Velferðarráð - Fundur nr. 379

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 3. júní var haldinn 379. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Kerhólum, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Aron Leví Beck, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

    -    Kl. 13:28 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum.

  2. Fram fer kynning á stöðunni hjá barnavernd Reykjavíkur. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að móta tillögu að úrbótum í barnavernd í samræmi við umræður á fundinum til að mæta þeirri 10-15% aukningu á tilkynningum sem fyrirsjáanlegar eru og til að skerpa á verklagi varðandi erlend börn annars vegar og heimilisofbeldi hins vegar. Það er forgangsatriði að vernda börn og því er óskað eftir tillögunni á næsta fundi.

    Samþykkt. 

    Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri barnaverndar Reykjavíkur, Sigrún Þórarinsdóttir, skrifstofustjóri og Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar á upplifun starfsmanna Reykjavíkurborgar á vinnu á tímum Covid-19. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir greinargóða kynningu á niðurstöðum könnunar á upplifun starfsmanna í starfi á velferðarsviði á tímum Covid-19. Það er jákvætt að sjá að starfsfólk gefur vinnustaðnum góða einkunn á þessum fordæmalausu tímum. Það er til marks um að starfsfólki og stjórnendum velferðarsviðs hafi tekist vel að bregðast við breyttum aðstæðum.

    Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  4. Fram fer kynning á niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2020. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir greinargóða kynningu á niðurstöðum starfsumhverfiskönnunar Reykjavíkurborgar. Það er jákvætt og mikilvægt að starfsfólk upplifi Reykjavíkurborg sem góðan vinnustað og við hvetjum stjórnendur til að nýta niðurstöður þessarar könnunar til að vinna að úrbótum og gera vinnustaðinn enn betri.

    Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  5. Fram fer kynning á Bjarkarhlíð. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Bjarkarhlíð hefur sannað gildi sitt sem móttökumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis en á síðasta ári leituðu þangað 565 einstaklingar. Reykjavíkurborg er einn af stofnaðilum Bjarkarhlíðar og samvinna þjónustumiðstöðva og Bjarkarhlíðar er mikilvæg til að mæta þörfum einstaklinga sem eru að vinna úr afleiðingum ofbeldis. Verið er að innleiða verklag um skimun fyrir ofbeldi á þjónustumiðstöðvum og vill meirihluti velferðarráðs leggja áherslu á að það verði innleitt alls staðar. Ofbeldi á ekki að viðgangast í íslensku samfélagi og samstarf þriðja geirans og félagsþjónustu er mikilvægt bæði í forvörnum og viðbrögðum. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði stofnun Bjarkarhlíðar enda úrræði sem virkilega var þörf á. Bjarkarhlíð opnaði formlega í mars 2017 og hefur verið farsælt úrræði allar götur síðan. Fulltrúi Flokks fólksins veit að Bjarkarhlíð hefur sannað gildi sitt en þangað hefur mikill fjöldi af þolendum ofbeldis af öllu tagi lagt leið sína og fengið dýrmæta aðstoð. Öll þjónusta er undir sama þaki og auðveldar það mörgum fyrstu skrefin sem mörgum finnst erfitt að taka í leit að aðstoð. Fyrir þolendur eineltis er fátt eins erfitt eins og að vera  í lausu lofti með ofbeldismál, fá e.t.v. enga svörun eða málalyktir og heldur enga hlustun eða skilning. Vonandi er Bjarkarhlíð komin til að vera til frambúðar til að geta veitt þolendum heildræna þjónustu í átt að betri líðan. 

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, Þóra Kemp, deildarstjóri, Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir og Valgerður Jónsdóttir, sérfræðingar, tóku sæti undir þessum lið. 

  6. Fram fer kynning á skýrslu um aldraða og heimilisofbeldi.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á mikilvægri skýrslu starfshóps um aldraða og heimilisofbeldi. Eins og fram kemur í skýrslunni er oft um dulinn vanda að ræða sem mikilvægt er að við sem samfélag sammælumst um að uppræta. Ljóst er að mikil samvinna þarf að vera milli ólíkra aðila bæði innan borgarkerfis og utan til að tryggja að skimun fyrir ofbeldi og fræðsla til starfsfólks sé samræmd, skýr og ávallt til staðar. Mikilvægt er að nýta skýrsluna og er velferðarsviði falið að koma með tillögu að forgangsröðun verkefna inn í næstu starfsáætlun. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ofbeldi gegn öldruðum er alvarlegt vandamál og því miður berast af og til fregnir af slíkum tilfellum. Yfir öldruðum, fötluðum og öðrum viðkvæmum hópum er mikilvægt að stjórnvöld og samfélagið allt standi saman vaktina. Öll eigum við eftir að verða öldruð, þ.e. lifum við nógu lengi til þess. Ef horft er til rannsókna má sjá að 2-10% aldraðra eru þolendur ofbeldis. Ofbeldi gegn öldruðum getur verið andlegt og líkamlegt og stundum er það í formi vanrækslu. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari skýrslu því mikilvægt er að safna gögnum með reglulegu millibili til að vera sífellt með puttann á þessum púlsi.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir og Valgerður Jónsdóttir, sérfræðingar í jafnréttismálum á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, tóku sæti undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 31. liðar fundargerðar borgarráðs dags. 16. apríl 2020, um sérstaka stuðningsþjónustu fyrir börn alkóhólista.
    Frestað.

    Fylgigögn

  8. Fram fer kynning á þriggja mánaðauppgjöri velferðarsviðs jan-mars 2020. 

    -    Kl. 15:56 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum. 
    -    Kl. 15:56 tekur Þór Elís Pálsson sæti á fundinum.

  9. Lögð fram breyting á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum (neyslurými).

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð fagnar nýrri lagabreytingu um neyslurými enda er hún talin mikilvægur þáttur í skaðaminnkandi nálgun fyrir fólk sem notar vímuefni um æð. Velferðarráð vill þó árétta að í umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarpið var bent á að til þess að hægt sé að veita þessa mikilvægu þjónustu á sem öruggastan hátt krefst það sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu. Aðgangur að heilbrigðisstarfsfólki, lyfjum og sjúkraskrám eru nauðsynlegur hluti af slíkri þjónustu. Auk þess má benda á að jaðarsettir hópar hafa mun verra aðgengi að heilbrigðisþjónustu en aðrir samfélagshópar og því ljóst að best færi á því að byggja upp aðgengilega heilbrigðisþjónustu með lágum aðgangsþröskuldi fyrir einstaklinga sem nota vímuefni um æð í samhengi við stofnun neyslurýmis. Fulltrúarnir vona að samstarf heilbrigðis- og félagsþjónustu muni verða leiðarljós í að tryggja einstaklingum sem nota vímuefni um æð heildstæða og góða þjónustu í hvívetna út frá hugmyndafræði um skaðaminnkandi nálgun. 

    Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur, tók sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 15:59 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum.
    -    Kl. 15:59 tekur Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað félagsmálaráðuneytisins um rétt til atvinnuleysisbóta og/eða fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. 

    Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur, tók sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram minnisblað um úthlutunarreglur Forvarnasjóðs Reykjavíkurborgar.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð tekur undir mat velferðarsviðs og samþykkir að Forvarnarsjóður verði sameinaður styrkjum velferðarráðs undir styrkjum borgarsjóðs. Við styrkúthlutun velferðarráðs metur styrkjanefnd velferðarráðs allar umsóknir með tilliti til fyrirfram ákveðinni þátta, þar á meðal forvarnagildis verkefna. Það felast því í því miklir kostir að sameina sjóðina fyrir borgarbúa og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

    Samþykkt. 

  12. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar eftir að fá lista yfir þau úrræði/aðstoð sem eldri borgarar fengu í Covid aðstæðunum? Ástæða fyrirspurnarinnar eru m.a. sú að í  miðjum Covid faraldri bárust tíðindi m.a. frá Félagi eldri borgara um að eldri borgarar í Reykjavík hefðu orðið útundan þegar kom að hjálparúrræðum m.a. fjárhagslegum á meðan faraldurinn gekk yfir og í kjölfar þess að náðist utan um hann. Margir eldri borgarar búa einir og voru fyrir þessar aðstæður þá þegar einmana og einangraðir og jafnvel fjárþurfi.

    Vísað til umsagnar velferðarsviðs. 

    -    Kl. 16:56 víkur Aron Leví Beck af fundinum.

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0306.pdf