Velferðarráð - Fundur nr. 377

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 6. maí var haldinn 377. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 14:14 í Hofi, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir aðilar fulltrúar velferðarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Á fundinn mætti Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Þóra Kemp, Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðstjóra velferðarsviðs, dags. 6. maí, um aðgerðir vegna Covid-19 veirufaraldursins:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki eftirfarandi tillögur um eingreiðslur og tilslakanir á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg vegna Covid-19 faraldursins. Áætlaður kostnaður miðað við þriggja mánaða tímabil getur verið á bilinu 20 m.kr. til 25 m.kr. miðað við gefnar forsendur í meðfylgjandi kostnaðarmati. 

    1.    Lagt er til að forsjáraðili sem fékk fjárhagsaðstoð til framfærslu í jan - mars 2020 fái eingreiðslu með hverju barni sem er með lögheimili hjá forsjáraðila sem nemur 20.000 kr. Framangreind aðstoð skal greidd á grundvelli 16. og 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

    2.    Lagt er til að tilslakanir verði gerðar á tilteknum ákvæðum í reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, sem hér segir:

    a)    Á 6. og 7. mgr. 8. gr. er fjallar um umsóknir og nauðsynleg fylgigögn, þannig að fallið verði frá kröfu um að þeir einstaklingar sem eru án bótaréttar skili inn staðfestingarskjali um virka atvinnuleit;

    b)    Á 1. - 4. mgr. 11. gr. er fjallar um grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar, þannig að umsækjandi um fjárhagsaðstoð sem er í hjónabandi og maki hans staddur erlendis, fái greidda fjárhagsaðstoð í tvo mánuði samkvæmt einstaklingskvarða (en ekki fjárhæð sem nemur hálfum hjónakvarða);

    c)    Á 12. gr., er fjallar um tekjur og eignir umsækjanda í mánuðinum á undan, þannig að tekjur fyrri mánaðar, allt að 300.000 kr., dragist ekki frá fjárhæð fjárhagsaðstoðar í fyrsta umsóknarmánuði. Þá er lagt til að heimilt verði að líta framhjá því skilyrði að umsækjandi um fjárhagsaðstoð eigi ekki eignir utan íbúðarhúsnæðis og eina fjölskyldubifreið;

    Þegar hafa verið gerðar ýmsar tímabundnar tilslakanir á verklagi með reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð, sem staðfestar voru af velferðarráði 22. apríl sl. og fela þær ekki í sér viðbótarkostnað. Nánar er gerð grein fyrir þeim í greinargerð.
    Aðgerðir þessar taka gildi frá og með 1. maí 2020 og gilda til 30. júní 2020.
    Halda skal sérstaklega utan um þau mál sem samþykkt eru á grundvelli framangreindra tillagna og fjölda þeirra í málaskrá velferðarsviðs.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna fagna þeim aðgerðum sem nú eru samþykktar til að bregðast við því ástandi sem hefur skapast vegna Covid-19. Eingreiðslur til foreldra á fjárhagsaðstoð með börn á framfæri upp á kr. 20.000 með hverju barni til að bregðast við auknum útgjöldum vegna aukinnar viðveru barna á heimilum, tímabundin innleiðing á frítekjumörkum vegna tekna fyrri mánaða upp að allt að kr. 300.000 og það að hverfa tímabundið frá þeirri kröfu að notendur sýni fram á virka atvinnuleit eru allt aðgerðir sem skipta miklu máli fyrir notendur fjárhagsaðstoðar við þessar fordæmalausu aðstæður. Þá er einnig tryggt að þeir sem eiga maka sem eru „fastir“ erlendis fái fulla fjárhagsaðstoð einstaklings (kr. 207.709) en ekki hálfan hjónakvarða (kr. 166.167) eins og nú er.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ánægjulegt að sjá að Reykjavík ætlar að koma til móts við fólk sem lendir í ófyrirséðum erfiðleikum vegna heimsfaraldursins. Það er þó fullljóst að 20.000 króna eingreiðsla dugar skammt. Ef við eigum að koma til móts við fátækasta hóp borgarinnar þá dugir ekki að tjalda til einnar nætur. Flokkur fólksins vill sjá fjárhagsaðstoð Reykjavíkur hækka varanlega um 20.000 krónur. Ef það þykir ómögulegt þá þarf að minnsta kosti að framlengja eingreiðsluúrræðið þannig að fólk fái 20.000 króna viðbót við fjárhagsaðstoð í 3 mánuði. Það er mat Flokks fólksins að almennt séð eru borgaryfirvöld ekki að koma nægilega á móts við ellilífeyrisþega og öryrkja og það er jafnframt mat margra þeirra líka eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Sumir eiga einfaldlega ekki til hnífs og skeiðar og glíma auk þess sumir einnig við húsnæðisvanda. Margir áttu afar erfitt áður en Covid-faraldurinn skall á og staðan eftir að Covid-19 skall á hefur versnað hjá þessu fólki til muna.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er gott að verið sé að skoða sérstaklega aðstæður þeirra sem þurfa stuðning núna. Fulltrúi sósíalista telur þó að almennt þurfi að hækka upphæð fjárhagsaðstoðar sem er lág til þess að byrja með. Þó að tillagan feli í sér að verið sé að líta fram hjá tekjum fyrri mánaðar, þannig að allt að 300.000 kr. dragist ekki frá fjárhæð fjárhagsaðstoðar í fyrsta umsóknarmánuði, þá telur fulltrúi sósíalista að þau mörk hefðu þurft að vera hærri. Einstaklingar sem sækja um fjárhagsaðstoð vita það oftast ekki fyrirfram og fyrri tekjur því oft ekki eitthvað sem viðkomandi á eftir þegar greiðslur fjárhagsaðstoðar til framfærslu hefjast.

    Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur, tók sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram erindisbréfi um skipan starfshóps um endurskoðun átaksverkefna auk verkefna tengdum sama markhópi.
    Samþykkt. Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir skipaðar í starfshópinn.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á starfsemi velferðarsviðs vegna Covid -19.

  4. Lagt fram minnisblað um NPA.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri Grænna, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands árétta að lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (NPA) er réttindalöggjöf og áréttar mikilvægi þess að ríkisvaldið tryggi fjármögnun til samræmis við það. Ljóst er að í þeirri innleiðingaráætlun sem kynnt var af hálfu ríkisins við samþykkt laganna var lagt upp með ákveðna fjölgun samninga á ári hverju og eru það mikil vonbrigði að ekki standi til að fjölga samningum í samræmi við þá áætlun á árinu 2020. Velferðarráð skorar á ríkisvaldið að ráðast sem fyrst í breytingar á reglugerð um framkvæmd NPA þjónustu með það að markmiði að skýra umgjörð þjónustunnar og útfæra hana með þeim hætti að hægt sé að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um innleiðinguna frá því að lögin voru samþykkt. Nauðsynlegt er að sú endurskoðun fari fram í fullu samráði við sveitarfélögin, hagsmunasamtök notenda og notendur og að með því verði kostnaðarþátttaka ríkisins tryggð og fötluðu fólki tryggð sama mikilvæga þjónusta óháð búsetu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í dag eru 24 einstaklingar með þjónustu í formi NPA, 19 eiga samþykkta umsókn. Miðað við fjárheimildir velferðarsviðs er ekki unnt að gera fleiri samninga á árinu 2019 og 2020 nema einhver hætti með þjónustu í formi NPA eða fjárheimildir verði auknar. Ekki er tryggt að mótframlag komi frá ríkinu ef gerðir verða fleiri samningar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort velferðarráð og svið ætli ekki að ganga í þessi mál af krafti og linna ekki látum fyrr en eitthvað fer að hreyfast? Það segir sig sjálft að ekkert gerist af sjálfu sér. Þetta getur bara ekki verið svona. Auka þarf fjárheimildir og eiga samtal við ríkið um mótframlag. Þetta eru lög og ekki er hægt að sitja og bíða.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað um heilbrigðisþjónustu heim/sérhæfða heilbrigðisþjónustu.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram ársuppgjör velferðarsviðs 2019.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Heildarumsvif velferðarsviðs án bundinna liða eru tæpir 24 milljarðar og er niðurstaða ársins í fyrra 179 milljónum undir áætlun eða 0,7%. Þegar bundnir liðir, bætast við er velferðarsvið 0,04% yfir áætlun og það þrátt fyrir mikinn halla á málflokki fatlaðs fólks og þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Því er ástæða til að hrósa stjórnendum velferðarsviðs fyrir góða fjármálastjórn. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hægt er að skilja einstaka frávik á sviði eins og velferðarsviði. Frávik hafa sínar ástæður og orsakir, þau koma til vegna þess að það hefur verið vanáætlað, eða eitthvað óvænt hefur komið upp á eða verið er að reka einingu/stofnun með óskynsamlegum hætti. Frávik eru vegna heimaþjónustu því ekki hefur tekist að manna. Það er dýrt að geta ekki mannað. Ef launin væru mannsæmandi væri mögulega hægt að manna. Það vekur athygli að frávik eru í kostnaði við framleiðslueldhús upp á 26 m.kr. eða 19% umfram fjárheimildir sem skýrist að hluta vegna langtímaveikinda en 2 starfsmenn voru í langtímaveikindum á tímabilinu. Sama má segja um félagsmiðstöðvar, þar eru einnig frávik. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að liðir eins og þessir ættu að geta verið í betra lagi. Skoða þarf áætlanagerð betur og deila fé í samræmi við þörf. Frávik væri helst skiljanlegt hjá barnavernd en þar geta komið upp skyndilegar óvæntar aðstæður. Engu að síður ætti að vera hægt að áætla nákvæmar. Árið 2019 var hefðbundið góðærisár og ef einhvern tíma hefði verið hægt að spá nákvæmt þá er það sennilega það ár. Öðru máli gegnir um 2020. Árið 2020 verður vissulega allt öðruvísi vegna hins óvænta vágests Covid-19.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram yfirlit yfir ferðaheimildir 2019.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup yfir milljón 2019.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Birt er yfirlit yfir innkaup velferðarráðs yfir milljón. Það sem tekið er eftir í þessu yfirliti um innkaup yfir milljón árið 2019 er uppsetning á öryggiskerfi í nýrri þjónustumiðstöð Breiðholts. Kostnaður er 28 milljónir. Borgin er með miðlægan samning við Öryggismiðstöðina um öryggisvörslu almennt en þessi þjónusta var keypt af Securitas þar sem þeir höfðu áður þjónustað þetta tiltekna húsnæði. Þetta þarfnast að mati Flokks fólksins nánari útskýringar. Eins má spyrja hvort það sé ekki óhentugt að borgin skipti við annað fyrirtæki en það sem hún hefur miðlægan samning við? Eins vantar að skýra af hverju uppsetningu öryggisbúnaðar er svona dýr á þessari ákveðnu þjónustumiðstöð.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf frá Blokkinni, félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum, dags. 10. apríl 2020.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar hafa verið settar reglur í samræmi við fyrstu aðgerðir borgarinnar til viðspyrnu vegna Covid-19 sem heimila greiðsluaðlögun til þeirra sem orðið hafa fyrir atvinnumissi eða tekjufalli. Einnig hefur verið hægt á málum sem snúa að greiðsluáskorunum og kunna að leiða til riftunar leigusamninga og unnið er að því að koma til móts við leigjendur innan þessa ramma. Samkvæmt eignendastefnu Félagsbústaða skal tryggt að reksturinn sé sjálfbær og að veltufé frá rekstri skuli standa undir afborgunum lána. Niðurfelling leigu í einn mánuð nemur tæpum 310 m.kr. og myndi samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun leiða til þess að handbært fé yrði neikvætt um tæpar 200 m.kr. á árinu 2020 og væri öðrum mánuði bætt við ykist hallinn um 310 m.kr. að óbreyttu. Í ljósi markmiða um sjálfbærni var stjórnin sammála um að ekki væri unnt að fella niður leigu í einn eða fleiri mánuði nema til kæmu sérstakar greiðslur til að mæta tekjutapinu. Reykjavíkurborg hefur gripið til fjölda aðgerða til að hægt sé að fjölga íbúðum og til að koma í veg fyrir hækkun leigu hjá Félagsbústöðum. Nauðsynlegt er að beina stuðningi til þeirra sem þurfa mest á honum að halda.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi sósíalista tekur heilshugar undir erindi félags leigjenda hjá Félagsbústöðum um að koma í veg fyrir vanskil og fjárhagsörðugleika leigjenda hjá Félagsbústöðum. Krafa þeirra er að leiga verði felld niður í 2 mánuði og í framhaldi verði leitað leiða til að aðstoða þau sem lenda í áframhaldandi vandræðum með ýmsum leiðum. Í fundargerð stjórnar Félagsbústaða frá 24. apríl kemur fram að niðurfelling leigu í einn mánuð nemi tæpum 310 m.kr. og að ef fella ætti niður leigu í einn eða fleiri mánuði verði að koma til sérstakar greiðslur til að mæta tekjutapinu, í ljósi markmiða Félagsbústaða um sjálfbærni. Fulltrúi sósíalista telur því eðlilegt að Reykjavíkurborg komi til móts við leigjendur á þessum erfiðu tímum og á erfitt með að skilja orð sem birtast í bókun meirihlutans frá síðasta velferðarráðsfundi, þar sem fram kemur að „[...]slík niðurfelling væri mjög kostnaðarsöm og ekki tryggt að þannig myndi fé nýtast sem best til að hjálpa þeim tekjulægstu, en margir sem leigja hjá Félagsbústöðum verða ekki fyrir tekjufalli [...]“. Auðvitað mun beinn fjárstuðningur hjálpa þeim allra tekjulægstu á þessum erfiðu tímum, þar sem margir upplifa tekjurýrnun, verð í matvöruverslunum hefur í mörgum tilfellum hækkað umtalsvert og margir hafa þurft að mæta óvæntum auka útgjöldum. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nú liggur fyrir að ekki á að fella niður leigu hjá Félagsbústöðum í einn einasta mánuð vegna Covid-19 aðstæðna eins og tillaga fulltrúa Flokks fólksins fól í sér. Einnig var lagt til að Félagsbústaðir falli frá innheimtu á leiguskuldum leigjenda og frysti þær sem eru í innheimtuferli vegna Covid-19. Því er einnig hafnað. Félagsbústaðir hafa skyldur og ábyrgð gagnvart leigjendum sem er einn viðkvæmasti hópurinn sem velferðarsvið þjónustar. Fram hefur komið að niðurfelling leigu í einn mánuð nemi tæpum 310 m.kr. og myndi leiða til þess að handbært fé yrði neikvætt um tæpar 200 m.kr. á árinu 2020. Öðru eins fé er nú varið í alla mögulega hluti, sum verkefni sem vel mættu bíða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Staða sumra í þessum hópi er einfaldlega mjög slæm og dugar ekki greiðsluaðlögun. Að hægja á málum sem snúa að greiðsluáskorunum eins og boðið er upp á er skammgóður vermir. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að stjórn Félagsbústaða endurskoði þessa ákvörðun sína.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Reykjavíkurborg hefur skilgreint almennt félagslegt leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Það er því sérkennilegt að fjárstuðningur handa tekjulágum einstaklingum sem hafa jafnframt búið við erfiðar félagslegar aðstæður eru ekki taldir þurfa á fjárstuðningi á að halda á þessum erfiðu tímum. Þó að margir greiði leiguna á réttum tíma þýðir það ekki að fjárstaða þeirra sé góð og það er nauðsynlegt að sýna meðvitund um þær aðstæður. Hér er um hóp að ræða sem býr við fjárhagslega viðkvæma stöðu.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Það er ekki þannig að allir Reykvíkingar sem búa við erfiðar aðstæður leigi hjá Félagsbústöðum og því teljum við betra að styðja við þann hóp með almennari hætti

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf frá Hjálparstarfi kirkjunnar, dags. 20. apríl 2020.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hjálparstarf kirkjunnar hefur komið til móts við þá í þörf fyrir aðstoð vegna fátæktar og félagslegrar einangrunar. Þau veita félagslega ráðgjöf og efnislegan stuðning sem felst fyrst og fremst í inneignarkortum í matvöruverslunum. Þá getur Hjálparstarf kirkjunnar einnig aðstoðað fólk með lífsnauðsynleg lyf o.fl. Í erindi frá Hjálparstarfi kirkjunnar um fjárstuðning kemur fram að á undanförnum mánuðum hafi orðið aukning á beiðnum um aðstoð við matarinnkaup og á síðustu vikum hafi ennfremur borið á aukningu vegna Covid-19. Þá kemur einnig fram í erindinu að þar að auki hafi orðið skerðing á opnunartímum og þjónustu ýmissa stofnana og annarra hjálparsamtaka sem hefur bein áhrif á líf þeirra sem sækja um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar og eru í viðkvæmri stöðu. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins fái daglega símtöl frá félagsráðgjöfum þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar þar sem þeir óska eftir aðstoð fyrir skjólstæðinga sína, ýmist í formi inneignarkorta, fatnaðar, húsbúnaðar eða lyfjakaupa. Þar að auki vísa þjónustumiðstöðvar fólki mikið til Hjálparstarfs kirkjunnar þegar bjargir félagsþjónustunnar duga ekki til. Þessi símtöl og tilvísanir hafi aukist á undanförnum mánuði. Þá leiti starfsmenn VOR-teymisins mikið til félagsráðgjafa Hjálparstarfsins vegna skjólstæðinga sinna og er það einna helst vegna lyfjaaðstoðar. Hér er ljóst að bregðast þarf við svo að enginn upplifi skort.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir erindið frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Velferðarsvið hefur stutt við ýmis verkefni sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur staðið fyrir í Reykjavík í gegnum árin og átt farsælt samstarf við samtökin. Ljóst er að ef um formlega styrkbeiðni er að ræða er farsælast að sótt sé um ákveðna upphæð til ákveðinna verkefna í samræmi við styrkjareglur borgarinnar. Ljóst er að skoða þarf með heildstæðum hætti hvort þörf sé á að skoða styrkveitingar borgarinnar í ljósi ástandsins og endurmeta þörfina fyrir stuðning í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar erindi Hjálparstarfs kirkjunnar og þær ábendingar sem þar koma fram. Tekið er undir þau orð að velferðarráð hefur átt farsælt og langvinnt samstarf við stofnunina. Hjálparsstofnunin er hvött til að sækja um til ráðsins varðandi frekari stuðning í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar vegna Covid-19. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokki fólksins hugnast vel sú aðferð sem þarna er beitt, þ.e. að Hjálparstarfið veitir aðstoð fyrst og fremst í inneignakortum í matvöruverslunum þannig að fólk getur sjálft valið að sem það hefur þörf fyrir. Einnig er aðstoð veitt með lífsnauðsynleg lyf og greitt fyrir tómstundir barna. Hjálparstarfið er í raun að gera það sem velferðarráð á að gera. Þegar kerfið er ekki að sinna sínu hlutverki spretta upp alls konar hjálparfyrirtæki. Samfélagið vísar vandamálunum á alls kyns félög í stað þess að takast á við verkefnið sjálft. Aðferðafræðin sem er að veita aðstoðina í inneignakortum er eina rétta og besta leiðin. Þegar fólk fær inneignakort þarf það ekki að standa í biðröð fyrir utan hjálparstofnanir eftir mat sem mörgum finnst afar niðurlægjandi og erfitt. Sem samfélag ber okkur að gæta að því að fólk geti haldið sjálfsvirðingu sinni þótt það sé fátækt. Hjálparstarf kirkjunnar á heiður skilið fyrir þessa framkvæmd. Þegar kerfið hefur brugðist hefur starfið haldið velli. Skrifstofan hefur verið opin í gegnum allan faraldurinn og hefur ekki orðið skerðing á þjónustunni. Eðlilega biður starfið um fjárstuðning enda „hjálparstarf“ sem lifir aðeins ef styrkir koma einhvers staðar frá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Velferðarsvið hefur gripið til ýmissa aðgerða vegna Covid-19 og ber þar fyrst að nefna aðgerðir sem samþykktar voru á fundinum t.d varðandi eingreiðslur til foreldra með börn á framfæri og frítekjumark vegna tekna fyrri mánaða. Einnig eru til skoðunar aðgerðir sem snúa að sérstökum þjónustugreiðslum vegna barna. Mikilvægt er að allur stuðningur borgarinnar við notendur fjárhagsaðstoðar sé rýndur heildstætt með það að leiðarljósi að hann nýtist þeim sem þurfa mest á að halda hverju sinni.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Bjargir félagsþjónustunnar eiga ávallt að duga til að mæta þeim sem eru í nauðsynlegri þörf fyrir stuðning. 

    Fylgigögn

PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0605.pdf