Velferðarráð
Ár 2020, miðvikudagur 5. febrúar var haldinn 370. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Hofi, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Aron Leví Beck, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Elsa Guðrún Jóhannsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á húsnæðismálum fólks með fjölþættan vanda.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Hugmyndafræði skaðaminnkunnar er bylting í velferðarþjónustu sem þegar hefur sannað gildi sitt. Um er að ræða hóp sem þarf sértækan stuðning. Ný stefna með aðgerðaáætlun var samþykkt á síðasta ári og þegar er unnið á grundvelli hennar. Ný úrræði hafa verið opnuð, svo sem nýtt neyðarskýli á Granda og búsetuúrræði fyrir konur með með geðrænan vanda auk fíknivanda. Auk þess fjölgar íbúðum í sjálfstæðri búsetu með stuðningi jafnt og þétt. Fulltrúar meirihlutans ítreka mikilvægi þess að vinna áfram fullum fetum að því að finna lóðir víðsvegar um borgina fyrir þau 20 smáhýsi sem þegar hefur verið fest kaup á. Mikilvægt er að sýna áhyggjum íbúa skilning og upplýsingagjöf í nærsamfélaginu um þau úrræði sem opna víðsvegar um borgina í þeim tilgangi að hægt sé að tryggja öllum borgarbúum þak yfir höfuðið þarf að vera vönduð, ítarleg og forvirk. Á sama tíma er nauðsynlegt að standa að baki þeirri sannfæringu að þjónustunotendur eigi ekki að þurfa að upplifa sig jaðarsetta eða óvelkomna í borginni. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um heimili fólks að ræða og er það staðföst trú fulltrúanna að koma skuli fram við alla af virðingu, og að veita skuli þjónustu á forsendum notenda undir formerkjum skaðaminnkandi nálgunar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar hana. Á biðlista eftir húsnæði eru 61. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvar þessi aðilar eru og hver sé staða þeirra nú sem og hvort það geti verið fleiri þarna sem ekki hafa sett sig í samband við þjónustumiðstöðvar. Hugmyndafræðin Húsnæði fyrst (Housing First) er góð. Húsnæði fyrst snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar. Til langs tíma hefur þessi hópur fólks verið jaðarsettur í samfélaginu og of hægt í of langan tíma hefur gengið að finna bestu lausnirnar fyrir þennan hóp. Þróunin hér á landi er í rétta átt.
- Kl. 13:35 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri vettvangs- og ráðgjafateymis, Ricardo Mario Villalobos, deildarstjóri húsnæðis- og búsetuþjónustu, Ólafía Magnes Hinriksdóttir, skrifstofu málefnum fatlaðs fólks og Þóra Kemp, deildarstjóri ráðgjafaþjónustu taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning á samningsmarkmiðum vegna heimahjúkrunar.
Lilja Petra Ólafsdóttir, verkefnastjóri heimahjúkrunar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, að reglum um þjónustu við börn og barnafjölskyldur:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að reglum Reykjavíkurborgar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.
Greinargerð fylgir tillögu.
Samþykkt með þeirri breytingu að í stað orðsins barnaverndarmál í fylgiskjali 2 undir fyrirsögninni 1. Neyðarástand komi „til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur“ og vísað í borgarráð.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að nýjar reglur um þjónustu við börn og barnafjölskyldur séu nú samþykktar en þær hafa það að markmiði að styrkja stuðningsnet barna og fjölskyldna þeirra í Reykjavík. Reglurnar byggja á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 og barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Áhersla er á að heildaraðstæður fjölskyldu séu metnar með fjölskyldumeðlimum og að leitað sé fjölbreyttra leiða til að veita þann stuðning sem óskað er eftir. Stuðningur verði fjölbreyttur og veittur bæði innan heimilis og utan eftir hvað hentar hverju sinni. Hér eru mörg tækifæri til samsköpunar og þróunar þjónustu þannig að hún henti mismunandi þörfum fólks og styðji það í leik og starfi og stuðli að því að fleiri borgarbúar geti látið drauma sína rætast.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér eru lagðar fram breytingar á reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra, í minnisblaði með tillögunni kemur fram að grundvallarbreytingar snúi að því að leggja aukna áhersla á samvinnu við umsækjanda um það hvers konar stuðningur komi fjölskyldunni til góða og að horfið sé frá því að stuðningsþörf sé metin á grundvelli stiga sem ákvarði fjölda klukkustunda sem börn og fjölskyldur þeirra fái í stuðning. Þar kemur fram að ný nálgun sé talin geta dregið betur fram stuðningsþarfir barna og fjölskyldu þeirra og að áhersla sé lögð á að einfalda alla umsýslu varðandi umsóknir og samþykktir til hagsbóta fyrir notendur. Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar þeirri nálgun. Í reglunum þar sem fjallað er um forgangsröðun umsókna kemur fram að þær raðist í forgangsröð á grundvelli ákveðinna viðmiða. Þar kemur fram að ef fyrirséð sé að stuðningurinn geti ekki hafist innan þriggja mánaða skuli umsókn sett á biðlista. Umsækjandi er þá upplýstur um áætlaða lengd á biðtíma og hvaða stuðningur standi til boða á biðtímanum sbr. ákvæði reglugerðar um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu, nr. 1035/2018. Hér er um gríðarlega mikilvæga þjónustu að ræða og mikilvægt að leita allra leiða svo að töf verði ekki á veittum stuðningi.
Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5 febrúar 2020, um brottfall ákvæða úr reglum um stuðningsþjónustu:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um brottfall ákvæða úr reglum um stuðningsþjónustu í Reykjavík sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 30. maí 2012 og á fundi borgarráðs þann 7. júní 2012, með áorðnum breytingum.
Greinargerð fylgir tillögu.
Samþykkt og vísað í borgarráð.Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5 febrúar 2020, um breytingu á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning:
Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar, frá 1. janúar 2020, á neðangreindum fjárhæðum sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:
Fjöldi heimilis-manna Neðri tekjumörk á ári Efri tekjumörk á ári Neðri tekjumörk á mánuði Efri tekjumörk á mánuði
1 4.020.975 5.026.219 335.081 418.852
2 5.318.064 6.647.580 443.172 553.965
3 6.226.026 7.782.533 518.836 648.544
4 eða fleiri 6.744.861 8.431.076 562.072 702.590Greinargerð fylgir tillögu.
Samþykkt og vísað í borgarráð.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt til að samþykkt verði breyting á 5. gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning á þann veg að fjárhæð tekjumarka hækki um 3,5% í samræmi við breytingar á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur og að breytingin taki gildi frá 1. janúar 2020 og að greiðslur fyrir árið 2020 verði leiðréttar afturvirkt í greiðslu þann 1. mars nk. Reykjavíkurborg greiðir nú sérstakan húsnæðisstuðning til 1546 heimila sem er 25,4% fleiri heimili en á sama tíma fyrir ári síðan.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins (hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að hækka fjárhæð tekjumarka vegna sérstaks húsnæðisstuðnings um 3,5%. Fulltrúi Sósíalistaflokksins minnir á tillögur sósíalista um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs og breytingar á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings. Þar var lagt til að reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning yrði breytt þannig að stuðningurinn byrji ekki að skerðast nema þegar húsnæðiskostnaður er undir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Hátt leiguverð er að sliga marga hér í borginni og því er nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti borgin getur komið til móts við þarfir borgarbúa sem eru margir í gríðarlegri erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar þann 17. desember 2019 um menningarkort til öryrkja ásamt umsögn sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingatillögu:
Velferðarráð leggur til að öryrkjar geti fengið menningarkort á sölustöðum þess gjaldfrjálst framvísi þeir staðfestingu á örorku, svokölluðu örorkuskírteini frá Tryggingastofnun ríkisins. Öryrkjar fá nú þegar aðgang að söfnum borgarinnar gjaldfrjálst og því er kostnaðaraukinn óverulegur eða einungis útgáfa kortanna. Með þessu viljum við gera það auðveldara fyrir öryrkja að sækja söfn borgarinnar og njóta þeirra menningarverðmæta sem í því felast. Kostnaðurinn sem til fellur er einungis vegna útgáfu korta sem er samkvæmt menningar og ferðarmálsviði 750 krónur per kort og er velferðarsviði falið að útfæra fyrirkomulag varðandi það í samvinnu við menningar og ferðamálasvið. Nú þegar geta öryrkjar með sama hætti fengið sundkort í sundlaugum borgarinnar og bókasafnskort á bókasöfnunum.
Samþykkt.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins styður að Reykjavíkurborg komi menningarkorti í hendur þeirra borgarbúa sem jafnframt eru öryrkjar þeim að kostnaðarlausu. Það er mikilvægt fyrir þá að hafa kortið til að framvísa á söfnum, á bókasöfnum og annars staðar þar sem kortið gildir án þess að þurfa að framvísa staðfestingu frá TR. Það er mikilvægt að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að ná til öryrkja t.d. með auglýsingum, með því að senda skeyti, póst, hringja eða nota tengilið ef þess er kostur eins og hagsmunasamtök. Umfram allt þarf borgin að eiga frumkvæði að því að finna leiðir til að koma kortinu í þeirra hendur þeim að kostnaðarlausu en bíði ekki eftir að fólk uppgötvi rétt sinn og leiti eftir honum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18 lið fundargerðar velferðarráðs þann 13. nóvember 2019 um greiningu á tilvísunum sem bíða afgreiðslu í skjólaþjónustu.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi í velferðarráði óskaði eftir greiningu á 452 börnum sem bíða eftir fyrstu sérfræðiþjónustu skólaþjónustunnar og 307 börnum sem bíða eftir framhaldsþjónustu. Af þessum börnum eru mest sláandi tölur barna sem bíða eftir þjónustu sálfræðings en þau eru 224 í grunnskóla og 111 leikskólabörn bíða eftir þjónustu talmeinafræðings. Miklar áhyggjur eru af börnum sem bíða eftir talmeinafræðingi því fái þau ekki þjónustu fljótt er hætta á að vandinn fylgi þeim áfram. Börnin (307) sem bíða eftir “frekari” þjónustu hafa fengið “skimun” en þurfa meiri þjónustu. Þetta fyrirkomulag er erfitt því börn fara af einum biðlista yfir á annan innan skólakerfisins. Þegar biðlista grunnskóla líkur tekur við hjá sumum börnum biðlisti inn á aðrar stofnanir. Efla mætti samvinnu milli yfirstjórnar skólaþjónustunnar í borginni og annarra stofnanna og einnig yfirstjórnar og heilsugæslu og þá sérstaklega samvinnu við heilsugæslulækna. Sum þessara mála þurfa aðkomu bæði sálfræðinga og lækna. Það er orðið knýjandi að meirihlutinn í borginni taki betur utan um þennan málaflokk. Fjölgun hefur aukist um 23% á milli ára og fjölgun kemur ekki til af engu. Bak við hverja tilvísun eru börn sem glíma við vanda og líður illa.
Fylgigögn
-
Lagðar fram lykiltölur janúar - nóvember 2019.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagðar eru fram lykiltölur fyrir jan-nóv 2019. Einhverjar tölur hafa lækkað en aðrar hafa hækkað. Nánast allir liðir undir fjárhagsaðstoð hafa hækkað og sumt um rúmlega 40%. Hvað segir þetta? Þetta segir að þeir sem ekki geta framfleytt sér og sínum fer fjölgandi. Fleiri þurfa fjárhagsaðstoð. Biðlistatölur sem ekki hafa lækkað er t.d.: bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk; félagsleg heimaþjónusta; liðveisla og tilsjón. Lengsti biðlistinn er bið barna eftir skólaþjónustu, þ.e. sérfræðiþjónustu skóla. Hér eru um margra mánaða bið að ræða. Það þarf ekki ríkt hugmyndaflug til að láta sér detta í hug hversu illa þetta fer með börn og foreldra þeirra. Vandi barns hverfur oftast ekki á meðan beðið er. Foreldrar í þessari stöðu kljást oft við kvíða og streitu og þeir foreldrar sem eru efnalitlir og geta ekki leitað til fagfólks utan skólaþjónustu upplifa iðulega jafnvel vanmátt. Snúist málið um náms- og/eða hegðunarvanda getur barnið dregist aftur úr í námi og mörg hver ná aldrei að vinna upp forskot jafnaldra. Félagsleg staða barnsins getur hríðversnað og sjálfsmynd þess skaðast.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að þær aukningar á útgjöldum sem hér er um að ræða eru til marks um það að Reykjavíkurborg sinni sínum skyldum gagnvart íbúum eftir bestu getu, og eðlilegt að því fylgi tilheyrandi kostnaður. Ekki er að sjá að hægt sé að áfellast velferðarsvið eða velferðarráð fyrir að auka útgjöld til þeirra sem á slíkri aðstoð þurfa að halda. Sérstaklega ber að nefna að sértækum búsetuúrræðum hefur fjölgað mikið og eins hefur íbúðum félagsbústaða fjölgað mikið, það endurspeglast í því að biðlisti eftir félagslegri íbúð hefur styst um rúm 22% milli ára. Því ber að fagna að biðlistar styttist og húsnæði í boði fjölgi og eðlilegt er að því fylgi einhver kostnaðaraukning, enda er það ein af lykilþjónustum sveitarfélagsins sem fulltrúar meirihlutans leggja áherslu á að inna vel af hendi. Hvað varðar skólaþjónustuna, þá er hún í mikilli þróun þessi misserin með auknu samstarfi velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs. M.a með verkefninu Betri borg fyrir börn.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins hefur spurningar í því sambandi. Á biðlista eru 61. Hver er staðan þeirra í dag? Spurt er hvort geti verið að það séu fleiri þarna úti sem ekki er vitað um, t.d. einhverjir sem ekki hafa getað sett sig i samband við þjónustumiðstöðvar og Vorteymið? Liggur fyrir hvenær þessir 61 aðili fái tryggt og varanlegt húsaskjól?
Vísað til velferðarsviðs.
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_0502.pdf