Velferðarráð - Fundur nr. 350

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudaginn 13. mars, var haldinn 350. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 13:07. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Sanna Magdalena Mörtudottir, Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 13. mars 2019, ásamt fylgigögnum: 

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum meðfylgjandi reglum um félagslegt húsnæði í Reykjavík.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga velferðarráðs:

    Að tekju- og eignaviðmið verði hækkuð til samræmis við breytingar á reglugerð nr. 555/2016 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir.

    Samþykkt.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga velferðarráðs:

    Að orðalag 4. mgr. 2. gr. sem hljóðaði svo: „Húsnæði fyrir heimilislausa er íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir þann hóp sem telst vera heimilislaus“ verði svohljóðandi: „Húsnæði fyrir heimilislausa er íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir þann hóp sem telst vera heimilislaus með miklar og flóknar þjónustuþarfir.“

    Samþykkt.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga velferðarráðs:

    Alls staðar þar sem segir húsnæði fyrir heimilislausa í reglunum skuli sagt húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 

    Samþykkt.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga velferðarráðs:

    Að hugtakinu heimilisleysi í matsviðmiðum varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði í viðauka I undir kaflanum Húsnæðisaðstaða A verði skipt út fyrir hugtakið húsnæðisleysi. 

    Samþykkt.

    Tillagan er samþykkt svo breytt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúarnir þakka fyrir mikilvæga vinnu við gerð heildstæðra reglna á húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Þær leysa af hólmi reglur um félagslegt leiguhúsnæði, þjónustuíbúðir aldraðra og verklag um úthlutun á sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk og heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Með þessum reglum eru tekju- og eignaviðmið rýmkuð og félagslegt mat skýrt þannig að íbúar geti betur metið stöðu sína. Staða umgengnisforeldra er nú metin sem er gleðilegt þar sem mörg börn eiga tvö heimili.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kveða á um að umsækjandi skuli hafa átt lögheimili í Reykjavík síðustu 12 mánuði, áður en umsókn berst um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Öryrkjabandalag Íslands telur að slíkt sé ólögmætt og vísar í að hafa fengið þann skilning staðfestan hjá velferðarráðuneytinu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins lítur svo á að viðkomandi eigi rétt á þeirri þjónustu sem hann þarf á að halda, í því sveitarfélagi sem hann býr, óháð því hversu lengi viðkomandi hefur dvalið þar. Hægt er að fá undanþágu frá ofangreindum skilyrðum ef flutningur umsækjenda eða barna hans frá landsbyggðinni er nauðsynlegur til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar. Þá er einnig hægt að fá undanþágu frá umræddu skilyrði ef umsækjandi hefur búið stóran hluta ævi sinnar í Reykjavík en flutt að hámarki til tveggja ára úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Sé umsókn synjað er alltaf hægt að áfrýja þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Með þessum almennu skilyrðum um að hafa þurft að eiga lögheimili í Reykjavík síðustu 12 mánuði, telur fulltrúi Sósíalistaflokksins þó að líkur séu á að rauntölur þeirra sem sækja um félagslegt leiguhúsnæði endurspegli ekki fjölda Reykvíkinga sem eru í þörf fyrir slíkt.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefnuleysi núverandi og fyrrverandi meirihluta í borginni í þessum málaflokki önnur en að fjölga félagslegu leiguhúsnæði hefur ekki fækkað fólki á biðlista. Biðlistarnir hafa lengst ár frá ári. Ekki er gert ráð fyrir þeim möguleika að íbúar í félagslega kerfinu eigi möguleika á að eignast íbúðina hafi þeir tök á, þ.e. gera íbúðirnar að kaupleiguíbúðum. Marka þarf stefnu í að koma fólki út úr félagslega kerfinu og hjálpa fólki til sjálfsjálpar. Ekki er hægt að finna það í nýju reglunum um félagslegt leiguhúsnæði. Í núverandi húsnæðiskrísu eru eignar- og tekjumörk þessa kerfis fátæktargildra og hefur letjandi áhrif á einstaklinga sem eiga möguleika á að afla sé meiri tekna. Félagslega leigukerfið sé þannig uppbyggt að fólk festist í kerfinu og á lítinn möguleika á að komast út á almennan markað. En tölur sýna að á síðustu tíu árum hafa að meðaltali flutt rúmlega 20 leigjendur úr kerfinu á ári. Aðrir annmarkar eru á nýju reglunum eins og t.d. reglur varðandi milliflutning en leigjandi getur aðeins sótt um milliflutning eftir þrjú ár. Athugasemd er gerð við framsal Reykjavíkurborgar á stjórnvaldsákvörðunum til Félagsbústaða. Enn fremur er einkennilegt að 75% örorkumat nægir eitt og sér ekki til þess að uppfylla skilyrði fyrir félagslegu húsnæði.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Félagslegum leiguíbúðum hefur fjölgað um 400 síðustu fjögur ár ásamt því sem farið var í sérstakt átak til að koma til móts við barnafjölskyldur í mikilli þörf og 49 íbúðir keyptar sérstaklega vegna þess verkefnis. Ekki er rétt að umsækjendum um félagslegt leiguhúsæði haldi áfram að fjölga en þeim fækkaði um 7.1% frá 1. febrúar 2018 til 1. febrúar 2019 enda hefur úthlutunum fjölgað í kjölfar fjölgunar íbúða. Áætlanir meirihlutans gera ráð fyrir að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 552 til ársloka 2022. Húsnæðismál eru brýnt velferðarmál og mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Á biðlista eftir félagslegum íbúðum í janúar 2015 voru 827 en í mars 2019 eru 906 samkvæmt tölum velferðarsviðs, það er fjölgun. Vonandi kemst jafnvægi á húsnæðismarkaðinn fyrr en síðar sem mun létta á þessum eilífu biðlistum.

    Helga Jóna Benediktsdóttir lögfræðingur, Helga Sigurjónsdóttir deildarstjóri, Kristín Ösp Jónsdóttir lögfræðingur og Ólafía Magnea Hinriksdóttir verkefnastjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 13. mars 2019, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum meðfylgjandi reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). 

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga velferðarráðs: 

    Lagt er til að þess efnis að orðið sérstaklega verði fellt úr niðurlagi 2. ml. 6. gr.

    Samþykkt.

    Tillagan er samþykkt svo breytt með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins, og Flokks fólksins. 

    Fulltrú Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna fagna því hver hratt og vel hefur gengið að útfæra nýjar reglur um notendastýrða persónulega aðstoð, enda um mikilvæga grunnþjónustu að ræða. Samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og þakkar ráðið fyrir þær mikilvægu athugasemdir og sjónarmið sem þar komu fram. Mikilvægt er að sá innleiðingartími sem nú gengur í garð verði vel nýttur til að afla reynslu og að þessar reglur verði endurskoðaðar með tilliti til þeirrar reynslu. Fulltrúarnir harma þó að bráðabirgðaákvæði laga um notendastýrða persónulega aðstoð skuli takmarka fjölda samninga á þann hátt sem þar er gert, miðað við reynslu úr tilraunaverkefninu og þær umsóknir sem fyrir liggja er ljóst að sá fjöldi sem áætlaður er muni ekki duga til að koma til móts við þá þörf sem fyrir liggur og þau réttindi sem fólk með sérstakar stuðningsþarfir á sannarlega samkvæmt lögum 38/2018. Fulltrúarnir hvetja því eindregið til þess að fjárheimildir verði auknar og samningum fjölgað, en sé vilji til þess af hálfu ríkisins að fjölga samningum mun það ekki stranda á meirihlutanum í Reykjavíkurborg.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar því að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) sé lögbundið þjónustuform og fagnar því að reglur borgarinnar um þá þjónustu líti nú dagsins ljós. Greinargerð með tillögunni greinir frá því að fjárheimild velferðarsviðs vegna NPA þjónustuforms fyrir árið 2019 sé 445,6 mkr. Í reglum Reykjavíkurborgar kemur fram að fjármagnið sem er til ráðstöfunar byggi á samþykktri fjárveitingu frá ríkissjóði, sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Þar kemur fram að ríkissjóður veiti framlag til ákveðinna fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá árinu 2018-2022. Þar stendur einnig að ákvæði þetta og fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar auk þeirra álitaefna sem upp koma við framkvæmd laga þessara á tímabilinu skuli endurskoða innan þriggja ára frá gildistöku þeirra í ljósi fenginnar reynslu. Fulltrúi Sósíalistaflokksins telur gríðarlega mikilvægt að fjárheimildir séu ekki til þess fallnar að mögulega leiða til þess að viðkomandi þurfi að bíða til lengdar eftir þjónustu sem hann á rétt á og ítrekar mikilvægi þess að meira fjármagn verði sett í málaflokkinn af hendi ríkisins.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að reglur Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) séu samþykktar í velferðarráði. Þrátt fyrir samþykkt á nýjum reglum, er afar mikilvægt að á næstu árum innleiðingaferlisins verði hægt að endurskoða reglurnar komi í ljós augljósir vankantar á þeim. Áframhaldandi samstarf við notendur og hagsmunasamtök eru lykilatriði þegar kemur að því að tryggja bestu mögulegu framkvæmd þjónustunnar til framtíðar.

    Ellý Alda Þorsteinsdóttir ráðgjafi, Helga Jóna Benediktsdóttir lögfræðingur, og Bára Sigurjónsdóttir lögfræðingur, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram trúnaðarmerkt drög að niðurstöðum í rekstri velferðarsviðs, dags. 13. mars 2019, fyrir tímabilið janúar til desember 2018.

  4. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 28. febrúar 2019, fyrir tímabilið janúar til desember 2018.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram til kynningar svohljóðandi tillaga mannréttinda- og lýðræðisráðs, dags. 26. febrúar 2019, sem samþykkt var á fundi ráðsins þann 14. febrúar 2019:

    Lagt er til að mannréttinda- og lýðræðisráð samþykki að hætta nú þegar notkun blárra ljósa á salernum í húsnæði Reykjavíkurborgar og leita samkomulags við leigjendur húsnæðis í eigu borgarinnar hið sam. Hér er um skaðaminnkuna- og öryggissjónarmið að ræða. Blá lýsing á að vinna gegn því að fólk sprauti sig með vímuefnum í æð en sú aðferð hefur takmarkað gildi. Lýsing virðist ekki koma í veg fyrir sprautunotkun á salernum heldur auka hættu á skaða við athöfnina.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 20. febrúar 2019, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fyrirkomulag máltíða á rauðum dögum, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs þann 23. janúar 2019.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar velferðarsviðs, dags. 20. febrúar 2019, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fasteignagjöld eldri borgara, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs þann 23. janúar 2019.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:43

Heiða Björg Hilmisdóttir Hjálmar Sveinsson

Alexandra Briem Sanna Magdalena Mörtudottir