Velferðarráð - Fundur nr. 357

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudagur 21. ágúst var haldinn 357. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:05 í borgarráðsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

    -    Kl. 13:04 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

    -    Kl. 13:17 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum.

  2. Fram fer kynning á verkefninu „Velkomin – móttaka nýrra útlendinga“, sem er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir kynninguna á þessu mikilvæga verkefni. Þegar tekið er á móti fólki og sérstaklega börnum sem eru í viðkvæmri stöðu, skipta skiljanlegar og aðgengilegar upplýsingar höfuðmáli. Okkur ber rík skylda til þess að búa svo um að þeir sem hingað koma geti auðveldlega áttað sig á samfélaginu, sínum réttindum og þeim möguleikum og þjónustu sem bjóðast. Ástæða er til að fagna því að innleiðing verkefnisins sé hafin í öllum hverfum og er það í fullu samræmi við stefnumörkun Velferðarráðs um veitingu þjónustu.

    Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri og Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Lögð fram drög, dags. í dag, yfir uppgjör velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar til júní 2019. Trúnaðarmál.

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra dags. í dag, sbr. samþykkt velferðarráðs 22. maí 2019, vegna tillögu um útfærslu að áframhaldi verkefnis um búsetu háskólanema í þjónustuíbúð fyrir aldraðra.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Velferðarráð felur velferðarsviði að innleiða það fyrirkomulag að háskólanemar leigi þjónustuíbúð í fimm þjónustukjörnum fyrir aldraða og starfi við félagslega umönnun og virkni á staðnum. Haustið 2019 verði 1 nemi og svo bætt við 2 á ári næstu 2 ár. Náið samstarf verði við Félagsstofnun stúdenta um úthlutun og um ferli þegar búsetu í þjónustuíbúð lýkur og viðkomandi fær úthlutað í stúdentaíbúð.

    Samþykkt

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í aðgerðaáætlun vegna stefnu í málefnum eldri borgara sem samþykkt var í velferðaráði þann 3. apríl 2019, er ein af aðgerðunum að háskólanemi leigi þjónustuíbúð í þjónustukjarna fyrir aldraða og starfi við félagslega umönnun og virkni á staðnum. Tilraunaverkefni þess efnis var samþykkt af velferðarráði í september 2017. Úttekt var gerð á verkefninu í byrjun árs 2019 en samkvæmt henni gekk tilraunaverkefnið á heildina mjög vel. Viðvera nemanna hafði jákvæð áhrif á þá íbúa sem voru félagslega einangraðir. Fulltrúarnir fagna því að verkefninu verði haldið áfram enda var sú reynsla sem fékkst af verkefninu almennt mjög góð.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 27. júní 2019, um skipulagðar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum á söfn og aðra viðburði, ásamt umsögn sviðsstjóra dags. í dag.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Velferðarráð leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:

    Velferðarráð felur sviðsstjóra að kynna hugmyndina um skipulagðar ferðir á söfn og menningarviðburði fyrir forstöðumönnum félagsmiðstöðva og þjónustuíbúðakjarna auk fulltrúum menningar- og ferðamálasviðs.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagðar ferðir eru farnar frá félagsmiðstöðvum aldraðra og er í mörgum tilvikum ákveðið af notendaráðum miðstöðvanna hvert á að fara og hvenær. Starfsfólk aðstoðar síðan við framkvæmdina, þ.e. að panta rútur o.þ.h. Yfir sumartímann er vinsælt að fara í lengri og styttri ferðir, t.d. í Grasagarðinn, minigolf, kaffihús í miðbænum og á sýningar. Á sumum félagsmiðstöðvum, t.d. í Borgum í Grafarvogi eru ferðalög, t.d. út á land stór hluti af starfinu. Vel er hægt að útvíkka skipulagðar ferðir og sækja t.d söfn og listviðburði í meira mæli. Velferðarsvið mun kynna þann möguleika betur fyrir forstöðumönnum félagsmiðstöðva og fulltrúum á menningar-og ferðamálasviði.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar að vel er tekið í þessa tillögu og rætt er um að fylgja henni eftir með breytingartillögu. Tillagan gekk út á að tryggja eldri borgurum sem hafa áhuga á að sækja menningarviðburði, aðgang að samgöngum á staðinn og heim aftur. Allt þarf að gera til að hjálpa þeim sem eru einmana og einangraðir að vera félagslega virkari og umfram allt að fólk sé meðvitað og upplýst um hvað sé í gangi og hvað þarf til að geta tekið þátt. En ef aðgangur að samgöngum er ekki greiður þá falla öll tilboð, stór og smá, um sjálf sig. Flokkur fólksins telur að huga þurfi enn meira að þessu nú þegar ekki er lengur frítt inn á „menningu“ borgarinnar. Kaupa þarf núna Menningarkort og enda þótt það kosti ekki mikið þá munu einfaldlega ekki allir kaupa kortið og einhverjir telja sig ekki hafa ráð á því. Það var mikill hvati fyrir eldri borgara að hafa frítt á söfn. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 27. júní 2019, um akstursþjónustu fyrir eldri borgara á félagsmiðstöðvar, ásamt umsögn sviðsstjóra dags. í dag.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Tillaga er felld með fjórum atkvæðum gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Sósíalistaflokks Ísland sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Akstursþjónusta aldraðra stendur eldri borgurum sem eiga erfitt með að nýta aðra samgöngumáta til boða. Starfsfólk þjónustumiðstöðva velferðarsviðs aðstoðar eldri borgara við að sækja um akstursþjónustu aldraðra. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 hafa rúmlega 500 eldri borgarar nýtt sér akstursþjónustu og farnar hafa verið yfir 14 þúsund ferðir. Akstursþjónustu má nýta í ýmsa félagslega virkni, t.d að taka þátt í félagsstarfi aldraðra og dagskrá í þjónustuíbúðakjörnum fyrir aldraða.

    Fulltrúi Flokks fólskins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að í svari við þessari tillögu sé verið að flækja málið og þykir leitt að tillaga er felld. Um er að ræða að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að hringja á félagsmiðstöðina sína og biðja um að láta sækja sig í félagsstarfið án mikils fyrirvara. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að kanna þörfina áður en keyptur bíll og ráðinn bílstjóri. Hugsa þarf lausnamiðað. Á meðan verið er að kanna þörfina má semja við leigubílastöð/bílstjóra (hafa útboð þess vegna) að bílstjóri sé meðvitaður um að vera kallaður út í verkefni af þessu tagi. Eins má nota bílstjóra borgarstjóra sem er hvort eð er alltaf til taks. Í því sveitarfélagi sem þetta býðst er að sjálfsögðu ekki sérstakur bílstjóri sem bara bíður alla vikuna eftir að vera kallaður út. Flokkur fólksins treystir því að ef vilji er til að bjóða eldri borgurum upp á svona þjónustu geti sviðið fundið skynsamlega og hentuga lausn á framkvæmdinni.

    Fylgigögn

  7. Fram fer kynning á gæðavinnu á Droplaugastöðum og stöðumati á rekstri sértækrar deildar fyrir fólk í öndunarvélum.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á sértækri deild fyrir fólk í öndunarvélum sem starfrækt er á Droplaugastöðum. Deildin veitir mikilvæga þjónustu við þann hóp sem notast við öndunarvélar. Markmiðið er ávallt að einstaklingar búi sem lengst heima en þó verður að vera hægt að fá fá hvíldarinnlögn og sértæka hjúkrun þegar þörf er á. Mikilvægt er að þróa verkefnið áfram í samvinnu við ríkið út frá þeirri reynslu sem skapast hefur við innleiðingu verkefnisins.

    Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  8. Lögð fram tillaga Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna,  dags. í dag, um breytingu á skipan í áfrýjunanefnd. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti aðalmanns í stað Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur, sem tekur fyrsta sæti varamanns. Annað helst óbreytt.

    Samþykkt.

  9. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 8. ágúst 2019, fyrir tímabilið janúar til júní 2019.

    Fylgigögn

  10. Fram fer kynning á stöðumati á undirbúningi Samstarfsnetsins og einstaka úrræðum, s.s. SKHAM, nýrri þjónustu fyrir börn í Reykjavík með fjölþættar þarfir.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun;

    Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir yfirferðina og þá góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin. Einföldun á þjónustu og endurskipulagning út frá þörfum íbúa er lykilatriði í þjónustu borgarinnar. Ekkert bætir þjónustuna hraðar eða betur en að tryggja að fólk viti hvar þjónustu er að finna, hvernig henni er háttað og hvernig er sótt um. Orkan og fagmennskan sem birtist í þessum fyrstu skrefum lofa mjög góðu um framhaldið. Jafnframt er mjög ánægjulegt að sjá hve samráð við starfsfólk, foreldra, hugsmunasamtök og samstarfsaðila hefur verið öflugt við undirbúning og ekki síður hve mikil vinna hefur verið unnin í samantekt upplýsinga, uppsetningu vefsvæðis og útgáfu fréttabréfs. Verkefnið er lýsandi fyrir áherslu meirihlutans í borgarstjórn um eflingu og einföldun þjónustu, og að hún sé sniðin að þörfum notandans frekar en kerfisins.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna. Eins og Flokkur fólksins hefur áður bókað þá lítur þetta vel út. Áhyggjur eru engu síður enn af mögulegum veikleikum sem nefndir voru í upphafi t.d. mögulegu tengslarofi við starfsmenn þjónustumiðstöðva og aukinnar yfirbyggingar á kostnað fjármagns í grasrótina. Ekki er enn fulllljóst hvernig þessi endurskipulagning kemur heim og saman við  starfsemi þjónustumiðstöðvanna né hvernig þær snerta starfsmennina. Bent er enn og aftur á bið barna eftir þjónustu er löng. Þegar börn eru annars vegar sem þarfnast hjálpar af einhverju tagi skal aðstoð veitt án biðar. Mikið tal er um notendasamráð í kynningunni.  Borgarfulltrúi myndi vilja fá að heyra í notendum sjálfum þegar fram líða stundi hvað þeim þykir um „samráðið“. Það er ekki nýtt að meirihlutinn segist hafa mikið og gott samráð við borgarbúa en annað hefur komið á daginn. Öllu máli skiptir að vinna þetta með notendum og í raun ættu þeir að ráða för enda þjónusta í þeirra þágu.  Að öðru leyti ber kynningin með sér að hugsunin að baki S-Netinu er góð og vilji til að láta þetta ganga vel. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Markmið samstarfsnets er að nýta fé betur og veita fleiri börnum og fjölskyldum þeirra meiri og betri þjónustu eins og margoft hefur komið fram. Meirihluti borgarstjórnar hefur ákveðið að auka framlög til stuðningsþjónustu á næsta ári um rúmar 75 milljónir króna til að mæta öllum viðbótarkostnaði. Við erum að einfalda þjónustu, stytta boðleiðir og nýta betur þá þekkingu og þann mannauð sem við búum yfir. Jafnframt skal áréttað að samráð við notendur og íbúa er meirihlutaflokkunum kappsmál, og er efasemdum þar um vísað til föðurhúsanna. Í þessu tilfelli er yfir allan vafa hafið að samráð við samstarfsaðila, starfsfólk og foreldra var mikið og gott og almennt karp um önnur mál á ekki heima í umræðu um þetta mál, eigi það ekki við sérstaklega um það.

    Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Hvert er hlutfall barna í 1-4 bekk í Reykjavík sem nota frístundastyrk upp í greiðslu fyrir dvöl þeirra á frístundarheimili? Hversu mörg af þeim börnum eru börn foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð af einhverju tagi. Hversu mörg af þeim börnum eru af erlendu bergi brotin? Á tímabilinu janúar-maí 2018 voru börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samtals 489 eða tæplega 2% af öllum börnum 17 ára og yngri í Reykjavík. Langflest eða 153 búa í Breiðholti. Fjöldi barna per foreldra með fjárhagsaðstoð af einhverju tagi hjá velferðarsviði Reykjavíkur er 784, flest í Breiðholti. Í reglum um frístundarkort segir m.a. að dæmi um starfsemi sem telst styrkhæf er starfsemi á vegum íþrótta- og æskulýðsfélaga, nám við tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, frístundaheimili á vegum Reykjavíkurborgar“ Ástæða fyrirspurnanna er að borgarfulltrúi Flokks fólksins óttast að fátækir og efnaminni foreldrar neyðist til að láta frístundarkortið upp í gjald frístundarheimilis. Þar af leiðandi geta börnin ekki notað kortið til þátttöku í hinum ýmsu íþrótta- og tómstudanámskeiðum. Sé þetta raunin þá er frístundakortið ekki að ná tilætluðu markmið hvað varðar þessi börn sem er „að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 - 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.“

    Frestað

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins spurði nýlega um upplýsingagjöf til eldri borgara og lagði áherslu sérstaklega á þá sem nota ekki tölvur. Í svari kemur fram að bæklingar séu sendir heim til allra 75 ára og eldri. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur skoðað þennan bækling og rætt innihald hans við nokkra eldri borgara. Bæklingurinn lítur vissulega vel út en spurningin er hvort allt standist sem sagt er í honum. Það eru eldri borgarar sem segja sínar farir ekki sléttar þegar leitað er eftir þjónustu. Sem dæmi stendur í bæklingnum að sundkennsla sé í boði. Ef svo er gott að vita í hvaða sundlaug, dagsetningu og hvaða tíma dags. Varðandi heimkeyrslu til læknis eru dæmi um að einstaklingur þurfi að bíða ansi lengi eftir þjónustu, allt að 40 mínútur. Fólk fer til læknis vegna veikinda og líður ekki vel að bíða svo lengi eftir akstri. Fyrirspurnir: Hvað þarf að bíða lengi eftir að fá Rauðakross vin í heimsókn eftir að beiðni berst? Matur sendur heim, er hann sendur heim um helgar? Hvað er meðaltal biðtíma eftir heimkeyrslu? Í hvað sundlaugum er sundkennsla í boði og á hvaða dögum og tímum er kennslan?

    Frestað

  13. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins að nokkrum breytingum sem gera má á þeim bæklingi sem borgin sendir öllum þeim sem verða 75 ára. Bæklingur sem þessi þarf auk þess að vera aðgengilegur helst að byrja á sérstökum kafla þar sem upplýsingar um réttindi sundurliðuð eftir hópum eru listaðar upp, gerð grein fyrir þeim í stuttu máli, og hvað það er sem er neytendum að kostnaðarlausu og hvað er gegn gjaldi. Fallegar myndir eru ekki atriði í svona bæklingi. Mikilvægt er að hafa upptalningu á félagsmiðstöðvum, félagasamtökum, og stöðum þar sem hægt er að fá keyptar máltíðir. Einnig hvaða matvöruverslanir senda heim vörur ef keypt er fyrir ákveðna lágmarksupphæð. Í bæklingnum mættu vera upplýsingar um hvar eldri borgarar fá sálfræðiþjónustu eða annan stuðning. Nefna þarf samtök og félög sem styðja við bakið á eldri borgurum t.d. vinaheimsóknir Rauða Krossins. Í bæklingnum ættu að vera upplýsingar sem gagnast þeim sem eru ánetjaðir lyfjum eða áfengi og hvert hægt er að sækja aðstoð. Hugsa þarf svona bækling að hann sé fyrir breiðan hóp fólks, bæði þá sem eru efnaðir og efnaminni sem og fátækir og/eða einmana og einangraðir. Þetta er sennilega aðeins smá brot af því sem mætti nefna til að bæta bækling þann sem hér um ræðir.

    Frestað

  14. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins um að borgin leiti eftir samvinnu við ríkið um að gera sameiginlegan, heildstæðan upplýsingabækling fyrir foreldra fatlaðra barna, fatlaða einstaklinga og eldri borgara þar sem hægt er að lesa um lögbundin réttindi þeirra bæði hjá ríki og borg. Nýlega var viðtal við móður fatlaðs einstaklings sem segir að hún hafi þurft að berjast við kerfið og oft ekki fengið upplýsingar um breytingar á samningum. Vegna skorts á upplýsingum hafi hún því oft ofgreitt þjónustu og það ekki uppgötvast fyrr en löngu síðar. Margir í þessum hópum hafa sömu sögu að segja. Þetta er sérlega erfitt ef breytingar verða í þá átt að niðurgreiðslur verða hærri og einmitt þær upplýsingar komast síðan ekki til skila til þjónustuþegans. Þessi móðir nefnir dæmi um að hún hafi greitt 30 þúsund krónur á mánuði í ferðaþjónustu fatlaðra fyrir son sinn en komst síðar að því að hann ætti rétt á nemakorti og ætti að greiða aðeins 20 þúsund krónur á ári. Sumir foreldrar og aðstandendur langveikra eru sjálfir bæði lasnir og þreyttir. Í sameiginlegum bæklingi sem hér er lagt til að borgin eigi samvinnu við ríkið um að gera þá kæmu fram lögbundin réttindi og skyldur ríkis og Reykjavíkurborgar til að tryggja enn frekar að fólk fái réttar upplýsingar um réttindi sín.

    Frestað

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að að velferðarráð og svið beiti sér fyrir að gerður verði bæklingur um framlag eldri borgara til samfélagsins af þeirri einföldu ástæðu að oft eru verk þeirra gleymd. Minnast má á ýmis verk eldri borgara, hannyrðir og prjón og hjálp þeirra við börn sem glíma við námserfiðleika og svo mætti lengi telja. Þessara verka er hvergi getið. Í janúar 2006 óskaði Félag eldri borgara í Reykjavík eftir því við Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands að kannað yrði framlag eldri borgara til samfélagsins. Í ljós kom í könnunni að framlag þeirra er margþætt og má nefna barnagæslu og alls kyns stuðning við afkomendur sem og styrki til þátttöku í tómstundastarfi, námskeiðum og til góðgerðamála. Staða ungs fólks, barnafólks sem ekki hefur stuðning foreldra/afa og ömmu ýmist vegna fjarlægðar eða vegna þess að þeirra nýtur ekki lengur við er mun erfiðari en þeirra sem njóta návistar og stuðnings eldri borgaranna í fjölskyldunni. Listi yfir framlag og verk eldri borgara hefur án efa lengst mikið í ljósi samfélagsbreytinga auk þess sem eldri borgarar njóta betri heilsu lengur ekki síst vegna framfara læknavísindanna. Til að halda uppi merkjum og heiðri eldri borgara og mikilvægri þátttöku þeirra í samfélaginu er tímabært að gefinn verði út bæklingur um framlag og þátttöku þeirra til reykvísks samfélags.

    Frestað

  16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fram kemur að meðalveikindahlutfall velferðarsviðs í heild fyrir tímabilið jan. til júní 2019 var 8 prós. en var 7.7 prós á síðasta ári sem segir að sá hópur sem fer í langtímaveikindaleyfi er að stækka. Hvað margir starfsmenn hafa farið í langtímaveikindaleyfi á velferðarsviði árið 2017 og 2018. Gott væri samhliða svari að fá upplýsingar um heildarfjölda starsmanna á sviðinu og starfshlutfall. Loks er spurt hvort þetta sé eitthvað hærra eða lægra hlutfall en t.d. á Skóla- og frístundarsviði. Ástæðan fyrir spurningum sem þessum er m.a. til að kanna hvort fólks sé að veikjast mikið vegna álags og þreytu.

    Frestað

  17. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslega þjónustu kemur fram að ábendingum notenda varðandi þjónustuna skuli beina til viðkomandi þjónustumiðstöðvar. Svo eru einnig fleiri aðferðir við að koma ábendingum til skila líkt og t.d. með því að tala við starfsfólk sem sinnir heimaþjónustunni eða í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar. Er ábendingum safnað saman í eitthvað kerfi á vegum þjónustumiðstöðvanna og/eða veferðarsviðs sem tilgreina hvers eðlis ábendingarnar eru?

    Frestað

  18. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að við endurskoðun reglna um félagslega heimaþjónustu verið unnið að því markmiði að skapa sveiganlegri þjónustu hvað varðar tímaveitingar. Í 5. gr. núverandi reglna kemur fram að gert sé ráð fyrir að almenn félagsleg heimaþjónusta sé veitt á virkum dögum á dagvinnutíma. Þjónusta er einnig veitt á kvöldin og um helgar fyrir þá sem þurfa á félagslegri heimaþjónustu að halda utan dagvinnutíma. Í núverandi reglum kemur fram að aðstoð um kvöld og helgar felist einkum í innliti og stuttri samveru með það að markmiði að stuðla að aukinni öryggiskennd eða aðstoð við persónulega umhirðu. Hér er lagt til að unnið verði að því að geta boðið upp á lengri þjónustu um kvöld og helgar í formi viðveru, fyrir þá sem kunna að vera í þörf fyrir slíkt. Lagt er til að könnun á þörf fari fram, til að nálgast upplýsingar um hversu margir kunna að vera í slíkum aðstæðum. Í framhaldi af því er lagt til að velferðarsvið setji fram upplýsingar um hvernig megi útfæra slíka þjónustu með tilliti til starfsfólks, stöðugilda og tengdra þátta. Þannig má tryggja með ríkari hætti að þjónustuveitingin komi til móts við ólíkar þarfir einstaklinga. 

    Frestað

  19. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í svari segir að samkvæmt lykiltölum sviðsins fyrir janúar til júní 2019 þá hafi rúmlega 500 manns nýtt sér ferðaþjónustu á vegum borgarinnar og farnar hafi verið 14 þúsund ferðir. Áhugavert væri að fá sundurliðun á þessum ferðum t.d. hve stór hluti þeirra er á menningarviðburði og eru þessi 500 allir íbúar íbúakjarna borgarinnar?

    Frestað

  20. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í svari Velferðarsviðs við tillögu Flokks fólksins um að hafa skipulagðar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðva á söfn og aðra viðburði kom fram að borgin bjóði upp á akstursþjónustu sem Strætó bs. sér um að framkvæma fyrir velferðarsvið og sem hægt er að panta með tveggja tíma fyrirvara í gegnum þjónustuver alla virka daga frá 07:00 til 18:00 og um helgar frá kl. 09:00 til 14:00. Einnig er hægt að panta ferðir á netinu. Akstursþjónustan er í boði á virkum dögum frá kl. 6:30 til kl. 01:00, laugardögum frá kl. 8:00 til kl. 01:00 og sunnudögum frá kl. 11:00 til kl. 01:00. Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á kostnaði í tengslum við akstursþjónustuna: Hver er kostnaður við ferð/ferðir? Hver er biðtíminn eftir að bíll komi? Hverjir nýta sér helst þjónustuna, karlar, konur, aldur og búseta?

    Frestað