Velferðarráð
Ár 2020, miðvikudagur 22. apríl var haldinn 376. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í Hofi, Borgartúni 12-14. Eftirtaldir aðilar fulltrúar velferðarráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Á fundinn mætti Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfsemi velferðarsviðs vegna Covid -19.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur af hópi erlendra einstaklinga sem hefur komið til landsins til að vinna á vegum fyrirtækja. Þetta fólk hefur nú fallið milli skips og bryggju. Þetta fólk kemst ekki, eðli málsins samkvæmt, heim núna í Covid aðstæðunum og þorir jafnvel ekki að láta yfirvöld hér á landi vita af sér. Hvernig ætlar velferðarsvið að fanga þennan hóp til að geta hjálpað þessu fólki? Þau fyrirtæki sem eru upphaflega ábyrg fyrir þessu fólki eru e.t.v. ekki öll að sinna sínu hlutverki sem skyldi. Svo margt er óljóst með þennan hóp og óttast er að margir hafi hvorki mat né húsaskjól. Þetta er fólk sem á ekki rétt á neinni aðstoð og getur aðeins leitað til hjálparstofnanna með nauðsynjar. Einhverjir hafa leitað til þjónustumiðstöðva en alls ekki allir.
-
Fram fer kynning á skjáheimsóknum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir góða kynningu á innleiðingu skjáheimsókna í heimaþjónustu- og heimahjúkrun. Ljóst er að mikið kapp hefur verið lagt á að innleiða og prófa nýjar tæknilausnir í heimaþjónustu, ekki síst nú þegar margir notendur eru einangraðir vegna Covid-19. Með skjáheimsóknum er hægt að veita fólki félagslegan stuðning og nánd án þess að setja fólk í smithættu. Til framtíðar eru skjáheimsóknir hugsaðar sem hrein viðbót við heimaþjónustu og heimahjúkrun til að auka félagsleg samskipti. Fulltrúarnir fagna þeirri framsýnu ákvörðun sem tekin var þegar velferðarráð tók þá ákvörðun að móta stefnu á sviði velferðartækni sem leiddi meðal annars til þess að velferðartæknismiðju var komið á fót. Að lokum vilja fulltrúarnir þakka starfsfólki fyrir mikla framsýni, útsjónarsemi og frumkvöðlastarf þegar kemur að innleiðingu tæknilausna í velferðarþjónustu öllum til hagsbóta.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins þakkar kynninguna. Þetta er virkilega þarft og gott og ekki síst nú þegar fólk hefur ekki getað hitt aðra vegna ótta við að smitast. Hins vegar er fulltrúi Flokks fólksins uggandi yfir að þetta eigi eftir að verða of mikið ríkjandi þegar fram í sækir þar sem þetta sparar starfsmönnum sannarlega sporin og gæti heimsóknum til einstaklinga því snarfækkað. Fyrir þá sem eru fastir heima vegna aldurs eða veikinda og eiga jafnvel fáa eða enga ættingja yrði það mjög slæmt. Fólk er félagsverur og við þrífumst á að vera í samfélagi við annað fólk. Tæknilausnir sem þessar, eins frábærar og þær eru, eru á sama tíma ógn við persónuleg tengsl og tengslamyndun. Engin snerting er í gegnum tæknilausnir, ekkert klapp á bak eða strok á kinn. Flokkur fólksins vill leggja varann við að gæta þess að skjáheimsóknir verði ekki til þess að horfið verði frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Skjáheimsóknir geta aldrei komið í staðin fyrir heimsókn manneskju. Ekkert kemur í staðinn fyrir samveru, nánd og nálægð. Ef eðlilegt jafnvægi helst milli heimsókna og skjáheimsókna þá eru þjónustuþegar að fá það besta frá báðum möguleikum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Eins og þegar hefur komið fram eru skjáheimsóknir í heimahjúkrun og heimaþjónustu hugsaðar sem hrein viðbót við núverandi þjónustu til að auka félagsleg samskipti. Framsýni velferðarsviðs og þau skref sem stigin hafa verið á sviði velferðartæknilausna skipta sköpum á þessum viðsjárverðu tímum.
Sigþrúður Guðnadóttir, verkefnastjóri og Berglind Víðisdóttir, deildarstjóri, taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á verkefninu símavinir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar þakka fyrir kynningu á verkefninu símavinir. Það er ljóst að um mikilvægt verkefni er að ræða þar sem aldraðir eru líklegri til þess að einangrast á þessum fordæmalausu tímum og er þetta mikilvægt verkefni til að sporna gegn því. Gaman er að sjá hversu mikill áhugi er fyrir verkefninu og hversu vel starfsfólk borgarinnar hefur haldið utan um það. Því starfsfólki og þeim sjálfboðaliðum sem komið hafa að þessu mikilvæga verkefni ber því að þakka heilshugar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er glæsilegt verkefni. Það er merkilegt hvað þessi skelfilegi faraldur hefur leitt til nýrra hugmynda og blásið lífi í aðrar. Stundum þarf greinilega faraldur til. Flokkur fólksins lagði til í upphafi Covid aðstæðnanna að komið yrði á sérstakri símaþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar af þeirri ástæðu að nokkrir höfðu haft samband og sagst ekki ná í starfsmann. Mestar áhyggjur voru af eldri borgurum sem hafa engar snjalllausnir aðrar en gamla góða símann. Þetta verkefni er umfram væntingar fulltrúa Flokks fólksins í þessu sambandi. Mikilvægt er að mati fulltrúa Flokks fólksins að þróa þetta verkefni áfram, víkka það út og gera þetta að föstu verkefni til framtíðar. Þeir sem ekki vildu símavin núna gætu t.d. viljað hann seinna. Hugsa má einnig um þá sem eru ekki á málaskrá borgarinnar og svo mætti lengi telja. Fyrir þá sem hringja er þetta einnig dýrmæt reynsla og í henni felst mikill lærdómur.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á aðgerðum Félagsbústaða vegna Covid-19.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér hafa verið kynntar áætlanir um tilslakanir og greiðslufresti sem Félagsbústaðir hafa ráðist í, í kjölfar ákvörðunar borgarráðs um tilslökun á innheimtu vegna Covid-19. Settar hafa verið reglur um sveigjanleika í innheimtu og gjaldfrestum. Auk þess sem fjárhagsáætlun Félagsbústaða verður endurskoðuð með það í huga hvort hægt sé að flýta framkvæmdum og auka viðhald eða fjölga íbúðum umfram áætlanir. Mikilvægt er að halda því til haga að þeir sem lenda í vandræðum með leigu geta leitað til félagsbústaða með beiðni um greiðslufrest eða aðrar tilslakanir. Dugi þau úrræði ekki til þá er hægt að leita til þjónustumiðstöðva og velferðarsviðs um aukna aðstoð. Sanngjarnast er að einar reglur gildi um alla samkvæmt gegnsæju ferli. Mikið og farsælt samstarf er á milli velferðarsviðs og Félagsbústaða og mun það halda áfram á þessum sérstöku tímum.Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Margir glíma nú við erfiðar fjárhagslegar afleiðingar Covid-19. Fulltrúi sósíalista tekur heilshugar undir erindi frá Blokkinni: Félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum, sem skorar á borgarráð, velferðarráð, velferðarsvið og Félagsbústaði að taka höndum saman og koma með öllum ráðum í veg fyrir vanskil og fjárhagsörðugleika leigjenda hjá Félagsbústöðum. Krafa þeirra er að leiga verði felld niður í 2 mánuði og í framhaldi verði leiða leitað til að aðstoða þau sem lenda í áframhaldandi vandræðum með ýmsum leiðum. Þau skora einnig á Félagsbústaði að auka samskipti við leigjendur sem lent hafa í vanskilum og að falla frá því að senda greiðsluseðla sjálfkrafa til innheimtufyrirtækja án þess að leitað hafi verið leiða til samninga fyrst. Í erindi sínu taka þau einnig m.a. fram að leigjendur Félagsbústaða eigi það sameiginlegt að vera tekjulágir. Auk þess tilheyra íbúar flestir félagslega- og/eða heilsufarslega viðkvæmum hópum samfélagsins sem augljóslega standa veikast gagnvart þeim aðstæðum sem nú hafa komið upp í þjóðfélaginu. Frystingar og dreifingar á greiðslum muni ekki hjálpa mikið í þessum aðstæðum, heldur frekar stuðla að auknum vanskilum í framhaldi. Það að auka mánaðarleg útgjöld vegna dreifinga eða búa til stóra „skuldasnjóbolta” er einfaldlega ekki lausn í þessu sambandi og því er þörf á róttækari, fyrirbyggjandi aðgerðum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ef ekki stendur til að lækka húsaleigu Félagsbústaða eða fella niður tímabundið niður leigu, er afar mikilvægt að gera grein fyrir þeirri ákvörðun um leið og hún liggur fyrir. Og að gera það með skýrum og augljósum hætti, þannig að allri óvissu og vangaveltum í þá átt verði eytt. Það er engum til gagns að tala óskýrt um þá ákvörðun.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústaðir hafa verið lengi í umræðunni vegna ýmissa mála. Það var mörgum áfall þegar stjórn ákvað að senda allar skuldir fólks í innheimtu hjá Motus. Þótt leigjendur Félagsbústaða séu fjölbreyttur hópur þá eiga þeir það allir sameiginlegt að vera tekjulágir og með mjög viðkvæman fjárhag. Nú ríkir þetta ótrúlega ástand vegna Covid og hefur það komið verst niður á viðkvæmum hópum sem borgarmeirihlutinn hefur þó sagst vilja standa vörð um og hlúa að. Flokkur fólksins lagði fram, strax í upphafi ástandsins tillögu um að létta á þessum hópi með því að fella niður leigu t.d. í 1, 2 eða 3 mánuði þar sem strax kom fordæmi fyrir slíku hjá öðru leigufélagi. Niðurfelling leigu, þótt ekki væri nema í einn mánuð, myndi létta mjög á þessum hópi. Boðið er upp á greiðsludreifingu. Auðvitað hjálpar allt. Flokkur fólksins vill minna velferðaryfirvöld á að meðal leigjenda er án efa fólk sem hefur jafnvel misst vinnu sína og er því ekki að fá tekjur neitt á næstunni. Greiðsludreifing nær skammt fyrir þennan hóp ef engar eru tekjurnar kannski til langs tíma.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að Félagsbústaðir hafa ekki tekið ákvörðun um niðurfellingu leigu, en ljóst er að slík niðurfelling væri mjög kostnaðarsöm og ekki tryggt að þannig myndi fé nýtast sem best til að hjálpa þeim tekjulægstu, en margir sem leigja hjá Félagsbústöðum verða ekki fyrir tekjufalli og margir sem leigja ekki hjá Félagsbústöðum verða fyrir tekjufalli. Þarna væri um að ræða hundruði milljóna sem betur færi á að nýta í hnitmiðaðar aðgerðir til að hjálpa þeim sem lenda í vanda óháð búsetu eða til að fjölga íbúðum Félagsbústaða.
Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, tekur sæti á fundinum með fjarfundabúnaði undir þessum lið.
-
Lagðar fram leiðbeiningar til starfsfólks þjónustumiðstöðva um tilslakanir á fylgigögnum með umsóknum.
Samþykkt.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Notkun stafrænnar tækni er okkar öflugasta verkfæri til þess að halda þjónustu borgarinnar við íbúa í eðlilegu horfi á þessum erfiðu tímum. Nú þegar hafa umsóknarferli verið færð á stafrænt form, en í ljósi þess að ekki er búið að rafvæða allar umsóknir er mikilvægt að borgin taki upp það verklag til þess að geta áfram veitt þá nauðsynlegu þjónustu sem íbúar borgarinnar þurfa á að halda. Þessar ráðstafanir ættu að duga til skemmri tíma, en mikilvægt er að huga að því til framtíðar að umsóknarferli sviðsins séu rafvædd að fullu. Það sparar notendum og starfsfólki tíma og vinnu, sparar pappír og ferðalög og er ein skýrasta leiðin sem í boði er til að bæta þjónustu borgarinnar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar því að einfalda eigi umsóknabeiðnakerfið. Það er okkar skylda að reyna að gera allt fyrir þjónustuþegann til að létta honum verkið. Til þess að svo megi vera þarf að ríkja sveigjanleiki og lipurð. Hvað varðar skriffinnsku í kringum umsóknarferlið eða upplýsingagjöf má sumt sannarlega bíða og eiga smáatriði aldrei að verða til þess að fólk fái ekki aðstoðina. Ef rafrænar leiðir henta betur fólki, sbr. að skrifa undir rafrænt eða senda umboð rafrænt þá á að opna fyrir þann möguleika að sjálfsögðu. Í raun ættu allar þessar tilslakanir að vera festar í sessi en ekki aðeins tímabundnar. Flokkur fólksins vill nefna í þessu sambandi aðra tegund á tilslökunum sem þarf líka að gera. Auka þarf sveigjanleika til að geta hjálpað fólki sem fellur milli skips og bryggju. Sem dæmi um þetta eru einstaklingar, oft einstæðir foreldrar sem hafa e.t.v. þegið endurhæfingarlífeyri eða aðrar tímabundnar bætur og fá þar af leiðandi ekki fjárhagsaðstoð næsta mánuð á eftir þar sem tekjur voru umfram leyfilegt hámark mánuð á undan. Velferðarráð/svið verður að sammælast um að finna leiðir og lausnir til að mæta fólki sem er í þessum aðstæðum til þess að fólk lendi ekki á milli skips og bryggju í kerfinu.
Fylgigögn
-
Lagðar fram leiðbeiningar velferðarsviðs í ýmsum þjónustuþáttum vegna Covid-19.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 22. apríl 2020, um að ganga til samninga við Andrastaði hses:
Lagt er til að velferðarráð heimili velferðarsviði, með fyrirvara, að ganga til samninga við húsnæðissjálfseignarstofnunina, Andrastaði hses, um undirbúning og nýtingu á þremur rýmum fyrir einstaklinga sem fá stuðning á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Fyrirvari verði gerður um kostnað og inntak þjónustu.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. apríl 2020, þar sem samningur félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurbogar varðandandi tímabundinn stuðning ráðuneytisins við neyðarhúsnæði og þjónustuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir tiltekna hópa vegna Covid -19 er lagður fram, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs 16. apríl 2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gerður hefur verið samningur um tímabundinn stuðning félagsmálaráðuneytisins við neyðarhúsnæði og þjónustuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir tiltekna hópa vegna Covid-19. Með samningnum eru fjármagnaðar tímabundnar lausnir fyrir þá sem ekki eiga í nein hús að venda vegna faraldursins en dæmi er um að á undanförnum vikum hafi vaxandi hópur leitað til sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð og aðstoð við húsnæðisleit. Um er að ræða fólk sem hefur dvalist erlendis, hjá ættingjum eða vinum eða í öðru tímabundnu húsnæði og hefur lent í fjárhags- og húsnæðisvanda vegna Covid-19, til dæmis vegna hættu á smiti í núverandi húsnæði, eða fólk sem þarf að fara í sóttkví missir samastað sinn og leitar til sveitarfélags síns eftir húsnæðisúrræðum. Stundum geta þessar aðstæður borið brátt að og þörf fyrir úrræði strax. Úrræðið stendur til boða í fjóra mánuði og er heildarkostnaður um 85 milljónir króna. Um mikilvægt verkefni er að ræða og fagna fulltrúarnir því frumkvæði borgarinnar að tryggja þessa mikilvægu þjónustu gegn samningi við ríkið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar þessum samningi en hefur áður tjáð undrun sína á hversu auðvelt þetta skref virðist hafa verið fyrir borgarmeirihlutann að taka. Ekki er hjá því komist að hugsa af hverju borgarstjóri og velferðaryfirvöld hafa ekki tekið skref sem þetta fyrir lifandis löngu því húsnæðisneyðin hefur oft verið mikil hjá fólki undanfarin ár, einstaklingum sem fjölskyldum. Þegar þarf að leysa mál þá er vel hægt að gera það, ef vilji er fyrir hendi. Á öllum tímum hefði þessi og síðasti meirihluti getað haft frumkvæði og þrýst á um að gert yrði sambærilegt samkomulag við ríkið um lausn eins og þessa fyrir þá sem hafa þurft. Flokkur fólksins vonast til að þessi hörmulega veirukrísa hafi þó kennt meirihlutanum í borgarstjórn að hugsa ívið meira út fyrir boxið en gert hefur verið þegar kemur að því að leysa mál af þessu tagi. Þarfir fólksins eiga alltaf að koma fyrst, á öllum tímum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á tillögum að sumarstörfum á velferðarsviði.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir þakka fyrir kynningu á vel undirbúnum tillögum að verkefnum á velferðarsviði sem beint er að hópum sem eiga undir högg að sækja vegna Covid-19. Verkefnið leysir tvíþættan vanda því það stuðlar að fjölbreyttum tækifærum fyrir fólk t.d. námsmenn yfir sumartímann og léttir álagið á þeim starfsstöðvum sem veita mikilvæga velferðarþjónustu. Auk þess er að finna mikilvæga áherslu á félagslega virkni, listsköpun, nýsköpun og áherslu á innleiðingu tæknilausna.
-
Fram fara umræður um fyrirkomulag borgarvaktar í velferðar- og atvinnumálum og hugmyndir að bráða- og borgarvísum, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs þann 16. apríl 2020.
Fylgigögn
-
Lögð fram ályktun frá Landssambandi eldri borgara, dags. 25. mars 2020.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Vel færi á því að fulltrúum Landssambands eldri borgara yrði boðið til fundar með velferðarráði til að ræða þá stöðu sem uppi er í samfélaginu.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins hefur áður bókað við þessa ályktun og gerir það hér líka. Flokkur fólksins tekur undir hana vegna þess að eldri borgarar telja sig hafa orðið útundan þegar kemur að aðgerðum vegna Covid ástandsins. Á þetta ber að hlusta. Eldri borgarar spyrja hvar eru aðgerðir sem snerta þá? Það væri e.t.v. gott að fá því svarað skriflega. Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda, mun meiri þjónustu en þau þurfa alla jafna. Landssambandið hefur sem dæmi nefnt aukin útgjöld vegna matarsendinga heim og fleira. Þetta er hópur sem er afar misvel settur. Sumir eiga ekki fjölskyldu og hafa því verið algerlega einir í þessum aðstæðum. Fjárhagsáhyggjum eða áhyggjur vegna óvissu af einhverju tagi er ekki á bætandi.
Fylgigögn
-
Lagðar fram lykiltölur janúar- febrúar árið 2020.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er alltaf erfitt að sjá birtingu lykiltalna velferðarsviðs því manni finnst í sumum málum sem hægt þokist í að lækka tölur þeirra sem bíða eftir þjónustu. Breytingar milli ára eru oft ansi litlar. Ef horft er til liðveislu þá var biðlisti umsækjenda árið 2019, 233 umsóknir en eru í dag 211. Vandinn er sennilega sá að ekki hefur fengist í þetta fólk. Kannski rætist úr núna þar sem margir eru atvinnulausir vegna Covid-19 og að hægt verði að manna störf sem ekki hafa verið mönnuð lengi. Nú ætti einnig að vera tækifæri til að spýta í lófana og byggja húsnæði fyrir fatlað fólk. Talað hefur verið um að flýta eigi verkefnum og bæta í þau til að bæta atvinnuástandið sem nú ríkir. Mikil þörf er á að byggja íverustaði fyrir aldraða svo sem hjúkrunarrými. Eftir þjónustuíbúðum fyrir aldraða bíða nú um 140 manns. Velferðarráð getur þrýst þarna á svo um munar enda hefur Reykjavíkurborg skipulagsvaldið og getur haft mun meira frumkvæði í að byggja upp hjúkrunarrými í samvinnu við ríkið. Góð rök eru fyrir því að hefja framkvæmdir þegar framboð er á vinnuafli og atvinnuleysi með mesta móti.
- Kl. 15:54 víkur Örn Þórðarson af fundinum.
- Kl. 15:56 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.Fylgigögn
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2204.pdf