Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2006, miðvikudaginn 7. júní var haldinn 38. fundur s og hófst hann kl. 16.45 að Tryggvagötu 17. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Áheyrnarfulltrúi: Margrét K. Sverrisdóttir. Af hálfu starfsmanna: Lára Björnsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram umsagnir notendaráða um tillögu að breytingu í félagsstarfi.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti að vísa tillögunni til gerðar næstu fjárhagsáætlunar.
2. Lögð fram til kynningar skýrsla starfshóps um eftirmeðferðarmál ungs fólks í Reykjavík.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs og varaformaður gerðu grein fyrir málinu.
3. Lögð fram skýrsla um viðhorfsrannsókn sem unnin er af IMG-Gallup um stöðu forsjárlausa feðra og barna þeirra.
Skrifstofustjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir skýrslunni.
Samþykkt var að leggja málið fyrir aftur ásamt fleiri gögnum og tillögu varðandi framhald málsins.
- Jóna Hrönn Bolladóttir mætti á fundinn kl. 17. 25
4. Lögð fram til kynningar skýrsla starfshóps um þróun spilafíknar meðal ungs fólks í Reykjavík.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
5. Lögð fram drög að samningi við SÁÁ varðandi þjónustu sem SÁÁ veitir einstaklingum með lögheimili í Reykjavík.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
6. Lögð fram drög að samningi við Samhjálp um styrk við rekstur félagsmiðstöðvar, kaffistofu og stoðbýlis Samhjálpar.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
7. Lögð fram fundargerð velferðarráðs með Félagi eldri borgara og Samtökum aldraðra frá 17. maí sl.
8. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir heildargreiðslur áfrýjunarnefndar í maí 2006.
9. Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð (áður félagsmálaráð) Reykjavíkurborgar kjörtímabilið 2002 – 2006 er nú að ljúka störfum. Á tímabilinu hefur náðst góður árangur á mörgum sviðum sem vert er að minnast sérstaklega hvað varðar þau fimm meginmarkmið sem ákveðið var að beina spjótum að strax í upphafi:
1. Aukin lífsgæði fyrir þá sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í langan tíma.
Það hefur verið gert með fjölgun endurhæfingarúrræða og átaksverkefna sem skilað hafa fólki aftur í virka þátttöku í samfélaginu.
2. Aukinn stuðningur og aðstoð við fátæk börn og börn í áhættuhópum.
Byrjað var að greiða fyrir tómstundastarf barna sem eiga fátæka foreldra og átak verið unnið með börnum sem eiga við ofvirkni og athyglisbrest að stríða. Þá hafa ótal barnafjölskyldur verið studdar sérstaklega og m.a. fengið “Stuðninginn heim” og námskeið í “Að alast upp aftur”.
3. Samþætt og aukin þjónusta við aldraða og fatlaða í heimahúsum.
Komið var á laggirnar kvöld- og helgarþjónustu í heimahús og félagsleg heimaþjónusta samþætt við heimahjúkrun. Byggðar voru 54 þjónustuíbúðir í Grafarholti en fyrst og fremst unnið að því að fólk fengi þjónustuna heim undir slagorðinu “Þjónustuíbúðin heim”í stað þess að þurfa að flytja til að fá þjónustu.
4. Breyttur og aukin stuðningur við tekjulágt fólk í húsnæðisvanda.
Komið var á sérstökum húsaleigubótum sem nýtast hundruðum Reykvíkinga sem verst voru staddir á húsnæðismarkaði. Jafnframt var unnið að fjölgun íbúða í eigu Félagsbústaða hf. um alla borgina.
5. Bætt úrræði fyrir heimilislaust fólk.
Unnið hefur verið að bættri stöðu utangarðsfólks með tilkomu nýrra heimila, bæði fyrir karla og konur. Í farvatninu eru ný úrræði sem skipta munu sköpum fyrir þennan hóp fólks.
Auk þessara meginverkefna velferðarráðs á kjörtímabilinu var m.a. byggt við Droplaugarstaði og eldri deildum breytt þannig að einungis er nú boðið upp á einstaklingsrými í litlum heimiliseiningum. Ennfremur var tekið á móti flóttamönnum með góðum árangri, komið á akstursþjónustu eldri borgara og stóraukið samráð við hagsmunasamtök fatlaðra og eldri borgara.
Velferðarráð Reykjavíkurborgar þakkar embættismönnum og starfsfólki Velferðarsviðs og áður Félagsþjónustunnar fyrir einstaklega gott samstarf á liðnu kjörtímabili. Það samstarf var grundvöllur þess árangurs sem náðist á kjörtímabilinu.
Áheyrnarfulltrúi stóð jafnframt að bókuninni.
Fundi slitið kl. 17.45
Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Jóna Hrönn Bolladóttir
Guðrún Erla Geirsdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson