Velferðarráð - Fundur nr. 347

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudaginn 6. febrúar, var haldinn 347. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 13:04. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudottir, Egill Þór Jónsson, Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Lagt er til að Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs og Egill Þór Jónsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins taki sæti í nefnd vegna Hvatningaverðlauna velferðarráðs sem kunngerð verða á ÞEKKVEL 2019.
    Samþykkt.
  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra dags. 6. febrúar 2019, ásamt minnisblaði, dags. 6. febrúar 2019, um nýja starfsemi sem heldur utan um stuðningsþjónustu á velferðarsviði:

    Lagt er til að komið verði á fót, í tveimur áföngum, nýrri starfsemi um stuðningsþjónustu á vegum velferðarsviðs. Þjónustan verði skipulögð, veitt og þróuð frá einni starfseiningu sem vinnur þvert á borgina og í nánu samstarfi við þjónustumiðstöðvar og Barnavernd Reykjavíkur og er vinnuheitið Samstarfsnet.

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þegar farið er í jafn víðtækar breytingar á yfirgripsmikilli þjónustu eins og stuðningsþjónustu er mikilvægt að samráð sé haft við alla hluteigandi aðila. Útlit er fyrir að mikil yfirbygging þessa nýja fyrirkomulags verði á kostnað þjónustu við þá sem þurfa á henni að halda. Athugasemd er einnig gerð við fækkun á stöðugildum úr 56 niður í 48 þegar alls 403 einstaklingar voru á biðlista eftir þjónustunni 1.desember 2018.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Mikilvægt er að fram komi að ekki er verið að fækka stöðugildum í stuðningsþjónustu né auka yfirbyggingu. Af þeim 56 stöðugildum sem heyra undir þjónustuna eru 48 stöðugildi vegna barna og snýr nýja þjónustan að börnum. Aðrir sinna fullorðnum og flyst sú þjónusta ekki yfir.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fran svohljóðandi bókun:

    Samstarfsnetið lítur vel út. Meðal þess sem fram kemur er að eigi að leggja áherslu á er snemmtæka íhlutun. Á öllum stundum, áður, nú sem í framtíðinni ætti það ávallt að vera skylda stjórnvalda að bregðast strax við með einhvers konar stuðningsúrræði sýni barn vanlíðunareinkenni eða að það glími við einhvers konar vanda. Í kynningu kemur einnig fram að bið eftir þjónustu er langmest í skólaþjónustunni og hlýtur þá einnig að vera átt við biðlista til sálfræðinga. Skýring biðlista er sögð vera mannekla í hin ýmsu störf en varla er þar átt við sálfræðinga þar sem ekki er vitað til þess að sé skortur á þeim í Reykjavík. Bið eftir þjónustu til skólasálfræðinga er mjög langur þótt eitthvað sé hann mismunandi eftir hverfum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hlutverk Samstarfsnets sem hér er samþykkt að setja á fót er að tryggja jafnræði milli barna og barnafjölskyldna í borginni og einfalda aðgengi foreldra og barna að þjónustu og upplýsingum útfrá þeirra þörfum og óskum. Velferðarráð hefur lagt sérstaka áherslu á börn og ungmenni undanfarið ár með áherslu á snemmtæka íhlutun og heilsueflingu. Ráðist hefur verið í mikið samráð og gríðarmikla úttekt á starfinu og hér gefur að líta afrakstur þeirrar vinnu. Mikil tækifæri eru í öflugu samstarfi þjónustmiðstöðva, barnaverndar, skóla- og frístundasviðs, heilbrigðisþjónustu og löggæslu sem og notenda og hagmunasamtaka og allra þeirra aðila er koma með einum eða öðrum hætti að velferð barna í Reykjavík.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kosning í áfrýjunanefnd fyrir meirihluta velferðarráðs. Eftirtaldir aðilar voru kosnir í áfrýjunarnefnd velferðarráðs að viðhafðri tillögu formanns:

    Elín Oddný Sigurðardóttir aðalmaður
    1. varamaður: Heiða Björg Hilmisdóttir
    2. varamaður: Alexandra Briem

    Samþykkt.

  4. Fram fer kynning á rannsókn á þörfum og væntingum þeirra sem eru á bið eftir félagslegu leiguhúsnæði, dagsett í janúar 2019.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta eru sláandi niðurstöður og sorglegt að aðstæður sumra fjölskyldna með börn séu svona slæmar í Reykjavík. Hér eru lýsingar sem eru á pari við lýsingar sárfátæks fólk i löndum sem eru langt því frá að vera eins rík og vel sett og Ísland og Reykjavík. Vel er hægt að ímynda sér angistina og óöryggið sem börnin í þessum aðstæðum eru að upplifa. Það fer gríðar illa með börn að búa í langvarandi óöryggi og skynja þau flest þegar þroski færist yfir, áhyggjur og jafnvel vonleysi foreldrana sem hefur síðan margföldunaráhrif á slæma líðan barnanna. Börn sem eru viðkvæm ná sér oft illa eftir að hafa þurft að búa við aðstæður sem þessar um jafnvel langan tíma. Nú eru 944 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði, 26% eru með börn á framfæri. Langflestir bíða eftir eins til tveggja herbergja íbúð en á þeim er skortur á meðan lúxusíbúðir standa auðar í miðbæ Reykjavíkur. Enn og aftur er hér dæmi um skakka forgangsröðun borgaryfirvalda undanfarin ár þar sem ekki hefur verið nægjanlega hugsað um þá borgara sem af fjölmörgum, ólíkum orsökum hafa ekki náð að fóta sig með fjölskyldur.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á biðlista eftir félagslegu húsnæði í byrjun árs 2015 voru 827, nú í byrjun árs 2019 voru 901 á biðlista. Stefnuleysi í þessum málaflokki önnur en að fjölga félagslegu leiguhúsnæði hefur ekki fækkað fólki á biðlista. Ekki liggur fyrir að gert sé ráð fyrir þeim möguleika að íbúar sem byrji í félagslega kerfinu eigi möguleika á að eignast íbúðina að lokum. Marka þarf stefnu í að koma fólki út úr félagslega kerfinu og hjálpa fólki til sjálfsjálpar. Einnig er mikið áhyggjuefni hve staða þeirra verst settu í samfélaginu er alvarleg. Mikilvægt er að skýrslan gleymist ekki og unnið verði að festu úr upplýsingum sem fram koma.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna þakka fyrir könnun á væntingum þeirra sem bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði og sértæku húsnæðisúrræði í Reykjavík. Ljóst er að þarfir og væntingar þeirra sem eru á biðlista eru ólíkar enda um fjölbreyttan hóp að ræða. Niðurstöður styðja við áform um félagslega blöndun og fjölbreyttar lausnir í húsnæðismálum. Þeir viðmælendur sem búa við ótryggt húsæðisástand eru tilbúnir til að skoða tímabundnar lausnir meðan beðið er m.a. þann kost að leigja með öðrum. Rímar þetta vel við þær áherslur sem samþykktar voru í velferðarráði í ágúst 2017 að veita einstakingum í bráðavanda tímabundnar lausnir meðan beðið er. Í skýrslunni kemur fram að þann 1. sept. 2018 voru 944 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði en voru 901 þann 1. jan. 2019 og fer því fækkandi. Einnig kemur í ljós aðstaða þeirra sem bíða er mismunandi og er tæplega helmingur umsækjanda á almennum leigumarkaði meðan beðið er eftir félagslegu húsnæði en viðmælendur töldu húsnæðisöryggi og lægra leiguverð mikilvægt. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Þeir sem bíða eftir sértækum húsnæðisúrræðum virðast bera mikið traust til Vettvangs- og ráðgjafateymis borgarinnar og sækja nánast allir stuðning þangað.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Rannsóknarniðurstöður á þörfum og væntingum einstaklinga í húsnæðisvanda byggja á viðtölum við 14 einstaklinga sem gistu í neyðarskýlunum Konukoti og Gistiskýlinu og niðurstöðum rýnihópafunda með 18 einstaklingum sem voru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Niðurstöðurnar eru sláandi og veita okkur innsýn í stöðu þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Samkvæmt viðmælendum í rýnihópum höfðu þeir verið að meðaltali fimm ár á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði en meðalbíðtími þeirra sem fengu úthlutað félagslegt húsnæði árið 2018 var 35 mánuðir eða tæp þrjú ár. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þá stöðu að þurfa að bíða lengi eftir félagslegu leiguhúsnæði og hefur slíkt alvarlegar afleiðingar á andlega líðan eða eins og einn viðmælandi orðaði með svo átakanlegum hætti: „Maður lifir ekki á voninni. Maður er að verða það gamall; óöryggið er að fara mjög illa í mann. Þegar þú ert hættur að hafa væntingar um að fá íbúð og þú lifir bara í voninni; þá ertu í mjög slæmum andlegum málum. Vegna þess að vonin um að fá ekki neitt er hrikaleg. Og þegar það er búið að bregðast manni fram og til baka þá verður maður hvekktur. Og jafnvel reiður“.

    Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstóri og Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, sérfræðingur Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri og Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning Félagsbústaða um kaupum á árinu 2018, kaupáætlun 2019 og niðurstöðum þjónustukönnunar, dags. í desember 2018.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokki fólksins finnst þessar niðurstöður nokkuð fegraðar enda allt spurning um túlkun. Ef rýnt er í niðurstöður ætti að tala frekar um óánægju þegar hlutfall ánægju nær ekki til mikils meirihluta. Allt hlutfall yfir 20% óánægju er óásættanlegt, hvað þá yfir 30% eins og í Breiðholti. Varðandi NPS-skorið þá er ekki svo ýkja mikill munur á hlutfalli þeirra sem myndu mæla með og þeirra sem myndu hallmæla. Það eru ekki góðar niðurstöður þó skorið sé jákvætt í 15% og lýsa vandamáli er varðar traust til kerfisins. Nær væri að túlka kvarðaspurningar með óánægju, segja að 22% þætti húsnæðið EKKI öruggt og að 28% væru ekki ánægðir með húsnæðið. Skynsamlegt væri að orða hlutinn á þeim nótum sem lausnirnar eru mótaðar til að það verði meiri hvatning fyrir aðgerðir frekar en að einblína á tæpan meirihluta sem ánægður. Í kaflanum um Framtíð: 55% er rúmur helmingur, ekki "meirihluti", það er of sterk túlkun. Í kaflanum um Samskipti ætti að beina athygli að 41% sem þykir EKKI hafa tekist vel til við úrlausn mála sinna hjá FB. Það er mjög hátt hlutfall og ætti fókusinn frekar að vera á neikvæða hlutann, ekki þann jákvæða þegar það neikvæða er svona hátt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna telja fráleitt að kynning á þjónustukönnun MMR feli í sér fegrun á viðhorfum þeirra sem njóta þjónustu Félagsbústaða. Það er ljóst á könnuninni og framsetningu hennar að í þjónustu félagsbústaða er margt sem betur mætti fara og kemur það skýrt fram. Þó er mikilvægt að árétta að sumt gengur vel og bæði er mikilvægt að grafa ekki undan því sem vel gengur með bölsýni, og eins nauðsynlegt að geta litið til þess sem vel gengur þegar bæta þarf úr því sem gengur verr, en einnig að vita hvar beri að einbeita kröftum okkar þegar kemur að úrbótum.

    Sigrún Árnadóttir, framkvæmdarstjóri hjá Félagsbústöðum, Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri og Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 12. desember 2018, um opna móttöku velferðarráðs, ásamt greinargerð.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði telja mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu í góðum samskiptum við borgarbúa. Að bjóða upp á opna móttöku velferðarráðs væri góður vettvangur fyrir ráðsmenn og þjónustuþega til að ræða stefnu ráðsins og þjónustuna milliliðalaust. Varnagli þyrfti að vera á að einstaka mál þjónustuþega séu ekki tekin fyrir í opinni móttöku velferðarráðs. Beint samtal borgarbúa við ráðsmenn velferðarráðs gæti einnig verið skref í að auka traust á borgarstjórn.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar meirihlutans árétta að hver borgarfulltrúi er sjálfstæður í störfum sínum og ber ábyrgð samskiptum við borgarbúa, hvort sem er með fundartíma, mætingu á opna fundi, með tölvupósti, símtölum eða eftir öðrum leiðum. Nú þegar stendur velferðarráð fyrir opnum fundum þar sem tiltekin mál eru tekin til kynningar og umræðu. Það er mikilvægt að pólitískir fulltrúar einbeiti sér að heildrænum úrlausnum fyrir alla íbúa jafnt, og sinni stefnumótun og eftirliti frekar en að taka afstöðu til einstaklingsmála né veiti þeim sérlausnir umfram aðra. Það er mikilvægt í notendasamráði að það sé innleitt í alla starfssemi velferðarsviðs. Einnig er mikilvægt að velferðarráð fari reglulega í vettvangsheimsóknir og kynni sér þjónustu og starfssemi sviðsins.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 6. febrúar 2019:

    Lagt er til að samþykktar verði eftirfarandi breytingar, frá 1. janúar 2019, á fjárhæðum sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt.
    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins fagnar öllum hækkunum í viðmiðunum í sérstökum húsnæðisstuðningi en hefði vilja sjá stuðninginn hækka enn frekar og er með tvær tillögur til umsagnar velferðarsviðs sem snúa að hækkun sérstaks húsnæðisstuðnings. Ein þeirra snýr að því að hækka sérstakan húsnæðisstuðning um 9,6% í takt við hækkun vísitölu leiguverðs á síðustu 12 mánuðum frá því að tillagan var lögð fram.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur hefur verið breytt á þann veg að frítekjumörk vegna húsnæðisbóta voru hækkuð um 7,2% um síðustu áramót. Nú hefur verið samþykkt að breyta reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning til samræmis við þessa hækkun þannig að fjárhæð tekjumarka samkvæmt 5. gr. reglnanna verði jafnframt hækkuð um 7,2% og mun sú breyting einnig taka gildi þann 1. janúar 2019.

    Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram erindi frá Sóltúni-Heima um samstarf við uppbyggingu þjónustumiðstöðvar.
    Frestað.

    Fylgigögn

  10. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 14. desember 2018, frá janúar til nóvember 2018.

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg gefi út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Allir borgarar eiga rétt á að vera upplýstir um þá þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar. Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um mikilvægustu réttindi. Í bæklingi af þessu tagi ættu einnig að vera veittar upplýsingar um ýmis sértækari réttindi og bent á leiðir til að afla ítarlegri vitneskju um margvísleg atriði sem varða réttindi. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögu.
    Frestað.

Fundi slitið klukkan 16:40

Heiða Björg Hilmisdóttir Hjálmar Sveinsson

Alexandra Briem Sanna Magdalena Mörtudottir

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir