyfing sé á búsetu geðfatlaðra heldur en þroskahamlaðra? Breytingar á húsnæði eru dýrar. Skiljanlega þarf að bregðast við óvæntum sveiflum. Fulltrúi Flokks fólksins vill nota þessa bókun líka til að orða þau vonbrigði sem langur biðlisti árum saman hefur valdið fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra. Árið 2019 biðu 162 fatlaðir einstaklingar eftir húsnæði  og munar aðeins um 10 frá árinu þar áður. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur sé kominn langt á fertugsaldur þegar hann fær loksins húsnæði. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru til um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Því ber að halda til haga að góð stjórnsýsla endurskoðar áætlanir og bregst við þegar ljóst er að aðstæður og þarfir breytast.

    -    Ólafía Magnea Hinriksdóttir, forstöðumaður, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning um stöðu á húsnæðisuppbyggingu velferðarsviðs í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.

    Gunnsteinn R. Ómarsson, verkefnastjóri húsnæðismála á skrifstofu borgarstjóra, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á nýju verklagi fyrir úthlutunarteymi velferðarsviðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að hér er verið að einfalda feril við úthlutun og bæta þjónustu um leið. Það er markmið meirihlutans að þjónusta skuli vera einföld, skilvirk og hröð, á forsendum notandans. Hér er um að ræða stórstígar framfarir, sem gera umsóknarferlið gegnsærra, skilvirkara og betra. Með því að notast við miðlægan biðlista og rafrænar umsóknir verður fljótlegra að sækja um, og fólki strax ljóst hver staða þess er í kerfinu. Eins er gerð minni krafa um gagnasendingar fram og til baka og mætingar á þjónustumiðstöð í viðtöl. Þessi breyting er því í algjöru samræmi við áherslur meirihlutans í borgarstjórn og við hlökkum til að sjá hvernig gengur að innleiða þessar breytingar.

  9. Kosning í starfshóp vegna úthlutunar styrkja á velferðarsviði.

    Eftirfarandi aðilar eru tilnefndir: 
    Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Samfylkingunni.
    Egill Þór Jónsson, Sjálfstæðisflokknum.
    Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs.
    Samþykkt.

  10. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2021. Trúnaðarmál.
    Samþykkt að vísa í borgarráð til fjárhagsáætlunargerðar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    -    kl. 15:28 víkur Ragna Sigurðardóttir af fundinum
    -    kl. 15:28 tekur Berglind Eyjólfsdóttir sæti á fundinum.

  11. Lögð fram drög að gjaldskrám velferðarsviðs 2021 fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Trúnaðarmál.

    a. Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði
    b. Gjaldskrá í félagsstarfi
    c. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra
    d. Gjaldskrá í heimaþjónustu
    e. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ
    f. Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum
    g. Gjaldskrá um akstursþjónustu eldri borgara
    h. Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna
    i. Gjaldskrá vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks

    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna að vísa í borgarráð til fjárhagsáætlunargerðar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram gagnbókun sem færð er í trúnaðarbók.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

  12. Fram fer kynning á sumarstörfum og námsmannaverkefni á velferðarsviði.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg réð yfir 200 einstaklinga til starfa á velferðarsviði í samvinnu við ríkið og Vinnumálastofnun sumarið 2020 og setti á fót viðamikil verkefni til eflingar á félagsstarfi fullorðins fólks í samstarfi við félags- og barnamálaráðuneytið. Markmið með aðgerðunum voru að auka lífsgæði hópa í mikilli einangrun vegna COVID-19, stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum fyrir námsmenn, listamenn, einyrkja og aðra sem misstu atvinnu vegna faraldursins ásamt því að leita leiða til að létta álagi af þeim starfsstéttum sem höfðu unnið undir hvað mestu álagi vegna COVID-19. Aðgerðirnar voru í anda félagslegrar nýsköpunar (e. social innovation) og voru hugmyndirnar sem komu fram í senn fjölbreyttar og frumlegar sem og verkefnin sem komið var á fót í kjölfarið. Fulltrúar Pírata, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undirstrika mikilvægi þess að aðgerðum verði haldið áfram til að mæta þeim sem missa lífsviðurværi sitt vegna heimsfaraldurs og hrósa velferðarsviði fyrir framkvæmd verkefnanna og vinnumarkaðsaðgerða síðastliðið sumar.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram bókun öldungaráðs Reykjavíkur, dags 5. okt. 2020, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 21. okt. 2020, um félagsmiðstöðina Selið.

  14. Lögð fram að nýju tillaga Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. júní 2020 um vinnureglu starfsmanna ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 21. okt. 2020.
    Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ekki fer vel á því að pólitísk stjórnvöld stýri starfi og vinnureglum starfsmanna borgarinnar með þessum hætti. Þess utan er ljóst að regla eins og sú sem lögð er fram myndi leiða til aukins álags á starfsfólk, sem er nú þegar mikið. Þar utan er alls óvíst að þessi aðgerð myndi leiða til betri þjónustu. Æskilegt er að notendur geti fengið sem mest af afgreiðslu rafrænt og sjálfvirka svörun strax þar sem því verður komið við. Starfsmenn leitast við að svara erindum sem allra fyrst og þeim er svarað að jafnaði næsta dag ef því verður ekki komið við að svarað sé samdægurs. Ljóst er að ekki er hægt að framfylgja þeirri vinnureglu sem hér er lýst.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að sett yrði á laggirnar vinnuregla um að starfsmenn fari ekki heim í lok dags fyrr en þeir eru búnir að svara innkomnum erindum með einum eða öðrum hætti. Tillagan er felld. 
    Reyndar er það sérkennilegt að fella tillögu sem þessa sem er svona meira í formi tilmæla. Með því að fella er eins og það sé ekki vilji velferðarráðs að póstum starfsmanna sé sinnt samdægurs? Í umsögn sviðsstjóra er talað um að þegar skeyti er sent þá berist sjálfvirkt svar um að erindið sé móttekið.  Sjálfvirkt svar er ekki það sama og að svara. Allir vita það sem fá sjálfvirkt svar um leið og póstur er sendur að það gefur  ekki til kynna að móttakandi lesi endilega póstinn þann daginn eða þá næstu ef því er að skipta. Sjálfvirkni almennt séð er einfaldlega oft mjög ópersónuleg svörun. Kannski þarf að ætla starfsmönnum meiri tíma í að skoða póstinn sinn í lok dags og bregðast við. Margir starfsmenn eru undir miklu álagi. Það er á ábyrgð stjórnanda að skipuleggja þessa hluti með starfsmönnum sínum. Samkvæmt svari velferðarsviðs má þó ætla að reynt hafi verið að bæta svörun og skilvirkni almennt séð í þeim efnum.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 16. september 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 30. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. ágúst 2020 um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborgar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Segir í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ástandið á vinnumarkaði í Reykjavík að vel hafi gengið að manna stöður og einungis 11 séu ómannaðar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta þýði að nú sé hægt að veita fulla þjónustu alls staðar sem ekki var áður hægt vegna manneklu? Eru allir sem þurfa, að fá t.d. heimaþjónustu? Fulltrúi Flokks fólksins vildi vita hvað borgin væri sjálf að gera ein og sér í þessum málum. Talað er um að skapa störf og er þá reiknað með að það þýði að verið sé að búa til störf sem voru ekki áður til staðar. Samkvæmt svari ætti alla vega að vera hægt að manna allar stöður sem fyrir voru og mannekla að vera þar með úr sögunni. Það ætti að eyða biðlistum sem eru ekki síst tilkomnir vegna þess að ekki hefur tekist að  manna stöður.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 29. september 2020, við fyrirspurn Flokks fólksins, sbr. 29. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. ágúst um hækkun leiguverðs sl. 2 ár.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október, við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. september 2020, um kostnað við sólarhingsopnun neyðarskýla.

    Fylgigögn

  18. Svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. september 2020, um stöðu aðgerða í aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
    Frestað.

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. fundargerð borgarráðs þann 5. október, um fjölda greininga á þjónustumiðstöðvum árið 2019.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um hver væri biðlistinn eftir greiningu og sundurliðun eftir þjónustumiðstöðvum. Fjöldi tilvísana alls eru 2.165 og þar af hafa um 1000 börn fengið þjónustu. Flestar tilvísanir koma frá Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum og Breiðholti. Rúmlega þúsund eru á bið. Flestir bíða eftir sálfræðiþjónustu, greiningum og eða viðtölum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alvarlegar áhyggjur af þeim sem eru á biðlista. Á  meðan barn bíður heldur vandinn oft áfram að vaxa og hafa neikvæð áhrif. Fulltrúi Flokks fólksins var að vonast til að staðan væri betri en þetta. Foreldrar sem hafa til þess ráð fara margir með börn sín til sjálfstætt starfandi sálfræðinga. En svo heppnar eru ekki allar fjölskyldur. Margir foreldrar hafa stigið fram og lýst baráttunni við kerfið í Reykjavík þegar kemur að aðgengi til skólasálfræðinga. Fátækar og efnaminni fjölskyldur sem eiga börn sem bíða aðstoðar sökkva mörg hver æ dýpra í vanlíðan og fá ekki rönd við reist.

    Fylgigögn

  20. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hér að neðan má sjá samantekt á þeim úrræðum/þjónustu sem er ekki sameiginleg öllum þjónustumiðstöðvunum eða Barnavernd Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hverjir eru biðlistar í eftirfarandi úrræði:  „Mér finnst ég ekki lengur ein“   „Lesum saman“ (Lestrarátaksverkefni).  „Hjólakraftur“ (Persónuleg ráðgjöf í formi hópastarfs).  „Lotta“ (Stuðningur til fjölskyldna sem standa illa félags- og fjárhagslega).  „Klókir litlir krakkar“ (Kvíðameðferðarnámskeið fyrir forráðamenn barna yngri en 8 ára).  „Fjörkálfar“ (Námskeið fyrir börn á aldrinum 8−12 ára með reiðivanda).  Frístund plús: samstarf við Frístundamiðstöðina Miðberg til að styðja frístundastarf í hverfinu fyrir þau börn sem þurfa auka stuðning á frístundaheimilunum.  „TINNA“ (Stuðningur til fjölskyldna sem standa illa félags- og fjárhagslega).  Talmeinafræðingar.  Verkefni þar sem unnið er að því að taka á mætingarvanda barna í 5. og 9. bekk.  Heimanámsaðstoð.  Samstarf við Gufunesbæ — styrkja félagslega einangruð ungmenni í 9. bekk.  ÁTAK (Tímabundin þjónusta við börn og foreldra þar sem mætingarvandi er til staðar).  ÁFRAM (Sértæk þjónusta við nemendur sem eru að ljúka grunnskóla og þurfa stuðning í framhaldsskólanum).  Núvitundarnámskeið fyrir börn, unglinga og forráðamenn.  „Gaman saman“ (Persónuleg ráðgjöf í formi hópastarfs).  „HAM“-námskeið (Hugræn athyglismeðferð í anda námskeiðsins: „Mér líður eins og ég hugsa“). Sálfræðiþjónusta fyrir börn hjá SÁÁ

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2110.pdf