Velferðarráð - Fundur nr. 378

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 20. maí var haldinn 378. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:02 í Hofi, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir aðilar fulltrúar velferðarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Kolbrún Baldursdóttir og Aron Leví Beck. Á fundinn mættu: Dóra Magnúsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfsemi velferðarsviðs vegna Covid-19.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. maí, um reglur akstursþjónustu fatlaðs fólks:

    Lagt er til að sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 12. febrúar 2020 og á fundi borgarráðs þann 20. febrúar 2020, gildi áfram en núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem voru samþykktar á fundi velferðarráðs þann 22. febrúar 2018 og á fundi borgarráðs þann 6. mars 2018 falli úr gildi frá 1. júlí 2020 þegar sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu koma til framkvæmda.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Svohljóðandi breytingartillaga er lögð fram af velferðarráði:

     Lagt er til að núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem voru samþykktar á fundi velferðarráðs þann 22. febrúar 2018 og á fundi borgarráðs þann 6. mars 2018 falli úr gildi frá 1. júlí 2020 þegar sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu taka gildi.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
     
    Nýjar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks voru samþykktar í borgarráði 12. febrúar, en í ljósi þess að breytingar hafa orðið í hópi sveitarfélaga sem starfa saman og þess að töluverðar breytingar eru gerðar frá fyrra fyrirkomulagi er nauðsynlegt að gera skýr skil á milli eldri regla og nýrra og því er nauðsynlegt að fella úr gildi sérstakar reglur Reykjavíkurborgar samhliða gildistöku nýsamþykktra sameiginlegra reglna.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga meirihlutans er að sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks sem hafa verið samþykktar gildi áfram en núverandi reglur falli úr gildi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort búið sé að reyna allt til að mæta þeim ábendingum sem fram eru settar á minnisblaði starfshóps SSH. Enn má sjá að einhverjum atriðum er ólokið eða eru í bið. Í fyrri bókun Ff um þessi mál var lögð áhersla á samráð og jafnræði. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir. Það á eftir að finna lausn á akstri utan höfuðborgarsvæðis. Það er einnig áhyggjuefni að fólk sem orðið hefur fyrir slysum eða eru í endurhæfingu fellur ekki endilega undir lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hér er sagt „ekki endilega“ sem þýðir án efa að sveitarfélag getur ráðið þessu ef það vill. Huga þarf áfram að þessum og fleiri atriðum þegar reglurnar verða endurskoðaðar. Flokkur fólksins leggur áherslu á sveigjanleika í öllu tilliti og að ávallt sé hægt að finna leiðir til að leysa sérþarfir fólks. Þriggja mínútna biðin má t.d. aldrei vera þannig að hún stressi fólk eða valdi álagi.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er lagt til að reglur Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks falli úr gildi, þar sem sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu hafa verið samþykktar. Fulltrúi sósíalista samþykkir að fella eldri reglur úr gildi, þar sem það getur leitt til misræmis og verið villandi fyrir notendur að hafa tvennar reglur í gangi þegar nýjar reglur hafa tekið gildi. Fulltrúi sósíalista staðfesti ekki nýju sameiginlegu reglurnar á sínum tíma og vísar í bókun sína frá velferðarráðsfundi þegar reglurnar voru samþykktar þann 12. febrúar 2020 til útskýringa. Varðandi nýju reglurnar þá er jákvætt að sjá að þær hafi verið unnar í samvinnu með notendum og það er ýmislegt gott sem kemur til með þeim, þar má m.a. nefna að heimilt er að nýta akstursþjónustu þó viðkomandi njóti styrks til reksturs bifreiðar frá Tryggingastofnun. Hér er þó verið að leggja til að aksturstími verði styttur til miðnættis, í stað kl. 1:00. Á föstudags- og laugardagskvöldum er þó ekið áfram til kl. 1:00, til að leitast við að koma til móts við þarfir notenda en þá er þörfin sem mest. Þó að fáir nýti þjónustuna frá miðnættis til 01:00, þá telur fulltrúi sósíalista að það hefði ekki átt að skerða þessa þjónustu. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar meirihlutans árétta að mikilvægt er að einstök sveitarfélög geti þó gengið lengra eða sett sér reglur um þjónustu sem gilda um íbúa sinna sveitarfélaga, svo lengi sem ekki sé gengið skemur en hér er kveðið á um. Mikilvægt er að reglulega verði leitað til ytri aðila til að framkvæma könnun á upplifun og reynslu notenda til að bæta þjónustuna. Einnig er mikilvægt að innleiða það verklag að fulltrúar ferðaþjónustunnar og notenda hennar komi reglulega á fund velferðarráðs og fari yfir stöðu mála.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er að gott að Reykjavíkurborg geti sett upp sér reglur í framtíðinni ef ástæða þykir til þess.

    Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri, Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur og Erlendur Pálsson, sviðsstjóri farþegaþjónustu Strætó taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga velferðarráðs, dags. 20. maí, um nýtingu tæknilausna á velferðarsviði:

    Velferðarráð samþykkir með vísan til stefnu um nýtingu upplýsingatækni hjá Reykjavíkurborg 2018-2022, stefnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á sviði velferðartækni 2018-2022 og jákvæðrar reynslu af nýtingu rafrænna lausna á tímum Covid-19 faraldursins, s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu, notkun fjarfundabúnaðar til ráðgjafasamtala og móttöku rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð, að hraða innleiðingu stafrænnar tækni á velferðarsviði. Lögð verði áhersla á innleiðingu tæknilausna sem einfalda bæði veitingu og móttöku þjónustu jafnt fyrir notendur þjónustu, aðstandendur þeirra og starfsfólk. Sviðsstjóra verði falið að leggja fram áætlun með áfangaskiptingu og forgangsröðun um hraðari innleiðingu stafrænnar tækni samhliða samþykkt velferðarstefnu eigi síðar en 30. september 2020. 

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Innleiðing stafrænnar þjónustu og tæknilausna eru skýrasta og besta leiðin til þess að bæta þjónustu og valdefla notendur. Þannig styttist afgreiðslutími og tími notenda og starfsfólks nýtist betur. Eins verður þörf á færri ferðum með pappíra og gögn, eða til undirskrifta, sem hefur jákvæð umhverfisáhrif. Jafnframt er það valdeflandi fyrir notendur að vera ekki upp á opnunartíma eða hentisemi kerfisins komnir. Reykjavíkurborg hefur tekið stór og mikilvæg skref í þessari vegferð og mikilvægt er að halda henni áfram af krafti.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnar þessari tillögu um hraðari innleiðingu tæknilausna og nýtingu rafrænna lausna. Með henni nýtist sú jákvæða reynsla sem fengist hefur af slíkum lausnum á síðustu vikum. Mikilvægt er að verkefnin séu fjölbreytt og nái til fjölbreyttra hópa notenda. Minnt er á að ekki vilja allir notendur feta þessa tæknibraut og taka verður tillit til þess, aðrar lausnir verða því að vera í boði fyrir þá. Að öðru leyti þá er tekið undir þau jákvæðu áhrif sem tæknivæðing af þessu tagi getur haft og fram hafa komið.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er jákvætt að hraða innleiðingu stafrænnar tækni á velferðarsviði fyrir þau sem vilja nýta sér slíkar tæknilausnir og er það viðbót við þær leiðir sem standa nú til boða. Fulltrúi sósíalista leggur áherslu á að vilji einstaklingar og fjölskyldur ekki styðjast við stafrænar leiðir í þjónustu þá verði alltaf hægt að nýta aðrar lausnir og að útfærsla að stafrænum tæknilausnum verði unnin í samstarfi við notendur og alla hluteigandi aðila. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur samþykkt að vera með í tillögu um flýtingu á rafrænum lausnum en vill skerpa á mikilvægi þess að muna ávallt eftir að ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nálægð. Rafrænar lausnir eru sannarlega framtíðin og tekið var heljarstök í framþróun á snjalllausnum vegna Covid-19. Jákvæð reynsla er af nýtingu rafrænna lausna s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu og víða. Innleiðing tæknilausna einfaldar margt en það sem fulltrúi Flokks fólksins vill halda til haga er að það eru ekki allir sem nota snjalltækni til að hafa samskipti við umheiminn. Ástæður eru ótal margar. Þessum hópi fólks má ekki gleyma í allri snjalltæknigleðinni. Starfsfólk þarf að vera næmt á hvað hentar hverjum og einum og hvað hann þarf og vill. Notandi þjónustu á að stýra ferð enda er hann sá eini sem veit hvað hann þarf, vill og getur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því að persónuleg tengsl, nánd og snerting eigi eftir að dragast saman vegna allra þeirra rafrænu lausna sem nú eru í boði. Það má aldrei hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Einnig er mikilvægt að gera reglulega athuganir á rafrænum lausnum og hvernig þær eru að nýtast.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar meirihlutans árétta að hér er um að ræða öfluga leið til að bæta þjónustu og valdefla notendur. Með innleiðingu tæknilausna má nýta tíma starfsfólks og notenda betur og eyða minni tíma í ferðalög, nota minni pappír og minna bensín. Þó er rétt að halda því til haga að alls ekki stendur til að neyða neinn í notkun á þjónustuleið sem viðkomandi treystir sér ekki til og að sjálfsögðu verður áfram í boði að sækja þjónustu með öðrum aðferðum óski notendur þess.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram til kynningar erindisbréf um starfshóp vegna stafrænnar umbreytingar.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 20. maí, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um leigubílakostnað. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn hvetur fólk til þess að nýta sér aðra valkosti en einkabílinn til þess að koma sér í og úr vinnu en samkvæmt kjarasamningum er það á ábyrgð vinnuveitenda að koma starfsfólki sínu á milli staða í vinnutengdum erindargjörðum á vinnutíma. Bifreiðastyrkur til starfsmanna velferðarsviðs var afnumin og tók sú ákvörðun gildi frá og með 1. apríl 2015 en hann var ætlaður þeim starfsmönnum, sem þurftu að sækja erindi og fundi út fyrir vinnustað og notuðu eigin bifreið til þess að fara á milli. En það fellur mun betur að umhverfisstefnu Reykjavíkurborgar að tryggja frekar að starfsmenn komist milli starfsstöðva með hverjum þeim hætti sem hentar best, hvort sem það er gangandi, í strætó, eða á bíl en að beinlínis niðurgreiða notkun einkabíls fyrir allar ferðir. Einnig á Reykjavíkurborg hjól og bíla sem starfsfólk getur notað en vissulega eru aðstæður stundum þannig að leigubíll hentar betur.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um leigubílakostnað. Það sem hefur slegið fulltrúa Flokks fólksins er að þegar hann hefur mætt á viðburði á vegum velferðarsviðs má sjá eitthvað starfsfólk koma á leigubíl, stundum nokkrir saman í bíl en stundum einn í bíl. Þetta er ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins ákvað að leggja fram þessa fyrirspurn. Það er slæmt að geta ekki fengið nánari sundurliðun en hér er sett fram. Það er engin leið fyrir kjörna fulltrúa að hafa eftirlit með útgjöldum ef þau fást ekki sundurliðuð meira en svona. Í svari frá velferðarsviði er aðeins sundurliðað hve mikill heildarkostnaður var á hvert undirsvið velferðarsviðs og svo tekið dæmi um hvaða ástæður liggi að baki mestum hluta kostnaðarins, þ.e. „Önnur notkun á leigubílum er vegna vitjana á heimili, starfsstaði eða á fundi.“ Ekki orð er um það meir. Kjörnir fulltrúar verða að hafa nákvæmari upplýsingar til að geta sinnt sínu aðhaldshlutverki. Það er hægt að láta trúnað gilda um þau gögn eftir atvikum. Það er alltaf hægt að réttlæta hvers konar útgjöld með vísan í að réttir aðilar hafi gefið grænt ljós vegna þeirra og að almennt séu góðar ástæður fyrir þeim.

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram lykiltölur janúar – mars 2020.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að biðlistar haldi áfram að styttast eftir húsnæði og búsetuúrræðum í borginni. Áhersla meirihlutans á uppbyggingu félagslegs húnsæðis og búsetuúrræða fyrir fatlað fólk er farin að skila árangri. Áframhaldandi fækkun er á biðlista eftir félgaslegu leiguhúsnæði eða um 20%. Einnig er uppbygging í sértækum búsetuúrræðum fyrir fólk með flóknar þjónustuþarfir farið að skila sér enda hefur fækkað á biðlista um þriðjung eftir þeirri þjónustu. Fækkun á biðlista eftir sértækum búsetuúrræðum heldur áfram og hefur fækkað á biðlista um 44 einstaklinga frá sama tíma í fyrra, aðallega vegna uppbyggingar nýrra úrræða en einnig vegna sveigjanlegri þjónustu, s.s búsetu með stuðningi, færanlegum búsetuteymum o.fl. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar því að sjá að margar tölur eru að lagast þegar kemur að biðlistum. Lækkun hefur orðið á fjölda þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði sem dæmi. Minni lækkun er á öðru og hækkun á enn öðru. Sérstakar áhyggjur eru af biðlistatölum liðveislu en nú bíða 200 eftir slíkri þjónustu. Hér þarf að bretta upp ermar og finna leiðir. Fjöldi þeirra sem bíða eftir frekari þjónustu skóla er 403 en var á sama tíma fyrir ári 236. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins minna á fyrirspurn um greiningu mála þeirra sem bíða eftir fyrstu og frekari skólaþjónustu. Spurt var um hvaða þjónustu beðið er um fyrir þau 400 börn sem eiga tilvísun í kerfinu og bíða eftir fyrstu þjónustu skólasálfræðinga. Einnig er óskað eftir sundurliðun og nánari upplýsingum um hópinn sem bíður eftir „frekari“ þjónustu og hvernig þjónusta það er nákvæmlega sem verið er að vísa í þegar talað er um „frekari“ þjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að vegna anna velferðarsviðs í tengslum við Covid-19 hefur ekki unnist tími til að svara þessum fyrirspurnum en vonandi fer nú að myndast meira svigrúm þegar faraldurinn er á undanhaldi.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. maí, um rekstur Konukots:

    Lagt er til að velferðarsviði verði falið í samræmi við innkaupareglur Reykjavíkurborgar að auglýsa eftir samstarfsaðila um rekstur Konukots, neyðarskýlis fyrir konur. Áætlaður rekstrarkostnaður á ári er 70.200.000 m.kr. og rúmast innan fjárheimilda. 

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Neyðarþjónusta fyrir heimilislausar konur er gríðarlega mikilvæg og Rauði Krossinn hefur sinnt rekstri Konukots vel á síðustu árum. Það er því vilji fulltrúa Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Pírata að kanna áhuga þar til bærra félagasamtaka til að koma að rekstri þessara mikilvægu þjónustu en halda því um leið opnu að Reykjavíkurborg annist rekstur þessa neyðarskýlis reynist það besti kosturinn. Mikilvægt er að ekki verði rof í þjónustu. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er gott að leita til þeirra samtaka sem hafa reynslu og fagþekkingu á þeim málaflokki sem hér um ræðir. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill þó ítreka mikilvægi þess að ábyrgðin, fyrir því að veita þjónustu til þeirra sem hér um ræðir, liggur alltaf hjá Reykjavíkurborg. Komi samstarfsaðilar að rekstrinum er mikilvægt að nægilegt fjármagn fylgi til að hægt sé að veita góða þjónustu. Fulltrúi sósíalista ítrekar þá fjárhagslegu ábyrgð sem er á Reykjavíkurborg varðandi það að tryggja aðgengi að viðeigandi úrræðum.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri og Þóra Kemp, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 15:00 tók Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. maí, um rekstur áfangaheimilis fyrir konur:

    Lagt er til að velferðarsviði verði falið í samræmi við innkaupareglur Reykjavíkurborgar að auglýsa eftir samstarfsaðila um rekstur áfangaheimilis fyrir konur að Njálsgötu 65. Áætlaður rekstrarkostnaður á ári er 27.480.000 m.kr. Af þeim kostnaði rúmast 22 m.kr. innan fjárheimilda, sbr. meðfylgjandi kostnaðarmat. 

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Heimilisleysi kvenna er samfélagslegt vandamál sem erfitt getur verið að leysa, sérstaklega í ljósi þess að vandinn er oft dulinn og erfitt að meta umfang hans. Sérstakt áfangaheimili fyrir konur er mikilvægt skref í því að takast á við þann vanda á forsendum notenda, en hingað til hefur stuðningur við fólk í búsetuerfiðleikum oft miðast við þarfir stærsta sýnilega notendahópsins, sem eru karlmenn. Ákaflega mikilvægt er að eiga sérstakt áfangaheimili fyrir konur, en það er grunnforsenda þess að byrja að ná utan um þörfina. Án slíks úrræðis höfum við ekki sérstakar umsóknir eða biðlista en með þessu úrræði breytist það.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er gott að leita til þeirra samtaka sem hafa reynslu og fagþekkingu á þeim málaflokki sem hér um ræðir. Fulltrúi Sósíalistaflokksins vill þó ítreka mikilvægi þess að ábyrgðin, fyrir því að veita þjónustu til þeirra sem hér um ræðir, liggur alltaf hjá Reykjavíkurborg. Komi samstarfsaðilar að rekstrinum er mikilvægt að nægilegt fjármagn fylgi til að hægt sé að veita góða þjónustu. Fulltrúi sósíalista ítrekar þá fjárhagslegu ábyrgð sem er á Reykjavíkurborg varðandi það að tryggja aðgengi að viðeigandi úrræðum.

    Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri og Þóra Kemp, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið skoði hvort nota megi farsóttahúsið, sem nú á að loka, fyrir mögulegt annars konar félagslegt úrræði. Nú hefur farsóttahúsinu verið lokað þar sem kórónuveiran er á undanhaldi. Flokkur fólksins leggur til að skoðað verði hvort að hægt verði að nota þetta úrræði í öðrum félagslegum tilgangi. Það er alveg ljóst ef marka má skjót viðbrögð að skapa heimilisaðstæður fyrir fólk í neyð eins og þegar veirufaraldurinn skall á að enginn á að þurfa að vera heimilislaus í Reykjavík hvort sem faraldur geisar eða ekki. Það er fólk sem er í stökustu húsnæðisvandræðum þar sem það hefur ekki nægjanlegar tekjur til að greiða leigu. Enn bíða rúmlega 600 manns/fjölskyldur eftir félagslegu húsnæði. Það kann að vera að horfa megi sem dæmi á farsóttahúsið sem mögulegt úrræði til aðstoða fólk sem er í húsnæðiserfiðleikum af einhverjum ástæðum.

    Frestað.

    -    Kl. 15:51 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum.

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2005.pdf