Velferðarráð
Ár 2019, 20. september, var haldinn 170. fundur skóla- og frístundaráðs og 359. fundur velferðarráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Kerhólum á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.05. Fundinn sátu eftirtaldir fulltrúar velferðarráðs: Heiða Björg Hilmisdóttir formaður (S), Alexandra Briem (P), Aron Leví Beck (S), Ásgerður J. Flosadóttir (F), Líf Magneudóttir (V), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J) og Örn Þórðarson (D). Af hálfu starfsmanna velferðarsviðs sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri, Dís Sigurgeirsdóttir, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir. Fundinn sátu eftirtaldir fulltrúar skóla- og frístundaráðs: Skúli Helgason formaður (S), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Egill Þór Jónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Ólafur Guðmundsson (D), Rannveig Ernudóttir (P) og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar í skóla- og frístundaráði: Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Af hálfu starfsmanna skóla- og frístundasviðs sátu fundinn: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 12. september 2019 ásamt jafnréttisskimun, dags. 12. september 2019 og bréfi starfsfólks frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs, dags. 18. september 2019:
Skóla- og frístundaráð og velferðarráð samþykkja að hefja sameiginlegt þróunarverkefni í Breiðholti, Betri borg fyrir börn. Markvissara samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Markmið verkefnisins er að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Þá verður lögð áhersla á að þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Færa á þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar. Styðja á betur við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og færa stjórnun stofnana skóla- og frístundasviðs nær vettvangi og nýta fjármagn betur með sameiginlegum rekstri á sviði fjármála, mannvirkja og mannauðs. 1. Stofnuð verði skóla- og frístundadeild innan þjónustumiðstöðvar Breiðholts sem heyri undir skóla- og frístundasvið. Starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs í Breiðholti heyri undir skóla- og frístundadeildina. Deildin veiti m.a. ráðgjöf um almenna starfs- og kennsluhætti, skipulag skóla- og frístundastarfs, auk þeirrar sérfræðiþjónustu sem hefur verið veitt í hverfinu á undanförnum árum. Stjórnendur deildarinnar verði næstu yfirmenn leikskólastjóra, grunnskólastjóra og forstöðumanna félagsmiðstöðva og frístundaheimila í Breiðholti. 2. Stofnað verði mannauðs- og rekstrarteymi innan þjónustumiðstöðvar Breiðholts sem sinni mannauðsþjónustu, fjármálalegri ráðgjöf og umsýslu og utanumhaldi með rekstri húsnæðis starfseininga sviðanna í hverfinu. Teymið heyri undir hverfisstjóra Breiðholts. 3. Teymisvinna á milli skóla- og frístundadeildar og annarra sérfræðinga þjónustumiðstöðvar Breiðholts verði þétt og markviss með það að markmiði að styðja við skóla- og frístundastarf og fjölskyldur í Breiðholti. Deildarstjórar í þjónustumiðstöð Breiðholts eiga í markvissu samstarfi og funda reglulega um sameiginleg málefni deildanna með hverfisstjóra. Unnið verði á grundvelli verkefna og verkefnastjórnunar þar sem starfað verði í þverfaglegum teymum. 4. Skrifstofa frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti verði færð í skóla- og frístundadeildina og teymi rekstrar og mannauðs. Leigu í núverandi húsnæði skrifstofu frístundamiðstöðvarinnar verði sagt upp. Verkefnið rúmast innan fjárheimilda skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Flutt verði miðlæg stöðugildi frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs í Borgartúni, starfsfólk úr frístundamiðstöð auk þess sem starfsfólk í þjónustumiðstöð Breiðholts verður flutt undir skóla- og frístundadeildina. Velferðarsvið leggur til húsnæði og búnað að Álfabakka 10. Þróunarverkefninu verði hleypt af stokkunum seinni hluta árs 2019 og standi í allt að tvö ár. Formenn skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs ásamt sviðsstjórum og hverfisstjóra þjónustumiðstöðvar Breiðholts munu halda reglulega samráðsfundi til að fylgja eftir markmiðum verkefnisins og kynna framgang þess í skóla- og frístundaráði og velferðarráði. Að þróunartíma loknum verður metið hvort yfirfæra eigi verkefnið á alla borgina. Matsferli verður hluti af undirbúnings- og innleiðingarferli.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 13:33 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.
- Kl. 14:00 tekur Agnes Sif Andrésdóttir sæti á fundinum.Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands í velferðarráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar öllu því sem færir þjónustuna nær börnum borgarinnar og fjölskyldum þeirra líkt og umrædd tillaga fjallar um. Fulltrúinn telur mikilvægt að skoða orðalag sem notað er í kynningu tillögunnar út á við, þar má t.d. nefna að hugtök líkt og „snemmtæk íhlutun“ geta virkað fræðileg á marga og mikilvægt að skýrt sé hvað sé verið að tala um, þ.e.a.s. að grípa snemma inn í aðstæður þegar þörf er á og veita þá þjónustu sem þörf er á. Hér í tillögunni er fjallað um mikilvægi þess að velferðarsvið og skóla- og frístundasvið vinni vel saman í að veita sem bestu þjónustu og slíkt er gríðarlega mikilvægt. Þá er mikilvægt að allir sem komi að þeirri þjónustuveitingu, þ.e.a.s. starfsfólkið og aðrir sem koma að málunum fái að koma að breytingum í þjónustuveitingunni og ljá sína rödd í því ferli. Það er mikilvægt að allar svona stórar breytingar sem hér um ræðir séu unnar í samráði við starfsfólkið. Þá er einnig mikilvægt að geta aðlagað þjónustuna og breytt ef þörf er á til að geta sniðið að þörfum og væntingum þeirra sem nota þjónustuna.
Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Betri borg fyrir börn. Hugmyndin er góð og sannarlega þörf enda langt í land að borgin sé góð fyrir öll börn. Talað er um markvissara samstarf en við lestur er ekki alveg ljóst hvernig þetta samstarf á að vera? Gott hefði verið að taka raunveruleg dæmi í lýsingunni á skipulaginu, hvernig þetta kemur til með að virka nákvæmlega fyrir börnin og foreldrana, hvernig er aðgengi, forgangsröð, verkferli, tilvísanir, tímarammar og fleira. Til að samþykkja svona þarf maður að sjá þetta fyrir sér.
Ljóst er að hér er verið að búa til nýtt kerfi og vissulega lítur þetta allt vel út á blaði. En praktíski hlutinn er óljós. Setning eins og „færa á þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins fá nokkur raundæmi. Það er ekki nóg að segja bara „markvissara samstarf“. Eins og þetta lítur út núna er eins og verið sé að renna blint í sjóinn. Sennilega þarfnast þessi hugmynd mun meiri vinnu, útfærslu alveg ofan í smæstu einingar. Ef farið er af stað með eitthvað loðið og óljóst er hætta á að skapist óreiða og óvissa?Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði og skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan Betri borg fyrir börn er tímabær og jákvætt skref í að veita heildstæða þjónustu og færa hana nær íbúum. Meginmarkmið tillögunar gengur út á markvisst samstarf og samþættingu milli Skóla- og frístundasviðs og Velferðarsviðs borgarinnar. Hins vegar er gagnrýnivert að starfsfólk var boðað á fund og tilkynnt um breytingar án þess hafa haft nokkurra aðkomu að útfærslunni. Boðað samráð við innleiðinguna sjálfa verður hins vegar að teljast eftirásamráð sem verður að teljast slæm breytingastjórnun. Mikilvægt er að samtal við íbúa og fulltrúa skólasamfélagsins, sem boðað er í tillögunni, verði ekki orðin tóm, heldur öflugt og skilvirkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði og velferðaráði fagna þeim fyrirheitum sem tillagan gefur um bætta þjónustu við börn í borginni.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í velferðarráði og skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikið fagnaðarefni að skóla- og frístundaráð og velferðarráð og fagsviðin tvö taki nú höndum saman um að auka samstarf sitt með það að markmiði að bæta þjónustu við börn í borginni og aðstandendur þeirra. Skóla- og frístundasvið og velferðarsvið setja nú á fót sameiginlegt þróunarverkefni: Betri borg fyrir börn sem hefur m.a. þann tilgang að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar. Styðja á betur við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og færa stjórnun stofnana skóla- og frístundasviðs nær vettvangi og nýta fjármagn betur með sameiginlegum rekstri á sviði fjármála, mannvirkja og mannauðs. Samhliða er settur á fót sameiginlegur stýrihópur fagráðanna sem mun hafa það hlutverk að skoða heildstætt hvernig megi samþætta og einfalda skipulag og starfsemi þeirrar stoðþjónustu sem borgin veitir börnum með sérstakar þarfir með það að markmiði að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar og stuðla að því að hún skili viðkomandi börnum framförum. Mikilvægt er að hafa gott samráð við stjórnendur og annað starfsfólk og aðra hagsmunaaðila í hverfinu sem málinu eru viðkomandi við útfærslu og innleiðingu þessara breytinga.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:
Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva fagna því að ráðist verði í að gera tilraun í Breiðholti með markvissara samstarfi milli fagfólks sem sinnir málefnum barna og fjölskyldna og færa þjónustuna nær vettvangi í skólum, frístundastarfi og heimilum.
Kynning á nýju verklagi fyrir stjórnendum frístundamiðstöðva fór fram þriðjudaginn 17. september sl. og í framhaldi af þeirri kynningu hafa vaknað upp ýmsar spurningar varðandi breytingarnar sem að mikilvægt er að ræða og hafa samráð um við fagaðila og þjónustuþega í hverfinu. Mikilvægt er að skipurit verði skýrt til að minnka óvissu og óöryggi sem að ávallt eru hluti af breytingum.SFS201909153/VEL2019090024
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa og velferðarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Lagt er til að settur verði á fót sameiginlegur stýrihópur skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs sem hafi það hlutverk að skoða hvernig megi tryggja heildstæða stoðþjónustu fyrir börn með sérþarfir, með það að markmiði að bæta þjónustu við börnin og forráðamenn þeirra gera hana markvissari og stuðla að því að hún skili börnunum framförum. Þar verði til skoðunar sérkennsla og stuðningur í skólum og frístundastarfi, skólaþjónustan og sérstaklega hugað að samstarfi kennara, skólastjórnenda, sérfræðinga skólaþjónustu og starfsfólks sviðanna við að tryggja börnum markvissa þjónustu sem skilar þeim árangri og framförum. Stýrihópurinn hafi m.a. það hlutverk að fylgjast með framgangi verkefnisins Betri borg fyrir börn í Breiðholti og leggja mat á fýsileika þess að yfirfæra verkefnið á aðra borgarhluta. Hópnum verði m.a. falið að móta tillögur um leiðir til að meta árangur af sérkennslu, stuðningi og skólaþjónustu með það fyrir augum að auka gæði og virkni þjónustunnar fyrir viðkomandi börn. Í stýrihópnum eigi sæti formenn skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs og sviðsstjórar skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Hópurinn kalli til ráðgjafar fulltrúa úr skólasamfélaginu og fagaðila eftir þörfum.
Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2019090155/VEL2019090026
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í velferðarráði og skóla- og frístundaráði leggja fram svohljóðandi bókun:Það er mikið fagnaðarefni að skóla- og frístundaráð og velferðarráð og fagsviðin tvö taki nú höndum saman um að auka samstarf sitt með það að markmiði að bæta þjónustu við börn í borginni og aðstandendur þeirra. Skóla- og frístundasvið og velferðarsvið setja nú á fót sameiginlegt þróunarverkefni: Betri borg fyrir börn sem hefur m.a. þann tilgang að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar. Styðja á betur við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og færa stjórnun stofnana skóla- og frístundasviðs nær vettvangi og nýta fjármagn betur með sameiginlegum rekstri á sviði fjármála, mannvirkja og mannauðs. Samhliða er settur á fót sameiginlegur stýrihópur fagráðanna sem mun hafa það hlutverk að skoða heildstætt hvernig megi samþætta og einfalda skipulag og starfsemi þeirrar stoðþjónustu sem borgin veitir börnum með sérstakar þarfir með það að markmiði að auka gæði og skilvirkni þjónustunnar og stuðla að því að hún skili viðkomandi börnum framförum. Mikilvægt er að hafa gott samráð við stjórnendur og annað starfsfólk og aðra hagsmunaaðila í hverfinu sem málinu eru viðkomandi við útfærslu og innleiðingu þessara breytinga.
- Kl. 14:33 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.Fylgigögn
PDF útgáfa fundargerðar
velferdarrad_2009_359.pdf