Velferðarráð - Fundur nr. 356

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudaginn 19. júní, var haldinn 356. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Kerhólum, Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 13:01. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Egill Þór Jónsson, Kolbrún Baldursdóttir, Daníel Örn Arnarson, Valgerður Árnadóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Þórhildur Egilsdóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning kynjaðri fjárhagsáætlun velferðarsviðs.

    -    kl.13:06 tekur Egill Þór Jónsson sæti á fundinum.

    Fulltrúi Sósialistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á sama tíma og sósíalistaflokkurinn fagnar kynjaðri fjárhagsáætlun vill fulltrúi sósíalista leggja áherslu á að réttast væri að greina fjárhagsáætlun einnig út frá stétt en ekki aðeins kyni.

    Bryndís Eva Sverrisdóttir, fjármálasérfræðingur og Freyja Barkardóttir, sérfræðingur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Lagt fram til kynningar, erindisbréf um verkefnið ELLU, starfshóp um húsnæði fyrir unga foreldra og börn þeirra.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lengi hefur verið talin þörf á að koma á fót úrræði til að styðja við einstæða foreldra í foreldrahlutverki sínu. Hugmyndir eru uppi um að úthluta 20 íbúðum til ungra einstæðra foreldra sem þurfa tímabundin stuðning og ráðgjöf, t.d varðandi uppeldishlutverk sitt, menntun og/eða atvinnuleit. Með því að skipa starfshóp sem vinnur tillögur og hugmyndir að útfærslu að slíkum stuðningi er mikilvægt skref tekið í áttina að því að koma á fót slíku úrræði. Starfshópurinn mun eiga samráð við helstu hagsmunahópa þmt. notendur. Starfshópnum er ætlað að skila tillögum sínum þann 30. nóvember 2019 og því ætti að gefast rúmur tími til að útfæra þær hugmyndir sem hann leggur til áður en væntanlegt húsnæði verður tilbúið á vormánuðum 2020.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á niðurstöðum könnunar um vinnuumhverfi starfsmanna af erlendum uppruna á velferðarsviði.

    -    kl. 13:43 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

    Irina S. Ogurtsova, mannauðsráðgjafi, Angelique Kelley, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna, og Nichole Leigh Mosty úr stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  4. Fram fer kynning á verkefninu Saman gegn ofbeldi. 

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verklagið „saman gegn ofbeldi“ hófst sem verkefni sem sannaði mikilvægi sitt á tilraunatíma. Unnið var mat á verkefninu af RIKK-Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum og þar kom fram að lögreglunni finnst mikill kostur að hafa félagsráðgjafa með í útköllum vegna heimilisofbeldismála og félagsráðgjafarnir bera virðingu fyrir störfum lögreglunnar við erfiðar aðstæður. Þá kom einnig fram að mikil ánægja var með starf Barnaverndar Reykjavíkur á vettvangi en sérfræðingar á vegum Barnaverndar sinna börnum á vettvangi. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði í kjölfarið og er það metið sem aukið traust íbúa á því að kerfið sé til staðar fyrir þolendur þegar á þarf að halda sem er sannarlega mikilvægast af öllu.

    Halldóra Dýrleif Gunnarsdóttir, jafnréttisráðgjafi, Tómas Ingi Adolfsson, sérfræðingur, Valgerður Jónsdóttir, sérfræðingur, Angelique Kelley, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna, og Nichole Leigh Mosty úr stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  5. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 19. júní 2019, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 14. lið fundargerðar þann 5. júni 2019, um heimahjúkrun og heimaþjónustu yfir sumartímann.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og en þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan greidd eru fyrir þau lúsalaun. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf. Það er borgarmeirihlutans að finna þá hvatningu, reyna að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau.  Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Það loforð sem gefið var fyrir ári að taka á þessum málum hefur ekki verið efnt. Svona hefur staðan verið í mörg ár eins og mannekla og biðlistar séu orðnir einhvers konar lögmál hjá borgaryfirvöldum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarsvið Reykjavíkur rekur heimahjúkrun samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Erfiðlega hefur gengið að ráða nægjanlega marga til starfa í sumarafleysingar þó svo að ástandið sé betra en á sama tíma í fyrra. Ljóst er að staðan er ólík eftir hverfum og vonir bundnar við að verkefnið "endurhæfing í heimahúsum" dragi úr biðlistum þegar það hefur verið að fullu innleitt í þjónustu borgarinnar. Ávallt er tekið við öllum beiðnum um þjónustu og þeim forgangsraðað til þeirra sem eru í mestri þörf hverju sinni. Eins og ávallt verður lagt allt kapp á að veita alla þá þjónustu sem mögulegt er að veita og þjónustuþegum ávallt tilkynnt ef breytingar verða á þjónustu til þeirra. 

    Fylgigögn

  6. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 6. júní 2019, fyrir tímabilið janúar til apríl 2019.

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram til samþykktar tillögur, dags. 19. júní 2019, um styrkveitingar Forvarnasjóðs Reykjavíkur vegna verkefna þvert á hverfi. 

    Umsókn nr. 1. Berglind B. Sveinbjörnsdóttir –     700.000 kr.-     samþykkt

    Umsókn nr. 2. Bindindissamtökin IOGT –     500.000 kr.-     samþykkt

    Umsókn nr. 3. Berglind Baldursdóttir-     150.000 kr.-     samþykkt

    Umsókn nr. 4. Blátt áfram forvarnaverkefni –     880.000 kr.-     samþykkt

    Umsókn nr. 9. Funi félag um forvarnir-    200.000 kr.-    samþykkt

    Umsókn nr. 12. Heimili og skóli-        800.000 kr.-    samþykkt

    Umsókn nr. 13. Heimili og skóli-        500.000 kr.-    samþykkt

    Umsókn nr. 14. Heimili og skóli-        500.000 kr.-    samþykkt

    Umsókn nr. 17. Rauði krossinn í Reykjavík-    400.000 kr.-    samþykkt

    -    kl. 14:38 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundi við afgreiðslu umsóknar nr. 18 sökum vanhæfis.

    Umsókn nr. 18. ADHD samtökin-        800.000 kr.-    samþykkt

    -    kl. 14:39 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

    Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 19. júní  2019, ásamt minnisblaði sviðsstjóra dags. 19. júní 2019, um tímabundna undanþágu frá reglum um fjárhagsaðstoð vegna IPS- verkefnis:

    Lagt er til að svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða verði bætt við reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg á eftir gildistökuákvæði reglnanna í 37. gr.: 

    „Ákvæði til bráðabirgða

    Þeir einstaklingar sem taka þátt í tilraunaverkefninu IPS (Individual Placement Support) eiga rétt á undanþágu frá  ákvæði 1. mgr. 12. gr. hvað varðar frádrátt tekna við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Heimilt verður að veita undanþágu vegna atvinnutekna sem nema allt að 50.000 kr. á mánuði.  Tilraunatímabilið mun standa frá 1. júlí 2019 til 31. desember 2019.“ 

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Samþykkt

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að hætt verði að skerða fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna tekna síðasta mánaðar.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 14:51

Heiða Björg Hilmisdóttir Hjálmar Sveinsson

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir