Velferðarráð - Fundur nr. 364

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudagur 13. nóvember var haldinn 364. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 14:02 í Kerhólum, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Aron Leví Beck, Örn Þórðarson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

    -    Kl. 14:10 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

  2. Lögð fram drög að erindisbréfi stýrihóps um mótun velferðarstefnu.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram drög að erindisbréfi um skýrslu starfshóps um hvernig hægt sé að þróa félagsmiðstöðvar velferðarsviðs fyrir fullorðið fólk.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á lykiltölum janúar-september.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir ítarlega kynningu á lykiltölum. Myndræn framsetning á helstu atriðum veitir dýpri innsýn í stöðuna. Velferðarráð þakkar einnig fyrir gagnavefinn Velstat sem gerir fólki kleift að afla ítarlegra tölfræðigagna. Þegar hefur farið fram fræðsla í notkun Velstat fyrir fulltrúa í velferðarráði og óskar ráðið eftir því að fræðslan veðri endurtekin þar sem nýjir fulltrúar hafa tekið sæti í ráðinu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið að sjá þessar tölur og þá sérstaklega biðlistatölurnar og það hljóta valdhöfum að vera líka. Flokkur fólksins hefur sagt það áður að það er eins og biðlistar séu orðin föst breyta, inngrónir og innmúraðir í kerfið. Staðan er enn háalvarleg í húsnæðismálum sem er uppsafnaður vandi til margra ára. Þrátt fyrir að Félagsbústaðir (borgin) séu að fjárfesta meira nú en áður bíða enn yfir 1.000 manns eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði og milliflutningi. Það eru biðlistar í alla þjónustu í Reykjavík. Það bíða mörg hundruð börn eftir skólaþjónustu fagfólks, eftir viðtölum við skólasálfræðinga og greiningum. Það bíða vel á annað hundrað eftir stuðningsúrræðum og eftir tilsjón, eftir frekari liðveislu og almennri liðveislu bíða vel á þriðja hundrað. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða 162 og munar aðeins um 10 frá árinu áður. Það verður að ráðast til atlögu gegn þessum biðlistum og hægt væri sem dæmi að sækja fé í liðinn „ófyrirséð“ til að fjármagna fleiri stöðugildi svo vinna megi niður biðlista. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið. Meirihlutanum í velferðarráði ber skylda til að sækja meira fé í sjóði borgarinnar til að vinna niður alla biðlista í þjónustu sem sviðið veitir. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Biðlistar eru listar yfir fólk sem er í bið eftir tiltekinni þjónustu. Eina leiðin til að engir slíkir væru til staðar væri annað hvort að reka enga þjónustu, eða að svo mikið af umfram úrræðum væru til staðar að aldrei væri nein bið. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig það væri hægt öðruvísi en að eiga mikið af umfram eignum. Þær hlytu að teljast slæm fjárfesting meðan þær væru ekki í notkun. Mikilvægt er að umsóknir séu afgreiddar af biðlistum í samræmi við þörf umsækjenda.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Flokkur fólksins vill bregðast við gagnbókun meirihlutans er varðar biðlista. Óþarfi er að vera með öfgar í þessu og tala um að ein leið til að ekki sé biðlisti sé að veita ekki þjónustuna. Flokkur fólksins skilur vel að bið eftir þjónustu geti verið 2-4 vikur en ætti helst ekki að vera lengri. Hér er ekki verið að tala um að fólk komist samdægurs að þegar umsókn er skilað inn.

    Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, tekur sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga styrkjanefndar velferðarráðs, dags. 13. nóvember 2019:

    Lagt er til að úthlutað verði viðbótarstyrk til Foreldrahúss – Vímulausrar æsku 3.000.000 kr.
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt styrkjahandbók Reykjavíkur er velferðarráði heimilt að halda eftir ákveðinni upphæð til að bregðast við umsóknum sem berast utan auglýsts umsóknartímabils enda sé um að ræða umsóknir vegna ófyrirséðra verkefna.Velferðarráð telur brýnt að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin í Foreldrahúsi og veita viðbótarframlag á árinu 2019 til að bregðast við aukinni aðsókn í ráðgjafaþjónustu.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga, dags. 13. nóvember 2019, ásamt jafnréttisskimun dags. 11. nóvember og drögum að erindisbréfi, dags. 11. nóvember 2019, um stofnun starfshóps um félagslega þjónustu við fanga:

    Lagt er til að stofnaður verði starfshópur á velferðarsviði um málefni fanga sem hafi það hlutverk að kortleggja þjónustuúrræði fyrir einstaklinga í afplánun eða að ljúka afplánum m.t.t. möguleika á framfærslu, húsnæði, atvinnu, virkni og endurhæfingu og greina þær hindranir sem koma í veg fyrir að einstaklingur nái að aðlagast samfélaginu. Einnig skal starfshópurinn móta tillögur að félagslegri þjónustu við fanga og skýra verklag og leiðir milli þjónustu, sem annars vegar ríkið veitir föngum og hins vegar Reykjavíkurborg og hvernig haga megi samstarfinu á milli aðila. Hópurinn hafi samráð við hagsmunaaðila og notendur þjónustunnar.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 13. nóvember 2019 ásamt jafnréttisskimun, dags. 11. nóvember 2019:

    Lagt er til að gerður verði viðauki við gildandi þjónustusamning við Ás styrktarfélag, vegna næturvaktar sem ekki var gert ráð fyrir í samningnum. 
    Áætlaður kostnaður nemur 14,7 m.kr. á árinu 2019 og rúmast innan fjárheimilda velferðarsviðs. 
    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Styrktarfélagið Ás hefur um langt skeið sinnt mikilvægri velferðarþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun. Meðal verkefna sem styrktarfélagið sinnir er búseta fyrir 40 fatlaða einstaklinga. Nú standa yfir samningaviðræður vegna þjónustusamnings sem mun taka gildi 2021. Þar sem metið er að full þörf sé á næturvakt í búsetuúrræði fyrir fatlað fólk sem ekki er gert ráð fyrir í samningnum er mikilvægt að gera viðauka við samninginn til að mæta þessum kostnaði og mæta þörfum íbúa.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um ýmis atriði varðandi mötuneyti fyrir eldri borgara, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs 9. október 2019.
    Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins greiða atkvæði á móti. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna taka undir að margt í þessum tillögum er ágætt út af fyrir sig. Tillagan sem slík er þó ekki tæk til afgreiðslu eins og hún er lögð fram, enda tekur hún til atriða sem eru þegar í framkvæmd, eins og að leyfa fólki að taka með sér mat heim. Eins eru atriði sem eru ekki í samræmi við stefnu borgarinnar. Velferðarsvið býður nú þegar upp á heimsendan mat og fólki er nú þegar frjálst að taka með sér mat úr mötuneytum en það er ekki hugsað þannig að fólk taki t.d. með sér marga skammta úr mötuneyti eða slíkt. Varðandi ýmis atriði sem snúa að umgengni í matsal þá er það hluti af framkvæmd þjónustunnar sem veitt er á hverjum stað. Öllum ábendingum um framkvæmd eða einstaka atriði er hægt að koma á framfæri við forstöðumenn þeirra staða sem um ræðir.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki skilið af hverju þessari tillögu er vísað frá. Þetta eru sérkennileg vinnubrögð. Með því að vísa frá tillögunni er verið að lýsa frati á innihald tillögunnar, hugmyndir sem eiga upptök hjá borgarbúum. Í umsögn kemur fram að margt af því sem lagt er til sé nú þegar í gangi. Þessi skilaboð eru því sérkennileg út í samfélagið. Ef margt er í gangi er bara sjálfsagt að samþykkja þessa tillögu og nota hana sem frekara innlegg eða hvatningu í þann hóp/hópa þar sem unnið er með þessi mál. Flokki fólksins finnst mikilvægt að meirihlutinn geri ekki lítið úr tillögum frá minnihlutanum sem eru að reyna að vinna fyrir borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins langar að bregðast við atriði í umsögn og það varðar að fólki sé gert kleift að „taka með mat heim ef það óskar þess hvort sem um er að ræða alla máltíðina eða afgang hennar“. Vandinn er að þetta vita ekki allir. Það er mikilvægt að upplýsingar eins og þessar komist til skila til allra. Ef talað er um heimild þá er hætta á að fólk upplifi það sem undantekningartilvik. Sama gildir um matarílátin. Hvetja þarf fólk til að koma með sín eigin ílát sem oftast.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Rík hefð er fyrir því að vísa frá tillögum sem þegar eru í framkvæmd. Eins og þegar hefur komið fram stendur íbúum til boða til að fá heimsendan mat og taka með sér afganga í eigin ílát. Oftast nær líta kjörnir fulltrúar svo á að ánægjulegt sé að þeirra hugmyndir, vangaveltur og tillögur séu þegar komnar til framkvæmda. Fulltrúum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna þykir miður að borgarfulltrúi Flokks fólksins geri öðrum kjörnum fulltrúum upp skoðanir eins og hann gerir í bókun sinni en hann verður að eiga það við sjálfan sig.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um breytingu á orðalagi í reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs 23. október 2019.
    Samþykkt að vísa inn í vinnu á velferðarsviði við endurskoðun á reglunum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð samþykkti uppfærðar reglur vegna náms og verkfæra- og tækjakaupa fyrir fatlað fólk á síðasta fundi ráðsins í kjölfar nýrra laga. Tillögunni er vísað inn í vinnu við endurskoðun reglnanna sem nú stendur yfir.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um velferðarsmiðju og velferðartæknismiðju.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavík mótaði stefnu á sviði velferðartækni sem gildir frá 2018 - 2022, fyrst íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúar hagsmunasamtaka tóku fullan þátt í mótun stefnunnar. Velferðartækni er hver sú tækni sem stuðlar að því að auðvelda fólki að búa á eigin heimili við betri lífsgæði þrátt fyrir líkamlegar skerðingar. Fulltrúarnir fagna því að hér sé starfrækt velferðartæknismiðja og hlakka til að fylgjast með þróuninni á þessu sviði sem framundan er. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vissulega fleygir tækninni fram í þessum málaflokki eins og öðrum og allt skal gera til að auðvelda fólki að búa á eigin heimili eins lengi og það vill og getur og jafnframt að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Segir í svari að “ Fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á tæknilausnir og er það hlutverk starfsmanns að meta þörfina og prófa tæknina eftir atvikum” Hér vill fulltrúi Flokks fólksins benda á mikilvægi þess að notendur meti tæknina og prófi eftir atvikum en ekki starfsmenn. Það eru ekki starfsmenn sem eiga að nota tæknina heldur notendur hennar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af skjáheimsóknum og myndsamtölum milli notenda og starfsfólks. Er hér verið að hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann og fara að mestu yfir í hið rafræna? Skjáheimsókn getur aldrei komið í staðin fyrir heimsókn manneskju. Ekkert kemur í staðin fyrir samveru. Vísað er í reynslu nágrannalandanna í svarinu en það er ekki nóg að vísa í reynslu. Mæla þarf hlutina með því að spyrja fólk markvissra spurninga. Það hefur ekki verið gert hvað varðar velferðartækni. Hér er því verið að renna blint í sjóinn með alla þessa tækni. Eldri borgarar eru einfaldlega allt of sjaldan spurðir um hluti sem varða þá sjálfa.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um húsnæði fyrir fatlaða sem losnar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk var samþykkt árið 2017 að undangenginni ítarlegri þarfagreiningu sem nú nær til allra sem eru á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Áætlunin hefur verið að fullu fjármögnuð. Frá árinu 2016 til dagsins í dag hefur verið fordæmalaus uppbygging á búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og hafa 52 einstaklingar fengið úthlutað í nýtt húsnæði, auk þess sem úthlutað hefur verið í húsnæði sem hefur losnað. Bæði er um nýbyggingar, endurbætur og kaup á húsnæði að ræða, allt til að mæta þörf hverju sinni.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það bíða 162 eftir húsnæði fyrir fatlað fólk 2019, litlu færri en í fyrra og aðrir 34 bíða eftir milliflutningi. Á þriggja ára tímabili hafa 75 íbúðir eða herbergi skipt um leigjendur. Það hljómar verulega ömurlegt að ekki sé hægt að byggja nóg fyrir þennan hóp og að bíða þurfi eftir að fólk hreinlega deyi eða fari á hjúkrunarheimili til að næsti á lista fái húsnæði. Í svari við fyrirspurn Flokks fóksins um búsetu fatlaðra einstaklinga sem eru að bíða eftir húsnæði kemur fram að 99 fatlaðir einstaklingar búa hjá foreldrum sínum, fólki sem sumt hvert sjálft glímir við öldrun og veikindi. Þetta er óviðunandi ástand. Dæmi eru um að ekki er hlúð nægjanlega vel að þessum fjölskyldum á meðan beðið er eftir húsnæði fyrir fatlaðan fjölskyldumeðlim. Skoða ætti að veita þessum fjölskyldum sérstakan fjárhagsstuðning. Umönnunargreiðslur eru því miður aðeins í boði ef viðkomandi er ekki veikur og ef fötlun hefur komið skyndilega. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru til um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu. Þessi mál þarf að laga núna!

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um hvar fatlaðir einstaklingar sem bíða eftir húsnæði búa á meðan biðinni stendur.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk var samþykkt árið 2017 að undangenginni ítarlegri þarfagreiningu sem nú nær til allra sem eru á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk. Áætlunin hefur verið að fullu fjármögnuð. Frá árinu 2016 til dagsins í dag hefur verið fordæmalaus uppbygging á búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og hafa 52 einstaklingar fengið úthlutað í nýtt húsnæði, auk þess sem úthlutað hefur verið í húsnæði sem hefur losnað. Bæði er um nýbyggingar, endurbætur og kaup á húsnæði að ræða, allt til að mæta þörf hverju sinni. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það kemur fram í svari að langflestir eða 99 búa hjá foreldrum sínum, fólki sem sumt hvert glímir sjálft við öldrun og veikindi. Þetta fólk er oft alveg úrvinda og uppgefið. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur á biðlistanum er kominn yfir þrítugt og jafnvel eldri. Einnig eru dæmi um að í fjölskyldunum séu yngri systkini á barnsaldri. Í sumum tilvikum er um erfiða fjölþætta fötlun að ræða sem krefst mikillar umönnunar. Það tekur mikið á hinn fatlaða einstakling og alla fjölskylduna ekki síst börnin í henni ef biðin eftir húsnæði er mörg ár. Varla græðir velferðarkerfið á því að heil fjölskylda verði sjúk af þreytu og álagi af því ekki er hægt að fylgja sveitastjórnarlögum og bjóðum fötluðum fullorðnum einstaklingi búsetu við hæfi. Starfsmenn gera án efa sitt til að létta undir með þessum fjölskyldum á meðan beðið er. Stuðningur við þessar fjölskyldur ætti einnig að vera meira fjárhagslegur t.d. þegar fólk hefur þurft að minnka við sig vinnu eða hefur einfaldlega brunnið út.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um bið eftir rauðakross vini.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er til fyrirmyndar hjá Rauða krossinum að standa fyrir þessu verkefni til að sporna við einmanaleika og félagslegri einangrun, en Reykjavíkurborg getur ekki hlutast til um það með hvaða hætti það ágæta framtak er unnið.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er ekki hægt að henda reiður á hvað hér er verið að tala um langan biðtíma eftir Rauðakross vini. Er verið að tala um daga, vikur eða mánuði? Ekkert meðaltal er heldur gefið upp. Fyrir þann sem íhugar að fá Rauðakross vin í heimsókn hefur öll svona óvissa ákveðin fælingarmátt. Það hefur verið í umræðunni að biðin eftir svona heimsókn sé mjög löng og óttast er að margir hreinlega nenni ekki að standa í þessu. Sá sem óskar eftir þessari heimsókn er e.t.v. búin að mana sig lengi upp í að hafa samband og biðja um hana. Því fylgja ákveðnar væntingar og tilhlökkun. Það er því vont að viðkomandi þarf jafnvel að bíða mjög lengi eftir heimsókninni. Í raun ætti þetta kannski ekki að vera svo flókið eins og lýst er í svarinu. Pörun sú sem lýst er virkar ansi nákvæm. Kyn, aldur, búseta, áhugamál og margt fleira þarf að passa við viðkomandi. Allir geta hitt alla þannig lagað og spjallað um daginn og veginn án þess endilega að hafa nákvæmlega sömu áhugamál. Aldur og kyn ætti vissulega ekki að þurfa að vera vandamál en mögulega gæti búseta valdið töfum ef um langar vegalengdir er að ræða.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði hvetja borgarfulltrúa til að tala um þau góðu samtök sem gefa tíma sinn og fjármuni til að bæta líf fólks af nærgætni og kurteisi.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um kynjahlutföll notenda akstursþjónustu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í svari kemur fram að heildarfjöldi Reykvíkinga sem eru 67 ára og eldri er 15.316. Þar af eru 55% konur en 45% karlar. Skilyrði fyrir að fá akstursþjónustu eru þau að viðkomandi eigi lögheimili í Reykjavík, sé 67 ára eða eldri, búi sjálfstætt, sé ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafi ekki aðgang að eigin bifreið. Velferðarsvið hefur ekki kannað sérstaklega ástæður fyrir mismunandi kynjahlutfalli í akstursþjónustu en það gæti verið áhugavert að jafnréttisskima akstursþjónustuna segir í svari. Þessi kynjamismunur er nokkuð sérstakur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skilyrðin fyrir þessar þjónustu einnig stíf. Sem dæmi er eitt að skilyrðunum að viðkomandi sé ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar. Af hverju er þetta skilyrði nauðsynlegt? Hér er verið að útiloka kannski stóran hóp sem virkilega gæti nýtt sér þetta úrræði. Hvernig er það að “vera ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar” metið og hvernig er því fylgt eftir? Skilyrði sem þetta kallar á óþarfa tíma og utanumhald af hálfu starfsmanna sem einnig kostar peninga. Vel mætti létta á þessum skilyrðum.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs þann 21. ágúst 2019 um langtímaveikindaleyfi starfsmanna á velferðarsviði árið 2017 og 2018 og samanburð við SFS.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikil og markviss vinna hefur verið í gangi til að minnka veikindahlutfall starfsmanna. Það mikilvæga verkefni er nú undir forystu nýs mannauðs- og starfsumhverfissviðs. Það er mikilvægt að skoða ástæður þess ef starfsfólk veikist og að Reykjavíkurborg sem heilsueflandi vinnustaður vinni markvisst að því að stuðla að heilbrigði og vellíðan starfsfólks.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um meðalveikindahlutfall velferðarsviðs annars vegar og skóla- og frístundarsviðs hins vegar fyrir þriggja ára tímabil. Samtals hafa rúmlega 1200 manns verið veikir samfellt lengur en í 30 daga á sl. þremur árum á þessum tveimur sviðum. Fulltrúi Flokk fólksins veltir því fyrir sér hvort ástæðan sé mikið til álag og vanlíðan í starfi? Eins og fram kom í skýrslu innri endurskoðanda þá eru kennarar t.d. undir miklu álagi og hafa kallað eftir að fá fagfólk inn í skólana í meira mæli til að vinna við hlið sér. Við því hefur ekki verið brugðist. Fram kemur í svari að ekki er haldið utan um upplýsingar um eðli veikinda. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það nokkuð kalt. Í þessum tilfellum á borgin sem vinnustaður að halda vel utan um starfsmenn sína sem eru veikir í svo langan tíma og leggja sig fram um að bjóða þeim stuðning eftir þörfum og óskum hvers og eins.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram minnisblað um sérstakan húsnæðisstuðning.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um að ræða afleiðingu þess að lögum er breytt og þá staðreynd að húsnæðisstuðningur ríkis og sveitarfélaga er tekjutengdur. Þessi staða hefði ekki skapast ef skýrt hefði komið fram í lögunum að þessar greiðslur teldust ekki til tekna, eða ef tekjumörk hefðu verið rýmkuð samhliða í reglugerð, það hefði verið ákjósanlegt. Það fylgir því ávallt galli að tekjutengja bætur og mikilvægt fyrir löggjafan að framkvæma leiðréttingar tekna aftur í tímann þannig að þær bitni ekki á fólki. Fulltrúarnir vona að tekju- og eignamörk verði endurskoðuð ekki síðar en um áramót og mun Reykjavíkurborg fylgja þeim viðmiðum sem ríkið setur, hér eftir sem hingað til. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins er ósammála því að þetta mál sé ekki á forræði velferðarráðs. Auðvitað þarf velferðarráð að bregðast við hér til að rétta hlut leigjenda við þessar sérstöku aðstæður. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði í síðustu viku um að „velferðarráð bregðist við breyttum lögum frá því í sumar um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar“. Viðbrögð velferðarráðs þurfa að vera með þeim hætti að viðmiðum verði breytt til þess að húsnæðisstuðningur Félagsbústaða til örorkulífeyrisþega lækki ekki eins og nú hefur verið gert með þeim afleiðingum að leiga hefur hækkað umtalsvert. Með breyttum lögum hafa nú 65% af tekjum örorkuþega áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum hafa í raun þurrkast út þar sem Félagsbústaðir hafa skert húsnæðisstuðning í kjölfarið. Velferðarráð þarf að sjá sóma sinn í að gera sérstakar ráðstafanir vegna lækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings hjá íbúum vegna umræddra leiðréttinga frá Tryggingastofnun. Þegar svona gerist þarf velferðarráð að geta gripið inn í og séð til þess að leiga fólks haldist óbreytt. Liðurinn „ófyrirséð“ er einmitt liður sem grípa á til undir slíkum kringumstæðum. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um kostnað í þessu sambandi.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í kjölfar breytinga sem höfðu áhrif á útreikning örorkubóta og upphæð endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, eru margir nú í slæmri fjárhagslegri stöðu. Þó að breytingarnar leiði til þess að þeir aðilar hafi meiri tekjur en áður, þá eru þær upphæðir nú ekki háar. Upphæðin skerðir hlutfall húsnæðisbóta frá Íbúðalánasjóði og útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings frá Reykjavíkurborg hjá mörgum. Nú eru margir borgarbúar í slæmri fjárhagslegri stöðu og skerðingin kom flatt upp á marga. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna líkt og fram kemur í reglum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur nauðsynlegt að Reykjavíkurborg bregðist hér við og leiti allra leiða til að mæta þessum einstaklingum til að borgarbúar standi ekki frammi fyrir þungum húsnæðiskostnaði. Þar er líka mikilvægt að gæta jafnræðissjónarmiða og ná til þeirra sem hafa áður sótt um sérstakan húsnæðisstuðning en ekki fengið eða fengið skertar greiðslur en myndu fá hærri miðað við umrædd tekjuviðmið. Þá minnir fulltrúi Sósíalistaflokksins á tillögu sína um að reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning verði breytt þannig að stuðningurinn byrji ekki að skerðast nema þegar húsnæðiskostnaður er undir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi.

    Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri á skrifstofu velferðarsviðs og Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu velferðarsviðs taka sæti undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um heildarkostnað Reykjavíkurborgar af því ef ekki yrði tekið mið af auknum tekjum lífeyrisþega sem rekja má til þess að dregið var úr skerðingum á sérstakri uppbót á lífeyri með lagabreytingum í sumar. 
    Hér er verið að tala um að Félagsbústaðir geri engar breytingar á upphæð húsnæðisstuðnings þessa hóps heldur héldist hann óbreyttur þann tíma sem um ræðir. Forsaga málsins er sú að í sumar var lögum breytt um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar. 65% af tekjum örorkuþega hafa nú áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Breytingar gilda frá áramótum en voru lögfestar á miðju ári og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst síðastliðinn. Afleiðingar urðu þær að leiga fjölmargra öryrkja hækkaði umtalsvert og hafa því þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum þurrkast út vegna þess að Félagsbústaðir skerða húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. 
    Vísað til velferðarsviðs.

  18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar eftir nákvæmari greiningu á þeim 400 börnum /tilvísunum sem bíða eftir fyrstu þjónustu skólasálfræðinga. Einnig er óskað eftir sundurliðun og nánari upplýsingum um hópinn sem bíður eftir „frekari“ þjónustu. Hvað er verið að vísa í þegar talað er um „frekari“ þjónustu. Er sem dæmi átt við að þá liggi fyrir frumgreining (vitsmunaþrokamat, ADHD og einhverfuskimun sem og mat á líðan) og verið sé þá að bíða eftir nánari úttekt eða fleiri viðtölum? Óskað er eftir upplýsingum um þetta. Ástæðan fyrir fyrirspurninni er sú að borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þessar tölur mjög háar. Á bak við hverja tilvísun er barn sem líður illa og á biðlista er barnið e.t.v. búið að bíða mánuðum saman. 
    Vísað til velferðarsviðs. 

    -    Kl. 16:19 Elín Oddný Sigurðardóttir víkur af fundi. 
    -    Kl. 16:46 Kolbrún Baldursdóttir víkur af fundi.